Ferill 857. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1329  —  857. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027.


Frá heilbrigðisráðherra.    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að vinna að framkvæmd eftirfarandi aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027, byggt á þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, nr. 26/152, og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs.

I. FRAMTÍÐARSÝN

    Geðheilsa Íslendinga verði bætt með því að tryggja aðgengi að skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu viðurkenndu þekkingu og nýsköpun.

II. MARKMIÐ

    Eftirfarandi aðgerðir í III. kafla leiði til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að náð verði markmiðum þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, nr. 26/152.


III. AÐGERÐAÁÆTLUN

    Náið samráð verði á milli heilbrigðisráðuneytis, annarra ráðuneyta, heilbrigðisstofnana og annarrar heilbrigðisþjónustu, jafnt opinberrar sem einkarekinnar og á vegum góðgerðarstofnana, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarrar velferðarþjónustu við framkvæmd geðheilbrigðisstefnu. Til að ná fram markmiðum stefnu í geðheilbrigðismálum verði aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum uppfærð árlega á ábyrgð heilbrigðisráðherra.
    Aðgerðirnar sem unnið verði að eru eftirfarandi.

1.A.1. Að efla sérhæfða þjónustu í barneignaferlinu við verðandi foreldra og foreldra með ung börn til að draga úr vanlíðan og auka foreldrahæfni þeirra.
    Tilgangur:        Að styrkja fjölskyldur í barneignaferli með fræðslu og snemmíhlutun. Að auka aðgengi foreldra/fjölskyldna að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu frá meðgöngu að fimm ára aldri barnsins.
     Ábyrgð:            Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (Geðheilsumiðstöð barna).
     Samstarf:         Heilbrigðisstofnanir, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Samfélagsáhrif:    Öruggari foreldrar og heilbrigðari börn.

1.A.2. Að þróa hlutverk og samstarf heilsugæslu við skóla og félagsþjónustu varðandi geðrækt og forvarnir barna á grunnskólaaldri.
    Tilgangur:        
Að efla virkt samstarf um geðrækt og forvarnir á fyrsta stigi velferðarþjónustu.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneytið.
     Samstarf:            Mennta- og barnamálaráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Geðheilsumiðstöð barna, embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, sveitarfélög og skólaþjónusta sveitarfélaga.
     Samfélagsáhrif:     Bætt geðheilbrigði grunnskólabarna.

1.A.3. Að velja og innleiða gagnreynda nálgun í geðrækt og almennum forvörnum í grunnskóla
.
     Tilgangur:        Að efla verndandi þætti geðheilbrigðis, með því að þróa samtal um geðheilsu, sjálfsvígsforvarnir og leiðir til að takast á við vandamál og byggja upp þolgæði.
     Ábyrgð:            Embætti landlæknis.
     Samstarf:            Mennta- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Sjúkratryggingar Íslands.
     Samfélagsáhrif:    Betri líðan og betri námsárangur.

1.A.4. Að þróa skólaheilsugæslu í framhaldsskólum með sérstaka áherslu á geðrækt og forvarnir
.
     Tilgangur:        Að efla verndandi þætti geðheilbrigðis hjá ungmennum og auka aðgengi að notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu í nærumhverfi.
     Ábyrgð:             Heilbrigðisstofnanir og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samstarf:         Heilbrigðisstofnanir, framhaldsskólar, Sjúkratryggingar Íslands og Samband íslenskra framhaldsskólanema.
     Samfélagsáhrif:    Betri geðheilsa framhaldsskólanema og minna brottfall úr framhaldsskólum.

1.A.5. Að styðja við börn sem eru aðstandendur fólks með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda
.
     Tilgangur:        Að bæta líðan barna fólks með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda.
     Ábyrgð:             Embætti landlæknis og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samstarf:         Heilbrigðisstofnanir, mennta- og barnamálaráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, sveitarfélög, notendasamtök og félagasamtök á þessu sviði.
     Samfélagsáhrif:    Betri geðheilsa barna sem aðstandenda.

1.A.6. Að þróa greitt aðgengi að ráðgjöf fyrir foreldra vegna geðheilsu barna þeirra.
    Tilgangur:
        Að bæta aðgengi foreldra sem upplifa að barn þeirra sé að þróa með sér geðrænan vanda að vegvísi og snemmtækri ráðgjöf fagaðila.
     Ábyrgð:             Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
     Samstarf:            Geðheilsumiðstöð barna, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, Barna- og unglingageðdeild Landspítala, aðrar heilbrigðisstofnanir og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samfélagsáhrif:    Öruggari foreldrar og heilbrigðari börn.

1.B.1. Að samræmt verklag verði innleitt á heilbrigðisstofnunum um mat á sjálfsvígshættu.
    Tilgangur:
        Að bæta mat og skráningu á sjálfsvígshættu á heilbrigðisstofnunum.
     Ábyrgð:            Embætti landlæknis og heilbrigðisstofnanir.
     Samstarf:            Viðkomandi heilbrigðisstofnanir.
     Samfélagsáhrif:    Að sjálfsvígum fækki.

1.B.2. Að gagnreynt úrræði verði valið, innleitt og samræmt í meðferð fyrir notendur í mikilli sjálfsvígshættu og stuðning við fjölskyldur þeirra.
    Tilgangur:
        Að tryggja viðeigandi meðferð fyrir þá sem eru í mikilli sjálfsvígshættu og í kjölfar sjálfsvígstilrauna þeirra sem leita á heilbrigðisstofnanir. Að tryggja stuðning við fjölskyldur viðkomandi.
     Ábyrgð:            Embætti landlæknis og heilbrigðisstofnanir.
     Samstarf:            Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, opinberar og einkareknar heilbrigðisstofnanir, Sjúkratryggingar Íslands, sveitarfélög, notenda- og aðstandendasamtök, frjáls félagasamtök á sviði sjálfsvígsforvarna og meðferðar, dómsmálaráðuneytið, lögregluembætti, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilsugæsla að því er varðar þjónustu við hælisleitendur.
     Samfélagsáhrif:    Upplifun einstaklingsins verði að aðgengi að stuðningi sé öruggt fyrir alla og óháð búsetu og aldri.

1.B.3. Að skýrt samræmt verklag og leiðbeiningar um stuðning við eftirlifendur eftir sjálfsvíg liggi fyrir og því sé fylgt.
    Tilgangur:
        Að tryggja viðeigandi stuðning í kjölfar sjálfsvígs.
     Ábyrgð:            Embætti landlæknis.
     Samstarf:            Heilbrigðisráðuneytið, opinberar og einkarekar heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, sjúkraflutningar, mennta- og barnamálaráðuneyti (skólar), félags- og vinnumálaráðuneyti (félagsþjónusta, vinnustaðir), dómsmálaráðuneyti (prestar, fangelsi og lögregla og aðrar stofnanir dómsmálaráðuneytisins sem þjónusta hælisleitendur), innviðaráðuneyti (sveitarfélög), notenda- og aðstandendasamtök, frjáls félagasamtök á sviði sjálfsvígsforvarna og meðferðar.
     Samfélagsáhrif:    Upplifun einstaklingsins verði að aðgengi að stuðningi sé öruggt fyrir alla og óháð búsetu, bakgrunni og aldri.

1.C.1. Að gagnabrunnur um geðheilsu, geðvanda og meðferðarúrræði verði settur upp í Heilsuveru.
    Tilgangur:
        Að almenningur leiti fyrr og á viðeigandi hátt upplýsinga og hjálpar varðandi geðheilbrigðismál og að heilsulæsi batni.
     Ábyrgð:             Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
     Samstarf:            Embætti landlæknis, Landspítali, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Virk og notendasamtök skipi ritstjórn.
     Samfélagsáhrif:    Minni þörf á tímum hjá fagfólki, meiri seigla hjá fólki til að takast á við algeng, vægari vandamál.

2.A.1.Að mönnunarhópur meti mönnun í geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við hlutverk og verkefni geðheilbrigðisþjónustunnar.
    Tilgangur:
        Að tryggja að mönnun sé í samræmi við hlutverk og verkefni geðheilbrigðisþjónustunnar.
     Ábyrgð:             Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:            Heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Sjúkratryggingar Íslands, sveitarfélög, fagfélög, notendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Betri geðheilbrigðisþjónusta á öllum stigum (rétt, tímanleg og örugg þjónusta).

2.A.2. Að greiningarhópur skilgreini hvaða hæfni starfsfólk geðheilbrigðisþjónustu þurfi að búa yfir á hverju þjónustustigi á hverjum stað.
    Tilgangur:
        Að tryggja að starfsfólk geðheilbrigðisþjónustu sé með viðeigandi menntun og hæfni til að veita gagnreynda geðheilbrigðisþjónustu.
     Ábyrgð:             Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:         Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, háskóla- og menntastofnanir, embætti landlæknis, sveitarfélög, notendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Betra geðheilbrigði.

2.B.1. Að sérnám heilbrigðisstétta í geðheilbrigðisfræðum verði fullfjármagnað.
    Tilgangur:
        Að tryggja uppbyggingu og þróun þekkingar í geðheilbrigðisfræðum.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:            Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samfélagsáhrif:    Aukið aðgengi að fagfólki sem veitir geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum.

2.C.1. Að verkefnishópur skilgreini hlutverk og verkefni veitenda geðheilbrigðisþjónustu, greini samvinnu, samfellu og skort þar á og komi með áætlun um aðgerðir til úrbóta.
    Tilgangur:
        Að hlutverk og verkefni veitenda geðheilbrigðisþjónustu séu skýr og að samvinna og samfella sé í þjónustunni.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneytið.
     Samstarf:            Breiður hópur haghafa, fyrst og fremst stofnanir sem sinna þjónustu en einnig fulltrúar notenda þjónustunnar og aðstandenda þeirra. Sjúkratryggingar Íslands.
     Samfélagsáhrif:    Rétt þjónusta, á réttum stað, á réttum tíma. Jafnt aðgengi að þjónustu, óháð búsetu og bakgrunni.

3.A.1. Að stofna geðráð, breiðan samráðsvettvang helstu haghafa geðheilbrigðismála.
    Tilgangur:
        Að stofna sjálfstæðan og breiðan samráðsvettvang á sviði geðheilbrigðismála sem hafi ráðgefandi hlutverk fyrir heilbrigðisráðherra í stefnumótun, skipulagi og samþættingu geðheilbrigðisþjónustu.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:            Notenda- og aðstandendasamtök, heilbrigðisstofnanir, embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Virk, Samband íslenskra sveitarfélaga, umboðsmaður barna.
     Samfélagsáhrif:    Breið, almenn samstaða um stefnu í geðheilbrigðismálum.

3.B.1. Að fólk með notendareynslu starfi sem víðast í geðheilbrigðisþjónustu.
    Tilgangur:
        Að fólk með notendareynslu starfi sem víðast og að jafningjastuðningur sé hluti af þeirri þjónustu sem veitt er og hafi áhrif á uppbyggingu og mótun þjónustunnar.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:            Heilbrigðisstofnanir og notendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Minni fordómar. Meiri skilningur á reynslu notenda og þörfum.

3.B.2. Að fólk með notendareynslu og aðstandendur komi að allri opinberri stefnumótun og skipuðum starfshópum í geðheilbrigðismálum og fái greitt fyrir þátttöku.
    Tilgangur:
        Að notendur hafi aukið vægi við stefnumótun í málaflokki geðheilbrigðis (einnig inni á heilbrigðisstofnunum).
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:            Embætti landlæknis, heilbrigðisstofnanir og notenda- og aðstandendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Valdefling notenda, minni fordómar.

3.B.3. Að notendastýrðar kannanir verði gerðar árlega í geðheilbrigðisþjónustu og niðurstöður nýttar til umbóta.
    Tilgangur:
        Að notendur hafi aukið vægi við mat á árangri þjónustu, kerfishindrunum og mismunun.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti, heilbrigðisstofnanir.
     Samstarf:            Heilbrigðisstofnanir, notenda- og aðstandendasamtök, háskólastofnanir.
     Samfélagsáhrif:    Betri og notendamiðuð geðheilbrigðisþjónusta.

3.B.4. Að gagnreynd starfsendurhæfingarúrræði verði efld.
    Tilgangur:
        Að fjölga fólki með alvarlegan langvinnan geðheilbrigðisvanda á vinnumarkaði.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti og Landspítali.
     Samstarf:            Geðráð, endurhæfingarráð, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Virk, aðrar endurhæfingarstofnanir (Janus, Reykjalundur, HNLFÍ, Múlalundur, Hringsjá o.s.frv.), atvinnurekendur, Vinnumálastofnun, Samtök atvinnulífsins, geðheilsuteymi, notendasamtök, sveitarfélög og skólasamfélag.
     Samfélagsáhrif:    Fólk með langvinnan alvarlegan geðheilbrigðisvanda verði fullgilt á vinnumarkaði.

3.C.1. Að framtíðarsýn verði mótuð og þarfagreining gerð vegna húsnæðis geðþjónustu Landspítala.
    Tilgangur:
        Að nýtt húsnæði geðþjónustu Landspítala byggist á nútímahönnun og nútímaviðhorfum og mæti þörfum samfélagsins.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti og stýrihópur Hringbrautarverkefnis.
     Samstarf:            NLSH, Landspítali, starfshópur um umbætur á húsnæði geðþjónustu.
     Samfélagsáhrif:    Bætt geðþjónusta, minni fordómar.

3.C.2. Að skipa starfshóp til ráðgjafar heilbrigðisráðherra um brýnar og mikilvægar bataeflandi umbætur á húsnæði geðheilbrigðisþjónustu í landinu.
    Tilgangur:
        Að ná yfirsýn yfir annars vegar þróun bataeflandi húsnæðis geðþjónustu erlendis, hins vegar stöðu húsnæðismála geðþjónustu á Íslandi. Hópurinn ráðleggi um, forgangsraði og fylgi eftir umbótum á húsnæði geðþjónustu Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri, geðheilsuteyma og annarrar geðheilbrigðisþjónustu.
     Ábyrgð:            Heilbrigðisráðuneyti.
     Samstarf:             Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, Háskóli Íslands, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Geðráð, notenda- og aðstandendasamtök, NLSH, aðrar heilbrigðisstofnanir og hönnuðir.
     Samfélagsáhrif:    Bætt geðþjónusta, minni fordómar.

4.A.1. Að setja upp þróunarverkefni um átta sólarhringsrými með notendastýrðu aðgengi.
    Tilgangur:
        Að mæta þörf fyrir lágþröskuldaþjónustu með því að skilgreindur hópur einstaklinga með þekktan geðheilbrigðisvanda geti leitað skjóls og gistingar í gistirýmum í einn til þrjá sólarhringa í einu.
     Ábyrgð:            Landspítali – velferðarsvið Reykjavíkurborgar.
     Samstarf:            Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (geðheilsuteymi), samtök notenda og aðstandenda, Sjúkratryggingar Íslands, þjónustuaðilar í grasrót.
     Samfélagsáhrif:    Notendur hafi aukið val og greiðara aðgengi að valdeflandi þjónustu.

4.A.2. Að þróa stuðning við geðheilsuteymi heilsugæslunnar og finna leiðir til að auka og jafna aðgengi að sérhæfðri þriðja stigs þjónustu, m.a. með nýsköpun og fjarheilbrigðislausnum.
    Tilgangur:
        Að bæta aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.
     Ábyrgð:            Landspítali.
     Samstarf:            Heilbrigðisráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, embætti landlæknis, notenda- og aðstandendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Bætt og jafnt aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

4.A.3. Að efla nærþjónustu og fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu vegna vægs til miðlungsalvarlegs geðræns vanda jafnt barna sem fullorðinna.
    Tilgangur:
        Að notendum standi til boða þrepaskipt, viðeigandi, tímanleg, gagnreynd meðferð, t.d. samtalsmeðferð í fyrsta stigs þjónustu.
     Ábyrgð:            Heilsugæslur og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
     Samstarf:            Heilbrigðisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneyti, háskólar, Geðheilsumiðstöð barna.
     Samfélagsáhrif:    Bætt geðheilbrigði.

4.A.4. Að þróa ráðgefandi teymi með sérhæfingu á sviði geðheilbrigðis aldraðra.
    Tilgangur:
        Að bæta aðgengi þjónustuveitenda að sérhæfðum stuðningi, ráðgjöf og handleiðslu hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða á landsvísu.
     Ábyrgð:            Landspítali.
     Samstarf:            Heilbrigðisráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, heilsugæslur, hjúkrunarheimili, embætti landlæknis, sveitarfélög og notenda- og aðstandendasamtök.
     Samfélagsáhrif:    Bætt og jafnt aðgengi aldraðra að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

4.B.1. Að stofna rannsókna- og nýsköpunarsetur í geðheilbrigðisfræðum.
    Tilgangur:
        Að efla rannsóknir og nýsköpun í geðheilsufræðum.
     Ábyrgð:            Landspítali.
     Samstarf:            Heilbrigðisráðuneyti, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Sjúkrahúsið á Akureyri, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, aðrar heilbrigðisstofnanir og geðráð.
     Samfélagsáhrif:    Aukin þekking, sérstaklega á sviði notendamiðaðrar og þverfaglegrar þjónustu.

4.C.1. Að skilgreindir og innleiddir verði gæðavísar og árangursviðmið innan geðheilbrigðisþjónustu.
    Tilgangur:
        Að fylgjast með gæðum og öryggi geðheilbrigðisþjónustunnar og stuðla að því að þessir þættir séu sýnilegir og að viðmið séu til staðar.
     Ábyrgð:            Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands.
     Samstarf:            Heilbrigðisstofnanir og fagfélög sjálfstætt starfandi sérfræðinga, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, geðráð, notenda- og aðstandendasamtök og Virk.
     Samfélagsáhrif:    Aukið gagnsæi sem eflir traust almennings.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Fyrsta heildstæða stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára var samþykkt 2016, með þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, nr. 28/145. Undirbúningur nýrrar stefnu hófst árið 2018 með skýrslu heilbrigðisráðherra til Alþingis um geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar (þskj. 1081, 638. mál á 148. löggjafarþingi). Sú stöðugreining sem þar kom fram og drög að skýrslunni „Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030“ sem unnin var á ábyrgð heilbrigðisráðuneytis, auk fjölda ábendinga og athugasemda sem bárust um skýrsluna í samráðsgátt, voru undirstaða frekari stefnumótunarvinnu. Skýrslan byggðist á geðheilbrigðisþingi höldnu 9. desember 2020, þar sem á fjórða þúsund einstaklinga tóku þátt með rafrænum hætti, auk sjö rafrænna vinnustofa sem haldnar voru sama dag. Auk skýrslunnar voru hafðar til hliðsjónar þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, nr. 29/149, og þingsályktun um lýðheilsustefnu til ársins 2030, nr. 29/151. Auk þess var litið til þingsályktunar nr. 28/145. Til viðbótar var litið til fjölmargra annarra gagna, en þar er sérstaklega rétt að nefna skýrsluna „Rétt geðheilbrigðisþjónusta á réttum stað“ en í þeirri skýrslu er að finna tillögur til heilbrigðisráðherra sem byggjast á vinnustofu sem haldin var á vegum heilbrigðisráðuneytisins í júní 2021. Aðrar skýrslur sem litið var til eru m.a. „Stöðugreining og framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna á Íslandi“, „Fimm ára aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um framkvæmd heilbrigðisstefnu árin 2022–2026“, „Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi – skýrsla starfshóps“, „Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi – niðurstöður starfshóps, apríl 2018“ og „Fjarheilbrigðisþjónusta – í takt við nýja tíma, ágúst 2018“.
    Í öllum þessum skýrslum fólst ákveðið stöðumat, en þar að auki var mikilvægt að fá stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar „Geðheilbrigðisþjónusta. Stefna – skipulag – kostnaður – árangur“. Var sú úttekt gerð að ósk Alþingis.
    Áherslur til framtíðar í geðheilbrigðismálum þurfa að vera á jafnt og greitt aðgengi að einfaldri, skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu hverju sinni, gæðaviðmiðum og nýsköpun og er veitt af hæfu starfsfólki.

2. Samráð.
    Víðtækt samráð hefur átt sér stað á öllum stigum. Geðheilbrigðisþing var skipulagt af heilbrigðisráðherra og haldið rafrænt 9. desember 2020, þar sem á fjórða þúsund einstaklinga tók þátt í umræðum og á sjöunda tug fulltrúa, tilnefndum af samtökum og stofnunum, unnu með sjö lykilviðfangsefni heilbrigðisstefnu stjórnvalda í sjö vinnustofum. Niðurstöðum er lýst í skýrslunni „Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030“, sem var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda frá júní og fram í ágúst 2021. 16 umsagnir bárust og nýttust þær heilbrigðisráðherra við gerð þingsályktunartillögu um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Þá var haldin þjónustuferlavinnustofa á vegum heilbrigðisráðuneytis í júní 2020 undir formerkjunum Rétt geðheilbrigðisþjónusta á réttum stað. Á þeirri vinnustofu komu saman þjónustuveitendur geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum, notendur, aðstandendur og aðrir haghafar til að rýna núverandi þjónustuferla og þróa hugmyndir að samhæfðri og heildstæðri þjónustu.
    Í febrúar 2022 skipaði heilbrigðisráðherra samráðshóp sem falið var að „ greina, meta, setja fram og fylgja eftir aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum“ til fimm ára og átti sú aðgerðaáætlun að fylgja eftir þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, nr. 26/152. Í samráðshópnum voru fulltrúar helstu haghafa í geðheilbrigðismálum á landsvísu, þ.e. fulltrúar heilbrigðisráðuneytis, embættis landlæknis, notenda (Geðhjálpar, Vinafélagsins, Hugarafls og aðstandanda), þjónustustofnana (Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Sjúkrahússins á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Austurlands) og háskólasamfélagsins (Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri) og var farin sú leið að skipta hópnum upp í kjarnahóp og rýnihóp. Kjarnahópurinn vann þétt og rýnihópurinn fékk með reglulegu millibili send gögn og drög til rýni og umsagnar, auk þess sem nokkrir sameiginlegir fundir voru haldnir. Samráðshópurinn kom annars vegar að gerð þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, en hefur hins vegar unnið aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum 2023–2027, í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.
    Í kjölfar þessa hefur samráðshópurinn unnið að gerð aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum til fimm ára. Drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum voru unnin í samvinnu heilbrigðisráðuneytis og samráðshóps. Þau voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 15. desember 2022 (mál nr. S-247/2022) og var samráðsfrestur veittur til 19. janúar 2023 og alls bárust 27 umsagnir.
    Umsagnir voru jákvæðar og fögnuðu þeim megináherslum og aðgerðum sem fram koma í drögunum. Margir umsagnaraðilar buðu fram krafta sína til samvinnu og samstarfs um aðgerðir, t.d. tengt aðgerðum er miða að því að fækka sjálfsvígum. Í öllum umsögnum kemur fram vilji til að halda áfram að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu í landinu og almennt mikill áhugi á að leggja lóð á vogarskálarnar í markvissri innleiðingu áætlunar til að ná því markmiði.
    Í mörgum umsögnum var lögð áhersla á að tryggja verði fjármögnun aðgerða og bent var á að fyrri reynsla sýndi að án fjármagns væri ólíklegt að margar aðgerðanna næðu fram að ganga. Bent var á mikilvægi málaflokks geðheilbrigðis og talið að misræmi væri á milli þess fjármagns sem til málaflokksins rennur og þess kostnaðar sem af geðröskunum hlýst fyrir samfélagið, m.a. í formi örorku. Ráðuneytið tekur undir mikilvægi þess að aðgerðir í aðgerðaáætlun geðheilbrigðismála verði fjármagnaðar.
    Flestir umsagnaraðilar nefndu með einum eða öðrum hætti mikilvægi mönnunar og bent var á að leysa þyrfti mönnunarvanda, sem og styðja við þverfaglega menntun, mönnun og nýliðun í geðheilbrigðisþjónustu. Tekið er undir þessi sjónarmið og rétt að taka fram að margar aðgerðir í áætluninni krefjast betri þverfaglegrar mönnunar, t.d. aðgerðir 2.A.1, 2.A.2 og 2.B.1 sem lúta sérstaklega að því mikilvæga verkefni. Tilgangur þessara þriggja aðgerða er að tryggja að mönnun verði í samræmi við hlutverk og verkefni geðheilbrigðisþjónustu á hverju stigi, skilgreint verði hvaða hæfni starfsfólk þurfi að búa yfir til að veita þjónustu á hverju þjónustustigi og að uppbygging, þróun þekkingar og hæfni fagfólks til að veita geðheilbrigðisþjónustu verði tryggð. Í aðgerð 3.B.1 er lögð áhersla á að fólk með notendareynslu starfi sem víðast í geðheilbrigðisþjónustu og verði hluti af heildrænni geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum.
    Í nokkrum umsögnum var minnt á að aðgerð í þingsályktun um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, nr. 28/145, hvað varðar fjölgun fagfólks með hæfni til að veita geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslu væri ekki lokið. Var mat umsagnaraðila að nauðsynlegt væri að tryggja viðeigandi mönnun í grunnþjónustu svo hægt væri að veita tímanlegt aðgengi barna og fullorðinna að samtalsmeðferð í samræmi við þörf. Hvöttu umsagnaraðilar til þess að aðgerð þess efnis yrði bætt inn í aðgerðaætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027. Hér á landi eins og í öðrum löndum eru vísbendingar um aukna eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu, sérstaklega í kjölfar heimsfaraldurs, og á sama tíma er helsta áskorun landanna skortur á fagfólki sem veitt getur þjónustuna. Afleiðing af þessari stöðu birtist m.a. í vaxandi biðtíma eftir geðheilbrigðisþjónustu. Til að bregðast við þessari áskorun hafa mörg lönd innan OECD farið þá leið að innleiða þrepaskipta geðheilbrigðisþjónustu innan fyrsta stigs heilbrigðisþjónustunnar í þeim tilgangi að nýta sem best þekkingu og hæfni þess heilbrigðisstarfsfólks sem þegar starfar þar. Byggist slík þrepaskipt nálgun á því að heilbrigðisstarfsfólk sem þegar starfar innan grunnþjónustu fái kennslu og þjálfun til að veita gagnreynt snemmtækt inngrip eða meðferð við vægari geðrænum áskorunum en sérhæft fagfólk, er starfar innan grunnþjónustu, sinni meðferð við flóknari og alvarlegri vanda. Mikilvægt er að læra af reynslu annarra landa í þessu samhengi og hefur verið bætt inn aðgerðinni 4.A.3, Að efla nærþjónustu og fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu vegna vægs til miðlungsalvarlegs geðræns vanda jafnt barna sem fullorðinna. Tilgangur þessarar aðgerðar er að notendum standi til boða viðeigandi, tímanleg, gagnreynd, þrepaskipt samtalsmeðferð í fyrsta stigs þjónustu. Heilbrigðisráðuneytið telur einnig að aðgerð 1.C.1, er lýtur að þróun gagnabrunns um geðheilsu, geðvanda og meðferðarúrræði sem ætlunin er að setja upp í Heilsuveru, muni leiða aukinnar geðræktar og bætts geðheilbrigðis þjóðarinnar.
    Margar umsagnaraðilar ræddu biðtíma eftir geðheilbrigðisþjónustu og bentu á að hann væri í mörgum tilfellum of langur. Þá bentu nokkrir á mikilvægi þess að huga sérstaklega að samfelldri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun og þá sem teljast á einhverfurófi. Tekið er undir áhyggjur umsagnaraðila og bent á að ein stærsta áskorunin í geðheilbrigðismálum á Íslandi er skortur á heildstæðri nálgun og skýru þjónustuferli allt frá geðrækt, forvörnum og snemmtækum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum og milli þjónustukerfa. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að aðgerð 2.C.1 er sérstaklega mikilvæg í fyrsta fasa markvissar innleiðingar aðgerðaáætlunarinnar. Með aðgerðinni verði verkefnahópi falið að rýna ferli notandans gegnum geðheilbrigðiskerfið og setja fram tillögur til úrbóta með það markmið að einfalda heildarskipulag geðheilbrigðisþjónustu, tryggja greitt aðgengi og samfellu í þjónustunni og samþættingu við aðra velferðarþjónustu. Verkefnahópurinn verði sérstaklega með eftirfarandi þætti í forgangi: i) sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu fyrir foreldra og börn sex ára og yngri, ii) yfirfærslu geðheilbrigðisþjónustu við 18 ára aldur, iii) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með taugaþroskaröskun, iv) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, v) snemmíhlutun í geðsjúkdóma, vi) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með tvígreiningar (fíkn og alvarlegan langvinnan geðvanda), vii) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir innflytjendur og viii) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólki með langvinnan alvarlegan geðheilsuvanda. Talið er að samhliða aðgerð 2.C.1 sé afar mikilvægt að aðgerð 4.C.1, komi til framkvæmda svo að hægt verði að fylgjast á árangursríkan hátt með gæðum og öryggi í geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Þróa þarf landsgæðavísa og valgæðavísa sem tengjast sex meginþáttum gæða í heilbrigðisþjónustu sem og ferlum, skipulagi og árangri.
    Í nokkrum umsögnum var bent á að ekki væri að finna í drögum að aðgerðaáætluninni neina aðgerð er sérstaklega væri beint að geðheilbrigði aldraðra. Umsagnaraðilar bentu á að eldra fólk hefði umfram aðra flóknar og sérhæfðar þarfir hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu og vísbendingar væru um vaxandi vímuefnavanda meðal aldraðra á Íslandi. Hvöttu umsagnaraðilar til þess að aukin áhersla væri lögð á þróun þjónustu og uppbyggingu sérhæfingar til að mæta þörfum aldraðra fyrir geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum heilbrigðisþjónustu. Um er að ræða mikilvæga ábendingu og talið rétt að bregðast við henni með því að bæta aðgerðinni 4.A.4, Að þróa ráðgefandi teymi með sérhæfingu á sviði geðheilbrigðis aldraðra, við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027. Sú aðgerð byggist m.a. á tillögu sem sett var fram í skýrslu heilbrigðisráðherra um rannsóknir á þunglyndi á meðal eldri borgara á 151. löggjafarþingi (þskj. 1558, 825. mál).
    Margir umsagnaraðilar lögðu áherslu á mikilvægi geðræktar, forvarna og snemmtækra úrræða í skólum og samvinnu og samþættingu í málaflokknum, innan mismunandi stiga heilbrigðisþjónustu og ekki síður á milli heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og skóla. Þannig lagði Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni og á fundum áherslu á samstarf ríkis og sveitarfélaga og greitt aðgengi að þjónustu óháð búsetu. Barna- og fjölskyldustofa tók undir þetta og lagði áherslu á að þau markmið sem snúi að samstarfi heilsugæslu við skóla og félagsþjónustu komist sem fyrst til framkvæmda. Talið er rétt að bregðast við sjónarmiðum umsagnaraðila um að áríðandi sé að leggja áherslu á geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði og lúta aðgerðir 1.A.2, 1.A.3 og 1.A.4 sérstaklega að þessum atriðum. Þá hefur ráðuneytið tekið tillit til tillagna Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar er lúta að upptalningu samstarfsaðila í nokkrum aðgerðum.
    Margir umsagnaraðilar bentu á að þjónusta væri mjög misjöfn eftir landshlutum og eðli vandamáls. Sérstaklega var nefnt að aðgengi að þriðja stigs þjónustu vegna flókins geðræns vanda væri ábótavant, en einnig að aðgengi að þjónustu vegna vægari geðræns vanda. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að með aukinni nýsköpun, fjarheilbrigðisþjónustu og öðrum tækniframförum verði hægt að bæta aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu. Fjölmargar aðgerðir í aðgerðaáætluninni leitast við að mæta þessu ójafna og skerta aðgengi, en sérstaklega má nefna aðgerð 4.A.2, auk tveggja aðgerða sem bætt hefur verið við frá drögum aðgerðaáætlunar, 4.A.3 og 4.A.4.
    Nokkrir umsagnaraðilar bentu á mikilvægi heilbrigðisendurhæfingar og samþættingu hennar við starfsendurhæfingu. Í þessu samhengi er rétt að benda á að aðgerð 3.B.4 tengist sérstaklega endurhæfingu og starfsendurhæfingu notenda með langvinnan geðheilbrigðisvanda.
    Fram komu athugasemdir um að erfitt gæti verið að leita þjónustu á eigin forsendum og að eigin frumkvæði. Krafa um sjúkdómsgreiningar væri sterk í núverandi geðheilbrigðisþjónustu og varast þyrfti að sjúkdómsvæða geðrænar áskoranir og tilfinningalegt álag. Í stefnunni og aðgerðaáætluninni er lögð áhersla á geðrækt, forvarnir, snemmtæk úrræði og lágþröskuldaþjónustu, mikilvægt er að valdefla fólk til þess að leita þjónustu á eigin forsendum og frumkvæði. Þá er einnig lögð áhersla á mikilvægi þess að aðgengi að upplýsingum sé gott til að auðvelda fólki að nálgast þá þjónustu sem það telur sig þurfa.
    Þá benti umsagnaraðili á að í aðgerðaáætlun embættis landlæknis til að fækka sjálfvígum á Íslandi frá 2018, sem samin var af starfshópi skipuðum af landlækni, væri einni aðgerðinni ætlað að setja á fót opinbera þekkingar- og þróunarmiðstöð áfalla-, ofbeldis- og sjálfsvígsforvarna og hvatti til að þeirri aðgerð væri bætt við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við samráðshóp um gerð aðgerðaáætlunar og embætti landlæknis metur það svo að aðgerðum 1.B.1–1.B.3 beri að forgangsraða umfram fyrrnefnda aðgerð því þær séu líklegri til að hafa bein áhrif til fækkunar sjálfsvíga á Íslandi.

3. Stöðumat.
    Miklar framfarir hafa átt sér stað í geðheilbrigðismálum undanfarin ár, en enn er langt í land að staðan sé ásættanleg. Fjölmörg sóknarfæri eru til staðar og þau ber að nýta. Samkvæmt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá í mars 2022 er framkvæmd 12 aðgerða af 18 í stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbriðgismálum fyrir árin 2016–2020 fullnægjandi eða vel á veg komin en framkvæmd sex aðgerða ófullnægjandi. Aðeins þrjár aðgerðanna komust til framkvæmda á réttum tíma. Ríkisendurskoðun telur að heildarárangur aðgerðaáætlunarinnar hafi verið ófullnægjandi, þar sem mikilvæg markmið náðust ekki. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur náðst árangur í að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum. Þannig hefur geðheilbrigðisþjónusta í grunnþjónustu heilsugæslu verið innleidd og annars stigs geðheilsuteymi innleidd á hverri heilbrigðisstofnun á landsvísu. Þrjú geðheilsuteymi hafa verið innleidd á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá hafa þrjú sérhæfðari geðheilsuteymi verið innleidd á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem veita annars stigs geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Þessi teymi eru: geðheilsuteymi fangelsa, geðheilsuteymi taugaþroskaraskana og geðheilsuteymi ADHD. Geðheilsumiðstöð barna er nýtt úrræði innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem hóf störf 2022 og sameinar þjónustu sem Þroska- og hegðunarstöð og geðheilsuteymi fjölskylduvernd veittu áður og þjónustu meðferðarteymis fyrir börn og unglinga. Til viðbótar hefur Heilaörvunarmiðstöð tekið til starfa en það er ný meðferðareining innan geðheilsuteyma heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þar er veitt svokölluð TMS-meðferð við meðferðarþráu þunglyndi. Heilbrigðisráðherra lagði ríka áherslu á geðheilbrigðismál strax frá upphafi COVID-19 heimsfaraldurs. Setti ráðherra tvo stýrihópa á fót, annan til að vakta áhrif heimsfaraldursins á geðheilsu þjóðarinnar og hinn til að vakta áhrif hans á lýðheilsu þjóðarinnar. Ákvarðanir um mótvægisaðgerðir til þess að styðja við geðheilbrigði þjóðarinnar voru byggðar á íslenskum sem erlendum greiningum og rannsóknargögnum, auk tillagna stýrihópanna. Sem dæmi um aðgerðir var styrking geðþjónustu heilsugæslu og geðheilsuteyma, geðheilsugæsla í framhaldsskólum og átaksverkefni til að stytta bið eftir geðþjónustu sjúkrahúsanna en biðtími eftir sérhæfðri þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu barna, ungmenna og fullorðinna hefur verið töluverður. Í fjárlögum ársins 2023 er gert ráð fyrir tímabundnu fjárframlagi til þriggja ára til heilsufarslegra aðgerða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs og verður fjárframlagið nýtt til að efla þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu, óháð aldri, með það markmið að biðtími eftir þjónustunni haldist innan viðmiðunarmarka.
    Í samræmi við áherslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur afl verið sett í að auka fyrsta stigs geðheilbrigðisþjónustu og snemmtæk úrræði hjá heilsugæslunni, auk geðheilsuteyma á öðru stigi. Mikilvægt er að halda þeirri uppbyggingu áfram til að mæta betur þjónustuþörfum á heildrænan hátt. Á sama tíma þarf að tryggja að þriðja stigs geðheilbrigðisþjónusta hafi á að skipa nægum fjölda fagfólks til að bregðast við og sinna jafnt bráðavanda sem flóknum, oft langvinnum, geðheilbrigðisvanda.
    Mikill skortur er á hæfu og sérhæfðu fagfólki á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu til að anna megi eftirspurn eftir þjónustu og er þetta alheimsvandamál. Nýliðun hefur verið takmörkuð í þeim fagstéttum sem helst veita geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og samkeppni ríkir milli stofnana og starfseininga um þann takmarkaða fjölda fagfólks sem er að störfum í geðheilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. Þá er hlutverk notenda í bata sem jafningja ekki orðið órjúfanlegur hluti af þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu enn sem komið er. Landsráði um mönnun og menntun á vegum heilbrigðisráðherra er ætlað að skila tillögum að aðgerðum til að bæta mönnun í heilbrigðisþjónustu.
    Ljóst er að þótt skipulag liggi fyrir um fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu er þörf á að skýra og skerpa betur hvað fellur undir hvert stig geðheilbrigðisþjónustu. Þannig vantar skýra og skilgreinda farvegi fyrir algeng vandamál notenda sem leiðir til þess að grá svæði myndast og notendur fá ekki samfellda geðheilbrigðisþjónustu. Með hliðsjón af skýrum þjónustufarvegum notenda er þörf á að skilgreina ábyrgðar- og hlutverkaskiptingu þjónustuaðila milli stiga geðheilbrigðisþjónustu og skilgreina samvinnu og samstarf bæði innan geðheilbrigðiskerfisins og við aðra félagsþjónustu. Þá þarf að tryggja þverfagleg vinnubrögð, virka þátttöku notenda og samvinnu í þjónustu, m.a. með tengiliðum og málastjórum. Markmiðið með slíkri vinnu er að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað á réttum tíma fyrir notendur og aðstandendur.
    Samkvæmt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá 2022 fjölgaði komum fólks vegna geð- og atferlisraskana á heilsugæslur um 91% á milli áranna 2011 og 2020. Á sama tíma fjölgaði fólki sem naut ferliþjónustu og innlagna hjá geðþjónustu Landspítala um 18%.
    Þrátt fyrir aukna fjármögnun og aukið framboð þjónustu undanfarin ár mætir aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu ekki þjónustuþörf. Á það við um ójafnt aðgengi á milli landsvæða og mismunandi hópa en einnig er almennt takmarkað aðgengi að þjónustu, sem sést skýrt á biðlistum.
    Skert starfsgeta vegna geðheilbrigðisvanda er vaxandi vandi. Þannig er samkvæmt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá 2022 talið að 8.300 einstaklingar hafi verið óvinnufærir að hluta eða að öllu leyti vegna geðraskana árið 2020. Fólki á örorku- eða endurhæfingarlífeyri hefur fjölgað um 30% frá 2010 til 2020, á sama tíma og íbúum á Íslandi hefur fjölgað um 14,6%. Konur voru 56% óvinnufærra vegna geðraskana árið 2020.
    Samkvæmt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá 2022 óx notkun þunglyndislyfja um 56,3% á milli áranna 2010 og 2020. Aukning í notkun róandi lyfja, svefnlyfja og verkjalyfja var einnig veruleg, auk aukinnar notkunar lyfja við ADHD.
    Tíðni sjálfsvíga er breytileg á milli ára, en sjálfsvíg voru 11,6/100.000 íbúa á ári á árabilinu 2010–2020. Þetta er næstmesta tíðni á Norðurlöndum og fjölgaði sjálfsvígum frá árabilinu 2000–2010. Þau eru mun algengari hjá karlmönnum en konum og hjá þeim sem eru eldri en 30 ára.
    Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sýndi að á sama tíma var heildarkostnaður heilbrigðis- og félagstryggingakerfisins vegna geðraskana á árinu 2020 41.800 millj. kr. Þar af voru 12.900 millj. kr. vegna geðheilbrigðisþjónustu, 2.300 millj. kr. vegna kostnaðar Sjúkratrygginga Íslands af geðlyfjum (heildarkostnaður vegna geðlyfja sama ár var metinn 4.100 millj. kr.) og lífeyrir vegna geðraskana var 26.600 millj. kr. Áætlaður beinn kostnaður við geðheilbrigðisþjónustu árið 2021 var talinn 13.830 millj. kr., þar af fóru 7.629 millj. kr. til geðsviða sjúkrahúsa og 2.451 millj. kr. til sérhæfðrar geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslu.     Þróun fjárheimilda undanfarin ár er sú að aðeins hefur verið bætt í málaflokkinn. Sex aðgerðir í aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2016–2020 voru fjármagnaðar um samtals 2.202 millj. kr., þar af voru 1.396 millj. kr. til að setja á fót geðheilsuteymi í samstarfi heilbrigðisþjónustu og sveitarfélaga og 728 millj. kr. til að efla þjónustu sálfræðinga á heilsugæslustöðvum. Í heildina jukust fjárframlög til geðheilbrigðismála um 2.925 millj. kr. frá árinu 2018 til ársins 2021. Langmest af því fé hefur farið í uppbyggingu geðheilsuteyma og aðra uppbyggingu í heilsugæslu.
    Tillögur til úrbóta sem settar eru fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar felast í söfnun upplýsinga, samfelldri þjónustu, að útrýma gráum svæðum, að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, að bæta mönnun og sérhæfingu starfsfólks, að tryggja tilvist geðheilsuteyma, vanda aðgerðaáætlanir og tryggja fjármögnun þeirra og eftirfylgni.
    Yfirgripsmikil greiningarvinna til undirbúnings stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sýnir að gráu svæði eru mörg og samfellu skortir víða í kerfinu. Setja þarf í forgang að þróa og samþætta eftirfarandi þjónustuferla: i) sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu fyrir foreldra og börn sex ára og yngri, ii) yfirfærslu geðþjónustu við 18 ára aldur, iii) snemmíhlutun í geðsjúkdóma, iv) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, v) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með taugaþroskaröskun, vi) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með tvígreiningar (fíkn og alvarlegan langvinnan geðvanda), vii) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir innflytjendur, viii) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólki með langvinnan alvarlegan geðheilsuvanda og ix) þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga.

4. Þróun í nágrannalöndum, rekstur og jafnréttisgreining.
    Geðheilbrigðisþjónusta er með ýmsu sniði í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, enda eru heilbrigðiskerfi landa með mjög misjöfnu sniði. Í nágrannalöndunum er almennt varið hlutfallslega meira fé til geðheilbrigðismála en gert er hér á landi. Skipulag þjónustunnar er víðast einfaldara og skýrara en hérlendis. Þannig er geðheilbrigðiskerfum Noregs og Danmörku í grófum dráttum skipt á milli „primærhelsetjenesten“, sem rekin er af sveitarfélögum, og sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu (sjúkrahúsa, geðheilsuteyma, meðferð við fíknivanda, endurhæfingu o.s.frv.). Á Norður-Írlandi eru heilbrigðisþjónusta og félagsþjónusta rekin saman (t.d. „Belfast Health and Social Care Trust“) sem hentar geðheilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu sérstaklega vel. Í Englandi er rík hefð fyrir samrekstri geðheilsuteyma á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007 hefur verið samþykktur og fullgiltur hér á landi, auk þess sem sérstakur viðauki („Optional protocol to the convention on the rights of persons with disabilities“) var samþykktur. Svokallað OPCAT-eftirlit sem fylgir þeim viðauka er á höndum umboðsmanns Alþingis. Íslenska löggjöf þarf að aðlaga að þessum sáttmála, sérstaklega hvað varðar sjálfræðissviptingar. Nauðung á Íslandi er almennt sjaldgæfari við innlagnir hérlendis en í nágrannalöndum og ólanir þekkjast vart. Hin svokallaða CPT-nefnd á vegum Evrópudómstólsins ( Euorpean Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment), fylgist með að ómannúðlegri meðferð sé ekki beitt gegn föngum og fólki sem sætir nauðung í heilbrigðisþjónustu. Hún kemur reglulega til Íslands og hefur gert minni háttar athugasemdir sem brugðist hefur verið við eftir föngum. Sem dæmi um viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins við tilmælum nefndarinnar má nefna stórbætta geðheilbrigðisþjónustu við frelsissvipta einstaklinga á landsvísu með tilkomu geðheilsuteymis fangelsa í janúar 2020. Á sama tíma var heilsugæsluþjónusta við frelsissvipta einnig bætt. Þróun þessarar þjónustu heldur áfram.
    Hvað varðar stöðu kynja- og jafnréttissjónarmiða þá eru konur 56% óvinnufærra og 60% þeirra sem fá ávísað geðlyfi, sjálfsvíg karla eru miklu algengari en kvenna. Færri karlmenn eru fagaðilar í geðheilbrigðisþjónustu, sérstaklega á meðal hjúkrunarfræðinga. Þjónusta við fólk með kynama hefur sætt gagnrýni. Varðandi jafnréttissjónarmið má nefna skort á tækifærum innflytjenda og mögulega fordóma og áreitni gagnvart geðsjúkum og innflytjendum. Aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu takmarkast að miklu leyti við höfuðborgarsvæðið og því getur fólk sem býr utan þess svæðis átt erfiðara með að nálgast slíka þjónustu.

5. Framtíðarsýn.
    Unnið var út frá annars vegar fyrirliggjandi gögnum um núverandi stöðu og hins vegar þeirri framtíðarsýn sem kallað var eftir á geðheilbrigðisþingi 2020 um framtíðarsýn til ársins 2030. Unnið var með sagnatöflu þar sem árið 2030 var útgangspunktur.
    Framtíðarsýnin var talin kristallast í eftirfarandi setningu:
            Geðheilsa Íslendinga verði bætt með því að tryggja aðgengi að skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggir á bestu viðurkenndu þekkingu og nýsköpun.
    Í umræðum um mögulega framtíðarsviðsmynd var það talið jákvætt ef árið 2030 hefði náðst betra samráð milli þjónustuveitenda þar sem hlutverk væru vel skilgreind og þjónustufarvegir fyrir notendur geðheilbrigðisþjónustu væru skýrir. Húsnæði og aðbúnaður væri betra, mönnun betri og notendasamráð virkt. Á meðal áskorana var dregið fram að ekki var talið víst að biðlistar myndu styttast, fólki af erlendum uppruna og öldruðum myndi fjölga og áhyggjur komu fram af að teymum myndi fjölga um of og kerfið verða of flókið.

6. Áherslur og meginmarkmið aðgerðaáætlunar.
    Fjögur markmið stjórnvalda til að stefna að framtíðarsýninni eru:
     1.      Geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
     2.      Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.
     3.      Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
     4.      Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.
    Innan meginmarkmiðanna voru skilgreindar áherslur eða undirmarkmið til ársins 2030. Aðgerðir þær sem hér eru settar fram miðast við að ná undirmarkmiðunum og þar með meginmarkmiðum og að lokum náist sú framtíðarsýn sem sett er fram fyrir árið 2030.
    Leiðarljós við val á aðgerðum voru: 1) Skýrar, vel valdar aðgerðir sem raunhæft væri telja að yrðu framkvæmdar og skiluðu árangri. Sérstaklega var hugað að snemmtækum úrræðum. 2) Skýring á helstu leiðum notenda í gegnum kerfið með færri gráum svæðum og þjónustubilum. 3) Skýrar vörður á þeirri vegferð að uppfæra, bæta og fá stuðning við aðgerðaáætlun geðheilbrigðismála ár frá ári, með aðkomu breiðs hóps haghafa.
    Ákveðið var að afmarka verkefni samráðshópsins og var hópnum hvorki ætlað að ræða endurskoðun lagaramma um nauðung og framkvæmd nauðungaraðgerða né stefnu og aðgerðaáætlun um fíknivanda. Ástæðan er sú að báðir málaflokkarnir eru þegar í vinnslu innan Stjórnarráðsins.

7. Meginefni tillögunnar.
Geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði í grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
    Fyrsti áhersluþáttur stefnu í geðheilbrigðismálum lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis. Mikilvægt er að hlúa að geðheilsu alla ævi. Þegar fólk hefur góða geðheilsu líður því vel og finnst það í stakk búið til að takast á við lífið á uppbyggilegan hátt, njóta sín í leik og starfi, nýta hæfileika sína og taka virkan þátt í samfélaginu. Geðrækt snýr að því að styðja fólk til þess að efla og hlúa að geðheilsu sinni. Geðrækt þarf að stunda alla ævi, en mikilvægt er að fólk fái það veganesti strax í æsku því jákvæð tengsl við aðra og góðar uppeldisaðstæður eru meðal mikilvægustu atriða þegar horft er til geðheilbrigðis. Þá hafa ýmsir líffræðilegir, sálrænir og félagslegir umhverfisþættir áhrif á geðheilsu. Þetta eru þættir í daglegu lífi fólks eins og heimilisaðstæður, uppvaxtarskilyrði barna, skólaumhverfi, menntun, atvinna og félagsleg og efnahagsleg staða. Þessir áhrifaþættir eru að stórum hluta utan heilbrigðiskerfisins en mikilvægt er að geðheilbrigðisþjónustan taki mið af einstaklingnum í umhverfi hans og á hans forsendum. Tækifæri gefast til þess að kenna börnum að hlúa að geðheilsu sinni á kerfisbundinn hátt í skóla sem vettvangi geðræktar, forvarna og snemmtækra úrræða. Markviss kennsla í félagsfærni, hegðunarfærni og tilfinningafærni er mikilvæg undirstaða fyrir farsæld fólks. Slík þekking og reynsla er mikilvæg til að geta skilið eigin tilfinningar og hegðun, sett sig í spor annarra og myndað farsæl tengsl við aðra, fundið eigin leiðir til að ná markmiðum sínum og taka ábyrgar ákvarðanir í lífinu. Þessa færni er að verulegu leyti hægt að kenna. Enn fremur er áríðandi að bjóða úrræði þegar vanda verður vart og koma þannig í veg fyrir að vandinn verði verri.

Innleiðingu verði lokið á þeim grundvallarþáttum aðgerðaáætlunar um geðræktarstarf, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem flokkast undir heilbrigðisþjónustu.
    Ríkisstjórn Íslands samþykkti árið 2020 aðgerðaáætlun um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Aðgerðirnar ná til mennta- og barnamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og sveitarfélaga. Stýrihópur um innleiðingu aðgerðanna er að störfum á forsvari mennta- og barnamálaráðherra og hefur verkefnastjóri verið ráðinn til að fylgja eftir og forgangsraða þeim aðgerðum sem brýnast er að fara í á næstu árum. Innleiða þarf grundvallarþætti aðgerðaáætlunar í leik-, grunn- og framhaldsskólum, svo sem geðrækt sem námsgrein í aðalnámskrá, þrepaskiptan stuðning í grunnskóla landsins og samvinnu þar að lútandi við fyrsta stig heilbrigðisþjónustu.
    Markmið þeirra sex aðgerða (1.A.1–1.A.6) sem lúta að geðrækt, forvörnum og snemmtækum úrræðum er að fjölga börnum sem líður vel, þannig að grunnur skapist fyrir betri líðan á lífsleiðinni.

Lokið verði innleiðingu þeirra grundvallarþátta í aðgerðáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi frá 2018 sem lúta að heilbrigðisþjónustu.
    Unnin var aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi árið 2018 og hefur verkefnastjóri hjá embætti landlæknis haft umsjón og eftirfylgd með aðgerðum sem byggjast á henni. Verkefnið er komið vel á veg en mörgum aðgerðum er þó enn ólokið og lögð er áhersla á að ljúka fyrir árið 2030 innleiðingu á þeim aðgerðum sem mikilvægastar eru og lúta að heilbrigðisþjónustu.
    Í þremur aðgerðum, 1.B.1 – 1.B.3, er lögð áhersla á að skýrt, samræmt verklag liggi fyrir og því sé fylgt á öllum heilbrigðisstofnunum um mat á sjálfsvígshættu og um eftirfylgd eftir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg.

Allir landsmenn hafi aðgang að hagnýtum, gagnreyndum og auðskildum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu.
    Sérstök áhersla er lögð á að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að hagnýtum, gagnreyndum og auðskildum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu, sem auðveldi þeim að stunda heilbrigðan lífsstíl og bæta og viðhalda geðheilsu og bata. Þannig muni allir landsmenn hafa tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin geðheilbrigði með aðgengi að upplýsingum í öruggu og samtengdu stafrænu umhverfi, svo sem á Heilsuveru. Leitast verði við að auka heilsulæsi fólks og gera því betur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um eigin geðheilsu og hvernig best megi hlúa að henni.
    Í þeirri aðgerð sem hér er lögð til (1.C.1) er markmiðið öflug, rafræn, miðlæg upplýsingaveita um geðheilbrigðismál sem verði í reglulegri notkun.

Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.
    Skortur á samþættri og heildrænni geðheilbrigðisþjónustu og skortur á starfsfólki á öllum stigum heilbrigðisþjónustu eru megináskoranir í geðheilbrigðisþjónustu.

Þverfagleg mönnun í geðheilbrigðisþjónustu verði í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntunar.
Stöðum í sérnámi og framhaldsnámi í geðheilbrigðisþjónustu fjölgi í samræmi við þjónustuþörf. Námið mæti kröfum um samþættingu, samvinnu og hæfni.
    Talið er að fimmti hver Íslendingur geti átt von á því að glíma við geðheilbrigðisvanda einhvern tíma á lífsleiðinni og þurfa að leita aðstoðar hjá fagaðila þess vegna. Mikilvægt er að landsmenn hafi aðgengi að árangursríkri meðferð og endurhæfingu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Til að mæta kröfum um gæði, öryggi og framþróun í þjónustunni þarf að huga vel að þeim mannauð sem knýr kerfið áfram. Sem dæmi þarf mönnun að vera í samræmi við umfang og eðli þjónustu þannig að tryggja megi geðheilbrigðisþjónustu innan ásættanlegs biðtíma. Því þarf fullnægjandi þverfaglega mönnun í geðheilbrigðisþjónustu sem er í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntunar. Sérstaka áherslu þarf að leggja á fjölgun fagstétta þar sem nýliðun er takmörkuð. Þá verði lögð áhersla á að einstaklingar með persónulega reynslu starfi og veiti ráðgjöf varðandi þjónustuna og miðli þannig þekkingu sinni með það að markmiði að bæta gæði þjónustunnar (aðgerð 3.B.1). Mönnunarhópur á að meta þörf fyrir mönnun (aðgerð 2.A.1) og greiningarhópur á að skilgreina hæfni geðheilbrigðisstarfsfólks á hverjum stað (aðgerð 2.A.2). Sérstök aðgerð beinist að því að fullfjármagna sérnám fagstétta (aðgerð 2.B.1).

Samhæfing og samvinna einkenni samskipti heilbrigðis-, félags- og barnaþjónustu. Samhæfing og samvinna einkenni samskipti mismunandi þjónustustiga heilbrigðisþjónustu og á milli heilbrigðisstofnana.
    Til langs tíma hefur samhæfingu á milli þjónustukerfa verið ábótavant og skort á að þörfum notenda sé mætt með árangursríkum lausnum á réttu þjónustustigi sem veittar eru tímanlega. Sem dæmi má nefna að ekkert landfræðilegt samhengi er á milli heilbrigðisumdæma, sveitarfélaga og lögregluumdæma. Einnig er þjónustuframboð mismunandi á landinu. Þetta veldur því að samhæfing þjónustu getur orðið flókin og erfitt getur verið fyrir notendur velferðarþjónustu að nálgast þá þjónustu sem þeir þurfa.
    Mörg skref hafa verið tekin í þá átt að færa þessi mál til betri vegar. Í fyrri stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, sem samþykkt var árið 2016 með þingsályktun nr. 28/145, var lögð áhersla á mótun heildstæðrar geðheilbrigðisþjónustu. Fjargeðheilbrigðisþjónusta hefur verið efld, sömuleiðis hefur þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta í heilsugæslu og nærumhverfi verið styrkt og þverfagleg geðheilsuteymi stofnuð. Árið 2017 var haldin vinnustofa um stöðugreiningu og framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum barna. Í júní 2021 var haldin þjónustuferlavinnustofa um rétta geðheilbrigðisþjónustu á réttum stað.
    Endurskipulagning annars stigs geðheilbrigðisþjónustu er komin vel á veg. Markmið endurskipulagningar annars stigs geðheilbrigðisþjónustu barna og stofnunar Geðheilsumiðstöðvar barna er að styrkja þjónustuna svo hún geti betur mætt þörfum barna og fjölskyldna. Þetta markmið er í samræmi við heilbrigðisstefnu og geðheilbrigðisstefnu varðandi veitingu árangursríkrar og tímanlegrar heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Sérstök áhersla er lögð á að stytta bið barna eftir þjónustu. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, tóku gildi í janúar 2022.
    Þrátt fyrir að mörg skref hafi verið stigin í átt að betri samþættingu og samhæfingu í geðheilbrigðisþjónustu er enn langt í land. Tryggja þarf að notendur geðheilbrigðisþjónustu fái þá þjónustu sem þeir þurfa, þ.e. á viðeigandi þjónustustigi, allt frá snemmtækum úrræðum til endurhæfingar, stuðnings við bata og samfelldrar eftirfylgni langvinns geðheilsuvanda. Áríðandi er að allir landsmenn hafi jafnan og greiðan aðgang að notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu þekkingu á hverjum tíma, er einstaklingsmiðuð, samfelld, samþætt, valdeflandi og batamiðuð. Geðheilbrigðisþjónustan þarf að vera í nærumhverfi notanda eða á viðeigandi heilbrigðisstofnun sem starfrækt er í bataeflandi húsnæði. Gera þarf skipulag geðheilbrigðisþjónustu skýrara þannig að það stuðli að samstarfi milli þjónustustiga og þverfaglegri teymisvinnu. Annars stigs þjónusta, í formi geðheilsuteyma heilsugæslu, almennrar geðþjónustu sjúkrahúsa og aðkomu einkaaðila er veitt víða um land. Sérhæfð geðþjónusta er síðan veitt á Landspítala og í minna mæli Sjúkrahúsinu á Akureyri, en einnig nær notendum, með sérhæfðari samfélagsgeðteymum og fjarheilbrigðisþjónustu. Sum geðheilsuteymi vinna þannig í nærumhverfi, önnur á sjúkrahúsum eða heilbrigðisstofnunum, sum vinna á forræði sveitarfélaga með samstarfi við heilsugæslu eða sjúkrahús, sum teymi vinna á landsvísu og geta verið mjög hreyfanleg, önnur vinna á landsvísu og eru staðsett í höfuðborginni. það er verið að reyna að mæta þörfum fólksins með fjölbreyttum og góðum leiðum.
    Tryggja þarf að samfella, samstarf og samhæfing sé á milli geðheilbrigðisþjónustu og annarra sem veita velferðarþjónustu, svo sem félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu skóla og annarrar skólaþjónustu, sem og virkniþjálfunar eða endurhæfingar til atvinnuþátttöku. Sérstakur verkefnishópur skilgreini hlutverk og verkefni veitenda heilbrigðisþjónustu, kortleggi samvinnu og skort á samfellu og vinni aðgerðaáætlun til úrbóta (aðgerð 2.C.1).

Þverfagleg teymisvinna einkenni vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja betra aðgengi, gæði, skilvirkni og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla án aðgreiningar.
    Til að tryggja að sú geðheilbrigðisþjónusta sem veitt er henti sem best þjónustuþörfum og til að nýta sem best fágæta þekkingu í stóru landi er afar brýnt að þverfagleg teymisvinna einkenni vinnubrögð, þar sem hver fagaðili leggur sitt að mörkum til að veita sem þjónustu sem er sem best og skilvirkust, sem næst heimili skjólstæðinga og samfelld.

Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
    Til að tryggja að geðheilbrigðisþjónusta sé í samræmi við þarfir og væntingar notenda er nauðsynlegt að virkt samtal eigi sér stað milli notenda, þjónustuveitenda og stjórnvalda. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á landinu verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda. Aðgerð 3.B.2 miðar að því að efla þetta samtal, með kröfu um að fólk með notendareynslu komi að allri opinberri stefnumótun og fái það greitt. Með aðgerð 3.B.1 er lögð áhersla á að fólk með notendareynslu starfi sem víðast í geðheilbrigðisþjónustunni og hafi áhrif á uppbyggingu og mótun þjónustunnar.
    Mikilvægt er að hugmyndafræði geðheilbrigðisþjónustu taki mið af þörfum þeirra sem hana nýta og helstu stefnum í geðheilbrigðismálum með ríkri áherslu á valdeflingu notenda og batamiðaða nálgun þar sem rík virðing er borin fyrir mannréttindum notenda. Áríðandi er að þetta samtal og samvinna um þróun geðheilbrigðisþjónustu í landinu sé lifandi, opið, gagnsætt og á jafningjagrundvelli.
    Í notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu er lögð áhersla á heildræna og einstaklingsmiðaða nálgun og virðing borin fyrir óskum, gildum og þörfum einstaklingsins. Þjónustan er samfelld, samþætt og samræmd frá greiningu í gegnum veikinda-, meðferðar- og bataferlið og byggist á þverfaglegum gagnreyndum inngripum og meðferð. Notendamiðuð þjónusta byggist á þátttöku notenda og aðstandenda þeirra, virkri upplýsingagjöf og samtali sem auðveldar upplýsta ákvarðanatöku um eigin meðferð og heilbrigðisþjónustu. Notendastýrðar kannanir verða gerðar árlega til að meta árangur umbóta (aðgerð 3.B.3).
    Til að gæta sérstaklega að hagsmunum fólks sem glímir við alvarlegan langvinnan geðheilbrigðisvanda og auka þátttöku þeirra á vinnumarkaði miðar sérstök aðgerð að því að efla starfstengd atvinnuúrræði (aðgerð 3.B.4).
    Frá 2018 hefur heilbrigðisráðuneytið haft samráð við notendur geðheilbrigðisþjónustu í gegnum reglulega samráðsfundi þar sem fulltrúum þjónustuveitenda hefur verið boðið til samtals auk þess sem fulltrúi félagsmálaráðuneytis hefur tekið þátt í samráðinu. Mikilvægt er að þróa þann vettvang áfram. Til þess að ná fram notendamiðaðri geðheilbrigðiþjónustu byggðri á fyrrgreindum forsendum er mikilvægt að til staðar sé breiður samráðsvettvangur um geðheilbrigðismál, þar sem stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur fjalla um málaflokkinn og komi þannig að mótun stefnu í honum og stöðugum umbótum. Vettvangur þessi hefði einnig það hlutverk að stuðla að samvinnu og samþættingu í geðheilbrigðisþjónustu, sem og að þróa leiðir til að auka þátttöku notenda í þróun og stýringu geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar. Aðgerð 3.A.1 kveður á um stofnun geðráðs, sem verður slíkur breiður samráðsvettvangur helstu haghafa.
    Með framangreint í huga er jafnframt lögð áhersla á að geðheilbrigðisþjónusta verði í auknum mæli veitt í nærumhverfi notenda eða á viðeigandi heilbrigðisstofnun sem starfrækt verði í bataeflandi húsnæði sem standist nútímakröfur sem gerðar eru til geðheilbrigðisþjónustu. Með aðgerð 3.C.1 er lögð áhersla á að framtíðarsýn og þarfagreining húsnæðis geðþjónustu Landspítala verði með batamiðaðar áherslur í huga. Aðgerð 3.C.2 kveður á um að starfshópur nái yfirsýn yfir þróun í hugmyndum um bataeflandi húsnæði geðþjónustu og ráðleggi ráðherra um uppbyggingu slíks húsnæðis á landsvísu.

Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.
    Mikilvægt að notendur hafi val um hvert þeir sækja þjónustu og séu virkir og vel upplýstir þátttakendur í vali á eigin geðheilbrigðisþjónustu. Ætlunin er að setja upp þróunarverkefni fyrir lágþröskuldaþjónustu í samvinnu annars og þriðja stigs þjónustu, þar sem aðgengi er notendastýrt (aðgerð 4.A.1).
    Með auknu aðgengi allra landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu óháð aldri, búsetu, kyni, uppruna og öðrum lýðfræðilegum breytum er betur hægt að stuðla að geðheilbrigði þjóðarinnar og koma í veg fyrir að geðheilsuvandi versni þegar svo ber undir. Mikilvægt er að nýta nýsköpun, fjarheilbrigðisþjónustu og aðrar tækniframfarir til að jafna aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu. Æskilegt er að fjargeðheilbrigðisþjónusta eða önnur þjónusta sem nýtir tækniframfarir byggist á gagnreyndri þekkingu, öryggi, gæðum og standi notendum og aðstandendum til boða. Aðgerðir 4.A.2.–4.A.4. lúta að því að efla og jafna aðgengi að fyrsta stigs þjónustu og sérhæfðari þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu um landið.
    Rannsóknir og nýsköpun í þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu verði í ríkum mæli hluti af starfi heilbrigðisstofnana og í virku samstarfi við háskólasamfélagið. Mikilvægt er að rannsóknir taki mið af reynslu notenda geðheilbrigðisþjónustu og aðstandenda þeirra. Aðgerð 4.B.1 snýr að því að stofna rannsókna- og nýsköpunarsetur í geðheilbrigðisfræðum. Þar munu helstu haghafar hafa aðkomu og sérstök áhersla verður lögð á samstarf við geðráð (sbr. 3.A.1).
    Mikilvægt er að skilgreindir gæðavísar verði til fyrir öll stig geðheilbrigðisþjónustu og byggt sé á áætlun embætti landlæknis um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019–2030. Aðgerð 4.C.1 lýtur að þessu.

Fylgiskjal.


Geðheilbrigðismál. Stefna til 2030 og aðgerðaáætlun 2023–2027.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s1329-f_I.pdf