Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 989  —  626. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995 (lágmarksfjárhæð bóta).

Flm.: Indriði Ingi Stefánsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðbrandur Einarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldór Auðar Svansson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Í stað tölunnar „400.000“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 50.000.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að lágmarksfjárhæð bótagreiðslna eins og hún er ákvörðuð í 1. mgr. 7. gr. laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, verði lækkuð úr 400.000 kr. í 50.000 kr. Flutningsmenn telja núverandi lágmarksfjárhæð óþarfa hindrun gagnvart þeim þolendum afbrota sem eiga rétt á bótum vegna þeirra.
    Lágmarksbótafjárhæð skv. 1. mgr. 7. gr. laganna hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin, en þegar lögin tóku gildi 1. janúar 1996 var lágmarksfjárhæð bóta 10.000 kr. Hún var síðar hækkuð í 100.000 kr. með lögum nr. 144/1995 og svo í 400.000 kr. með lögum nr. 70/2009. Í báðum tilfellum voru breytingarnar gerðar vegna niðurskurðar í ríkisfjármálum. Hækkunin árið 2009 var ráðstöfun til að tryggja fjármögnun ríkisins vegna bankahrunsins. Allar aðrar ráðstafanir vegna þess hafa nú fallið niður og rétt er að færa umfang bótasjóðs í upprunalegt horf.
    Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um bætur til þolenda ofbeldisglæpa á 152. löggjafarþingi (þskj. 491., 104. mál) kom fram að sl. 10 ár hafa verið dæmdar bætur í um 900 málum. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um bótasjóð á yfirstandandi þingi (þskj. 406, 256. mál) kom fram að um helmingur þeirra umsókna sem berast til bótanefndar væri vegna kynferðisbrota og heimilisofbeldis. Þar kom einnig fram að um óverulegar fjárhæðir er að ræða fyrir ríkissjóð.
    Undanfarin ár hefur verið aukin vitundarvakning um afleiðingar afbrota á þolendur og flutningsmenn þessa frumvarps telja ótækt að leggja byrðar niðurskurðar á herðar þeirra, sérstaklega þeirra viðkvæmu hópa sem eru þar í meiri hluta. Um er að ræða óverulegar fjárhæðir fyrir ríkissjóð, en þó fjárhæðir sem skipt geta einstaklinga í viðkvæmri stöðu miklu máli. Ljóst er að tryggja ætti frekari aðkomu ríkisins til þess að draga úr skaðlegum áhrifum afbrota á þolendur. Því er lagt til að hækka lágmarksfjárhæð bóta til þolenda afbrota, líkt og löggjafinn lagði upp með þegar lögin voru sett.