Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2145, 153. löggjafarþing 1155. mál: almannatryggingar og húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu).
Lög nr. 54 21. júní 2023.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu).


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

1. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 62. gr. skulu bætur samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, hækka um 2,5% frá 1. júlí 2023.

II. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 30. gr. skal við útreikning húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði á árinu 2023 lækka grunnfjárhæð húsnæðisbóta um fjárhæð sem nemur 11% af samanlögðum árstekjum heimilismanna, 18 ára og eldri, umfram eftirfarandi frítekjumörk sem miðast við greiðslur húsnæðisbóta fyrir heilt almanaksár og taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri eftir stuðlum skv. 1. mgr. 16. gr.:
Fjöldi heimilismanna Frítekjumörk m.v. árstekjur 2023
1 5.388.983 kr.
2 7.127.364 kr.
3 8.344.232 kr.
4 eða fleiri 9.039.585 kr.

     Frítekjumörk skv. 1. mgr. skulu gilda afturvirkt frá 1. janúar 2023 fyrir árið í heild. Endurreikningi og leiðréttingu húsnæðisbóta til bráðabirgða fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2023 vegna afturvirkrar hækkunar frítekjumarka samkvæmt ákvæði þessu skal lokið fyrir 1. október 2023. Um endurreikning og leiðréttingu húsnæðisbóta fer að öðru leyti skv. 25. og 26. gr.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2023.