Ferill 349. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 918  —  349. mál.
Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um kennslu um kynheilbrigði og virkar ofbeldisforvarnir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur mennta- og barnamálaráðuneytið fylgt eftir tillögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um markvissa kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskóla frá 6. júlí 2021? Ef svo er, hvernig? Óskað er eftir útskýringu fyrir hverja tillögu starfshópsins.

    Skýrslan „Markviss kennsla um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum: Greinargerð og tillögur starfshóps“ er afurð starfshóps sem þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í desember 2020 og var skilað í júní 2021. Þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra sendi bréf, dags. 7. september 2021, til skóla og hagsmunaaðila skólasamfélagsins með hvatningu um að skýrslan yrði rædd og hún nýtt til að efla umræðu og aðgerðir í skólasamfélaginu.
    Ákveðið hefur verið að setja vinnu af stað við að forgangsraða og kostnaðarmeta tillögur starfshópsins sem eru á forræði mennta- og barnamálaráðuneytisins. Ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu lýkur.
    Í skýrslunni eru tilgreindar 11 tölusettar aðgerðir sem nýtast vel við að bæta umgjörð skólastarfs og kennslu í kynheilbrigði og ofbeldisforvörnum. Hjá ráðuneytinu og stofnunum er vinna langt komin eða vel á veg við eftirfarandi aðgerðir: 4. Starfsþróun fagstétta, 8. Aðgengi að námsefni og 9. Efnisþættir kynfræðslunnar. Þá er vinna hafin eða að hefjast við aðgerðir 5. Breytingar á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla, 6. Fyrirkomulag kynfræðslu, 7. Heildarsýn á efnistök kynfræðslu og 10. Viðbragðsáætlun við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi fyrir framhaldsskóla. Ráðuneytið er að skoða mögulega útfærslu á stöðukönnun á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum sem fjallað er um í aðgerð 1. Aðrar tillögur fjalla um verkefni annarra ráðuneyta og stofnana.
    Nánar tilgreint er staða eftirfylgni með tillögum starfshópsins eftirfarandi:
    1. Stöðukönnun á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.
    Í skipunarbréfi var starfshópnum falið að vinna stöðukönnun á framkvæmd kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum þar sem m.a. kæmi fram viðhorf skólastjórnenda, nemenda og kennara til framkvæmdar kynfræðslu á viðkomandi skólastigum. Verkefnið var ekki unnið. Starfshópurinn lagði hins vegar til að ráðuneytið framkvæmdi stöðukönnun á fimm ára fresti til að kortleggja stöðuna og fylgjast með þróun mála. Ráðuneytið er að skoða mögulega útfærslu á tillögunni.
    2. Inntak kennaramenntunar.
    Málefni háskóla heyra undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
    3. Hlutverk skólahjúkrunarfræðinga.
    Skólahjúkrunarfræðingar eru starfsfólk heilsugæslunnar og málefni hennar heyra undir heilbrigðisráðherra. Unnið er að því að bæta samvinnu þjónustuveitenda og teymisvinnu með innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Einnig er hafin vinna við nýja löggjöf um heildstæða skólaþjónustu á öllum skólastigum, þar á meðal í framhaldsskóla.
    4. Starfsþróun fagstétta.
    Hjá Menntafléttunni, sem er samstarfsverkefni menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennarasambands Íslands og styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu, er á skólaárinu 2022–2023 boðið upp á námskeiðið Kynbundið ofbeldi: Forvarnir og fræðsla. Einnig er Barna- og fjölskyldustofa að útbúa gagnvirkt netnámskeið með grunnfræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum.
    5., 6. og 7. Breytingar á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla, fyrirkomulag kynfræðslunnar og heildarsýn á efnistök kynfræðslunnar.
    Greinasvið aðalnámskrár grunnskóla er til endurskoðunar og verður skýrsla starfshópsins höfð til hliðsjónar við þá vinnu og í framhaldinu einnig við endurskoðun aðalnámskráa allra skólastiga.
    8. og 9. Aðgengi að námsefni og efnisþættir kynfræðslunnar.
    Eins og fyrr segir er Barna- og fjölskyldustofa að vinna gagnvirkt netnámskeið með grunnfræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum.
    Safnvefurinn stoppofbeldi.namsefni.is, sem Menntamálastofnun hefur umsjón með, er með yfirlit yfir allt náms- og fræðsluefni er varðar kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni. Um er að ræða vefsvæði með hugmyndum að fræðsluefni fyrir börn, foreldra og starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla. Handbók um ofbeldi gegn börnum hefur verið uppfærð og endurskoðuð í Menntamálastofnun.
    Í tengslum við þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir árin 2021–2025, hefur verið ráðinn ritstjóri í hálft starf hjá Menntamálastofnun sem hefur það hlutverk að byggja upp þekkingu á námsefnisgerð sem styður við forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, þar á meðal gerð námsefnis í jafnréttis- og kynjafræðum. Samkvæmt tilmælum ráðuneytisins hefur sami ritstjóri samið við stjórn kynjafræðikennara í framhaldsskólum um að vinna að því að fara heildstætt yfir það námsefni sem til er, sem styður við forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, uppfæra það og semja nýtt þar sem þörf er á. Jafnframt var samið um að útbúa vandað námsefni um kynheilbrigði og kynhegðun og er þeirri vinnu ritstýrt í Menntamálastofnun.
    10. Viðbragðsáætlun við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.
    Ráðuneytið er að taka mikilvæg skref til að styðja við bakið á framhaldsskólum við að innleiða viðbragðsáætlanir gegn ofbeldi í sínum skólum, ásamt því að kynna bæði skammtíma og langtíma forvarnar- og fræðsluaðgerðir. Lögð er áhersla á samstarf við Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), skólameistara, sérfræðinga og aðra hagaðila. Þá hefur ráðuneytið sett af stað tilraunaverkefni með tímabundnu fagráði sem aðstoðar stjórnendur framhaldsskóla við að taka á kynferðisbrotamálum sem upp kunna að koma, ásamt afleiddum álitamálum.
    11. Breytingar á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir.
    Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, nr. 25/1975, heyra undir heilbrigðisráðherra.
    Þá er rétt að taka fram að ráðuneytið og stofnanir þess vinna að fjölda verkefna sem varða kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í samræmi við þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þingsályktun nr. 37/150, um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025 og þingsályktun nr. 16/150, um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023.