Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 952  —  433. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf og lögum um fjármálafyrirtæki (sértryggð skuldabréf).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnlaug Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Jónu Björk Guðnadóttur, Heiðrúnu Emilíu Jónsdóttur og Andra F. Stefánsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Þóreyju S. Þórðardóttur og Gunnar Þór Ásgeirsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Hauk Benediktsson, Kristján Ólaf Jóhannsson og Andrés Þorleifsson frá Seðlabanka Íslands.
    Umsagnir bárust frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, og lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem ætlað er að innleiða efni tilskipunar (ESB) 2019/2162, um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum, og reglugerðar (ESB) 2019/2160, um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2012 að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa. Að auki er lagt til að framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/424 frá 17. desember 2019 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 575/2013 að því er varðar óhefðbundna staðalaðferð vegna markaðsáhættu verði veitt lagagildi.
    Líkt og rakið er í greinargerð kallar innleiðing Evrópugerðanna um sértryggð skuldabréf ekki á verulegar breytingar á gildandi lögum. Veigamestu breytingarnar eru líklega þær að útgefendur þurfa ávallt að hafa nægt laust fé í tryggingasöfnum til að standa undir hámarksútflæði lauss fjár næstu 180 daga, sett eru skilyrði fyrir frestun gjalddaga sértryggðra skuldabréfa og mælt fyrir um ítarlegri upplýsingagjöf útgefenda til fjárfesta. Þá er lagt til að fleiri brot en áður varði stjórnvaldssektum og að hámark sekta verði hækkað.
    Sem stendur er ekki gert ráð fyrir því að innleiðing reglugerðar um markaðsáhættu hafi áhrif hér á landi þar sem engin íslensk lánastofnun notast við óhefðbundna staðalaðferð við mat á markaðsáhættu.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem fram kæmi afstaða ráðuneytisins til þeirra umsagna sem nefndinni bárust.
    Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða eru gerðar athugasemdir við þrjú atriði frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er gerð athugasemd við a-lið 4. gr. frumvarpsins Stafliðurinn heimilar, með tilgreindum skilyrðum, að sértryggð skuldabréf séu ekki tryggð með hefðbundnu tryggingasafni heldur með sértryggðum skuldabréfum frá annarri lánastofnun í sömu samstæðu.
    Landssamtök lífeyrissjóða telja ekki rök fyrir því að svo stöddu að slík heimild sé veitt og að kanna þyrfti betur hvaða áhrif hún geti haft.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis er á það bent að hvort sem stuðst er við hefðbundna útgáfu sértryggðra skuldabréfa eða heimild a-liðar 4. gr. frumvarpsins tryggja hefðbundnar tryggingaeignir á borð við íbúðalán að endingu greiðslur til eigenda skuldabréfanna komi til greiðsluerfiðleika útgefenda. Útgáfa á grundvelli a-liðar 4. gr. frumvarpsins geti eigi að síður haft í för með sér meiri áhættu heldur en hefðbundin útgáfa sértryggðra skuldabréfa, einkum vegna hættu á því að lánastofnunin sem gefið hefur út sértryggðu skuldabréfin sem á að hafa í tryggingasafni standi ekki tímanlega í skilum með greiðslur af bréfunum gagnvart lánastofnuninni sem selur fjárfestum utan samstæðunnar sértryggð skuldabréf.
    Til að mæta aukinni áhættu sem getur stafað af fyrirkomulaginu er nú þegar í 7. tölul. 1. mgr. a-liðar 4. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir því að heimildin verði háð því að Fjármálaeftirlitið telji fyrirhugaða útgáfu ekki fela í sér verulega aukna áhættu í samanburði við hefðbundna útgáfu.
    Við umfjöllun nefndarinnar var rætt um að umrætt ákvæði byggist á heimild 8. gr. tilskipunar (ESB) 2019/262 um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum. Meiri hlutinn telur ekki forsendur að svo stöddu til að innleiða ákvæðið, m.a. þar sem óljóst er um mögulega nýtingu þessarar heimildar og áhrif hennar á íslenskum fjármálamarkaði. Meiri hlutinn leggur því til að ákvæðið verði fellt brott úr frumvarpinu en bendir á að komi upp breyttar aðstæður er hægt að kanna þörf á slíku heimildarákvæði og eftir atvikum innleiða það í íslenskan rétt. Í öðru lagi er í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða lagt til að orðunum „úr tryggingasafni“ verði bætt við a-lið 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins.
    Í tilvísuðu minnisblaði er á það bent að ekki er einsýnt að slík breyting væri í þágu eigenda sértryggðra skuldabréfa, enda gæti „brunaútsala“ eigna útgefanda leitt til frekari greiðsluvanda útgefanda síðar meir þótt ekki væri um að ræða eignir í tryggingasafni. Þá væri breytingin til þess fallin að rýra stöðu útgefanda og annarra kröfuhafa hans en eigenda sértryggðra skuldabréfa. Heimild til að fresta gjalddaga sértryggðra skuldabréfa á þessum grundvelli verður háð því að hún komi skýrlega fram í skilmálum skuldabréfanna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Telji lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar sértryggð skuldabréf sem heimila frestun gjalddaga á þessum grundvelli of áhættusöm verður þeim vitaskuld óskylt að kaupa þau.
    Ekki er því talið tilefni til að gera slíka breytingu á frumvarpinu á grundvelli þess sem að framan er rakið og nánar er fjallað um í minnisblaði ráðuneytisins.
    Þá er í þriðja lagi í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða lagt til að nýjum d-lið verði bætt við 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins sem hljóði svo: „frestun vari ekki lengur en nauðsynlegt er“.
    Í 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins felst að frestun megi ekki vara lengur en nauðsynlegt er til að ná því markmiði sem að er stefnt. Telur meiri hlutinn því ekki þörf á að bregðast við þeirri ábendingu Landssamtaka lífeyrissjóða.
    Þá bendir meiri hlutinn á að með frumvarpinu fylgdu tvö fylgiskjöl sem voru afar gagnleg við meðferð málsins. Fylgiskjölin hafa þó ekki sjálfstæða efnislega þýðingu sem lögskýringargögn heldur ber að líta á þau sem vinnuskjöl.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Brottfall a-liðar 4. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að a-liður 4. gr. frumvarpsins falli brott, sbr. umfjöllun hér að framan. Þá leggur meiri hlutinn til breytingu sem leiðir af brottfalli a-liðar 4. gr. sem er tæknilegs eðlis.

Gildistaka og lagaskil.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023. Þar sem ekki gafst tími til þess að ljúka umfjöllun nefndarinnar um málið fyrir áramót þarf að fresta gildistöku þess. Af greinargerð frumvarpsins og umsögnum sem bárust nefndinni er ljóst að nokkuð liggur á því að lögin öðlist gildi, m.a. svo að íslenskir bankar geti gefið út sértryggð skuldabréf sem talist geta veðhæf í evrópska seðlabankanum og til þess að varna frekari innleiðingarhalla EES-gerða. Leggur meiri hlutinn því til að lögin öðlist gildi 1. mars 2023.
    Í 23. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um sértryggð skuldabréf sem kveði á um að nota megi heitið „sértryggð skuldabréf“ um sértryggð skuldabréf sem gefin voru út fyrir 1. janúar 2023 og uppfylltu þágildandi skilyrði. Sama gildi um sértryggð skuldabréf sem voru gefin út frá og með 1. janúar 2023 en fyrir 1. janúar 2025 á grundvelli opinberrar útgáfu sem fékk alþjóðlegt auðkennisnúmer (ISIN) fyrir 1. janúar 2023 að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á lagaskilareglu 30. gr. tilskipunar (ESB) 2019/2162 sem tekur á því hvernig skuli farið með sértryggð skuldabréf sem gefin voru út fyrir innleiðingu tilskipunarinnar. Þar sem sömu sjónarmið eiga við um sértryggð skuldabréf gefin út eftir 1. janúar 2023 en fyrir gildistöku laganna og þau sem gefin voru út fyrir 1. janúar 2023 leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að dagsetningar í 23. gr. verði uppfærðar til samræmis nýja gildistöku.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      10. tölul. í 1. gr. falli brott.
     2.      A-liður (6. gr. a) 4. gr. falli brott.
     3.      Við a-lið (I.) 23. gr.
                  a.      Í stað „1. janúar 2023“ á fjórum stöðum komi: 1. mars 2023.
                  b.      Í stað „31. desember 2022“ í 2. tölul. komi: 28. febrúar 2023.
     4.      Í stað „1. janúar 2023“ í 26. gr. komi: 1. mars 2023.

    Guðbrandur Einarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 19. janúar 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Kristrún Frostadóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.