Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 928  —  427. mál.
Leiðréttur texti.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jódísi Skúladóttur um stöðu barnungra mæðra gagnvart heilbrigðiskerfinu.

     1.      Fá barnungar mæður sérhæfðan stuðning vegna aukinnar heilsufarslegrar áhættu á meðgöngu og eftir meðgöngu umfram mæður eldri en 18 ára? Ef svo er, er sú þjónusta veitt til jafns eftir búsetu móður?
    Barnungar mæður er hópur sem horft er sérstaklega til í mæðravernd og ung- og smábarnavernd. Þær geta þurft aukinn stuðning, bæði frá sínum nánustu og heilbrigðisstarfsfólki, en þörf á stuðningi er metin í hverju tilviki fyrir sig. Þar getur til að mynda komið til þéttara eftirlit með fleiri mæðraskoðunum og um lengri tíma í hvert sinn. Yfirleitt er mesta þörfin á auknum félagslegum stuðningi, aukinni fræðslu, m.a. um foreldrahlutverkið, umönnun nýbura, stuðningi við tengslamyndun og að lesa í tjáningu barnsins. Áhersla er lögð á stuðning við fjölskylduna og þannig reynt að stuðla að því að börnum séu búin bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði á hverjum tíma. Mikilvægt er að uppgötva sem fyrst frávik hvað heilsufar og þroska varðar og gera þá viðeigandi ráðstafanir.
    Áherslur og verklag í mæðravernd og ung- og smábarnavernd er samræmt á landsvísu og hefur Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu forystu um þróun og samræmingu á þessari starfsemi. Ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum á hverjum stað sjá svo um mæðravernd og ung- og smábarnavernd í samstarfi við sálfræðinga og annað fagfólk heilsugæslunnar. Í meðgönguvernd er áætlun metin í hverri skoðun út frá heilsufari og þörfum verðandi móður og barns. Áhersla er lögð á að þjónustan sé sveigjanleg og taki mið af þörfum viðkomandi fjölskyldu hverju sinni.

     2.      Hvert er ákvörðunarvald ungrar móður þegar kemur að heilsufarslegum ákvörðunum tengdum barni hennar ef barnið þarfnast sérhæfðrar læknisþjónustu, t.d. vegna langvarandi veikinda?
    Lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, gera ekki ráð fyrir mismunandi ákvörðunarvaldi foreldra eftir aldri þeirra. Foreldrum sem fara með forsjá barns er gert að veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára. Eftir því sem kostur er skulu sjúk börn höfð með í ráðum og alltaf er þau eru 12 ára eða eldri. Ef foreldri neitar að samþykkja nauðsynlega meðferð ber lækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni að snúa sér til barnaverndaryfirvalda. Ef ekki vinnst tími til að leita liðsinnis barnaverndaryfirvalda vegna lífsnauðsynlegrar bráðameðferðar á sjúku barni er skylt að hafa heilbrigði barnsins að leiðarljósi og grípa tafarlaust til nauðsynlegrar meðferðar skv. 26. gr. laga um réttindi sjúklinga.
    Ef ung móðir er ekki orðin 18 ára má gera ráð fyrir að barnaverndarþjónusta komi að máli hennar og tryggð sé samþætting þjónustu við hana í þágu farsældar hennar og barnsins skv. 23. gr. a barnaverndarlaga, nr. 80/2002.