Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1016  —  646. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2022.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) bar á árinu 2022 hæst þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var í Nuuk 11.–13. september, en vegna innrásar Rússa í Úkraínu var Rússum ekki boðin þátttaka í ráðstefnunni. Innrás Rússlands í Úkraínu var einnig í brennidepli og starf þingmannanefndar um norðurskautsmál án þátttöku Rússa eftir 24. febrúar þegar Rússar hófu ólögmæta innrás í Úkraínu.
    Hinn 8. mars sendi þingmannanefndin frá sér yfirlýsingu varðandi stríðið í Úkraínu þar sem kemur fram að friðsamlegt samstarf á norðurslóðum sé nauðsynleg forsenda fyrir starfi þingmannanefndar um norðurskautsmál. Tilefnislaus innrás Rússlands í Úkraínu hafi skapað nýjan og alvarlegan veruleika í alþjóðasamfélaginu sem kalli á endurskoðun diplómatískra samskipta. Þess vegna geri þingmannanefnd um norðurskautsmál tímabundið hlé á starfi sínu en fylgist áfram náið með þróun mála á svæðinu með friðsamlega hagsmuni ríkja og íbúa norðurslóða í huga. Rússland studdi ekki yfirlýsinguna og lýsti yfir óánægju með ákvörðun nefndarinnar sem þeir töldu brjóta gegn eigin starfsreglum. Nefndin komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að samkvæmt starfsreglum nefndarinnar gætu nefndarmenn fundað að eigin vild án þátttöku Rússa.
    Nefndarmenn voru sammála um að samstarf þingmanna á norðurslóðum og í Norðurskautsráðinu gæti ekki verið með hefðbundnu sniði sökum stríðsins í Úkraínu en að þrátt fyrir stríðið og afleiðingar þess væri nauðsynlegt að halda áfram að vinna að mikilvægum málum á svæðinu eins og baráttunni gegn loftslagsbreytingum, bættum lífskjörum og réttindum frumbyggja og sjálfbærri þróun. Því var tekin ákvörðun um að halda ráðstefnu án þátttöku Rússa í Nuuk í september sem bar yfirskriftina Ráðstefna þingmanna á norðurslóðum – norrænt og norðuramerískt samstarf. Þrjú meginþemu voru þar til umræðu, í fyrsta lagi var sjónum beint að mannlífi á norðurslóðum, í öðru lagi að loftslagsbreytingum á norðurslóðum og í þriðja lagi efnahagslegri sjálfbærni á norðurslóðum.
    Niðurstöður ráðstefnunnar voru m.a. að lögð skyldi áhersla á mikilvægi þess að réttindi frumbyggja væru virt og viðurkennd, þar á meðal tilmæli frá heimskautaráði Inúíta, ICC, og Samaþinginu. Jafnframt að brýnt væri að byggja upp frumkvöðlahugsun meðal ungs fólks á norðurslóðum, skapa tækifæri til menntunar og góð starfsskilyrði til að tryggja samkeppnishæfni vinnuafls á svæðinu. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu áherslu á nauðsyn þess að efla aðgerðir á sviði geðheilbrigðis með áherslu á forvarnir gegn sjálfsvígum, kynferðislegri misnotkun á börnum og misnotkun áfengis. Jafnframt bentu þau á mikilvægi þess að leitast yrði við að auka hæfni og aðgengi afskekktra samfélaga að stafrænni þróun. Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi hjá þingmannanefndinni má nefna aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu (NATO), lýðræði, forystu kvenna og kvikmyndagerð á norðurslóðum.
    Í upphafi árs 2022 gætti enn áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru og fóru fundir fram á rafrænu formi. Nefndarmenn deildu upplýsingum um áhrif heimsfaraldursins og þær áskoranir sem fámenn svæði norðurslóða glíma við í baráttunni gegn honum. Þá voru nefndarmenn sammála um að baráttan við heimsfaraldur hefði varpað ljósi á mikilvægi samstöðu og alþjóðlegs samstarfs á norðurslóðum. Þá var nýtt vefsvæði og Facebook-síða þingmannanefndarinnar tekin í notkun á árinu og aukin áhersla lögð á miðlun upplýsinga á veraldarvefnum og stafræna tækni í störfum nefndarinnar.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR).
    Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál ( Conference of Parliamentarians of the Arctic Region, CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál ( Standing Committee of Parliamentarians of the Arctic Region, SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti.
    Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök þingmanna, frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Einnig hefur sérstök áhersla verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð íbúa norðursins. Enn fremur er rík áhersla lögð á að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði í alþjóðasamskiptum. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar.
    Áhersla hefur verið lögð á verkefni sem snúa að ýmsum málum sem snerta forgangsverkefni Norðurskautsráðsins, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið unnar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Þrír lagalega bindandi samningar hafa verið gerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins. Sá fyrsti var undirritaður af aðildarríkjunum á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011, um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Segja má að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við fyrirsjáanlega aukinni umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, sem og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Annar samningurinn var undirritaður á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013, um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi, og sá þriðji árið 2017, um aukið alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum.
    Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 20. maí 2021 undirrituðu utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna metnaðarfulla ráðherrayfirlýsingu þar sem send eru skýr skilaboð um mikilvægi umhverfisverndar og rík áhersla lögð á að sporna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við afleiðingum þeirra, en jafnframt eru sjálfbærri samfélags- og efnahagsþróun gerð góð skil. Eining um öfluga yfirlýsingu var sérstaklega mikilvæg að þessu sinni þar sem ekki tókst að ná samstöðu um ráðherrayfirlýsingu á ráðherrafundinum í Rovaniemi 2019. Þá náðu ráðherrarnir samkomulagi um framtíðarstefnu fyrir Norðurskautsráðið til næstu tíu ára. Þetta var í fyrsta skipti sem slík framtíðarstefna er samþykkt en að því hefur verið stefnt síðan ráðherrarnir kölluðu eftir því á fundi sínum í Fairbanks árið 2017. Framtíðarstefnan skilgreinir sjö markmið og tilgreinir nokkrar aðgerðir undir hverju þeirra sem miða að því að vinna að framgangi hvers markmiðs. Þess er vænst að framtíðarstefnan auki stefnufestu í störfum ráðsins umfram þá leiðsögn til tveggja ára sem hver formennskuáætlun hefur veitt hingað til.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Árið 2022 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, þingflokki Flokks fólksins, og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingflokki Flokks fólksins, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Óli Björn Kárason, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.
    Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum og ráðstefnu var undirbúin og starf nefndarinnar rætt.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál árið 2022.
    Á venjubundnu ári kemur þingmannanefndin saman til funda þrisvar sinnum á ári. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru fóru fundir fram sem fjarfundir og vegna stríðsins í Úkraínu voru þeir aðeins tveir. Formaður Íslandsdeildar tók þátt í báðum fundunum og öll Íslandsdeild tók þátt í ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem fór fram í Nuuk. Jafnframt kynnti formaður starf þingmannanefndar á ráðstefnu á Akureyri í mars. Ráðstefnan var liður í vinnu við gerð aðgerðaáætlunar um framkvæmd stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem var samþykkt með þingsályktun 19. maí 2021.

Fjarfundur þingmannanefndar um norðurskautsmál 10. febrúar 2022.
    Fjarfundur þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) var haldinn 10. febrúar. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning næstu ráðstefnu nefndarinnar, sem fyrirhugað er að halda í Nuuk í byrjun september, og vinna við yfirlýsingu ráðstefnunnar. Þá var rætt um starfið fram undan og stöðu ríkjanna á tímum heimsfaraldurs. (Sjá fylgiskjal I.)

Fjarfundur þingmannanefndar um norðurskautsmál 12. maí 2022.
    Fjarfundur þingmannanefndar um norðurslóðamál var haldinn 12. maí. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru umræða um starf þingmannanefndar um norðurskautsmál án þátttöku Rússa vegna stríðsins í Úkraínu og skipulagning ráðstefnu sem fyrirhugað er að halda í Nuuk í byrjun september nk. Grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen boðaði til fundarins og stýrði honum. (Sjá fylgiskjal II.)

Ráðstefna þingmanna um norðurskautsmál í Nuuk 11.–13. september 2022.
    Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál var haldin 11.–13. september 2022 í Nuuk og var danska þingið í gestgjafahlutverki. Ráðstefnan fór fram án þátttöku Rússa þar sem starf Norðurskautsráðsins og þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál hefur verið stöðvað tímabundið vegna ólögmætrar innrásar Rússa í Úkraínu. Ráðstefnan bar yfirskriftina Ráðstefna þingmanna á norðurslóðum – norrænt og norðuramerískt samstarf (e. Arctic Parliamentarian Summit – Nordic and North American Collaboration). Helstu málefni á dagskrá voru loftslagsbreytingar, sjálfbær efnahagsþróun og mannlíf á norðurslóðum. Einnig fóru fram pallborðsumræður um geðheilbrigðismál, lýðræði, forystu kvenna og kvikmyndagerð á norðurslóðum. Þá voru kynnt verkefni og áhersluatriði Grænlands í málefnum norðurslóða. (Sjá fylgiskjal III.)

Alþingi, 2. febrúar 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Eyjólfur Ármannsson,
varaform.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.


Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af fjarfundi þingmannanefndar um norðurslóðamál 10. febrúar 2022.


    Fjarfundur þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) var haldinn 10. febrúar. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning næstu ráðstefnu nefndarinnar, sem fyrirhugað er að halda í Nuuk í byrjun september, og vinna við yfirlýsingu ráðstefnunnar. Þá var rætt um starfið fram undan og stöðu ríkjanna á tímum heimsfaraldurs. Grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen, formaður þingmannanefndarinnar, stýrði fundinum og bauð nýja fulltrúa velkomna en kosningar höfðu farið fram í fjórum af aðildarríkjunum átta frá síðasta fundi nefndarinnar.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning formannsins, Aaju Chemnitz Larsen, á störfum nefndarinnar frá síðasta fundi sem var haldinn rafrænt í apríl 2021. Larsen greindi frá því að hún hefði sent bréf til utanríkisráðherra aðildarríkjanna um yfirlýsingu síðustu ráðstefnu CPAR sem haldin var rafrænt í apríl 2021. Þá ætli hún að fylgja bréfinu eftir síðar og spyrja um stöðuna varðandi framkvæmd ráðstefnuyfirlýsingarinnar. Er það gert að fyrirmynd Íslandsdeildar þingmannanefndarinnar sem sendi árið 2018 yfirlýsingu ráðstefnunnar í Inari til utanríkisráðuneytis Íslands og óskaði eftir upplýsingum um stöðu framkvæmdar einstakra liða yfirlýsingarinnar. Ráðuneytið brást vel við beiðninni og sendi Íslandsdeild upplýsingar um stöðu 37 liða af 43. Markmiðið með þeirri vinnu var að fá betri yfirsýn yfir starf nefndarinnar og hvaða vinna hefði skilað sér til Norðurskautsráðsins. Þá getur framtakið nýst í starfi nefndarinnar, m.a. við gerð ráðstefnuyfirlýsinga, til að koma í veg fyrir endurtekningar og til að sjá hverjar af tillögum nefndarinnar eru sýnilegar í yfirlýsingu Norðurskautsráðsins.
    Larsen kynnti einnig nýtt vefsvæði og Facebook-síðu fyrir nefndarmönnum. Hún sagðist ætla að verja 30% af vinnutíma sínum í að sinna formennsku í þingmannanefndinni og óskaði eftir hugmyndum frá nefndarmönnum um það hvernig gera mætti starf nefndarinnar sýnilegra, t.d. á samfélagsmiðlum. Þá sagði hún frá fundi sem nefndin hefði staðið fyrir í tengslum við Hringborð norðurslóða sem fór fram í Reykjavík í október 2021. Enn fremur hefðu þingmenn norðurslóða og Efnahagsráðs norðurslóða skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að treysta samstarf sem vinnur að sjálfbærri, mannlegri og efnahagslegri þróun á norðurslóðum. Jafnframt hefði þingmannanefndin boðið börnum á aldrinum 14–16 ára á norðurslóðum að taka þátt í ritgerðasamkeppni um geðheilbrigði.
    Annað mál á dagskrá var umræða um skipulagningu næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem fyrirhugað er að halda í Nuuk á Grænlandi 2.–5. september 2022. Formaður nefndarinnar lagði til að þrjú þemu yrðu til umræðu: í fyrsta lagi þjóðir norðurslóða, í öðru lagi loftslagsbreytingar á norðurslóðum og í þriðja lagi efnahagsleg sjálfbærni á norðurslóðum. Þá greindi hún frá því að ráðstefnunni yrði streymt á YouTube og að formlegt boð og frekari upplýsingar yrðu sendar út í lok maí nk.
    Að lokum ræddu nefndarmenn stöðu mála í aðildarríkjunum með áherslu á heimsfaraldur kórónuveiru. Larsen sagði frá skipun nýrrar ríkisstjórnar á Grænlandi og að Danmörk hefði gefið út nýja stefnu í utanríkismálum. Hún sagðist vonast til þess að spenna í öryggismálum í öðrum heimshlutum myndi ekki hafa áhrif á norðurslóðir. Enn fremur að meiri hætta virtist vera á flóðbylgjum (e. tsunami) af völdum loftslagsbreytinga en áður á ákveðnum hluta Grænlands. Þá sagði hún að um 75% Grænlendinga væru bólusett gegn COVID-19. Kanadíska þingkonan Yvonne Jones sagði ástandið í landinu varðandi COVID-19 fara batnandi og um 90% íbúa væru bólusett og 80% fullbólusett. Þá væri gott samstarf við samtök frumbyggja í Kanada.
    Finnland hefur samþykkt nýja norðurslóðastefnu til ársins 2030. Þar er áhersla lögð á náttúruvernd, réttindi frumbyggja og ýmsar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Einnig er sjónum beint að ferðaþjónustu á norðurslóðum og málefnum Sama. Þá stefnir Finnland að því að aflétta ýmsum takmörkunum vegna COVID-19 á næstunni en um 80% íbúa þar eru bólusett.
    Rússland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu þar til í maí 2023 og leggur megináherslu á fjögur atriði í formennskuáætlun. Í fyrsta lagi fólkið á norðurslóðum, þar á meðal frumbyggja, en áhersla verður lögð á að efla sjálfbærni, seiglu og lífvænleika norðurskautssamfélaganna og aðlögunaraðgerðir vegna loftslagsbreytinga, auk vellíðanar, bættrar heilsu, menntunar og lífsgæða íbúa norðurskautsins. Í öðru lagi er lögð áhersla á umhverfisvernd, þ.m.t. aðgerðir vegna loftslagsbreytinga. Haldið verður áfram með það verkefni að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra. Í þriðja lagi er áhersla lögð á félags- og efnahagsþróun, m.a. að efla efnahagslegt samstarf á svæðinu, þróun orkuinnviða og sjálfbærar flutningaleiðir, þ.m.t. siglingar. Í fjórða lagi að efla Norðurskautsráðið og halda áfram að styðja við ráðið sem leiðandi vettvang fyrir alþjóðlegt norðurskautssamstarf. Jafnframt hafa Rússar viðurkennt fiskveiðiréttindi Sama á rússnesku hafsvæði.
    Öldungadeildarþingkonan Lisa Murkowski og varaformaður nefndarinnar greindi frá því að bólusetning gengi vel í Bandaríkjunum. Hún sagði neikvæð efnahagsáhrif faraldursins mikil og sérstaklega í dreifbýli. Félagsleg einangrun væri vaxandi vandamál og spenna ríkti í ferðamannageiranum. Enn fremur sagði hún nýja ríkisstjórn Joes Bidens horfa til þeirrar stefnu sem ríkisstjórn Obama mótaði þar sem mikil áhersla hefði verið lögð á aðgerðir vegna loftslagsbreytinga. Það að John F. Kerry hefði verið skipaður sérlegur erindreki Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum og að Bandaríkin væru aftur orðin aðili að Parísarsáttmálanum væri skýrt merki um aukna áherslu á málaflokkinn.
    Líneik Anna Sævarsdóttir, nýr formaður Íslandsdeildar, greindi frá niðurstöðum kosninga til Alþingis sem fóru fram 25. september sl. og skipan ríkisstjórnar. Þá sagði hún frá nýrri stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem var samþykkt sem þingsályktun 19. maí 2021. Áhersluatriði stefnunnar eru m.a. að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða, styðji áfram við Norðurskautsráðið og kynni það sem mikilvægasta samráðs- og samstarfsvettvanginn um málefni sem snerta norðurslóðir. Einnig er mikil áhersla lögð á að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
    Líneik sagði jafnframt frá því að Ísland hefði lokið formennskutímabili sínu í Norðurskautsráðinu og Rússland tekið við formennskunni á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem fram fór í Reykjavík 20. maí 2021. Á fundinum í Reykjavík hefðu norðurskautsráðherrarnir skrifað undir metnaðarfulla ráðherrayfirlýsingu sem gæfi skýr skilaboð um mikilvægi umhverfisverndar og ríka áherslu á að berjast gegn loftslagsbreytingum og bregðast við afleiðingum þeirra. Sterk yfirlýsing sem þessi væri sérstaklega mikilvæg þar sem ekki hefði náðst samstaða um yfirlýsingu ráðherra á ráðherrafundinum í Rovaniemi 2019. Jafnframt komust ráðherrarnir að samkomulagi um framtíðarstefnu fyrir Norðurskautsráðið til næstu tíu ára. Var það í fyrsta skipti sem áætlun um slíka framtíðarstefnu hefur verið samþykkt, en ráðherrarnir kölluðu fyrst eftir henni á fundi sínum í Fairbanks árið 2017.
    Einnig vakti Líneik athygli nefndarmanna á útgáfu skýrslu um jafnréttismál á norðurslóðum sem unnin var í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu. Skýrslan tekur saman efni, upplýsingar og sérfræðiþekkingu til að veita yfirsýn yfir kynbundin málefni á norðurslóðum og stuðlar að því að fylla upp í þekkingareyður um efnið. Í skýrslunni er leitast við að bera kennsl á ný viðfangsefni, forgangsröðun og aðferðir sem styðja við kynjajafnvægi og aukinn fjölbreytileika. Að lokum greindi Líneik frá því að íslensk stjórnvöld ætluðu að aflétta öllum innlendum höftum vegna COVID-19 fyrir miðjan mars 2022 og að 77% þjóðarinnar væru bólusett.


Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af fjarfundi þingmannanefndar um norðurslóðamál 12. maí 2022.


    Fjarfundur þingmannanefndar um norðurslóðamál var haldinn 12. maí. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru umræða um starf þingmannanefndar um norðurskautsmál án þátttöku Rússa vegna stríðsins í Úkraínu og skipulagning ráðstefnu sem fyrirhugað er að halda í Nuuk í byrjun september nk. Grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen boðaði til fundarins og stýrði honum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning formanns nefndarinnar, Aaju Chemnitz Larsen, á störfum stjórnarnefndar þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) frá síðasta fundi sem var haldinn rafrænt í febrúar 2022. Larsen ræddi yfirlýsingu nefndarinnar frá 8. mars 2022 varðandi stríðið í Úkraínu. Í yfirlýsingunni segir að friðsamlegt samstarf á norðurslóðum sé nauðsynleg forsenda fyrir starfi stjórnarnefndar þingmannanefndar um norðurskautsmál. Tilefnislaus innrás Rússlands í Úkraínu hafi skapað nýjan og alvarlegan veruleika í alþjóðasamfélaginu sem kalli á endurskoðun diplómatískra samskipta. Þess vegna gerir stjórnarnefnd þingmannanefndar um norðurskautsmál tímabundið hlé á starfi sínu og fylgist áfram náið með þróun mála á svæðinu með friðsamlega hagsmuni ríkja og íbúa norðurslóða í huga, sérstaklega frumbyggja á norðurslóðum. Rússland styður ekki yfirlýsinguna.
    Larsen benti á að samkvæmt starfsreglum nefndarinnar, 9. lið, 2. hluta, geti nefndarmenn fundað einslega og að eigin vild án þátttöku Rússa. Hún lagði til að nefndin héldi fyrirhugaða ráðstefnu í Nuuk í september, þar sem danska þingið yrði í gestgjafahlutverki, án aðkomu Rússa. Ráðstefnan fengi nýtt nafn, t.d. Leiðtogafundur þingmanna á norðurslóðum – norrænt og norðuramerískt samstarf (e. Arctic Parliamentarian Summit – Nordic and North American Collaboration). Nefndarmenn samþykktu tillögu formanns og voru sammála um mikilvægi þess að halda ráðstefnuna í haust í Nuuk. Drög að dagskrá og frekari upplýsingar verða sendar nefndinni þegar dagsetning hefur verið staðfest.
    Jafnframt lagði Larsen til að nefndin skrifaði rússnesku landsdeildinni bréf þar sem hún yrði upplýst um það að haldin yrði ráðstefna án þátttöku Rússa og að það rúmaðist innan starfsreglna nefndarinnar. Þessi samskipti væru eingöngu til að upplýsa rússnesku landsdeildina um að samstarf héldi áfram án þátttöku Rússa en væru ekki pólitískar samningaviðræður. Þá lagði hún til að þrjú þemu yrðu til umræðu: Í fyrsta lagi mannlíf á norðurslóðum, í öðru lagi loftslagsbreytingar á norðurslóðum og í þriðja lagi efnahagsleg sjálfbærni á norðurslóðum. Þingmenn samþykktu tillögu Larsen um að rússneska landsdeildin yrði upplýst með bréfi frá formanni um að í núverandi ástandi héldi samstarf áfram án þátttöku Rússa. Jafnframt samþykkti fundurinn þemu fyrir fyrirhugaða ráðstefnu í Nuuk í september nk.
    Að lokum ræddu þingmenn núverandi ástand á norðurslóðum og voru sammála um það að samstarf þingmanna á norðurslóðum og í Norðurskautsráðinu gæti ekki verið með hefðbundnu sniði sökum stríðsins í Úkraínu. Rússlandi yrði ekki treyst nema algjör breyting ætti sér stað. Þrátt fyrir stríðið í Úkraínu og afleiðingar þess væri nauðsynlegt að halda áfram að vinna að mikilvægum málum á norðurslóðum eins og baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir bættum lífskjörum og réttindum frumbyggja og sjálfbærri þróun.
    Aaja Chemnitz Larsen var kjörin formaður nefndarinnar í apríl 2021 ásamt varaformanni nefndarinnar, öldungadeildarþingkonunni Lisu Murkowski. Þar sem gert var hlé á starfsemi nefndarinnar vegna stríðsins í Úkraínu og ljóst var að ekki myndu allir nefndarmenn geta sótt ráðstefnuna í Nuuk í september, m.a. vegna kosninga, lagði formaður til að umboð formanns og varaformanns yrði framlengt þar til unnt yrði að halda ráðstefnu með fullri þátttöku nefndarmanna. Hið sama ætti við um umboð framkvæmdastjóra nefndarinnar, Peders Pedersens frá danska þinginu, sem var kosinn til starfsins í ágúst 2020. Næsta kjörtímabil myndi standa yfir þar til í ágúst–september árið 2024 þegar ætlunin væri að sænska þingið héldi næstu ráðstefnu nefndarinnar. Samþykktu nefndarmenn tillögu formanns.
    Næst á dagskrá var umræða um núverandi stöðu í aðildarríkjunum á norðurslóðum. Kanadíska þingkonan Yvonne Jones sagði Kanada styðja Úkraínu fjárhagslega og taka á móti flóttamönnum. Þá væri verið að endurskoða og styrkja stefnu Kanada í varnarmálum á norðurslóðum. Mikill ótti væri meðal almennings út af núverandi ástandi og stríðinu í Úkraínu og fullur stuðningur við umsókn Svíþjóðar og Finnlands um aðild að NATO. Aaja Chemnitz Larsen sagði Grænland og Danmörku vinna að nýjum samningi um varnarmál á norðurslóðum. Hún sagði Grænland hafa sína eigin stefnu í málefnum norðurslóða og að Danmörk væri að endurskoða sína stefnu.
    Finnski þingmaðurinn Mikko Kärnä sagði umsókn Finnlands um aðild að NATO vera í brennidepli þessa dagana og að tekin yrði ákvörðun um inngöngu Finnlands næstu daga. Mikill meiri hluti landsmanna styddi aðildarumsóknina, auk þess sem þjóðin styddi 100% við málstað Úkraínu. Þá þakkaði hann varaformanni nefndarinnar, Murkowski, sérstaklega fyrir að styðja málstað Finna á erfiðum tímum. Sænski þingmaðurinn Mattias Karlsson tók í sama streng og Kärnä og sagði aðildarumsókn Svíþjóðar að NATO vera efsta á baugi í umræðunni. Hann sagði það ríkjandi skoðun að aðild að NATO væri jákvætt skref fyrir Svíþjóð. Þá færu fram þingkosningar í landinu í september nk.
    Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður Íslandsdeildar, skýrði frá því að Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, hefði 6. maí sl. ávarpað Alþingi, forseta Íslands og ríkisstjórnina í beinni útsendingu. Í kjölfarið hefði forsætisráðherra ítrekað stuðning Íslands við Úkraínu sem hefði frá upphafi fordæmt tilefnislausa innrás Rússa í Úkraínu og lýst opinberlega yfir eindregnum stuðningi við úkraínsku þjóðina og ríkisstjórn landsins. Ísland tæki fullan þátt í alþjóðlegum refsiaðgerðum gegn Rússlandi, styddi mannúðarstarf Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana í Evrópu og tæki á móti úkraínskum flóttamönnum.
    Þá sagði Líneik frá nýrri stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem hefði verið samþykkt sem þingsályktun 19. maí 2021 og byggðist á tillögu þingmannanefndar sem skipuð var til að endurskoða stefnu Íslands frá árinu 2011. Verið væri að innleiða stefnuna og vinna aðgerðaáætlun til að hrinda henni í framkvæmd. Í því ferli hefði hún haldið kynningu á samstarfi þingmannanefndar um norðurslóðamál á ráðstefnu á Akureyri í mars sl. Enn fremur greindi Líneik frá því að sveitarstjórnarkosningar færu fram á Íslandi 14. maí nk.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af ráðstefnu um norðurskautsmál 13.–14. september í Nuuk 2022.


    Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál var haldin 11.–13. september 2022 í Nuuk og var danska þingið í gestgjafahlutverki. Ráðstefnan fór fram án þátttöku Rússa þar sem starf Norðurskautsráðsins og þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál hefur verið stöðvað tímabundið vegna ólögmætrar innrásar Rússa í Úkraínu. Ráðstefnan bar yfirskriftina Ráðstefna þingmanna á norðurslóðum – norrænt og norðuramerískt samstarf (e. Arctic Parliamentarian Summit – Nordic and North American Collaboration). Helstu málefni á dagskrá voru loftslagsbreytingar, sjálfbær efnahagsþróun og mannlíf á norðurslóðum. Einnig fóru fram pallborðsumræður um geðheilbrigðismál, lýðræði, forystu kvenna og kvikmyndagerð á norðurslóðum. Þá voru kynnt verkefni og áherslur Grænlendinga í málefnum norðurslóða. Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður Íslandsdeildar, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, og Berglind Ósk Guðmundsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Ráðstefnan hófst á því að gestir voru ávarpaðir og boðnir velkomnir af grænlensku þingkonunni Aaju Chemnitz Larsen, formanni þingmannanefndarinnar. Hún lagði áherslu á mikilvægi áframhaldandi samstarfs á norðurslóðum, þrátt fyrir að Rússar tækju ekki þátt í samstarfinu að sinni. Nauðsynlegt væri að beina sjónum að loftslagsbreytingum og mannlífsþróun auk alþjóðlegrar samvinnu og þess að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu. Einnig ávörpuðu ráðstefnuna með fjarfundarbúnaði utanríkisráðherra Danmerkur, Jeppe Kofod, og forsætisráðherra Grænlands, Múte B. Egede, auk þess sem Sara Olsvig, formaður heimskautaráðs Inúíta (e. Inuit Circumpolar Council, ICC), hélt erindi og svaraði spurningum ráðstefnugesta.
    Ráðstefnan skiptist í þrjá hluta og var sá fyrsti tileinkaður umfjöllun um mannlíf á norðurslóðum, annar var um loftslagsbreytingar og þriðji hluti var tileinkaður umfjöllun um sjálfbæra efnahagsþróun á norðurslóðum. Í umræðum um mannlíf á norðurslóðum var lögð áhersla á réttindi frumbyggja, varðveislu menningararfleifðar þeirra og mikilvægi þess að þeir hefðu rödd. Sjónarhorn þeirra þyrfti að koma fram og það mætti m.a. gera með því að auka sýnileika þeirra í fjölmiðlum og kvikmyndum. Upplifun og sjónarhorn frumbyggja þyrfti að njóta aukins sannmælis og viðurkenningar. Jafnframt var rætt um leiðir til að yfirstíga miklar fjarlægðir milli samfélaga á norðurslóðum. Kynntar voru leiðir til að byggja upp dreifbýlissamfélög með bættum nettengingum svo að efla mætti fjarheilbrigðis- og velferðarþjónustu sem og rafræna námsmöguleika á Grænlandi. Eyjólfur Ármannsson benti á mikilvægi þess að styðja við varðveislu og þróun tungumála frumbyggja. Enn fremur væri brýnt að auka aðgengi að fjarkennslu og stafrænni tækni á norðurslóðum.
    Í umræðum um loftslagsbreytingar var lögð áhersla á nauðsyn þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á norðurslóðum og auka notkun grænna og endurnýjanlegra orkugjafa. Auka þyrfti fjármagn til loftslagsrannsókna og stuðla að þátttöku frumbyggja í alþjóðlegum samningaviðræðum í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Í umræðum um sjálfbæra efnahagsþróun á norðurslóðum var áhersla lögð á mikilvægi þess að íbúar norðurslóða yrðu í forystu við að leita lausna við nýtingu grænna og endurnýjanlegra orkugjafa fyrir sín samfélög sem nýst gætu víða um heim. Nú þegar væri framkvæmd hafin á verkefnum á Grænlandi, t.d. við frekari nýtingu vatnsafls, tilraunir með sólarrafhlöður og ræktun grænmetis í gróðurhúsum í Nuuk. Einnig voru kynntar hugmyndir um hvernig nýta mætti „jöklamjöl“ til áburðar.
    Líneik Anna Sævarsdóttir hélt erindi um geðheilbrigði og forvarnir með áherslu á „íslenska módelið“, auk þess sem hún nefndi vinnu við lagasetningu um farsæld barna og við geðheilbrigðisstefnu til 2030. Hún lagði áherslu á mikilvægi fjölbreyttra verkefna sem stuðla að geðheilbrigði. Hún sagði geðheilbrigði einstaklinga snúast um öll samskipti í samfélaginu, ekki síst samskipti í fjölskyldum og aðgang þeirra að samþættri þjónustu heilbrigðiskerfis, skóla og félagsþjónustu. Viðhald og efling geðheilbrigðis væri viðvarandi áskorun þó að vaxandi umræða hefði átt sér stað um geðheilbrigðismál á síðustu árum. Markmiðið væri að allir einstaklingar væru virkir í samfélaginu og upplifðu það daglega að þeir tilheyrðu því samfélagi sem þeir væru hluti af. Hún sagði víða tækifæri til úrbóta og nefndi í því sambandi íslenska módelið, sem var hannað fyrir 25 árum með það að markmiði að draga úr vímuefnaneyslu unglinga. Módelið byggðist á þeirri forsendu að áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir vímuefnaneyslu unglinga væri að veita þeim upplýsingar, stuðning og tækifæri. Líneik sagði módelið hafa skilað góðum árangri á Íslandi, það væri í notkun í fleiri löndum og að hún væri sannfærð um að það gæti einnig skilað árangri víðar á norðurslóðum.
    Undir lok ráðstefnunnar kynnti Larsen samantekt sína af fundinum. Í henni lagði hún m.a. áherslu á að réttindi frumbyggja væru virt og viðurkennd, þar á meðal tilmæli frá heimskautaráði Inúíta, ICC, og Samaþinginu. Enn fremur sagði hún brýnt að efla aðgerðir á sviði geðheilbrigðis með áherslu á forvarnir gegn sjálfsvígum, kynferðislegri misnotkun á börnum og misnotkun áfengis. Jafnframt væri brýnt að byggja upp frumkvöðlahugsun meðal ungs fólks á norðurslóðum, skapa tækifæri til menntunar og góð starfsskilyrði til að tryggja samkeppnishæfni vinnuafls á svæðinu. Mikilvægt væri að leitast yrði við að styrkja hæfni afskekktra samfélaga með stafrænni þróun.
    Að lokum var þátttakendum boðið til næstu ráðstefnu þingmannanefndar um norðurskautsmál sem fyrirhugað er að halda árið 2024 í Svíþjóð. Þingmannanefnd um norðurskautsmál fundaði ekki í tengslum við ráðstefnuna en næsti fundur hennar verður haldinn í Bandaríkjunum fyrri hluta árs 2023.