Ferill 804. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1239  —  804. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028.


Frá forsætisráðherra.    Alþingi ályktar að fram til ársins 2028 skuli unnið að eflingu barnamenningar í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun. Tekið skuli mið af aðgerðaáætluninni við gerð fjárlaga og fjármálaáætlunar fyrir árin 2024–2028, sbr. lög um opinber fjármál.

I. FRAMTÍÐARSÝN, MARKMIÐ OG ÁHERSLUR

    Menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs verði veigamikil atriði í uppvexti og skólastarfi barna og ungmenna. Starfsemi á þessu sviði endurspegli fjölbreytta samsetningu þjóðarinnar og þá alþjóðlegu menningu sem býr í íslensku samfélagi.
    Markmið aðgerðaáætlunar þessarar verði í fyrsta lagi að auka samhæfingu og efla stefnumótun á sviði barnamenningar, í öðru lagi að auka framboð lista, menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni og í þriðja lagi að festa í sessi starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Íslands.

II. AÐGERÐAÁÆTLUN FYRIR ÁRIN 2024–2028

    Lögð verði megináhersla á að börn og ungmenni verði virkir þátttakendur í íslensku menningarlífi og barnamenning stór hluti þess.
    Áhersla verði lögð á eftirfarandi viðfangsefni sem greinast í aðgerðir:
       A.      Stefnumótun, stjórnsýsla og framkvæmd verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna og ungmenna.
       B.      Framboð lista, menningar og listfræðslu fyrir börn og ungmenni.
       C.      Barnamenningarsjóður Íslands.

A. Stefnumótun, stjórnsýsla og framkvæmd verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna og ungmenna.
A.1. Samráðsvettvangur um menningu og listsköpun barna og ungmenna.
    Ráðherra sem fer með menningarmál skipi samráðsvettvang ráðuneyta, sveitarfélaga, menningarstofnana og annarra hagaðila um gerð tillögu um stefnumótun og stjórnsýslu verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna og ungmenna. Í tillögum samráðsvettvangsins verði m.a. lögð áhersla á samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana og miðstöðva listgreina annars vegar og við skólastarf hins vegar.
          Mælikvarði: Ráðherra skipi samráðsvettvang vorið 2023 sem skili tillögum að stefnu um samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana, miðstöðva listgreina og starfsemi skólaþjónustu til farsældar barna í lok ársins 2024.
          Kostnaðaráætlun: Innan fjárhagsramma ráðuneytis.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, Listaháskóli Íslands, miðstöðvar listgreina, Miðstöð barnamenningar, Reykjavíkurborg, RÚV, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landshlutasamtök sveitarfélaga, List fyrir alla, stofnanir sviðslista og tónlistar auk höfuðsafna.

A.2. Miðstöð barnamenningar.
    Miðstöð barnamenningar verði komið á fót og starfræki barnamenningarverkefnið List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Íslands. Ráðherra sem fer með menningarmál skipi fimm manna stjórn miðstöðvarinnar til fjögurra ára. Forsætisráðherra tilnefni einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni einn fulltrúa, Bandalag íslenskra listamanna einn fulltrúa og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna einn fulltrúa. Ráðherra skipi einn fulltrúa sem verði formaður. Ráðherra skipi framkvæmdarstjóra sem veiti miðstöðinni forstöðu og ráði sérfræðing til starfa á skrifstofu miðstöðvarinnar.
          Mælikvarði: Miðstöð barnamenningar verði komið á fót á árinu 2023.
          Kostnaðaráætlun: Kostnaður greiðist af ráðuneyti menningarmála, fjárhæð 20 millj. kr. á ársgrundvelli árin 2024–2028.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, miðstöðvar listgreina, Reykjavíkurborg, RÚV, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landshlutasamtök sveitarfélaga, Félag um barnabókasafn, stofnanir sviðslista og tónlistar auk höfuðsafna.

B. Framboð menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni.
B.1. Barnamenningarverkefnið List fyrir alla.
    Framboð á fjölbreyttum og vönduðum menningar- og listviðburðum fyrir börn og ungmenni verði tryggt með rekstri barnamenningarverkefnisins List fyrir alla. Verkefnið stuðli að virkum tengslum skólastarfs og menningar- og listalífs og leggi höfuðáherslu á listir og menningu fyrir börn og með börnum.
          Mælikvarði: Börn og ungmenni fái tækifæri til að upplifa að minnsta kosti tvo listviðburði á ári fyrir tilstilli verkefnisins.
          Kostnaðaráætlun: Málaflokkur 18, málefnasvið 18.3, 20 millj. kr. á ársgrundvelli árin 2024–2028.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
          Dæmi um samstarfsaðila: Fræðslu- og menningarsvið sveitarfélaga, grunnskólar, listgreinakennarar, listamenn og svæðisbundin ungmennaráð.

B.2. Valnefnd barnamenningarverkefnisins List fyrir alla.
    Á vegum barnamenningarverkefnisins List fyrir alla verði starfrækt þriggja manna valnefnd fagfólks sem árlega velji listverkefni sem fyrir tilstilli List fyrir alla verði miðlað til skóla. Valnefndin verði skipuð til tveggja ára í senn og setji sér skýr viðmið og vinnureglur um val verkefna. Valnefnd gæti þess að fjölbreyttum viðburðum ólíkra listgreina sé miðlað á vegum List fyrir alla.
          Mælikvarði: Viðmið og vinnureglur valnefndar liggi fyrir í byrjun árs 2024.
          Kostnaðaráætlun: Innan fjárhagsramma ráðuneytis.
          Ábyrgðaraðili: Miðstöð barnamenningar.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, Kennarasamband Íslands, stjórn og framkvæmdastjóri Miðstöðvar barnamenningar.

C. Barnamenningarsjóður Íslands.
C.1. Markmið og hlutverk Barnamenningarsjóðs Íslands.
    Barnamenningarsjóður hafi að markmiði að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Jafnframt skuli lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu og verkefni er stuðli að innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Stjórn miðstöðvar barnamenningar fari jafnframt með stjórn Barnamenningarsjóðs. Ráðherra sem fer með menningarmál setji reglur um starfsemi sjóðsins, sem birtar verði í Stjórnartíðindum. Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, sjái um umsýslu og vörslu sjóðsins.
          Mælikvarði: Árleg úthlutun úr sjóðnum fari fram á degi barnsins, síðasta sunnudag maímánaðar.
          Kostnaðaráætlun: 120 millj. kr. á ársgrundvelli árin 2024–2028.
          Ábyrgðaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
          Dæmi um samstarfsaðila: Bandalag íslenskra listamanna, forsætisráðuneytið, Miðstöð barnamenningar, Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

D. Eftirfylgni, mat á árangri og endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar.
D.1. Eftirfylgni og ábyrgð á framkvæmd.
    Ráðuneyti menningarmála beri ábyrgð á samhæfingu vegna framkvæmdar áætlunar þessarar og eftirfylgni með henni. Aðilar sem bera ábyrgð á aðgerðum í áætluninni verði árlega, og oftar ef þurfa þykir, boðaðir til samráðsfundar um framvindu aðgerðanna.

D.2. Endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar.
    Ráðherra sem fer með menningarmál leggi aðgerðaáætlun fyrir árin 2028–2032 fyrir Alþingi eigi síðar en árið 2027. Ráðuneyti menningarmála vinni að áætluninni og byggi á tillögum samráðsvettvangs um menningu og listsköpun barna og ungmenna í samræmi við aðgerð A.1.

Greinargerð.

    Forsætisráðherra leggur tillögu þessa til þingsályktunar fram og ber ásamt ráðuneyti menningarmála á henni stjórnsýslulega ábyrgð. Hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir og samtök bera ábyrgð á framkvæmd hennar eftir því sem við á.

1. Forsaga.
    Alþingi samþykkti á 141. löggjafarþingi árið 2013 þingsályktun um menningarstefnu, nr. 16/141, um sérstaka stefnu íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs. Í stefnunni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar markmiðum hennar, þ.m.t. þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu. Í kjölfarið hefur verið unnið að ýmsum verkefnum líkt og barnamenningarverkefninu List fyrir alla og var Barnamenningarsjóður Íslands endurvakinn með þingsályktun nr. 32/148 um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins, árið 2018. Á árinu 2014 birti mennta- og menningarmálaráðuneytið aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna sem náði til ársins 2017 og byggðist á menningarstefnunni frá 2013. Meðal þeirra verkefna sem hrint var í framkvæmd í kjölfarið var barnamenningarverkefnið List fyrir alla sem árlega býður grunnskólanemendum upp á listviðburði. Í áætluninni var jafnframt kveðið á um nauðsyn þess að gera gangskör í að bæta sjóðaumhverfi barnamenningar, annars vegar með varanlegum barnamenningarsjóði og hins vegar þannig að opinberir menningarsjóðir leggi reglulega sérstaka áherslu á barnamenningu í úthlutunum og hvetji þannig samfélag listafólks til nýsköpunar á þeim vettvangi. Frá gildistíma áætlunarinnar hefur ekki verið mótuð ný áætlun sem fylgir eftir markmiðum menningarstefnu um menningu barna og ungmenna. Fjölmargir starfshópar hafa þó kallað eftir henni, einkum til að festa megi í sessi mikilvæg verkefni sem hafa að markmiði að börn og ungmenni séu ávallt virkir þátttakendur í íslensku menningar- og listalífi.
    Í september 2021 birti mennta- og menningarmálaráðuneytið Menningarsókn – aðgerðaáætlun til 2030. Áætlunin er byggð á menningarstefnu frá árinu 2013 og kveður á um 18 aðgerðir sem styðja markmið hennar en fjallar að auki um ný markmið og nýjar áherslur. Til grundvallar liggja fimm meginmarkmið sem aðgerðirnar falla undir; aðgengi og þátttaka, traust í síbreytilegum heimi, menntun og menning, stjórnsýsla og sjóðakerfi og alþjóðlegt menningarstarf. Undir markmiði um aðgengi og þátttöku, sem ætlað er að endurspegla fjölbreytta samsetningu þjóðarinnar og þá alþjóðlegu menningu sem hér þrífst, segir m.a. að börn og ungmenni eigi að hafa forgang sem þátttakendur og neytendur í íslensku menningarlífi og að barnamenning verði stór hluti þess. Víða um land eigi að fara fram öflugt starf fyrir börn og ungmenni á ýmsum sviðum menningar og lista. Jafnframt er kveðið á um mikilvægi þess að miðla listum og menningu á fyrstu stigum skólagöngu og veita börnum þannig tækifæri til að upplifa list og menningu. Meðal aðgerða undir þessu markmiði er að barnamenningarverkefnið List fyrir alla verði gert að varanlegu verkefni þannig að allir aldurshópar í leik- og grunnskólum fái tækifæri til að upplifa að minnsta kosti tvo listviðburði árlega fyrir tilstilli þess.
    Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í samræmi við ályktun Alþingis nr. 32/148 á hátíðarfundi á Þingvöllum sem haldinn var 18. júlí 2018 í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á Alþingi lögðu ályktunina fyrir Alþingi. Sjóðnum voru tryggð framlög á fjárlögum til fimm ára, 2019–2023, 100 millj. kr. á ári. Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá nóvember 2021 segir að sérstök áhersla verði lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi með auknu framboði af nýju námsefni á íslensku og með því að hlúa að barnamenningu. Í kafla um menningarmál er kveðið á um það markmið ríkisstjórnarinnar að hrinda Menningarsókn – aðgerðaáætlun til 2030 í framkvæmd og að Barnamenningarsjóður Íslands verði festur í sessi.
    Hér á landi er víðtækt stuðningskerfi fyrir listafólk og menningartengda starfsemi. Starfsemi á sviði menningar og starfsumhverfi listafólks hefur samfara samfélagslegum breytingum þróast mikið á undanförnum árum og leitt til þess að rétt er að huga að úrbótum á ýmsum sviðum. Hafa verður í huga þá menningarlegu fjölbreytni sem býr í íslensku samfélagi og mikilvægi þess að menningarlífið endurspegli hana. Í því samhengi er mikilvægt að efla menningarlæsi í samfélaginu og tryggja öllum börnum og ungmennum aðgengi að menningarupplifunum og listfræðslu við hæfi. Fjölbreytni í menningarlífi stuðlar að jöfnuði og aukinni velsæld í samfélaginu.
    Í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar skipaði forsætisráðherra í mars 2022 starfshóp um mótun tillögu um framtíðarstefnumótun um eflingu barnamenningar og til að meta árangur af starfsemi Barnamenningarsjóðs frá árinu 2018. Þá var starfshópnum falið að meta samlegðaráhrif eða aukið samstarf sjóðsins við barnamenningarverkefnið List fyrir alla. Formaður starfshópsins var Henný Hinz, aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar. Í hópnum áttu auk hennar sæti Baldur Þórir Guðmundsson, fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytis, Elfa Lilja Gísladóttir, fulltrúi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla, Erling Jóhannesson, fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna og Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi stjórnar Barnamenningarsjóðs Íslands. Rósa Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, var starfsmaður hópsins. Starfshópurinn skilaði tillögu sinni til forsætisráðherra í janúar 2023 og í framhaldi var hún kynnt í ríkisstjórn. Aðgerðaráætlun þessi byggist á tillögu starfshóps um framtíðarstefnumótun um eflingu barnamenningar, þingsályktun um menningarstefnu íslenska ríkisins frá 2013, nr. 16/141, og Menningarsókn – aðgerðaáætlun í menningarmálum til ársins 2030 en barnamenning er, líkt og rakið hefur verið hér að ofan, meðal megináherslna beggja stefna.
    Þingsályktunartillagan var kynnt sem drög í samráðsgátt stjórnvalda hinn 18. janúar sl. (mál nr. S-9/2023). Alls bárust 14 umsagnir frá ýmsum hagsmunahópum, félagasamtökum, sveitarfélögum o.fl. Almennt nýtur tillagan mikils stuðnings hjá þeim sem sendu inn umsagnir. Sumar umsagnir ná út fyrir þann ramma sem þessi tillaga fjallar um en þar eru þó engu að síður gagnlegar athugasemdir og ábendingar til stjórnvalda um hvað þarf að hafa í huga við að móta stefnu og úthluta fjármunum. Meðal þess sem kom fram var mikilvægi þess að miðstöðin, verkefnin og sjóðurinn næðu til allra barna óháð búsetu, fjárhagsstöðu, fötlun o.s.frv. Meginbreytingin sem gerð var á tillögunni í kjölfar samráðs varðaði mönnun stjórna og upptalningu mögulegra samstarfsaðila, þótt það sé engan veginn tæmandi listi.

2. Framtíðarsýn og markmið.
2.1. Framtíðarsýn.
    Í tillögunni er sett fram sú framtíðarsýn að menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs verði veigamikill þáttur í uppvexti og skólastarfi barna og ungmenna um land allt. Mikilvægt er að tryggja jafnt aðgengi og þátttöku barna og ungmenna í menningarlífi. Það eykur þeim víðsýni og umburðarlyndi og eflir vitund þeirra um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi. Til barnamenningar teljast verkefni og starfsemi á sviði lista og menningar sem unnin eru fyrir börn og/eða með virkri þátttöku barna.

2.2. Markmið og áherslur.
    Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar er að auka samhæfingu hlutaðeigandi aðila, efla stefnumótun á sviði barnamenningar og samþættingu hennar við starfsemi opinberra menningarstofnana og -sjóða sem leggi reglulega áherslu á barnamenningu við úthlutanir og hvetji þannig samfélag listafólks til nýsköpunar á þessum vettvangi. Áhersla er jafnframt lögð á aukið framboð lista, menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni og lagt til að starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Ísland verði fest í sessi.

2.3. Afmörkun og framkvæmd.
    Aðgerðaáætluninni sem hér er gerð tillaga um er ætlað að stuðla að virkri þátttöku barna og ungmenna í menningar- og listalífi og efla listfræðslu og fjölbreytni í skólastarfi. Lögð er áhersla á að opinberar menningarstofnanir, listhópar og félagasamtök stofni til samstarfs og eigi samskipti við skóla eftir fremsta megni. Með þeim hætti er undirstrikað að skólar gegna víðtæku hlutverki í menningarlífi landsmanna, ekki síst í tengslum við listfræðslu, að miðla menningararfi og efla menningarlæsi barna og ungmenna. Aðgerðunum er aukinheldur ætlað að endurspegla fjölbreytileika mannlífsins og þá alþjóðlegu menningu sem býr í íslensku samfélagi.
    Farsæl framkvæmd aðgerða í áætlun þessari ræðst af nánu samstarfi allra hlutaðeigandi aðila, ekki síst ríkis, sveitarfélaga, skóla, opinberra menningarstofnana og annarra aðila sem njóta opinbers stuðnings á sviði menningarmála, listafólks og ungmenna. Því er lagt til að komið verði á samráðsvettvangi helstu aðila um stefnumótun og framkvæmd á menningarstarfi fyrir börn og ungmenni sem hafi að markmiði að auðga bæði skólastarf og menningarlíf hér á landi. Í tillögum samráðsvettvangsins verði m.a. lögð áhersla á samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana og miðstöðva listgreina annars vegar og við skólastarf hins vegar. Samráðið verði jafnframt vettvangur samskipta stofnana, listafólks og barna og ungmenna um verkefni á sviði menningar sem hönnuð eru fyrir börn og ungmenni eða unnin í samstarfi við þau. Þannig má stuðla að auknum tækifærum listafólks sem skapar list, sem höfðar til barna og ungmenna á mismunandi aldri og með ólíkan bakgrunn og áhugasvið, og tengja hana við skólastarf.
    Gerð er tillaga um að verkefnið List fyrir alla verði varanlegt verkefni sem hefur það meginhlutverk að miðla listkynningum og menningarverkefnum í skólum landsins, gjarnan í samstarfi við opinberar menningarstofnanir. Listheimsóknir verði þannig sjálfsagður hluti skólastarfs á meðan skólaskylda varir og reglulegir listviðburðir hluti af daglegu lífi barna og ungmenna.
    Lagt er til að Barnamenningarsjóður Íslands verði varanlegur sjóður sem njóti framlaga af fjárlögum. Meginhlutverk Barnamenningarsjóðs Íslands verður að styrkja menningarverkefni fyrir börn og ungmenni, einkum verkefni listamanna, list- og menningartengdra stofnana, félagasamtaka og annarra sem sinna lista- og menningarstarfi í samræmi við opinbera menningarstefnu. Þá felur tillaga þessi í sér að sett verði á fót Miðstöð barnamenningar sem hafi yfirumsjón með starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Íslands.

3. Umgjörð og stjórnsýsla sjóða á sviði menningarmála og miðstöðva listgreina.
    Barnamenningarsjóður hefur frá stofnun heyrt undir forsætisráðuneytið en færist nú, verði tillagan samþykkt, til menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Sjóðir á sviði menningarmála og listgreina heyra undir menningar- og viðskiptaráðherra. Fyrirkomulag við umsýslu sjóða er mismunandi og þjóna þeir ólíkum tilgangi. Miðstöðvar listgreina gegna mikilvægu hlutverki hver á sínu sviði. Þær hafa þróast hver á sinn hátt, eiga mislanga sögu, ólíka tilurð og eru rekstrarformin ólík.
    Nokkrir sjóðir eru í umsjón miðstöðva mismunandi listgreina en aðrir starfa samkvæmt samningum við ráðuneyti menningarmála. Undanfarin ár hefur verið kannað hvaða leiðir væru færar til að efla samstarf miðstöðva listgreina og annars þess sem undir málaflokkinn heyrir, svo sem umsýsla sjóða og menningarkynningar erlendis. Árið 2018 var ríkisstjórn kynnt skýrslan „Kynningarmiðstöðvar listgreina, sameining eða aukið samstarf“, og í framhaldinu stóð ráðherra fyrir samráði við hagsmunaaðila og skipaði starfshóp sem fékk m.a. það hlutverk að útfæra til hlítar stofnun í stjórnsýslunni sem gerð var tillaga um í áðurnefndri skýrslu.
    Starfshópurinn greindi landslag og fjármuni innan hverrar listgreinar fyrir sig og skilaði niðurstöðum um hvernig best væri að efla stjórnsýslu menningarmála með það að markmiði að ná fram markvissum samlegðaráhrifum og einföldun á stuðningskerfi menningar og lista. Starfshópurinn lagði til að stofnuð yrði Miðstöð lista þar sem sameina átti allar kynningarmiðstöðvar listgreina. Að auki lagði hópurinn til einföldun á stuðningskerfi menningar og lista með því að sameina alla sjóði í einn deildaskiptan og öflugan sjóð, Menningarsjóð Íslands. Í tillögu starfshópsins var barnamenning ein þeirra þverfaglegu áherslna sem Miðstöð menningar var ætlað að starfa samkvæmt. Frá þeim tíma sem liðinn er hefur ekki verður ráðist í að sameina kynningarmiðstöðvar listgreina en hins vegar hefur verið unnið að því að einfalda stuðningskerfi menningar og lista með stefnumörkun þess efnis þvert á stjórnsýslu og atvinnulíf á Íslandi.
    Í samantekt starfshóps forsætisráðherra um mótun tillögu um framtíðarstefnumótun og eflingu barnamenningar er ítarleg umfjöllun um sjóði á sviði menningarmála og kynningarmiðstöðvar listgreina. Í samantektinni er að auki fjallað um fyrirkomulag verkefna á sviði barnamenningar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í löndunum þremur fer stjórnsýslustofnun í umboði ráðherra með yfirumsjón stofnana og sjóða sem starfa á sviði menningar og lista og barnamenning er samþætt starfsemi hinna ólíku stofnana og fagsjóða. Starfshópur forsætisráðherra tók ekki afstöðu til þess hvort setja eigi á fót stjórnsýslustofnun listgreina hér á landi en gerði tillögu um að samráðsvettvangi helstu aðila verði falið að vinna að tillögum um stefnumótun og framkvæmd á menningarstarfi fyrir börn og ungmenni sem hafi að markmiði að auðga bæði skólastarf og menningarlíf hér á landi. Í tillögum samráðsvettvangsins verði m.a. lögð áhersla á samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana og miðstöðva listgreina annars vegar og við skólastarf hins vegar. Í samræmi við Menningarsókn 2030 – aðgerðaáætlun um listir og menningu og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar lagði starfshópurinn til að komið verði á fót Miðstöð barnamenningar sem falin verði yfirstjórn með barnamenningarverkefninu List fyrir alla og starfsemi Barnamenningarsjóðs Íslands. Byggist þessi þingsályktunartillaga m.a. á tillögu starfshópsins.

4. Nánar um aðgerðaáætlun fyrir ári 2024–2028.
A. Stefnumótun, stjórnsýsla og framkvæmd verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna og ungmenna.
A.1. Samráðsvettvangur um menningu og listsköpun barna og ungmenna.
    Lagt er til að ráðherra sem fer með menningarmál skipi samráðsvettvang ráðuneyta, menningarstofnana, sveitarfélaga o.fl. um stefnumótun. Í tillögum samráðsvettvangsins verði m.a. lögð áhersla á samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana og miðstöðva listgreina annars vegar og við skólastarf hins vegar. Gert er ráð fyrir að starfsmaður Miðstöðvar barnamenningar sem fjallað er um í aðgerð A.2 eigi í sæti í samráðsvettvanginum, sjái um umsýslu hans og samskipti við ráðuneyti menningarmála.

A.2. Miðstöð barnamenningar.
    Lagt er til að Miðstöð barnamenningar verði komið á fót og henni falin yfirumsjón með starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnmenningarsjóðs Íslands. Gert er ráð fyrir að ráðherra sem fer með menningarmál skipi fimm manna stjórn miðstöðvarinnar til fjögurra ára. Forsætisráðherra tilnefni einn fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni einn fulltrúa, Bandalag íslenskra listamanna einn fulltrúa og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna einn fulltrúa. Ráðherra skipi einn fulltrúa sem jafnframt er formaður. Ráðherra skipi framkvæmdarstjóra sem veitir miðstöðinni forstöðu og ræður sérfræðing til starfa á skrifstofu miðstöðvarinnar. Lagt er til að Miðstöð barnamenningar verði varanleg og njóti framlaga ríkisins af fjárlögum.

B. Framboð lista, menningar og listfræðslu fyrir börn og ungmenni.
B.1. Barnamenningarverkefnið List fyrir alla.
    Lagt er til að barnamenningarverkefnið List fyrir alla verði varanlegt og verði starfrækt hjá Miðstöð barnamenningar sem fjallað er um í aðgerð A.2. Meginhlutverk verkefnisins verði að stuðla að virkum tengslum skólastarfs og menningar- og listalífs. Fulltrúi verkefnisins taki þátt í starfi samráðsvettvangs um menningu barna og ungmenna sem fjallað er um í aðgerð A.1. Verkefnið leggi höfuðáherslu á listir og menningu fyrir börn og með börnum.

B.2. Valnefnd barnamenningarverkefnisins List fyrir alla.
    Lagt er til að í tengslum við barnamenningarverkefnið List fyrir alla verði starfrækt þriggja manna valnefnd fagfólks sem árlega velji listverkefni sem er miðlað til skóla. Menningar- og viðskiptaráðherra skipar valnefnd til tveggja ára í senn og skal hún setja sér skýr viðmið og vinnureglur um val verkefna. Valnefnd skal gæta þess að viðburðum tengdir öllum listgreinum sé miðlað á vegum List fyrir alla.

C. Barnamenningarsjóður Íslands.
C.1. Markmið og hlutverk Barnamenningarsjóðs Íslands.
    Lagt er til að Barnamenningarsjóður Íslands, sem stofnaður var með þingsályktun nr. 32/148, verði varanlegur sjóður og njóti framlaga af fjárlögum sem taki mið af verðlagsþróun yfir tíma. Barnamenningarsjóður hafi að markmiði að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Jafnframt verði lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu og verkefni er stuðli að innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Fulltrúi barnamenningarsjóðs taki jafnframt virkan þátt í starfi samráðsvettvangs um menningu barna og ungmenna sem fjallað er í aðgerð A.1.
    Stjórn miðstöðvar barnamenningar fer jafnframt með stjórn barnamenningarsjóðs. Ráðherra sem fer með menningarmál skal setja reglur um starfsemi sjóðsins sem birtar verða í Stjórnartíðindum. Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, skal sjá um umsýslu og vörslu sjóðsins.

D. Eftirfylgni, mat á árangri og endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar.
D.1. Eftirfylgni og ábyrgð á framkvæmd.
    Lagt er til að ráðuneyti menningarmála beri ábyrgð á samhæfingu vegna framkvæmdar aðgerðaáætlunar þessarar og eftirfylgni með henni. Aðilar sem bera ábyrgð á aðgerðum í áætluninni verði árlega, og oftar ef þurfa þykir, boðaðir til samráðsfundar um framvindu aðgerðanna. Mælikvarði um menningarneyslu sem er hluti af velsældarvísum stjórnvalda verði hafður til hliðsjónar við mat á framvindu aðgerða.

D.2. Endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar.
    Lagt er til að ráðherra sem fer með menningarmál leggi aðgerðaáætlun fyrir árin 2028–2032 fyrir Alþingi eigi síðar en árið 2027. Ráðuneyti menningarmála vinni að áætluninni og byggi á tillögum samráðsvettvangs menningarstofnana um menningu og listsköpun barna og ungmenna.