Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um sértryggð skuldabréf

2008 nr. 11 14. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 20. mars 2008. Breytt með: L. 35/2008 (tóku gildi 16. maí 2008). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019).


I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
2. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum merkir:
    1. Útgefandi: Viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, sem hefur fengið leyfi til að gefa út sértryggð skuldabréf.
    2. Sértryggt skuldabréf: Skuldabréf eða önnur einhliða, óskilyrt, skrifleg skuldarviðurkenning sem nýtur sérstaks fullnusturéttar í tryggingasafni útgefanda og gefið er út samkvæmt lögum þessum.
    3. Skuldabréf: Skrifleg yfirlýsing þar sem útgefandi viðurkennir einhliða og skilyrðislaust skyldu sína til að greiða ákveðna peningagreiðslu.
    4. Tryggingasafn: Safn skuldabréfa, staðgöngutrygginga og annarra eigna sem færðar hafa verið á skrá skv. VI. kafla og eigendur sértryggðra skuldabréfa og gagnaðilar útgefanda í afleiðusamningum eiga fullnusturétt í samkvæmt ákvæðum þessara laga.
    5. Staðgöngutryggingar: Eignir skv. 6. gr. sem geta talist með í tryggingasafni og eiga að tryggja að hagsmunum eiganda sértryggðs skuldabréfs sé ekki raskað þótt breyting verði á eignum í tryggingasafni.
    6. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
    7. Afleiðusamningur: Samningur sem gerður er í þeim tilgangi að ná jafnvægi á milli fjárhagslegra skilyrða vegna eigna í tryggingasafni og samsvarandi skilyrða fyrir sértryggð skuldabréf og er milli útgefanda og íslenska ríkisins, aðildarríkja, sveitarfélaga í aðildarríki, seðlabanka í aðildarríki, fjármálafyrirtækja í aðildarríki eða annarra sem Fjármálaeftirlitið telur nægilega trausta til að efna þá skuldbindingu sem felst í samningnum.
    8. Lánaflokkur: Tegund skuldabréfs í tryggingasafni skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 5. gr.
    9. Flokkur sértryggðra skuldabréfa: Sértryggð skuldabréf sem gefin eru út af sama útgefanda á grundvelli sama leyfis frá Fjármálaeftirlitinu.
3. gr. Skilyrði leyfisveitingar.
Fjármálaeftirlitið veitir leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa samkvæmt lögum þessum. Leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa verður aðeins veitt viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum.
Skilyrði leyfis til útgáfu sértryggðra skuldabréfa eru:
    1. Að útgáfan sé í samræmi við lög þessi.
    2. Að fjárhagsáætlun útgefanda, sem staðfest er af löggiltum endurskoðanda, sýni að fjárhagur hans sé svo traustur að hagsmunum annarra kröfuhafa sé ekki stefnt í hættu með útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
Fjármálaeftirlitið getur heimilað að áður útgefnum skuldabréfum og öðrum skuldarviðurkenningum, gefnum út til að fjármagna skuldabréf sömu tegundar og heimilt er að hafa í tryggingasafni, sé breytt í sértryggð skuldabréf í samræmi við lög þessi.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að binda leyfi skilyrðum, m.a. um lánaflokka í tryggingasafni sem tilheyra viðkomandi útgáfu, flokka sértryggðra skuldabréfa, tímamörk útgáfu, tímalengd og afborgunarskilmála væntanlegs sértryggðs skuldabréfs. Skilyrði skal tilgreina í leyfi.
4. gr. Afgreiðsla á umsóknum um leyfi.
Þegar lögð hefur verið fram umsókn um leyfi skal Fjármálaeftirlitið afgreiða hana innan sex mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Verði frekari dráttur á leyfisveitingunni skal Fjármálaeftirlitið tilkynna umsækjanda skriflega um ástæðuna.

II. kafli. Eignir í tryggingasafni o.fl.
5. gr. Skuldabréf í tryggingasafni.
Tryggingasafn skal myndað úr skuldabréfum í eftirfarandi flokkum:
    1. Skuldabréfum sem hafa verið gefin út með veði í íbúðarhúsnæði í aðildarríkjum.
    2. Skuldabréfum sem hafa verið gefin út með veði í iðnaðar-, skrifstofu- eða verslunarhúsnæði í aðildarríkjum.
    3. Skuldabréfum sem hafa verið gefin út með veði í bújörðum og öðrum fasteignum í aðildarríkjum sem notaðar eru til landbúnaðar.
    4. Skuldabréfum sem gefin hafa verið út af íslenska ríkinu eða öðru aðildarríki, sveitarfélagi hér á landi eða í öðru aðildarríki eða eru með ábyrgð slíks opinbers aðila.
Fasteignir sem vísað er til í 1.–3. tölul. 1. mgr. skulu skráðar í Landskrá fasteigna.
Séu skuldabréf sem tilgreind eru í 1.–3. tölul. 1. mgr. tryggð með veði í fasteignum í öðru aðildarríki en Íslandi skulu þær skráðar í opinbera gagnagrunna.
6. gr. Staðgöngutryggingar í tryggingasafni.
Tryggingasafn má innihalda eftirfarandi staðgöngutryggingar:
    1. Innstæðu hjá fjármálafyrirtæki sem er laus til útborgunar, án fyrirvara.
    2. Innstæðu hjá eða kröfu á aðildarríki eða seðlabanka í aðildarríki.
    3. Kröfur á hendur öðrum lögaðilum sem að mati Fjármálaeftirlitsins fela ekki í sér meiri áhættu en þær sem tilgreindar eru í 1.–2. tölul. þessarar málsgreinar.
Fjármálaeftirlitið getur samþykkt sem staðgöngutryggingar eftirfarandi kröfur:
    1. Kröfur á hendur sveitarfélögum í aðildarríki.
    2. Kröfur á hendur fjármálafyrirtækjum, aðrar en greinir í 1. tölul. 1. mgr., enda sé gjalddagi þeirra innan árs frá útgáfu þeirra.
    3. Kröfur á erlenda þróunarbanka sem [Seðlabanki Íslands] 1) tilgreinir í reglum sem [hann] 1) setur, sbr. 25. gr.
    4. Kröfur á aðra lögaðila, sem ekki fela í sér meiri áhættu en þær staðgöngutryggingar sem tilgreindar eru í 1.–3. tölul. þessarar málsgreinar.
Hámarkshlutdeild staðgöngutrygginga í tryggingasafni má vera 20% af verðmæti þess. Fjármálaeftirlitið getur veitt heimild til að auka hlutdeild staðgöngutrygginga í tryggingasafni í allt að 30% af verðmæti þess.
    1)L. 91/2019, 103. gr.

III. kafli. Skuldabréf með veði í fasteignum.
7. gr. Veðhlutföll og samsetning tryggingasafns.
Skuldabréf sem falla undir 1.–3. tölul. 1. mgr. 5. gr. og skráð eru í tryggingasafn skulu á þeim degi sem þau eru skráð uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    1. Veðhlutfall af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis skal að hámarki nema 80%.
    2. Veðhlutfall af markaðsvirði iðnaðar-, skrifstofu- eða verslunarhúsnæðis skal að hámarki nema 60%.
    3. Veðhlutfall af markaðsvirði bújarðar eða fasteignar sem skráð er til landbúnaðarstarfsemi skal að hámarki nema 70%. Framleiðsluréttindi, sem úthlutað hefur verið á lögbýli, skulu ekki talin með við útreikning markaðsvirðis.
Óheimilt er að taka á skrá skuldabréf skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 5. gr. í tryggingasafn hafi vanskil staðið í 90 daga eða lengur.
Nú hyggst útgefandi hafa í tryggingasafni fleiri en einn flokk skuldabréfa og skal hann þá geta þess í umsókn um leyfi.
8. gr. Mat á verðmæti veðsettra fasteigna.
Við mat á markaðsvirði fasteigna skv. 7. gr. skal beita mati er taki mið af söluverði í nýlegum viðskiptum með sambærilegar fasteignir.
Nú liggur markaðsvirði fasteignar skv. 1. mgr. ekki fyrir og skal þá ákvarða það með sérstöku mati. Matið skal vera grundvallað á almennum og viðurkenndum aðferðum við mat á markaðsvirði fasteigna. Er meðal annars heimilt að byggja á gögnum um verðþróun fasteigna frá Fasteignamati ríkisins og annarri skipulagðri öflun upplýsinga um fasteignaverð.
Ef útgefandi metur markaðsvirði fasteignar skv. 1. eða 2. mgr. skal hinn sjálfstæði skoðunarmaður skv. VIII. kafla staðreyna að matið sé byggt á viðurkenndri aðferðafræði. Skal honum heimilt að endurmeta markaðsvirði fasteigna, einnar eða fleiri, ef hann telur það ekki rétt metið.
Mat á markaðsvirði fasteignar skv. 1. og 2. mgr. skal vera skriflegt og skal tilgreint á hvaða aðferð er byggt, hver hafi framkvæmt matið og hvenær það fór fram.
9. gr. Reglubundið mat á markaðsvirði veðsettra eigna í tryggingasafni.
Útgefandi skal reglulega fylgjast með og láta meta markaðsvirði þeirra fasteigna sem standa til veðtrygginga í tryggingasafni.
Ef markaðsvirði veðtrygginga í tryggingasafni lækkar verulega skal fjárhæð skuldabréfsins í tryggingasafninu færð niður þannig að veðhlutfall takmarkist við það sem tilgreint er í 1.–3. tölul. 1. mgr. 7. gr.

IV. kafli. Sérreglur um sveitarfélög.
10. gr. Skuldabréf og ábyrgðir.
Skuldabréf útgefin af sveitarfélagi, eða með ábyrgð þess skv. 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. skulu, á þeim degi sem þau eru skráð í tryggingasafn, uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    1. Sveitarfélagið skal vera með jákvætt eigið fé.
    2. Lán skal vera í skilum.
    3. Sé um ábyrgð sveitarfélags að ræða skal hún falla innan heimilda þess samkvæmt sveitarstjórnarlögum til að gangast í ábyrgð.

V. kafli. Jöfnunarreglur.
11. gr. Fjárhæð tryggingasafns og sértryggðra skuldabréfa.
Uppreiknuð heildarfjárhæð höfuðstóls skuldabréfa og annarra eigna í tryggingasafni sem stendur til tryggingar tilteknum flokki sértryggðra skuldabréfa skal ávallt nema hærri fjárhæð en sem nemur uppreiknaðri heildarfjárhæð höfuðstóls þess tiltekna flokks.
12. gr. Mat á tryggingasafni, meðferð þess o.fl.
Skuldabréf, staðgöngutryggingar og aðrar eignir sem útgefandi leggur í tryggingasafn skulu metnar með hliðsjón af gengi gjaldmiðla, vöxtum, vaxtatímabilum og öðru sem þýðingu hefur þannig að hæfilegt jafnvægi haldist milli tryggingasafns og þess flokks sértryggðra skuldabréfa sem tilheyrir viðkomandi tryggingasafni. Útgefanda er heimilt að gera afleiðusamninga í því skyni að ná fram þessu jafnvægi.
Útgefandi skal sjá til þess að afborganir og aðrar greiðslur af eignum í tryggingasafni, svo og af afleiðusamningum, og greiðslur af sértryggðu skuldabréfunum séu með þeim hætti að unnt sé að efna skuldbindinguna gagnvart eigendum sértryggðra skuldabréfa og gagnaðilum afleiðusamninga. Í þessu skyni skal afborgunum og öðrum greiðslum af eignum í tryggingasafni haldið aðgreindum frá öðrum eignum útgefanda, þ.m.t. öðrum tryggingasöfnum, ásamt afborgunum og öðrum greiðslum af þeim.
Útgefandi skal varðveita fjármuni skv. 2. mgr. á sérstökum reikningi og aðgreina þá frá öðrum eignum sínum.
Útgefanda skal óheimilt að veðsetja skuldabréf og aðrar eignir í tryggingasafni.
Skuldabréf og aðrar eignir í tryggingasafni skulu undanþegnar aðför skuldheimtumanna útgefanda.

VI. kafli. Skrá.
13. gr. Skylda til að halda skrá og árita skuldabréf.
Útgefandi skal halda sérstaka skrá yfir sértryggð skuldabréf og tryggingasafnið, auk afleiðusamninga, sé um þá að ræða. Í henni skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:
    1. Nafnverð, vaxtaskilmálar og lokagjalddagar sértryggðra skuldabréfa í skuldabréfaflokknum.
    2. Flokkar skuldabréfa í tryggingasafni, skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 5. gr.
    3. Númer skuldabréfs í tryggingasafni, nafn skuldara, kennitala hans, nafnvirði láns, útgáfudagur, lánstími, afborgunar- og vaxtaskilmálar.
    4. Nafn ábyrgðaraðila að skuld ríkis eða sveitarfélags eða stofnana þeirra, sé um slíkan að ræða.
    5. Mat á virði veðtrygginga í tryggingasafni, hvenær matið var framkvæmt og forsendur þess.
    6. Nú er um staðgöngutryggingar að ræða og skal þá tilgreina þær og þær eignir sem tryggingarnar leysa af hólmi, nafnvirði þeirra, greiðslutíma og vaxtakjör eignanna.
    7. Fjármunir og aðrar eignir sem mótteknar hafa verið sem greiðsla af skuldabréfum og öðrum eignum í tryggingasafni og ekki hafa verið greiddar til handhafa sértryggðra skuldabréfa, svo og hvernig geymslu þeirra er háttað.
    8. Sé um afleiðusamning, einn eða fleiri, að ræða skal tilgreina tegund hans og númer, gagnaðila, nafnverð, gjaldmiðil, vaxtaskilmála, nettókröfu eða nettóskuld vegna samningsins ásamt upphafs- og lokadagsetningu.
Skuldabréf í tryggingasafni skulu árituð um að þau séu hluti af tryggingasafni og hafi verið færð á skrá samkvæmt þessum kafla. Áritunin skal einnig bera með sér að skuldabréfið standi til fullnustu á tilgreindum flokki sértryggðra skuldabréfa.

VII. kafli. Gjaldþrotaskipti á búi útgefanda.
14. gr. Réttaráhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti.
Nú er bú útgefanda tekið til gjaldþrotaskipta og falla þá sértryggð skuldabréf, sem hann hefur gefið út, ekki í gjalddaga, nema sérstaklega hafi verið um það samið. [Þrotabúið tekur við réttindum og skyldum útgefanda samkvæmt afleiðusamningum sem gerðir hafa verið á grundvelli laga þessara. Kröfur samkvæmt slíkum afleiðusamningum njóta rétthæðar skv. 3. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 111. gr. sömu laga.] 1)
    1)L. 35/2008, 1. gr.
15. gr. Staða í skuldaröð.
Nú er bú útgefanda tekið til gjaldþrotaskipta og skulu þá sértryggð skuldabréf njóta tryggingaréttinda í skuldabréfum og öðrum eignum í tryggingasafni og greiðslum sem mótteknar hafa verið vegna framangreindra eigna, enda hafi eignirnar verið færðar á skrá, sbr. VI. kafla laga þessara. Um eðli tryggingaréttindanna og fullnusturétt á sértryggðum skuldabréfum í eignunum skal farið samkvæmt reglum 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Nú leitar útgefandi nauðasamnings við lánardrottna sína og skulu þá sértryggð skuldabréf samkvæmt lögum þessum njóta stöðu í samræmi við reglur 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
16. gr. Umsýsla eigna.
Skiptastjóri í þrotabúi skal halda skuldabréfum og öðrum eignum í tryggingasafni samkvæmt lögum þessum aðgreindum frá öðrum eignum í þrotabúi útgefanda. Sama gildir um fjármuni og aðrar eignir sem koma í stað skuldabréfa og annarra eigna í tryggingasafni, eða greiðast vegna þeirra. Aðgreiningunni skal haldið þar til kröfur samkvæmt sértryggðum skuldabréfum hafa verið greiddar að fullu.
Skiptastjóri skal einnig halda afleiðusamningum og fjármunum sem greiðast vegna þeirra, eða greiða þarf úr tryggingasafni til gagnaðila að afleiðusamningi, aðgreindum frá öðrum eignum þrotabúsins.
17. gr. Samningsbundnar greiðslur.
Skiptastjóri og umsjónarmaður við nauðasamningsumleitanir skulu efna skuldbindingar útgefanda samkvæmt sértryggðum skuldabréfum og afleiðusamningum með skuldabréfum og öðrum eignum í tryggingasafni, og greiðslum af þessum eignum, enda séu eignirnar tilgreindar í skrá skv. VI. kafla.
Nú fær útgefandi heimild til greiðslustöðvunar og skal þá aðstoðarmaður við greiðslustöðvun, þrátt fyrir ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., tryggja að efndar séu skuldbindingar samkvæmt sértryggðum skuldabréfum og afleiðusamningum með verðmætum í tryggingasafni, staðgöngutryggingum og greiðslum sem koma til vegna þessara eigna.
18. gr. Mótteknar greiðslur.
Greiðslur, sem útgefandi tekur við eftir frestdag í samræmi við skilmála skuldabréfa eða annarra eigna í tryggingasafni vegna fullnustu á kröfum, þ.m.t. vegna efnda á afleiðusamningum, skal færa í skrá skv. VI. kafla.
19. gr. Riftun ráðstafana.
Ráðstafanir útgefanda, hvort sem um er að ræða afhendingu fjármuna í tryggingasafn, afhendingu staðgöngutrygginga í safnið, greiðslur af eignum í safninu eða ráðstöfun fjármuna úr safninu til réttra efnda á skuldabréfi sem sértryggt er í því, eða afleiðusamningi sem gerður hefur verið samkvæmt lögum þessum og tengist safninu, skulu ekki sæta riftun, sbr. XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hið sama á við um greiðslur til útgefanda samkvæmt afleiðusamningum sem hann hefur gert í samræmi við ákvæði laga þessara.
20. gr. Skiptakostnaður.
Skiptakostnaður, sbr. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., að því leyti sem hann fellur til vegna vinnu skiptastjóra við sértryggð skuldabréf, safn skuldabréfa og annarra eigna sem því eru til tryggingar, greiðslur vegna þessara eigna eða afleiðusamninga sem tengjast tryggingasafni, skal greiddur af eignum í tryggingasafni eða fjármunum sem koma í stað þeirra. Annar skiptakostnaður þrotabús greiðist ekki af eignum í tryggingasafni, nema að undangenginni fullnustu á sértryggðu skuldabréfi og efndum á afleiðusamningum sem safninu tengjast, sé um slíka samninga að ræða.

VIII. kafli. Eftirlit sjálfstæðs skoðunarmanns.
21. gr. Sjálfstæður skoðunarmaður.
Útgefandi skal skipa sjálfstæðan skoðunarmann til að hafa eftirlit með útgáfu sértryggðra skuldabréfa sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt leyfi fyrir. Fjármálaeftirlitið skal staðfesta skipun hans. Skoðunarmaður skal uppfylla þau hæfisskilyrði sem kveðið er á um í reglum [Seðlabanka Íslands] 1) skv. 8. tölul. 25. gr. Telji Fjármálaeftirlitið að skoðunarmaður uppfylli ekki hæfisskilyrði getur það afturkallað staðfestingu sína.
Þegar leitað er eftir staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á skipun skoðunarmanns skal útgefandi gera grein fyrir hugsanlegum tengslum hans við útgefanda og helstu fyrirsvarsmenn hans.
    1)L. 91/2019, 104. gr.
22. gr. Helstu verkefni skoðunarmanns.
Skoðunarmaður skal fylgjast með því að haldin sé skrá, sbr. VI. kafla laga þessara. Hann skal ganga úr skugga um að mat á veðtryggingum skuldabréfa í tryggingasafni byggist á réttri aðferð.
Skoðunarmaður skal veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar sem hann fær í starfi sínu svo oft og í því formi sem það ákveður og umfram það ef sérstök ástæða er til.
23. gr. Upplýsingaskylda. Þagnarskylda.
Útgefandi skal veita skoðunarmanni allar upplýsingar sem hann óskar eftir og varða útgáfu sértryggðra skuldabréfa og tryggingasafn. Skoðunarmaðurinn hefur rétt til að framkvæma þá athugun á gögnum í húsnæði útgefanda sem hann telur nauðsynlega til að fullnægja skyldum sínum.
[Á skoðunarmanni hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga gagnvart öðrum en Fjármálaeftirlitinu.] 1) Skoðunarmanni er heimilt að fá aðstoð ef verkefni hans er umfangsmikið. Sá sem er skoðunarmanni til aðstoðar skal einnig bundinn þagnarskyldu.
    1)L. 71/2019, 5. gr.

IX. kafli. Eftirlit og heimildir Fjármálaeftirlitsins.
24. gr. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið annast eftirlit með lögum þessum, þ.m.t. að útgefandi fylgi ákvæðum þessara laga og annarra reglna sem um starfsemi hans gilda. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
25. gr. [Reglur Seðlabanka Íslands.]1)
[Seðlabanki Íslands] 1) getur gefið út reglur 2) um:
    1. Efni áætlunar sem tilgreind er í 2. tölul. 2. mgr. 3. gr.
    2. Fasteignir sem tilgreindar eru í 1.–3. tölul. 1. mgr. 5. gr.
    3. Aðferð við mat á veðtryggingum skuldabréfa.
    4. Staðgöngutryggingar og hverjir geti verið skuldarar að kröfum sem nota má sem staðgöngutryggingar.
    5. Hvernig útgefandi skal uppfæra mat á markaðsvirði veðtrygginga.
    6. Skilmála og skilyrði fyrir afleiðusamningum og að auki skilyrði fyrir útreikningum á áhættum og vaxtagreiðslum.
    7. Skrá sem tilgreind er í VI. kafla.
    8. Hæfisskilyrði sjálfstæðs skoðunarmanns, sbr. VIII. kafla, skyldur hans og efni og form skýrslna sem hann gefur Fjármálaeftirlitinu.
    9. Ákvörðun kostnaðar sem tilgreindur er í 30. gr.
    1)L. 91/2019, 105. gr. 2) Rgl. 528/2008.
26. gr. Afturköllun leyfis til útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
Fjármálaeftirlitið skal afturkalla leyfi til að gefa út sértryggð skuldabréf ef útgefandinn:
    1. Hefur ekki gefið út hin sértryggðu skuldabréf, sem leyfið gerir ráð fyrir, innan árs frá útgáfu þess.
    2. Hefur lýst því yfir að hann muni ekki nýta sér heimild til útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
Í stað afturköllunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr., getur Fjármálaeftirlitið veitt útgefanda tiltekinn frest til útgáfunnar. Að liðnum fresti er afturköllun heimil, enda hafi útgáfan ekki farið fram.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að afturkalla leyfi til að gefa út sértryggð skuldabréf ef:
    1. Forsendur leyfis til útgáfu sértryggðra skuldabréfa breytast á þann veg að Fjármálaeftirlitið telur skilyrðum 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. ekki lengur fullnægt.
    2. Útgefandi brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
Áður en til afturköllunar skv. 3. mgr. kemur skal útgefanda veittur hæfilegur frestur til úrbóta, sé unnt að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.
27. gr. Afleiðingar afturköllunar.
Þegar leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa er afturkallað skal Fjármálaeftirlitið ákveða hvernig binda skuli enda á þá starfsemi útgefanda sem lög þessi taka til. Fjármálaeftirlitinu er meðal annars heimilt að tilnefna nýjan vörsluaðila tryggingasafns eða tryggingasafna útgefanda og grípa til þeirra ráðstafana sem það telur nauðsynlegar til að tryggja réttindi þeirra sem eiga sértryggð skuldabréf útgefin af þeim sem sviptur hefur verið leyfi.
28. gr. Útgáfa án heimildar.
Nú eru gefin út skuldabréf sem bera sömu einkenni og sértryggð skuldabréf samkvæmt lögum þessum án þess að aflað hafi verið leyfis Fjármálaeftirlitsins og skal það þá mæla fyrir um að slíkri starfsemi verði þegar hætt. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið með hvaða hætti skuli bundinn endi á slíka starfsemi.
Slík útgáfa hefur ekki þau réttaráhrif sem mælt er fyrir um í VII. kafla.
29. gr. Sérgreind tilkynningarskylda og bann við útgáfu.
Ef sá er hefur heimild til útgáfu sértryggðra skuldabréfa hyggst gefa út skuldabréf sem veita kröfuhöfum forgangsrétt til tiltekinna eigna útgefandans, með sambærilegum hætti og um útgáfu sértryggðra skuldabréfa væri að ræða, skal útgefandi, með tveggja mánaða fyrirvara, senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu um viðkomandi útgáfu þar sem fram koma sambærilegar upplýsingar og kallað er eftir í lögum þessum í umsókn um leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna slíka útgáfu ef það álítur hana stofna hagsmunum annarra lánardrottna í hættu.
30. gr. Kostnaður.
Útgefandi, eða eftir atvikum umsækjandi, skal greiða kostnað Fjármálaeftirlitsins við afgreiðslu umsóknar og útgáfu leyfis samkvæmt lögum þessum eftir gjaldskrá sem [birt skal] 1) í Stjórnartíðindum.
    1)L. 91/2019, 106. gr.

X. kafli. Viðurlög o.fl.
31. gr. Stjórnvaldssektir.
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
    1. 2. mgr. 7. gr. um að taka ekki á skrá skuldabréf í vanskilum.
    2. 9. gr. um reglubundið mat á markaðsvirði veðtryggðra eigna í tryggingasafni.
    3. 2.–4. mgr. 12. gr. um meðferð á tryggingasafni.
    4. 13. gr. um skyldu til að halda skrá og árita skuldabréf.
    5. 1. mgr. 23. gr. um upplýsingaskyldu.
    6. Sátt milli Fjármálaeftirlitsins og aðila, sbr. 32. gr.
Sektir sem lagðar eru á útgefanda geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. [Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.] 1) Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    1)L. 91/2019, 107. gr.
32. gr. Sáttir.
Hafi útgefandi gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. [Seðlabanki Íslands] 1) setur nánari reglur 2) um framkvæmd ákvæðisins.
    1)L. 91/2019, 108. gr. 2) Rgl. 326/2019.
33. gr. Frestur til að leggja á stjórnvaldssektir.
Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar sjö ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
34. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.