Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1264, 151. löggjafarþing 399. mál: tekjuskattur (hvatar til fjárfestinga).
Lög nr. 33 29. apríl 2021.

Lög um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (hvatar til fjárfestinga).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir hámark fyrningar skv. 1.–4. tölul. 37. gr. er heimilt á árunum 2021–2025 að fyrna eignir skv. 1. tölul. 33. gr., sem aflað er á árunum 2021 og 2022, um allt að 50% af fyrningargrunni, allt að niðurlagsverði eignar, sbr. 42. gr.
     Að auki er heimilt að reikna sérstakt fyrningarálag á stofnverð eigna sem aflað er á árunum 2021–2025 og teljast umhverfisvænar, stuðla að sjálfbærri þróun, uppfylla áskilin skilyrði og falla undir einn af eftirfarandi flokkum:
  1. Vistvænar samgöngur.
  2. Endurnýjanleg orka.
  3. Hreinsun fráveituvatns og endurnýting úrgangs.
  4. Sjálfbær og umhverfisvæn stýring á náttúruauðlindum og landnotkun.

     Fyrningarálag skv. 2. mgr. skal vera eftirfarandi:
  1. 25% vegna lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr.
  2. 13,3% vegna lögaðila skv. 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr.
  3. 13,18% vegna einstaklinga í atvinnurekstri.

     Fyrningarálag skv. 2. og 3. mgr. á einnig við um eignir sem falla ekki undir framangreinda flokka en eru umhverfisvottaðar af viðurkenndum aðilum eða uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:
  1. Eru með A+ eða hærri einkunn samkvæmt orkuviðmiðum Evrópusambandsins.
  2. Eru hluti af kerfi eða starfsemi sem felst í framleiðslu á vöru sem hefur hlotið umhverfisvottun frá viðurkenndum aðilum.
  3. Eru tilgreindar í viðeigandi BAT-niðurstöðum Evrópusambandsins og uppfylla losunarviðmið í viðeigandi BAT-niðurstöðum Evrópusambandsins.
  4. Eru knúnar a.m.k. 85% af raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, lífeldsneyti eða rafeldsneyti.
  5. Minnka rafmagnsnotkun um a.m.k. 30% eða minnka losun loftmengunarefna um a.m.k. 50% samanborið við hina útskiptu eign eða samanburðareign á markaði.

     Fyrningarálag er fyrnanlegt með jöfnum fjárhæðum á þremur árum frá og með rekstrarárinu 2023 en er hvorki heimilt að færa niður í heild eða að hluta á móti skattskyldum söluhagnaði, sbr. 14. gr., né telst til stofnverðs skv. 2. mgr. 12. gr. við útreikning á skattskyldum söluhagnaði. Ónýtist eign eða er seld áður en fyrningarálagið er að fullu nýtt fellur það sem eftir stendur niður án gjaldfærslu.
     Fyrningarálag og nýting þess skal vera aðgreint sérstaklega í eignaskrá með skattframtali hvers árs með tilvísun til þeirrar eignar sem það reiknast af. Með framtali skal jafnframt skila, á því formi sem ríkisskattstjóri óskar, rökstuðningi um hvernig skilyrði fyrningarálags teljast uppfyllt varðandi hverja eign.
     Óheimilt er að reikna fyrningarálag þegar fjárfestinguna leiðir af skyldum og kröfum sem skattaðila ber að uppfylla í rekstri sínum og rekstrarumhverfi samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum. Enn fremur er ekki heimilt að reikna fyrningarálag, þrátt fyrir að skilyrði 2. eða 4. mgr. teljist uppfyllt, ef eign telst valda umtalsverðu tjóni sem gengur gegn einu eða fleiri umhverfismarkmiðum eins og þau markmið eru skilgreind í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 8. mgr.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal nánari afmörkun á því hvaða eignir teljast falla undir 2. og 4. mgr., þar sem alþjóðleg viðmið skulu höfð til hliðsjónar, og hvenær skattaðili telst vera í fjárhagsvanda.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu 2022 og síðar eftir því sem nánar er mælt fyrir um í 1. gr.

Samþykkt á Alþingi 20. apríl 2021.