Ferill 971. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1570  —  971. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um hatursorðræðu.

     1.      Hvað skilgreiningu notar ráðuneytið fyrir hugtakið hatursorðræða í aðgerðum sínum gegn hatursorðræðu?
    Líkt og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögu sem forsætisráðherra hefur lagt fram á yfirstandandi þingi um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026 liggur ekki fyrir nein ein skilgreining á hugtakinu hatursorðræða sem sammælst hefur verið um, hvorki að þjóðarétti né landsrétti einstakra ríkja. Þó má finna eins konar skilgreiningar eða lýsingar á hugtakinu í ýmsum þjóðréttargerðum sem hægt er að hafa til hliðsjónar við afmörkun þess, t.d. 4. gr. alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis, 2. mgr. 20. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, og í hinum ýmsu samþykktum sem orðið hafa til með samvinnu Evrópuríkja. Má þar helst nefna tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R(97)20 frá 30. október 1997 um hatursáróður og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2001 sem hefur það markmið að gera refsiverða verknaði sem lýsa kynþátta- og útlendingahatri og eru framdir með því að hagnýta tölvukerfi.
    Í tilmælum Evrópuráðsins CM/Rec (2022)16 um baráttu gegn hatursorðræðu (Recommendation CM/Rec(2022)16 of the Committee of Ministers to member States on combating hate speech) er hatursorðræðu lýst sem allri tjáningu sem hvetur til, stuðlar að, dreifir eða réttlætir ofbeldi, hatur eða mismunun gegn einstaklingi eða hópi fólks, eða sem rægir það vegna raunverulegra eða ætlaðra persónueinkenna þess eða stöðu eins og kynþáttar, litarháttar, tungumáls, trúar, uppruna, aldurs, fötlunar, kyns, kynvitundar eða kynhneigðar.
    Árið 2003 var gerð viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2001 sem hefur það markmið að gera refsiverða verknaði sem lýsa kynþátta- og útlendingahatri og eru framdir með því að hagnýta tölvukerfi. Í 2. gr. hennar er tekið fram hvað átt er við með efni sem lýsi kynþátta- og útlendingahatri. Þar segir að slíkt efni merki allt ritað efni, myndir eða annars konar framsetningu hugmynda eða kenninga sem mæla með, stuðla að eða kynda undir hatri, mismunun eða ofbeldi sem er beint gegn hvaða einstaklingi eða hópi einstaklinga sem er og á rót sína að rekja til kynþáttar, litarháttar, ætternis eða þjóðlegs eða þjóðernislegs uppruna og til trúarbragða, séu þau notuð sem tylliástæða fyrir einhverjum fyrrnefndra þátta.
    Auk framangreindra tilmæla og ályktana alþjóðlegra stofnana um efnið gilda ýmis lagaákvæði hér á landi sem varða hatursorðræðu og unnt er að styðjast við.
    Ákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um bann gegn hatursorðræðu kveður á um að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í dómi Hæstaréttar Íslands 14. desember 2017, í máli nr. 415/2017, reyndi á túlkun ákvæðisins. Í dóminum kemur m.a. fram að ákvæðið sé ekki aðeins nauðsynlegt og samrýmanlegt lýðræðishefðum, heldur sé jafnframt gætt með ákvæðinu samræmis við löggjöf skyldra ríkja og farið að samþykktum alþjóðastofnana sem Ísland á hlut að um að stuðla beri að jöfnuði manna í þessu tilliti og veita að auki þeim jöfnuði refsivernd. Þá kemur fram í dóminum að líta megi á hugtakið hatursorðræðu sem samnefnara fyrir þá hæðni, rógburð, smánun eða ógnun sem refsivert sé að tjá eftir ákvæðinu og þá um leið sem mælikvarða á þann grófleika tjáningarinnar sem áskilinn er. Af því leiðir að tjáningin verði að fela í sér slíka óbeit, andúð, fyrirlitningu eða fordæmingu að telja megi hana til hatursorðræðu í garð þess sem henni er beint að. Var það mat réttarins að framangreint inntak ákvæðisins yrði að teljast bæði skýrt og fyrirsjáanlegt öllum almenningi.
    180. gr. almennra hegningarlaga skiptir einnig máli í þessu samhengi en hún kveður á um að hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Önnur málsgrein sama ákvæðis kveður svo á um að sömu refsingu varði að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.
    Þá var með breytingu á almennum hegningarlögum árið 2022, sbr. lög nr. 29/2022, bætt við í 10. tölul. 70 gr. almennra hegningarlaga sérstakri heimild til refsiþyngingar ef brot má rekja til einhverra þeirra þátta sem tilgreindir eru í ákvæði 233. gr. a. um hatursorðræðu. Samkvæmt ákvæðinu á því einkum að taka til greina við ákvörðun refsingar hvort brotið megi rekja til þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta.
    Í 27. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, er kveðið á um að fjölmiðlum sé óheimilt að hvetja til refsiverðrar háttsemi. Einnig sé þeim óheimilt að kynda með markvissum hætti undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu. Framangreint ákvæði laga um fjölmiðla tekur ekki til hefðbundinnar gagnrýni, skoðanaágreinings eða stjórnmálaumræðu í fjölmiðlum.
    Framangreindar skilgreiningar lýsa megineinkennum tjáningar sem kallast hatursorðræða. Túlkun þeirra má svo sjá í íslenskri dómaframkvæmd, og eftir atvikum hjá Mannréttindadómstól Evrópu, og af þeirri framkvæmd má sjá þá aðferðafræði sem dómstólar hafa mótað í málum er varða hatursorðræðu. Sjá má að höfð er hliðsjón af tilefni og alvarleika ummæla og tilgangi þess sem setur ummæli fram sem og hver staða þess aðila er í samfélaginu. Einnig skiptir máli hvernig tjáningunni er dreift eða hún mögnuð upp. Samhengi ummæla getur ráðið úrslitum um niðurstöðu og það er samspil framangreindra þátta sem ræður úrslitum í tilteknu máli, en ekki einungis einn þáttur sem byggt er á út af fyrir sig. Þá þarf að skoða sérstaklega hver ásetningur geranda er og líkleg áhrif tjáningarinnar. Hefðbundin gagnrýni, skoðanaágreiningur og stjórnmálaumræða telst ekki til hatursorðræðu, og ekki nægir að ummæli móðgi, hneyksli eða fari fyrir brjóstið á einhverjum. Þegar um hatursorðræðu er að ræða er yfirleitt um að ræða tjáningu fordóma í garð valdalítilla og forréttindalausra hópa (eða einstaklings úr slíkum hópi) sem hafa í gegnum tíðina þurft að líða einhvers konar félagslegt, efnahagslegt eða sögulegt óhagræði miðað við ráðandi hóp samfélagsins vegna sjáanlegra einkenna eða venja. Tjáningunni hefur þá viljandi verið ætlað að miðla og dreifa opinberlega neikvæðri ímynd og afstöðu til valdalausra hópa.
    Þá er rétt að geta þess að lög sem mæla fyrir um bann við mismunun og áreitni skipta einnig máli í samhengi við hatursorðræðu en ekki öll hatursorðræða nær því alvarleikastigi að varða við refsilög. Lög sem banna mismunun og áreitni hér á landi á grundvelli m.a. kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna eru annars vegar lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018 (1. mgr. 7. gr., sbr. 4. tölul. 3. gr.), og hins vegar lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018 (1. mgr. 7. gr., sbr. 4. tölul. 3. gr.). Ákvæði sem mæla fyrir um bann við mismunun og áreitni á grundvelli kyns er að finna í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020 (14. gr. og 1. mgr. 16. gr., sbr. 4. tölul. 2. gr.). Önnur dæmi um lög sem mæla fyrir um bann við mismunun á grundvelli m.a. kynferðis, kynþáttar, litarháttar og trúarbragða eru stjórnsýslulög, nr. 37/1993 (11. gr.), og lög um grunnskóla, nr. 91/2008 (3. mgr. 24. gr.).
    Það hvaða skilgreiningu ráðuneytið styðst við í aðgerðum sínum gegn hatursorðræðu fer eftir því hvaða aðgerð um ræðir í tilvísaðri aðgerðaáætlun. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um áætlunina er hlutverk hvers ábyrgðaraðila fyrir sig að útfæra aðgerðirnar nánar en ætla má að í þeim aðgerðum sem lúta að vitundarvakningu, almennri fræðslu eða samfélagslegri samræðu verði komið inn á allar framangreindar skilgreiningar, einkum hatursorðræðu sem nær ekki því stigi að varða við refsilög.
    Síðan eru nokkrar aðgerðir þar sem meiri áhersla verður lögð á tiltekin lagaákvæði fram yfir önnur. Eðli máls samkvæmt verður megináhersla lögð á skilgreininguna í 233. gr. a almennu hegningarlaganna (sem og 180. gr. og 70. gr. sömu laga) í aðgerð 3.4 sem varðar fræðslu fyrir dómara, ákæruvald og lögreglu. Einnig verður sú skilgreining lögð til grundvallar aðgerð 4 (Úttekt á nýlegum breytingum á almennum hegningarlögum), aðgerð 5 (Verklagsreglur fyrir lögreglu og ákærendur), aðgerð 6 (Fullgilding viðbótarbókunar við samning Evrópuráðsins um tölvubrot) og aðgerð 7 (Þolendakönnun ríkislögreglustjóra). Eins myndi skilgreiningin í 27. gr. laga um fjölmiðla vera sú skilgreining sem lögð yrði til grundvallar í aðgerð 9 (Breyting á ákvæðum laga um fjölmiðla er varðar hatursorðræðu), sú sem mest yrði til umfjöllunar við framkvæmd aðgerðar 13 (Aukin upplýsingamiðlun og samráð við fjölmiðla um hatursorðræðu) o.s.frv.

     2.      Telur ráðuneytið sér fært að fara í aðgerðir gegn hatursorðræðu án þess að skýr skilgreining á hugtakinu liggi fyrir sem hægt er að vinna út frá, hvort sem hún er sett fram af hálfu ráðuneytisins eða af öðrum?
    Ráðuneytið telur vel fært að framkvæma þær aðgerðir sem taldar eru upp í aðgerðaáætluninni í samstarfi við hlutaðeigandi hagsmunaaðila og stjórnvöld sem þar eru tilgreind og í samræmi við íslenska löggjöf, tilmæli og ályktanir alþjóðastofnana um hatursorðræðu sem raktar eru í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Í því sambandi má benda á að í umsögnum sem bárust Alþingi um þingmál það sem hér um ræðir lýsa umsagnaraðilar úr ólíkum áttum í nær öllum tilvikum yfir stuðningi við þær aðgerðir sem gerð er tillaga um í áætluninni 1 (795. mál, 153. löggjafarþing).
    Sem dæmi má nefna að í umsögn ríkislögreglustjóra kemur fram að embættið fagni sérstaklega aðgerð 3.4 sem fjallar um fræðslu til réttarvörslukerfisins (sjá nánar í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar), aðgerð 5 sem fjallar um mat á því hvort gefa þurfi út verklagsreglur eða fyrirmæli um rannsókn og saksókn hegningarlagabrota vegna haturstjáningar og aðgerð 7 um að fjallað verði um upplifun almennings af haturstjáningu í þolendakönnunum, enda mikilvægt að tryggja að kortlagning vandans sé byggð á gögnum sem aflað er með markvissum hætti á grundvelli skýrrar og gagnreyndrar aðferðafræði. Þá fagnar embættið sérstaklega fleiri aðgerðum sem varða réttarvörslukerfið og lýsir sig reiðubúið til að aðstoða við undirbúning og vinnslu þeirra allra sem og að taka þátt í því samfélagslega samráði sem fjallað er um í öðrum aðgerðum.

    Dómstólasýslan lýsir jafnframt yfir stuðningi við aðgerðir 3 og 3.4, sem hún telur mikilvægar, og segist reiðubúin að koma að framkvæmd þeirra.

     3.      Liggur fyrir hvort hatursorðræða sé vandamál innan þeirra stétta sem til stendur að bjóða upp á netnámskeið um hatursorðræðu? Er hatursorðræða meira vandamál innan þeirra stétta en hjá öðrum starfsstéttum?
    Ekkert bendir til þess að hatursorðræða sé vandamál innan þeirra starfsstétta sem til stendur að bjóða upp á netnámskeið til að vinna gegn hatursorðræðu, né að hatursorðræða sé meira vandamál innan þeirra stétta en annarra. Ástæða þess að lagt er til að boðið verði upp á sérstaka fræðslu fyrir tilgreinda markhópa er ekki sú að þessar stéttir beiti hatursorðræðu sjálfar heldur þykir mikilvægt að þær þekki birtingarmyndir og afleiðingar hatursorðræðu starfa sinna vegna. Í því sambandi er sérstaklega til þess að líta að opinberum starfsmönnum ber við meðferð stjórnsýslumála að gæta óhlutdrægni, þ.m.t. fordómaleysis, auk þess sem mikilvægt er að þau gangi fram með góðu fordæmi. Jafnframt má nefna mikilvægi þess að fólk njóti öryggis á vinnustað og að börn og ungmenni sem tilheyra jaðarsettum hópum séu örugg og þeim líði vel í skóla- og tómstundastarfi. Talið er eðlilegt að fræðsla gegn hatursorðræðu sé veitt að sama skapi og fræðsla gegn kynferðislegri áreitni, einelti o.s.frv. Fræðslan myndi m.a. miða að því að gera þessum aðilum kleift að greina hatursorðræðu, hafa næmi fyrir þörfum einstaklinga sem hatursorðræða beinist gegn, draga úr og sporna gegn áhrifum hennar á viðkomandi og aðstoða þá við að leita réttar síns.
    Hatursorðræða er djúpstætt og margslungið fyrirbrigði og getur haft mjög hraða útbreiðslu. Þá hefur hún neikvæð áhrif á einstaklinga, hópa og samfélög með margvíslegum hætti með því að vekja ótta og valda niðurlægingu hjá þeim sem hún beinist að, auk þess sem hún hefur kælandi áhrif á þátttöku í opinberri umræðu, sem er skaðlegt lýðræðinu. Til að koma í veg fyrir og berjast gegn hatursorðræðu á skilvirkan hátt er mikilvægt að greina og skilja undirrót hennar og víðara samfélagslegt samhengi, auk ýmissa birtingarmynda hennar og mismunandi áhrifa á þá sem hún beinist að. Þar er fræðsla lykilatriði.
    Í því mikla samráði sem fram fór við gerð aðgerðaáætlunar kom bersýnilega í ljós að fræðslu um hatursorðræðu væri ábótavant og samráðsaðilar kölluðu eftir meiri fræðslu um málefnið. Það þótti mikilvægt að auka þekkingu á málefninu og búa til farveg fyrir málefnalega umræðu um hatursorðræðu og birtingarmyndir hennar og því er mikil áhersla lögð á fræðslutengd verkefni í áætluninni sem og vitundarvakningu. Líkt og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni var víðtækt samráð haft við hagsmunaaðila við gerð áætlunarinnar. Í samráðinu kom bersýnilega í ljós að nauðsyn væri á meiri fræðslu og samráðsaðilar kölluðu í mörgum tilvikum eftir aukinni fræðslu fyrir sína stétt.
    Nánast allir umsagnaraðilar sem sendu inn umsögn um tillöguna fjalla um nauðsyn fræðslu og fagna aðgerðum í því sambandi og frekari umræðu um málefnið (795. mál). Má þar til að mynda benda á áðurnefnda umsögn ríkislögreglustjóra 2 þar sem hann leggur áherslu á að ríkir samfélagslegir hagsmunir séu fólgnir í því að koma í veg fyrir hatur í íslensku samfélagi en bæði birtingarmyndir þess og afleiðingar geti haft alvarleg áhrif á einstaklinga, hópa og samfélagsgerðina sjálfa. Sérstaklega er tekið fram að fræðsla sé mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir afbrot. Heildstæð fræðsla, eins og fjallað er um í aðgerð 3 í aðgerðaáætluninni og beinist að mörgum sviðum þjóðfélagsins, ætti að stuðla að skýrari skilningi á mörkum tjáningarfrelsis. Mikilvægt sé að það sé svigrúm fyrir tjáningu sem reynir á þanþol ríkjandi hugmynda um leið og þess sé gætt að ekki sé brotið gegn réttindum annarra eða vegið að almannahagsmunum.

    Í umsögn sinni fagnar ríkislögreglustjóri sérstaklega aðgerð 3.4 sem fjallar um fræðslu fyrir réttarvörslukerfið sérstaklega og tekur fram að embættið muni styðja við útfærslu verkefnisins eftir bestu getu. Embættið vekur sérstaka athygli á því að Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) hefur staðið fyrir margskonar fræðslu fyrir lögreglufólk á síðustu árum um hatur og birtingarmyndir þess í samstarfi við innlenda sérfræðinga og erlenda samstarfsaðila á sviði lögreglumenntunar. Þekking, reynsla og tengslanet sem myndast hefur hjá MSL á málefnasviðinu ætti að nýtast vel við framkvæmd aðgerðarinnar. Þá er fjallað um hatur og birtingarmyndir þess í lögreglufræðinámi við Háskólann á Akureyri.
    Einnig má nefna umsögn dómstólasýslunnar 3 (795. mál) en þar kemur fram að dómstólasýslan fari lögum samkvæmt með það hlutverk að skipuleggja símenntun dómara og annarra starfsmanna í þjónustu dómstólanna, sbr. 8. gr. laga nr. 50/2016. Það er mat dómstólasýslunnar að þær aðgerðir sem koma fram undir lið 3 og 3.4 í aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem lögð er til í þingsályktunartillögunni séu mikilvægar og er hún reiðubúin að koma að fræðslu sem vinnur gegn hatursorðræðu sem og fræðslu um hatursglæpi fyrir dómara.
    Enn fremur má nefna að byggðaráð Skagafjarðar fagnaði tillögunni og sveitarstjórn Hrunamannahrepps fagnaði áherslu á sveitarstjórnir og sveitarstjórnarmenn. Auk þess fagnaði Íþrótta- og ólympíusamband Íslands allri fræðslu í málaflokknum og taldi að besti árangurinn til að vinna gegn hatursorðræðu í íþróttahreyfingunni væri með stöðugri fræðslu. Þá fagnaði umboðsmaður barna jafnframt fræðslu- og samráðsfundum með börnum og ungmennum um málefnið, og áfram mætti telja.
    Í áðurnefndum tilmælum Evrópuráðsins CM/Rec (2022)16 um baráttu gegn hatursorðræðu (Recommendation CM/Rec(2022)16 of the Committee of Ministers to member States on combating hate speech) er sérstök áhersla lögð á fræðslu og eiga aðildarríkin að undirbúa og innleiða árangursríkar áætlanir til að greina og fást við rætur hatursorðræðu sem felast m.a. í neikvæðum staðalmyndum og fordómum gegn einstaklingum og hópum. Einnig kemur fram að aðildarríkin ættu að auka vitund um umfang hatursorðræðu og þann skaða sem hún veldur einstaklingum, samfélögum og lýðræðislegum þjóðfélögum í heild, þau viðmið sem beitt er til að leggja mat á hana, leiðir til að vinna gegn henni o.fl. Nauðsynlegt sé að grípa til sérstakra ráðstafana til að styðja við formlega og óformlega fræðslustarfsemi fyrir almenning og m.a. auka stuðning við mannréttindi sem hluta af samfélagi fjölhyggju og lýðræðis, hvetja til gagnrýninnar hugsunar, stuðla að jöfnuði og efla nauðsynlega hæfni til að bera kennsl á og vinna gegn hatursorðræðu.
    Loks má geta þess að þær stéttir sem nefndar eru í aðgerðaáætluninni eru jafnframt þær stéttir sem nefndar eru í framangreindum tilmælum Evrópuráðsins sem lykilaðilar í baráttunni gegn hatursorðræðu og ættu að hljóta slíka fræðslu, m.a. starfsfólk löggæslu, ákæruvalds, dómskerfis og annarra opinberra aðila. Aðrir sem nefndir eru sem lykilaðilar í tilmælunum eru embættismenn, kjörnir aðilar og stjórnmálaflokkar í ljósi mikilvægrar stöðu sinnar. Enn fremur milliliðir á netinu, fjölmiðlar og borgaraleg samtök.

     4.      Er ráðherra kunnugt um hatursorðræðu hjá eftirfarandi stéttum:
                  a.      kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum og starfsfólki sveitarfélaga,
                  b.      starfsfólki Stjórnarráðsins og stofnana þess,
                  c.      skólastjórnendum og kennurum, sem og leiðbeinendum og þjálfurum í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi,
                  d.      dómurum, ákærendum og lögreglu?
    
Sjá svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.
     5.      Verður það skráð hjá vinnuveitanda hvort starfsmaður framangreindra hópa og stétt hafi sótt námskeið um hatursorðræðu?
    Gert er ráð fyrir, líkt og fram kemur í greinargerð með aðgerð 3 (Netnámskeið sem vinnur gegn hatursorðræðu), að ábyrgðaraðilar aðgerða 3.1–3.5 geti fylgst með heildarfjölda þeirra starfsmanna sem sitja námskeið um efnið. Hvernig nákvæmlega verður haldið utan um fjöldann er ekki tilgreint sérstaklega í áætluninni heldur er gert ráð fyrir að nánari útfærsla sé á hendi hvers ábyrgðaraðila fyrir sig. Í aðgerð 3.2 er tekið fram í greinargerð að mannauðs- eða rekstrarstjórar ráðuneyta og forstöðumenn stofnana beri ábyrgð á fræðslunni og að eftirfylgni verði með þeim hætti að námskeið verði sett upp í fræðsluhluta Orra, mannauðskerfi ríkisins, þannig að þar komi fram að viðkomandi starfsfólk hafi setið námskeiðið.

     6.      Mun það hafa einhverjar afleiðingar fyrir starfsmann telji hann sig ekki þurfa á slíku námskeiði að halda?

    Ekki er gert ráð fyrir að það hafi neinar afleiðingar fyrir starfsmann ef hann afþakkar boð um að sitja námskeiðið um hatursorðræðu. Við gerð aðgerðaáætlunarinnar var talið rétt að einstaklingar yrðu hvattir fremur en skyldaðir á námskeið. Vonast er til að sem flestir sæki sér fræðslu og að þátttaka á námskeiðunum, sem og á málþingunum og samráðsfundum, verði góð.



1     www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/153/795/?ltg=153&mnr=795
2     www.althingi.is/altext/erindi/153/153-4228.pdf
3     www.althingi.is/altext/erindi/153/153-4199.pdf