Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1136, 152. löggjafarþing 389. mál: almenn hegningarlög (barnaníðsefni, hatursorðræða, mismunun o.fl.).
Lög nr. 29 9. júní 2022.

Lög um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (barnaníðsefni, hatursorðræða, mismunun o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Hvort brotið megi rekja til þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Hafi brot verið framið í nærveru barns yngra en 15 ára skal að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.


2. gr.

     Í stað orðsins „þjóðernis“ í 1. mgr. 180. gr. laganna kemur: þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna; og á eftir orðinu „trúarbragða“ í sömu málsgrein kemur: fötlunar, kyneinkenna.

3. gr.

     210. gr. a laganna orðast svo:
     Hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum, dreifir eða hefur í vörslum sínum myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til umfangs brots, hvort það sé framið á kerfisbundinn eða skipulagðan hátt, hvort lífi barns hafi verið stofnað í hættu, hvort barn hafi verið beitt grófu ofbeldi eða hvort barn hafi beðið líkams- eða heilsutjón.
     Hver sem skoðar myndefni á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt skal sæta sömu refsingu og greinir í 1. mgr.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um þann sem býr til, skoðar eða hefur í vörslum sínum myndefni sem sýnir barn 15, 16 eða 17 ára á kynferðislegan hátt ef barnið hefur veitt samþykki sitt og báðir aðilar eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki heldur um barn 15, 16 eða 17 ára sem miðlar efni sem sýnir það sjálft.
     Hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum, dreifir eða hefur í vörslum sínum myndefni sem sýnir einstaklinga 18 ára og eldri á kynferðislegan hátt, enda séu þeir í hlutverki barns, eða ef líkt er eftir barni í slíku efni þó að það sé ekki raunverulegt, svo sem í teiknimyndum eða öðrum sýndarmyndum, skal sætum sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

4. gr.

     Á eftir 210. gr. b laganna kemur ný grein, 210. gr. c, svohljóðandi:
     Nú hefur sá sem sæta skal refsingu fyrir brot gegn 210. gr. a eða 210. gr. b áður verið sakfelldur fyrir brot gegn þessum greinum, annarri eða báðum, og má þá hækka refsingu svo að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.

5. gr.

     Í stað orðsins „þjóðernis“ í 233. gr. a laganna kemur: þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna; og á eftir orðinu „trúarbragða“ í sömu grein kemur: fötlunar, kyneinkenna.

6. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2022.