Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 929  —  481. mál.
Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um samvinnu barnaverndar og sýslumanna í umgengnismálum.


     1.      Hvernig er verklagi vegna samvinnu barnaverndar og sýslumannsembætta háttað í málum sem varða umgengni og forsjá í þeim tilfellum þar sem barnaverndarnefnd hefur frumkvæði að því að kæra forsjár- eða umgengnisforeldri fyrir ofbeldi gegn barni?
    Mennta- og barnamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa unnið að því að bæta samhæfingu í málaflokkum ráðuneytanna sem tengjast réttindum barna, barnavernd og barnarétti. Ákveðið hefur verið að skipa stýrihóp um barnarétt með fulltrúum ráðuneytanna og stofnana þeirra sem verður falið það hlutverk að samræma framkvæmd. Unnið er að skipun stýrihópsins og gert ráð fyrir að hann taki til starfa á næstu vikum.

     2.      Er til verklag og/eða leiðbeiningar hjá stjórnvöldum, til að mynda sýslumannsembættum, er varðar umgengni og forsjá í þeim tilfellum þar sem foreldri hefur verið kært fyrir ofbeldi gegn barni? Nær slíkt verklag og/eða leiðbeiningar til þeirra tilfella þar sem foreldri hefur verið dæmt fyrir ofbeldi gegn barni? Ef nei, kemur til álita af hálfu ráðherra að hefja vinnu við gerð slíks verklags og/eða leiðbeininga?
    Ákvarðanir sýslumanna um umgengni og forsjá eru teknar á grundvelli barnalaga, nr. 76/2003, sem heyra undir dómsmálaráðherra. Barnaverndarlög, nr. 80/2002, heyra undir mennta- og barnamálaráðherra. Þar er fjallað um meðferð barnaverndarmála og úrræði sem barnaverndarþjónusta getur beitt þegar grunur er um ofbeldi gegn barni. Ákvarðanir á grundvelli barnaverndarlaga eru teknar með hliðsjón af aðstæðum í hverju máli fyrir sig.
    Samræmt verklag eða leiðbeiningar um viðbrögð barnaverndarþjónustu þegar foreldri hefur verið kært fyrir ofbeldi gegn barni annars vegar og hins vegar þegar foreldri hefur verið dæmt fyrir ofbeldi gegn barni liggur ekki fyrir þar sem ávallt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju barnaverndarmáli fyrir sig.
    Samkvæmt b-lið 2. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga veitir Barna- og fjölskyldustofa leiðbeiningar og ráðgjöf um vinnslu einstakra mála, þar á meðal um mál þar sem foreldri hefur verið kært eða dæmt fyrir ofbeldi gegn barni.