Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 950  —  504. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um fylgdarlaus börn.


     1.      Hvernig er háttað móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem koma til Íslands sem fylgdarlaus börn?
    Útlendingastofnun fer með málefni einstaklinga sem óska eftir alþjóðlegri vernd og gilda sérstakar reglur um meðferð mála fylgdarlausra barna. Útlendingastofnun skal tryggja að barnið fái málsmeðferð í samræmi við aldur þess og þroska og Barna- og fjölskyldustofa ber ábyrgð á hagsmunagæslu barns samkvæmt lögum um útlendinga.
    Þegar um er að ræða einstakling sem er án forsjáraðila og kveðst vera yngri en 18 ára gilda ákvæði barnaverndarlaga, nr. 80/2002, þar til annað kemur í ljós. Barnaverndarþjónusta í umdæminu þar sem barn gefur sig fyrst fram ber ábyrgð á að tryggja viðeigandi úrræði, svo sem búsetu, menntun, tómstundir og fjárhagslegan stuðning. Ef barn er yngra en 15 ára skal barnaverndarþjónustan taka við umsjá barnsins og ráðstafa barninu í fóstur eða aðra vistun.
    Þegar barn er orðið 15 ára skal tryggja örugga búsetu í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga, þó er heimilt að barn frá 15 ára aldri dveljist í móttökumiðstöð Vinnumálastofnunar þar til viðeigandi úrræði finnst. Hér er um að ræða undantekningu frá því almenna ferli sem fara ber eftir þegar barn er vistað samkvæmt barnaverndarlögum. Í öllum tilvikum fer barnaverndarþjónustan sem annast málið með forsjá barnsins.
    Ríkissjóður endurgreiðir sveitarfélögum tiltekinn kostnað vegna þjónustu við fylgdarlaus börn á grundvelli 15. gr barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og er umsýsla hvað það varðar á verksviði mennta- og barnamálaráðuneytisins.

     2.      Hver er stefna ráðherra varðandi stöðu fylgdarlausra barna sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli IV. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016?
    Umtalsverð vinna er í gangi á vegum ráðuneytisins til þess að þróa stuðning og þjónustu við fylgdarlaus börn. Mennta- og barnamálaráðherra skipaði samráðs- og viðbragðsteymi íslenskra stjórnvalda fyrir börn á flótta en hlutverk samráðsteymisins er að kortleggja stöðuna og móta viðmið um móttöku barna á flótta hér á landi með hliðsjón af réttindum og velferð þeirra. Þá er samráðsteymið að skoða sérstaklega lagalegt umhverfi barnaverndar þegar kemur að börnum á flótta og setja viðmið um þjónustu við fylgdarlaus börn.
    Þá ber þess að geta að Alþingi samþykkti þann 16. júní 2022 framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda þar sem ein aðgerðanna tekur til fylgdarlausra barna. Aðgerðin snýr að því að fylgdarlausum börnum og ungmennum standi til boða úrræði sem styðja þau við að taka sín fyrstu skref á Íslandi. Þannig sé ungt flóttafólk stutt enn frekar til þátttöku í samfélaginu.