Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 926  —  502. mál.
Ráðherra.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um fylgdarlaus börn.


     1.      Hversu mörg fylgdarlaus börn hafa sótt um alþjóðlega vernd skv. IV. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016, ár hvert undanfarin 20 ár?
    Gagnagrunnur Útlendingastofnunar með upplýsingum um umsóknir um alþjóðlega vernd þar sem merkt er við fylgdarlaus börn með sérstakri merkingu nær aðeins aftur til ársins 2014 og munu neðangreind svör því miða við það tímamark.
    Eins og sést í töflu 1 hafa 178 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá árinu 2014 til og með 20. desember 2022 og haldið því fram að þeir séu fylgdarlaus börn. Að undangenginni gagnaöflun eða aldursgreiningu í málum þessara einstaklinga voru 78 talin fylgdarlaus börn og 66 fullorðnir. Þá urðu 12 af umræddum 178 einstaklingum 18 ára eða forsjáraðili þeirra kom til landsins áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra. Tvö mál eru skráð undir „önnur lok“ en annar þeirra dró umsókn sína til baka og hinn lét sig hverfa. Út af standa þá 20 mál frá árinu 2022 sem eru enn í vinnslu.

    Tafla 1. Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd sem bárust íslenskum stjórnvöldum á árunum 2014 til og með 20. desember 2022 þar sem umsækjandi hélt því fram að hann væri fylgdarlaust barn.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hversu mörg fylgdarlaus börn hafa fengið alþjóðlega vernd skv. IV. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016, ár hvert undanfarin 20 ár?
    Tafla 2 sýnir hversu margir af þeim 78 umsækjendum sem talin voru fylgdarlaus börn fengu alþjóðlega vernd, dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða synjun á umsókn. Miðað er við umsóknarár. Fimm mál eru skráð undir „önnur lok“ en fjórir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka og einn lét sig hverfa. Út af standa þá fimm mál frá árinu 2022 sem eru enn í vinnslu.

     Tafla 2. Niðurstaða umsókna þeirra umsækjenda sem talin voru fylgdarlaus börn frá árinu 2014 til 20. desember 2022 miðað við umsóknarár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hversu mörg þeirra hafa í kjölfarið fengið samþykkt dvalarleyfi annarra fjölskyldumeðlima sinna vegna fjölskyldusameiningar skv. 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, ár hvert undanfarin 20 ár?
    Aðeins fylgdarlaus börn sem fá veitta alþjóðlega vernd eiga rétt á fjölskyldusameiningu skv. 45. gr. laga um útlendinga. Í töflu 3 má sjá hversu margir af þeim 55 umsækjendum sem fengu alþjóðlega vernd sem fylgdarlaus börn hafa fengið samþykkta fjölskyldusameiningu á grundvelli lagaákvæðisins. Vakin er athygli á að af þeim sem sóttu um alþjóðlega vernd sem fylgdarlaus börn árið 2021 fengu flest veitta vernd árið á eftir. Einhver þeirra hafa lagt fram umsóknir um fjölskyldusameiningu sem eru enn í vinnslu og má búast við að fleiri eigi eftir að sækja um. Það sama gildir um árið 2022.

     Tafla 3. Fjöldi þeirra fylgdarlausu barna sem fengu alþjóðlega vernd á tímabilinu frá 2014 til 20. desember 2022, miðað við umsóknarár, og hversu mörg þeirra fengu fjölskyldusameiningu á grundvelli 45. gr. laga um útlendinga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hversu mörgum fylgdarlausum börnum sem fengið hafa alþjóðlega vernd skv. IV. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016, hefur verið synjað um endurnýjun á dvalarleyfi sínu skv. 2. mgr. 73. gr. sömu laga ár hvert undanfarin 20 ár?
    Engum sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd sem fylgdarlausu barni hefur verið synjað um endurnýjun á dvalarleyfi.

     5.      Hversu mörgum fylgdarlausum börnum hefur verið synjað um alþjóðlega vernd ár hvert undanfarin 20 ár?
    Vísað er til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Hversu mörgum fylgdarlausum börnum hefur verið synjað um alþjóðlega vernd ár hvert undanfarin 20 ár á þeim grundvelli að þau væru ekki lengur fylgdarlaus börn því að þau urðu 18 ára meðan á málsmeðferð þeirra stóð?
    Ráðuneytið áréttar að umsókn um alþjóðlega vernd er aldrei synjað á grundvelli aldurs. Engin skilyrði eða kröfur eru gerðar um aldur við ákvörðun um veitingu alþjóðlegrar verndar skv. 37. gr. laga um útlendinga. Við rannsókn og mat stjórnvalda á umsókn um vernd er litið til frásagnar umsækjanda, gagna sem hann leggur fram og til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í heima- eða viðtökuríki hans, t.d. skýrslna og gagna alþjóðlegra samtaka, frjálsra félagasamtaka og annarra ríkja. Öll mál eru því skoðuð og metin á einstaklingsbundnum grundvelli með tilliti til aðstæðna hvers og eins. Það að fylgdarlaust barn verði 18 ára í málsmeðferðinni leiðir því ekki til þess að umsókn þess um alþjóðlega vernd verði synjað.

     Tafla 4. Niðurstöður í málum þeirra fylgdarlausu barna sem sóttu um alþjóðlega vernd á tímabilinu frá árinu 2014 til 20. desember 2022 en urðu 18 ára áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra. Miðað er við umsóknarár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     7.      Á grundvelli hvaða laga hefur fylgdarlausum börnum verið synjað um alþjóðlega vernd í öðrum tilvikum en þeim sem greinir í 4. tölul. ár hvert undanfarin 20 ár?
    Um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd gilda lög um útlendinga, nr. 80/2016, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 og alþjóðlegir samningar sem Ísland er aðili að, einkum alþjóðasamningur um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 ásamt viðauka frá 31. janúar 1967. Um málsmeðferð stjórnvalda gilda jafnframt stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Í málum sem varða börn gilda einnig ákvæði barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989, sbr. lög nr. 19/2013. Ákvarðanir er varða börn eru teknar með bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.