Ferill 1074. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1868  —  1074. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Martin Eyjólfsson, Önnu Jóhannsdóttur, Jónas G. Allansson og Þórlind Kjartansson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er utanríkisráðherra falið að festa kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi til notkunar fyrir særða hermenn og færa úkraínsku þjóðinni.
    Tillagan er flutt sameiginlega af formönnum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og undirstrikar þá þverpólitísku samstöðu sem ríkt hefur um stuðning við Úkraínu frá því að innrás Rússa hófst 24. febrúar 2022.
    Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að brýn þörf sé á færanlegum neyðarsjúkrahúsum fyrir særða hermenn í Úkraínu og að Vólódímír Selenskí forseti hafi sérstaklega óskað eftir stuðningi Íslands í þeim efnum. Slíkt sjúkrahús gagnast særðum hermönnum á vígvellinum en þar væri einnig hægt að sinna almennum borgurum eftir atvikum.
    Nefndin leggur áherslu á öflugan stuðning Íslands við Úkraínu og þá ríkjandi stefnu að framlag Íslands til landsins sé hlutfallslega sambærilegt að umfangi við það sem önnur Norðurlönd leggja af mörkum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Logi Einarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 25. maí 2023.

Bjarni Jónsson,
form., frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir. Guðrún Hafsteinsdóttir.
Jakob Frímann Magnússon. Jóhann Friðrik Friðriksson. Logi Einarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Teitur Björn Einarsson. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.