Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 905  —  419. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um endurskoðun reglugerðar um hollustuhætti.


     1.      Hvað líður endurskoðun reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002, sem var til samráðs í samráðsgátt Stjórnarráðsins 4.–21. janúar 2022?
     2.      Hvað hefur helst dregið úrvinnslu athugasemda og birtingu reglugerðarinnar svo lengi sem raun ber vitni? Hvenær er gert ráð fyrir að ný reglugerð taki gildi?
     3.      Ef stefnir í að heildarendurskoðun reglugerðarinnar tefjist enn frekar, kemur til álita að ráðherra undirriti þegar í stað reglugerð sem festi ákveðna þætti í sessi, líkt og þá sem taka sérstaklega tillit til laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, svo tafir á heildarendurskoðuninni haldi ekki aftur af nauðsynlegum réttarbótum?


    Drög að nýrri reglugerð um hollustuhætti var birt í samráðsgátt stjórnvalda 4. janúar 2022 og var athugasemdafrestur til 21. janúar 2022. Um er að ræða afar umfangsmikla vinnu en unnið hefur verið að heildarendurskoðun hollustuháttareglugerðar nr. 941/2002 undanfarin misseri í samvinnu og samráði við hlutaðeigandi stofnanir og stjórnvöld. Starfshópur ráðherra með fulltrúum frá ráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi lagði fram tillögur að stefnu og áhersluatriðum á árinu 2018 sem höfð voru til hliðsjónar við endurskoðun á reglugerðinni auk þess sem markmiðið var einföldun og aukinn skýrleiki.
    Auk umsagna sem ráðuneytinu hafa borist við drög að reglugerðinni í samráðsgátt hafa borist ýmiss konar gagnlegar ábendingar er varða endurskoðun reglugerðarinnar. Ráðuneytið hefur unnið úr umsögnum og þeim athugasemdum sem borist hafa í samstarfi við Umhverfisstofnun og hollustuháttahóp sem Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna starfrækja. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir af því tilefni og gert er ráð fyrir frekara samráði vegna þessarar vinnu. Ráðuneytið vonast til þess að ljúka vinnu við endurskoðun hollustuháttareglugerðar í febrúar nk. og að ný reglugerð verði undirrituð í lok þess mánaðar. Í ráðuneytinu eru hins vegar ekki áform um að flýta vinnu við einstaka þætti heildarendurskoðunarinnar umfram aðra.