Ferill 643. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2269  —  643. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um markmið um orkuskipti.


     1.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hægt sé að ná markmiðum um orkuskipti, í ljósi þess að bensín- og dísilbifreiðar hafa verið meiri hluti nýskráðra bíla sl. ár, þrátt fyrir að niðurgreiðslur ríkisins í formi ívilnana vegna kaupa á nýjum rafmagnsbifreiðum hafi hlaupið á milljörðum króna undanfarin ár?
    Orkuskipti eru lykilþáttur í því að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Ríkisstjórn Íslands stefnir að fullum orkuskiptum þar sem jarðefnaeldsneyti verður skipt út fyrir umhverfisvæna orkugjafa fyrir árið 2040. Þau tæki sem stjórnvöld hafa beitt til að ná fram árangri í orkuskiptum eru annars vegar styrkir sem fara í gegnum Orkusjóð, en stjórn sjóðsins er skipuð af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og teljast á gjaldahlið ríkissjóðs og hins vegar ívilnanir sem hefur verið beitt í gegnum skattkerfið og eru á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins og teljast á tekjuhlið ríkissjóðs. Einnig er hægt að viðhafa lagalegar kvaðir og bönn sem geta fallið undir mismunandi ráðuneyti. Sem dæmi um slíkt er söluskylda eldsneytis (URN), skylda til að raftengja skip í höfnum (IRN) eða grænn kvóti (MAR).

Stuðningur við orkuskipti í gegnum árin.
    Stuðningur við orkuskipti á sér langa sögu. Með lagabreytingu 1967 var Orkusjóður settur á fót og tók við skuldbindingum raforkusjóðs og jarðhitasjóðs. Við fyrri orkuskipti, hitaveituvæðingu landsins eftir orkukreppu áttunda áratugarins, kom til töluverður stuðningur stjórnvalda eins og sjá má á eftirfarandi mynd. Rauða línan sýnir uppsafnaðar lánveitingar sem dró mjög úr upp úr 1980 og lögðust af 2012.
    Orkusjóður styrkti einkum rannsóknir og skýrslugerð árin 2000 til 2015, með áherslu á nýja endurnýjanlega orkugjafa. Árin 2016 til 2018 færðist áhersla sjóðsins einkum á stofnframlög vegna varmadælna á köldum svæðum í stað rafhitunar, auk úthlutana á styrkjum til uppbyggingar hleðslustöðva fyrir rafbíla á landsvísu, sem þátt í hagkvæmum orkuskiptum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Aðgerðir á gjaldahlið – Orkusjóður.
    Fyrsti beini fjárhagslegi stuðningur við innviði fyrir orkuskipti í samgöngum kom til árið 2016 með stuðningi Orkusjóðs við uppbyggingu hleðsluinnviða. Eftirfarandi súlurit sýnir aukinn stuðning Orkusjóðs við orkuskiptin. Árið 2023 verður fyrsta árið sem boðið verður upp á beina tækjakaupastyrki úr sjóðnum með nýju fyrirkomulagi. Af heildarfjármagni sjóðsins árið 2023 (2.500 m.kr.) er gert ráð fyrir að 1000 m.kr. verði varið í rafbílakaupastyrki til bílaleiga og 400 m.kr. í styrki til kaupa á þungaflutningstækjum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Fjárveitingar Orkusjóðs 2016–2023 (kr.).
    Orkusjóður metur áætlaðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda þeirra verkefna sem hann styrkir. Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir styrki og samdrátt í losun áranna 2021 og 2022.

Ár
2021 2022 Áætlun 2023
Innviðastyrkir til orkuskipta frá Orkusjóði (m.kr.) 469 871 914
Olía (áætlaður sparnaður) (L) 2.112.100 3.751.980 4.271.373
CO2 (áætlaður samdráttur) (kg) 5.491.460 9.755.148 11.105.570
kr./L (kostnaður fyrir samdrátt) 222 232 214

    Hver olíulítri sem dettur út hefur með öðrum orðum kostað sjóðinn rúmar 200 kr. Samþykkt verkefni síðasta árs eiga að leiða til þess að fjórar milljónir olíulítra hverfa úr notkun, en það samsvarar um 10 milljónum kg CO2.

Stuðningur tekjuhlið – skattkerfið.
    Hingað til hefur stuðningur til orkuskipta verið mestur í formi ívilnana í gegnum skattkerfið (á tekjuhliðinni) þar sem almenningur hefur fengið niðurfelldan virðisaukaskatt fyrir kaup á raf- og tengiltvinnbílum. Skattafsláttur til rafbílakaupenda hófst árið 2012. Á síðustu árum hefur ríkið fellt niður virðisaukaskatt af bifreiðum til að stuðla að loftslagsvænum samgöngum. Þegar litið er til heildarfjárhæðar VSK-ívilnunar í tolli vegna rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla má sjá að fjárhæð ívilnunar nemur 34 ma.kr. á árunum 2012–2022. Stjórnvöld hafa þannig fellt niður um 21 ma.kr. VSK vegna kaupa á hreinorkubílum og á sama tíma um 13 ma.kr. VSK vegna tengiltvinnbíla. Eftirfarandi mynd sýnir VSK-ívilnun í tolli vegna kaupa á vistvænum bílum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Tengiltvinnbílar gegndu mikilvægu hlutverki við upphaf orkuskiptanna en ívilnunum vegna þeirra lauk á árinu 2022. VSK-ívilnanir vegna vetnis- og rafbíla voru framlengdar til ársloka 2023 og er áætlað að þær nemi yfir 10 ma.kr. á árinu 2023. Auk þess má nefna VSK-ívilnanir vegna hleðslustöðva, reiðhjóla, niðurfellingu á vörugjaldi vistvæns eldsneytis auk fullrar fyrningar á kaupári vistvænna bíla, grænna fjárfestingarhvata o.fl. Þetta hafa verið árangursríkar aðgerðir sem hafa sett Ísland mjög framarlega í árangri orkuskipta ef horft er til mælikvarðans nýskráningar vistvænna bifreiða, en Ísland hefur mörg undanfarin ár haldið þeirri stöðu að vera með næstflestar nýskráningar vistvænna bifreiða í heiminum, einu sæti á eftir Noregi. Orkuskipti fólksbílaflotans ganga því vel og er Ísland á meðal fremstu þjóða á heimsvísu í rafvæðingu fólksbílaflotans. Ljóst er að lögfesting skattalegra ívilnana, sérstaklega ívilnana í lögum um virðisaukaskatt ásamt öðrum skattalegum hvötum til þess að styðja við kaup á vistvænum bílum, hefur þar skipt sköpum. Eftirfarandi mynd sýnir þróun fjölda og hlutfall nýskráninga frá árinu 2012.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Bílaleigur og orkuskipti.
    Í stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum 2022 segir: „Innkaup bílaleiga hafa mikil áhrif á samsetningu bílaflotans og því er brýnt að hraða orkuskiptum bílaleiga eins og kostur er. Hlutfall nýorkubíla í innkaupum bílaleiga hefur verið miklu lægra en hjá almenningi. Ef þetta breytist ekki hratt mun samsetning bílaflotans seint ná nauðsynlegu jafnvægi.“
    Árið 2022 voru 44% nýskráðra fólksbíla í eigu bílaleiga. Bílaleigubílar vega þannig þungt í fólksbílaflota landsins. Af landfræðilegum ástæðum eru bílaleigubílar almennt ekki seldir úr landi þegar þeim er skipt út. Þeir bílar sem bílaleigur kaupa fara því á eftirmarkað innan lands fyrir almenna neytendur og því má segja að þær ákvarðanir sem bílaleigur taka varðandi innkaup hafi mikil áhrif á samsetningu bílaflota landsmanna. Hlutfall nýskráðra rafmagnsbíla hjá bílaleigum árið 2022 var einungis rúm 7% sem er mun lægra en hjá almenningi, eða 35%. Þeir skattalegu hvatar sem hafa verið til staðar virðast samkvæmt því ekki hafa haft áhrif til orkuskipta hvað varðar bílaflota bílaleiga. Því er til mikils að vinna að þeir bílar sem fara frá bílaleigum á eftirmarkað hverju sinni séu hreinorkubílar þar sem slík þróun styður jafnframt við kaup einstaklinga á notuðum hreinorkubílum. Ef litið er til hlutfalls nýskráðra hreinorkubíla það sem af er ári 2023 (tölur 1.9.2023) má sjá að hlutfall nýskráðra hreinorkubíla hjá bílaleigum er 16% hvað varðar fólksbíla og 6% hvað varðar sendibíla.
    Í nýlegri skýrslu starfshóps um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála kemur fram sú afstaða að markvissara væri að styðja við kaup bílaleiga á hreinorkubílum með fjárveitingum í stað nýrra skattalegra ívilnana, eða viðhalds á tímabundnum vörugjaldsafslætti. Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna lækkunar vörugjalds samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XIX í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nam 875 m.kr. vegna ársins 2021 og 1629 m.kr. vegna ársins 2022.

Frávik frá grunngerð skattkerfis Lagastoð Skattur Stuðningur við bílaleigur 2020 m.kr. 2021 m.kr. 2022 m.kr. 2023 áætl. m.kr.
Vistvænir bílar: full fyrning á kaupári TSKL nr. 90/2003, brbákv. LXIX, sbr. lög nr. 154/2019 Tsk. lögaðila Já, frestun á tekjuskatti og því jákvæð áhrif á sjóðstreymi X* X* X*
Vistvænir bílar: flýtifyrning, Covid-úrræði TSKL nr. 90/2003, brbákv. LXX, 1. mgr., sbr. lög nr. 33/2021 Tsk. lögaðila Já, frestun á tekjuskatti og því jákvæð áhrif á sjóðstreymi X* X*
Grænar fjárfestingar: fyrnanleg upphækkun, Covid-úrræði TSKL nr. 90/2003, brbákv. LXX, 2.–6. mgr., sbr. lög nr. 33/2021 og reglugerð 565/2022 Tsk. lögaðila Já, frestun á tekjuskatti og því jákvæð áhrif á sjóðstreymi
Vistvænir bílar: VSK-undanþága við innfl. og fyrstu sölu VSKL nr. 50/1988, brbákv. XXIV, 1.–5. mgr. VSK Jákvæð áhrif á sjóðstreymi innan hvers VSK-tímabils 1 4 7 11
Vistvænir bílar: VSK-undanþága fyrir útleigu, skamm- og langtíma VSKL nr. 50/1988, brbákv. XXXIX, sbr. lög nr. 154/2019 VSK Einungis bílaleigur njóta stuðnings; beinn og mikill stuðningur 7 146 684 900
Vistvænir bílar: VSK-undanþága við endursölu VSKL nr. 50/1988, brbákv. XXIV, 8. mgr., sbr. lög nr. 133/2020 og 33/2022 VSK Óbeinn og mikill stuðningur 10 50 100
Bílaleigur: hvati til orkuskipta – afsláttur af vörugjaldi bensín-/dísilbíla Lög nr. 29/1993, brbákv. XIX, sbr. lög nr. 140/2020 Vörugjald Einungis bílaleigur njóta stuðnings; beinn og mikill stuðningur 875 1.629
*Fjárhæð tekjutaps ríkisins vegna hlutdeildar bílaleiga er háð mikilli óvissu. Heimild: fjármála- og efnahagsráðuneytið – skrifstofa skattamála.

    Auk þess sem fram kemur í framangreindri töflu nutu bílaleigur á árunum 2010–2018 sérstaks vörugjaldsafsláttar sem hafði það að markmiði að styðja ferðaþjónustu um land allt, sbr. eftirfarandi (fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs):

Ár 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Upphæð í m.kr. 694 1116 1943 1074 2002 2968 2.978 4.119 1.503

    Í ljósi tillagna frá starfshópi um umhverfisskatta hefur verið ákveðið að framhald stuðnings verði ekki á tekjuhliðinni heldur á útgjaldahlið með beinum stuðningi til bílaleiga í eitt ár. Orkusjóði hefur verið falið að sjá um styrki vegna átaks til fjölgunar rafbifreiða hjá bílaleigum að upphæð einn milljarður króna, ef keyptur er 100% rafbíll.
    Upphæðin sem um ræðir (1 ma.kr) er að meðaltali lægri en hefur verið veitt undanfarin ár í gegnum vörugjaldaafslátt til bílaleiga. Hér er því um að ræða tilfærslu sem auk þess fer nú alfarið í hrein orkuskipti, ólíkt fyrri aðgerð. Beini styrkurinn sem veittur verður á þessu ári er einungis veittur til kaupa á hreinum rafbílum. Auk þess er sett verðþak svo tryggt verði að ódýrari rafbílar komist á eftirmarkað notaðra bifreiða.
    Eftirfarandi mynd sýnir þróun orkuskipta hjá bílaleigum sem fóru ekki af stað fyrr en vörugjaldahvatinn var settur á laggirnar. Þrátt fyrir það er hlutfall nýskráninga lægra en hjá almenningi árið 2022 sem er um 60%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Ný fjármálaáætlun, breytt nálgun.
    Í fjármálaáætlun er lögð áhersla á að aðgerðir í þágu orkuskipta verði færðar af tekjuhlið fjárlaga yfir á gjaldahlið. Það er í samræmi við tillögur starfshóps um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála. Í stað VSK-endurgreiðslna vegna hreinorkubifreiða sem renna út í árslok 2023 er veitt fjárheimild til Orkusjóðs. Því er í fjármálaáætlun veitt ný fjárheimild í Orkusjóð fyrir 7,5 ma.kr. á ári fyrir árin 2024–2025 og svo 5 ma.kr. árin 2026–2028, eða alls 30 ma.kr. á tímabili áætlunarinnar. Dregið verður úr stuðningnum samhliða bættum innviðum og minni verðmunar á hreinorkubílum og bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti á síðari hluta fjármálaáætlunar, en gert er ráð fyrir að rafbílar lækki áfram í verði. Með því fyrirkomulagi má áfram styðja vel við orkuskiptin og beina stuðningnum þangað sem ávinningurinn er mestur.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Þá benti starfshópurinn um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála á að VSK-ívilnunin hafi að mestu leyti nýst tekjuhærri einstaklingum og heimilum. Starfshópurinn lagði því til í því augnamiði að stuðla að réttlátum orkuskiptum og auka faglega yfirsýn að stjórnvöld ættu nú frekar að huga að sértækari stuðningi fyrir tekjulægri heimili með það að markmiði að hvetja og styðja þau heimili enn frekar til þátttöku í orkuskiptunum. Að mati hópsins væri rétt að útfæra stuðninginn með þeim hætti að hann verði frekar í formi beins tímabundins stuðnings út frá tilteknum skilyrðum, t.d. út frá verði bíls, og tekjum síðasta árs frekar en að sérstakar ívilnanir séu veittar í gegnum VSK-kerfið. Að mati starfshópsins er slík leið gagnsærri og hentar betur þegar stuðningi er beint að tilteknum tekjuhópum frekar en að stuðningurinn fari í gegnum VSK-kerfið. Tillögur starfshópsins varða að miklu leyti það að færa hagræna hvata af tekjuhliðinni (skattaívilnanir) yfir á útgjaldahliðina (beinir styrkir). Það sé almennt markvissari leið að árangri.

     2.      Snúa markmið ríkisstjórnarinnar aðeins að orkuskiptum bílaflotans eða einnig að fækkun bifreiða í umferð, í ljósi þess að bifreiðum er enn að fjölga töluvert hvert ár? Ef ekki, af hverju ekki? Ef svo er, hvaða vinna fer fram í ráðuneytinu til að stuðla að því?
    Eitt af markmiðum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er að stuðla að breyttum ferðavenjum og fjölga þeim sem ferðast með almenningssamgöngum, á hjóli eða gangandi og draga þannig úr umferð bifreiða. Til að ná því markmiði er einkum horft til uppbyggingar innviða og styrkingar almenningssamgangna. Á tímabilinu 2020–2024 er gert ráð fyrir 23 ma.kr. til verkefna sem ætlað er að stuðla að breyttum ferðavenjum. Verkefnin fela í sér uppbyggingu innviða til að fjölga fólki sem notar virka ferðamáta, svo sem hjólreiðar og göngu og skattstyrki sem hvetja fólk til að nota virka ferðamáta, svo sem hjólreiðar og göngu.
    Til viðbótar hafa verið gerðar lagabreytingar sem styðja við virka ferðamáta með niðurfellingu virðisaukaskatts. Áætlað er að skattastyrkur vegna reiðhjóla, rafmagnsreiðhjóla og rafmagnshlaupahjóla nemi 325 m.kr. árlega á árunum 2020–2023.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.