Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kynrænt sjálfræði

2019 nr. 80 1. júlí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 6. júlí 2019. Breytt með: L. 159/2019 (tóku gildi 4. jan. 2020). L. 152/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021). L. 154/2020 (tóku gildi 6. jan. 2021). L. 49/2021 (tóku gildi 8. júní 2021). L. 107/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022; koma til framkvæmda skv. fyrirmælum í 43. gr.).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið og orðskýringar.
1. gr. Markmið.
Lög þessi kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.
2. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. Kyn (kynverund): Safnhugtak sem nær meðal annars yfir kyneinkenni, kyngervi, kynvitund og kyntjáningu.
    2. Kyneinkenni: Líffræðilegir þættir sem tengjast kyni, svo sem kynlitningar, hormónastarfsemi, kynkirtlar og kynfæri.
    3. Kyntjáning: Félagsleg tjáning einstaklings á kyni sínu.
    4. Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.
    5. Líkamleg friðhelgi: Óskoraður réttur einstaklings til sjálfræðis um eigin líkama og að borin sé virðing fyrir rétti hans til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar.
    [6. Ódæmigerð kyneinkenni: Kyneinkenni sem falla ekki undir viðteknar skilgreiningar á kyneinkennum sem karlkyns eða kvenkyns, m.a. hvað varðar virkni eða útlit.] 1)
    1)L. 154/2020, 1. gr.

II. kafli. Réttur einstaklings til að skilgreina kyn sitt.
3. gr. Réttur einstaklings til að skilgreina kyn sitt.
Sérhver einstaklingur nýtur, í samræmi við aldur og þroska, óskoraðs réttar til:
    a. að skilgreina kyn sitt,
    b. viðurkenningar á kyni sínu, kynvitund og kyntjáningu,
    c. að þroska persónuleika sinn í samræmi við eigin kynvitund,
    d. líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis um breytingar á kyneinkennum.
4. gr. Réttur til að breyta opinberri skráningu kyns.
Sérhver einstaklingur sem náð hefur [15 ára] 1) ára aldri hefur rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Beiðni um slíka breytingu skal beint til Þjóðskrár Íslands. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á umsækjandi rétt á að breyta nafni sínu.
Óheimilt er að gera skurðaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð, svo sem geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð, að skilyrði fyrir breytingu á skráningu kyns.
Breyting skv. 1. mgr. felur í sér rétt einstaklingsins til að fá útgefin persónuskilríki sem samrýmast breytingunni, svo og gögn sem varða menntun hans og starfsferil.
Í opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skal kyn einstaklings skráð eins og það er skráð í þjóðskrá.
[Íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis hafa rétt til að breyta skráningu á kyni og nafni sínu skv. 1. mgr.] 2)
    1)L. 152/2020, 1. gr. 2)L. 159/2019, 1. gr.
5. gr. Breyting á skráðu kyni barns.
Barn yngra en [15 ára] 1) ára getur með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns.
Beiðni um breytta skráningu kyns skal beint til Þjóðskrár Íslands. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á barnið rétt á að breyta nafni sínu. Ákvæði [2.–5. mgr.] 2) 4. gr. gilda jafnframt um ákvæði þetta.
Barn sem ekki nýtur stuðnings forsjáraðila sinna, annars eða beggja, til að breyta skráðu kyni sínu getur lagt ósk um breytingu fyrir sérfræðinefnd skv. 9. gr. og breytt skráningunni ef sérfræðinefndin fellst á erindi þess.
Ákvörðun um að breyta kynskráningu barns skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og vera í samræmi við vilja þess og þróun kynvitundar.
    1)L. 152/2020, 1. gr. 2)L. 159/2019, 2. gr.
6. gr. Hlutlaus skráning kyns.
Hlutlaus skráning kyns er heimil.
Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum, og skal skráningin táknuð á óyggjandi hátt. Í vegabréfum skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X.
7. gr. Takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns.
Breyting á skráningu kyns samkvæmt lögum þessum og samhliða nafnbreyting skal einungis heimiluð einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars. Óski einstaklingur aftur að breyta skráningu kyns skal hann leggja fram skriflega greinargerð um ástæður beiðninnar til Þjóðskrár Íslands.
[Takmörkun 1. mgr. á ekki við um einstaklinga undir 18 ára aldri.] 1)
    1)L. 152/2020, 2. gr.
8. gr. Áhrif breyttrar skráningar kyns á réttarstöðu.
Réttarstaða barns gagnvart foreldri sem breytt hefur opinberri skráningu kyns síns, sbr. 4. og 5. gr., er sú sama og áður en breytingin var gerð.
Einstaklingur sem hefur breytt opinberri skráningu kyns síns nýtur allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.
Sérhver einstaklingur á rétt á heilbrigðisþjónustu í samræmi við kyneinkenni sín, óháð skráningu kyns.
1)
    1)L. 49/2021, 19. gr.
9. gr. [Sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna og varanlegar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum barna.]1)
Ráðherra skipar sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna [og varanlegar breytingar á ódæmigerðum kyneinkennum barna] 1) til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti þrír einstaklingar. Einn þeirra skal vera læknir með barnalækningar sem sérgrein, tilnefndur af landlækni, annar sálfræðingur með barnasálfræði sem sérsvið, tilnefndur af Sálfræðingafélagi Íslands, og sá þriðji lögfræðingur með sérþekkingu á réttindum barna, tilnefndur af ráðherra sem fer með mannréttindamál.
Sérfræðinefndin tekur ákvarðanir skv. 3. mgr. 5. gr. [og 6. mgr. 11. gr. a]. 1) Við meðferð mála getur nefndin aflað álits annarra sérfræðinga eftir því sem ástæða þykir til.
Nefndarmenn og sérfræðingar sem aflað er umsagna hjá samkvæmt þessari grein skulu gæta fyllsta trúnaðar um málefni þeirra sem til nefndarinnar leita.
Ákvörðun sérfræðinefndar skv. 3. mgr. 5. gr. er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds nema hvað málsmeðferð varðar.
    1)L. 154/2020, 2. gr.
10. gr. Viðurkenning erlendrar kynskráningar og umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Úrskurður erlends dómstóls eða skráning erlends lögbærs yfirvalds á breyttri skráningu kyns og breyttu nafni einstaklings nýtur fullrar viðurkenningar á Íslandi.
Einstaklingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi getur óskað eftir því að í skráningarskírteini, sbr. 34. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, verði kyn hans skráð í samræmi við kynvitund hans enda þótt það samrýmist ekki skilríkjum hans frá heimaríki.

III. kafli. Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum.
11. gr. Líkamleg friðhelgi.
Óheimilt er að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis hans. Þegar um er að ræða barn á aldrinum 16–18 ára þarf jafnframt mat teymis barna- og unglingageðdeildar um kynvitund … 1) skv. 13. gr. á því að það sé barni fyrir bestu að framkvæma aðgerðina. Til varanlegra breytinga teljast meðal annars skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip.
Um undantekningar frá meginreglu 1. mgr. gilda lög um réttindi sjúklinga.
Áður en breytingar skv. 1. mgr. eru gerðar skal veita einstaklingnum ítarlegar upplýsingar um fyrirhugaða meðferð, þar á meðal um framgang hennar, áhættu og gagnsemi, hvort hún hafi áhrif á getu hans til að auka kyn sitt, svo og um önnur hugsanleg úrræði og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst. Einnig skal einstaklingnum boðið að leita álits annars sérfræðings um nauðsyn meðferðarinnar honum að kostnaðarlausu. Hafi meðferð í för með sér skerta getu einstaklings til að auka kyn sitt eða varanlega ófrjósemi skal upplýsa hann um möguleika á varðveislu kynfrumna.
    1)L. 154/2020, 3. gr.
[11. gr. a. Börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.
Börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni njóta réttar til líkamlegrar friðhelgi í tengslum við kyneinkenni sín og eiga rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Við framkvæmd laganna skal gætt að sjálfsákvörðunarrétti þeirra um persónuleg málefni.
Varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngra en 16 ára sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni skulu einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins, sbr. 6. mgr. Sé barn ófært um að veita samþykki sökum ungs aldurs eða af öðrum sökum ófært um að gefa til kynna vilja sinn skal þó heimilt að breyta varanlega kyneinkennum þess ef heilsufarslegar ástæður krefjast, að undangengnu ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma. Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður teljast ekki heilsufarslegar. Til varanlegra breytinga skv. 1. og 2. málsl. teljast m.a. skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip.
Við undirbúning ákvörðunar um varanlegar breytingar á kyneinkennum barns af heilsufarslegum ástæðum án samþykkis þess skv. 2. mgr. skal hafa barnið með í ráðum eftir því sem þroski þess leyfir og ávallt frá 12 ára aldri. Áður en ákvörðun er tekin skal leitast við að afla afstöðu barns og taka tillit til sjónarmiða þess í samræmi við aldur og þroska. Veita skal barni, í samræmi við aldur þess og þroska, svo og forsjáraðilum þess, þær upplýsingar sem greinir í 3. mgr. 11. gr. Forsjáraðilar skulu veita skriflegt samþykki. Í ákvarðanatökuferlinu skulu barnið og forsjáraðilar njóta ráðgjafar og stuðnings frá teymi um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni skv. 13. gr. a. Ávallt skal tekin rökstudd afstaða til þess hvort mögulegt sé að fresta varanlegum breytingum þar til barnið getur gefið upplýst samþykki sitt og bregðast við hinum heilsufarslegu ástæðum með öðrum og vægari hætti. Skal barni og forsjáraðilum jafnframt boðið að leita álits sérfræðings utan teymisins um nauðsyn meðferðarinnar og skal það vera þeim að kostnaðarlausu. Ákvarðanir samkvæmt þessari grein skulu teknar með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.
Fjalla skal um undirbúning ákvörðunar í sjúkraskrá. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, gilda ekki um upplýsingar í sjúkraskrá um varanlegar breytingar sem gerðar hafa verið á barni yngra en 16 ára. Forsjáraðilar skulu skýra barni sínu frá varanlegum breytingum sem gerðar hafa verið á kyneinkennum þess þegar það hefur þroska til.
Í þeim tilvikum þegar barn er ófært um að veita upplýst samþykki sökum ungs aldurs eða er af öðrum sökum ófært um að gefa til kynna vilja sinn skal, þrátt fyrir 2. mgr., eftirfarandi gilda um varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngra en 16 ára sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni ef þær felast í skurðaðgerð vegna of stuttrar þvagrásar (reðurhúfuneðanrásar) eða lyfjameðferð vegna vanvaxtar á typpi:
    1. Um mat á nauðsyn aðgerðar eða lyfjameðferðar gilda almennar reglur, svo sem lög um réttindi sjúklinga, með þeim frávikum sem leiðir af þessari málsgrein.
    2. Téðar varanlegar breytingar á kyneinkennum skal ekki gera nema að undangengnu ítarlegu mati á ávinningi og afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma, þ.m.t. afleiðingum þess að framkvæma ekki aðgerð eða lyfjameðferð eða fresta henni þar til barn getur tjáð vilja sinn, sbr. 6. mgr.
    3. Ákvæði 1., 3., 4. og 7. mgr. eiga við um slíkar varanlegar breytingar.
Í öðrum tilvikum en þeim sem fjallað er um í 2. og 5. mgr. skulu varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngra en 16 ára sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins og þróun kynvitundar þess og ætíð með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Veita skal barni, í samræmi við aldur þess og þroska, svo og forsjáraðilum þess, þær upplýsingar sem greinir í 3. mgr. 11. gr. Í ákvarðanatökuferlinu skulu barnið og forsjáraðilar njóta ráðgjafar og stuðnings frá teymi um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni skv. 13. gr. a. Skilyrði er að forsjáraðilar og sérfræðinefnd skv. 9. gr. veiti samþykki sitt fyrir breytingum. Skal niðurstaða nefndarinnar byggjast á könnun á viðhorfi barnsins til breytingarinnar samkvæmt verklagsreglum sem nefndin setur sér. Þrátt fyrir framangreint er hormónameðferð leyfileg til þess að koma af stað kynþroska án samþykkis sérfræðinefndarinnar, að virtum almennum reglum um könnun á afstöðu barnsins.
Heilbrigðisstarfsfólk sem veitir meðferð sem breytir kyneinkennum barna varanlega samkvæmt þessari grein skal færa upplýsingar um meðferðina í sjúkraskrá og veita landlækni árlega upplýsingar um fjölda og eðli aðgerða og lyfjameðferða og aldur þeirra sem undirgangast þær.] 1)
    1)L. 154/2020, 4. gr.
12. gr. Teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum.
Á Landspítala skal starfa teymi sérfræðinga um kynvitund og breytingar á kyneinkennum, skipað af forstjóra sjúkrahússins. Teymið skal vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Teyminu er heimilt að kalla aðra sérfræðinga til ráðgjafar og samstarfs, m.a. svo að tryggja megi þekkingu á félagslegum þætti kynvitundar. Um réttindi og skyldur starfsfólks teyma [samkvæmt þessari grein, 13. gr. og 13. gr. a] 1) gilda ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn.
Teymið veitir skjólstæðingum, 18 ára og eldri, upplýsingar, ráðgjöf og meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins. Teymið veitir jafnframt aðstandendum skjólstæðinga upplýsingar og ráðgjöf.
Teymið setur sér verklagsreglur og skulu þær vera í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðlegum vettvangi. … 1)
Ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu getur sett nánari ákvæði um verkefni og þjónustu teymisins í reglugerð.
    1)L. 154/2020, 5. gr.
13. gr. [Teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund.]1)
Á barna- og unglingageðdeild Landspítala skal starfa teymi sérfræðinga um kynvitund …, 1) skipað af forstjóra sjúkrahússins. Teymið skal vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Teyminu er heimilt að kalla aðra sérfræðinga til ráðgjafar og samstarfs, m.a. svo að tryggja megi þekkingu á félagslegum þætti kynvitundar.
Teymi barna- og unglingageðdeildar veitir börnum yngri en 18 ára, sem upplifa misræmi milli kynvitundar sinnar og þess kyns sem þeim var úthlutað við fæðingu, meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins og veitir forsjáraðilum þeirra stuðning og ráðgjöf. … 1) Enn fremur metur teymið hvort það sé barni á aldrinum 16–18 ára fyrir bestu að undirgangast varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings, sbr. 11. gr.
Teymið setur sér verklagsreglur og skulu þær vera í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðlegum vettvangi. Ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu getur sett nánari ákvæði um verkefni og þjónustu teymisins í reglugerð.
    1)L. 154/2020, 6. gr.
[13. gr. a. Teymi um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.
Ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu skipar teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Teymið skal vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Teyminu er heimilt að kalla aðra sérfræðinga til ráðgjafar og samstarfs, m.a. svo að tryggja megi aðgreiningu heilsufarslegra ástæðna frá félagslegum, sálfélagslegum og útlitslegum þáttum sem kunna að koma til skoðunar við mat á því hvort breyta eigi kyneinkennum varanlega.
Teymið veitir börnum yngri en 16 ára sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, og aðstandendum þeirra, upplýsingar, ráðgjöf og meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins og sinnir að öðru leyti þeim skyldum sem kveðið er á um í 11. gr. a. Teymið skal m.a. benda skjólstæðingum á viðeigandi jafningjafræðslu fólks með ódæmigerð kyneinkenni og hagsmunasamtaka þeirra. Teymið veitir þjónustu í þeim tilvikum þar sem ódæmigerðum kyneinkennum er breytt varanlega svo og þegar engar breytingar eru gerðar eða þeim frestað.
Teymið setur sér verklagsreglur og skulu þær vera í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðlegum vettvangi. Ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu getur sett nánari ákvæði um verkefni og þjónustu teymisins í reglugerð.] 1)
    1)L. 154/2020, 7. gr.
14. gr. Þátttaka Sjúkratrygginga Íslands.
Rétt til að nýta sér þjónustu teyma skv. 12., [13. og 13. gr. a] 1) eiga þeir sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
    1)L. 154/2020, 8. gr.
[14. gr. a. Kæruheimild.
Synji teymi skv. 12. gr., 13. gr. eða 13. gr. a einstaklingi um meðferð sem felur í sér breytingu á kyneinkennum hans getur hann skotið málinu til landlæknis. Synjun sérfræðinefndar skv. 9. gr. um samþykki skv. 6. mgr. 11. gr. a verður einnig skotið til landlæknis. Ákvarðanir landlæknis eru kæranlegar til ráðuneytis heilbrigðismála.] 1)
    1)L. 154/2020, 9. gr.

IV. kafli. Ýmis ákvæði.
15. gr. [Sektir o.fl.]1)
Brot gegn 3. mgr. 4. gr., 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 9. gr. laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektir renna í ríkissjóð.
Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn ákvæðum skv. 1. mgr. og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.
[Fyrningarfrestur skaðabótakrafna sem stofnast vegna brota á lögum þessum þegar tjónþoli er yngri en 18 ára skal reiknast frá þeim degi er tjónþoli nær 18 ára aldri. Engar kröfur stofnast á grundvelli 3. málsl. 4. mgr. 11. gr. a.] 1)
    1)L. 154/2020, 10. gr.
16. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, t.d. um kröfur til gagna sem lögð eru fram skv. 1. mgr. 10. gr. og um störf sérfræðinefndar um breytingu á kynskráningu barna skv. 9. gr., m.a. um það í hvaða tilvikum [barnaverndarþjónustu] 1) skuli vera gert viðvart við störf sérfræðinefndarinnar.
    1)L. 107/2021, 44. gr.
17. gr. Gildistaka.
Lög þessi taka þegar gildi.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. hafa aðilar sem skrásetja kyn 18 mánaða frest frá gildistöku laga þessara til að laga skráningarform, eyðublöð, skilríki og þess háttar að fyrirmælum 2. mgr. 6. gr.
18. gr. Breytingar á öðrum lögum.
Ákvæði til bráðabirgða.
[Innan þriggja ára frá gildistöku 11. gr. a skipar ráðherra starfshóp til að endurskoða ákvæðið með hliðsjón af fenginni reynslu og þróun rannsókna og þekkingar og bestu framkvæmd á sviði mannréttinda. Einkum ber hópnum að leggja mat á 5. mgr. 11. gr. a, þ.m.t. hvort rétt sé að fella ákvæðið brott. Skal starfshópurinn skila tillögum til ráðherra svo fljótt sem verða má eftir að hann tekur til starfa.
Í starfshópnum skulu vera sérfræðingur í barnaskurðlækningum, sérfræðingur í innkirtlalækningum barna og barnasálfræðingur, tilnefndir af ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu, fulltrúi tilnefndur af Intersex Ísland, fulltrúi tilnefndur af Samtökunum '78, kynjafræðingur tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, siðfræðingur tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og tveir lögfræðingar, annar með sérþekkingu á réttindamálum barna og hinn með sérþekkingu á mannréttindum, skipaðir án tilnefningar, auk formanns, skipaðs án tilnefningar.] 1)
    1)L. 154/2020, 11. gr.