Ferill 585. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2082  —  585. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Umhverfis- og orkustofnun.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun, Landvernd og Félagi íslenskra náttúrufræðinga.
    Nefndinni bárust níu umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis. Þá bárust nefndinni tvö minnisblöð frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti auk minnisblaðs frá kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót nýrri Umhverfis- og orkustofnun sem taki við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Samhliða er lagt til að Orkustofnun verði lögð niður. Í frumvarpi til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun er lagt til að Umhverfisstofnun verði einnig lögð niður, sbr. þskj. 1249, 831. mál.
    Frumvarpið er liður í stofnanabreytingum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Breytingarnar miða að einfaldara stofnanakerfi með öflugri vinnustöðum, bættri þjónustu, eflingu þekkingar- og lærdómssamfélags og fjölgun starfa á landsbyggðinni. Frumvarpið byggist á frumathugun sem unnin var í samvinnu við forstöðumenn og starfsfólk stofnana. Athugunin leiddi skýrt í ljós mikla samlegð með verkefnum Orkustofnunar og þeim hluta Umhverfisstofnunar sem lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum. Megintilgangur nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar verður að stuðla að því að markmið stjórnvalda um loftslagsmál gangi eftir auk þess að leggja áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda með náttúruvernd og lágmörkuð umhverfisáhrif að leiðarljósi.
    Að mati meiri hlutans mun hin nýja Umhverfis- og orkustofnun vera enn betur í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem nú eru á hendi Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar og má þar nefna á sviði hollustuhátta og mengunarvarna, rannsókna, stjórnar vatnamála, náttúruverndar og orkumála. Þá verður stofnunin mikilvæg stoð í þeim krefjandi verkefnum sem Ísland stendur frammi fyrir í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum. Með aukinni samþættingu þessara málaflokka verður unnt að sinna þeim með aukinni skilvirkni og hægt verður að byggja aðgerðir í þeim á sterkari gögnum og með betri nýtingu þekkingar.

Raforkueftirlit.
    Með frumvarpinu er lagt til að innan Umhverfis- og orkustofnunar skuli starfa sérstök eining sem nefnist Raforkueftirlitið en sú eining starfar nú innan Orkustofnunar. Raforkueftirlitið ber að aðgreina frá annarri starfsemi stofnunarinnar og tryggja þarf sjálfstæði í störfum þess en þá kröfu leiðir af skuldbindingum Íslands gagnvart EES-samningnum.
    Í umsögn Orkustofnunar er gerð athugasemd við tillögu frumvarpsins að ráðherra skipi skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins að undangengnu mati hæfnisnefndar. Að mati stofnunarinnar gefi sú tilhögun tilefni til sérstakrar skoðunar á hversu vel hún samrýmist forsendum þess að raforkueftirlit skuli vera óháð stjórnmálalegum hagsmunum. Meiri hlutinn bendir á að sú ráðstöfun sem lögð er til með frumvarpinu á ekki að skerða sjálfstæði hans. Eins og fram kemur í áliti meiri hlutans um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun og raforkulögum (Raforkueftirlitið), sbr. þskj. 1141, 29. mál, er nokkuð algengt að svo hátti til um skipanir innan stjórnsýslunnar og hefur ekki verið talið að það hafi áhrif á sjálfstæði stofnana í störfum þeirra.
    Í umsögn Landsvirkjunar er bent á að það væri til bóta að það yrði skýrt betur hver fari með ráðningar starfsfólks raforkueftirlits. Sambærileg ábending kemur fram í umsögn Orkustofnunar sem segir að hið minnsta ætti að tryggja að ráðningar fari fram í samráði við skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins. Skv. 2. gr. frumvarpsins mun forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar bera ábyrgð á ráðningu starfsfólks og fara með yfirstjórn starfsmannamála. Forstjóri mun því ráða annað starfsfólk stofnunarinnar. Meiri hlutinn gerir þó ráð fyrir að ráðningar starfsfólks Raforkueftirlitsins fari fram í samráði við skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins. Þá er einnig ljóst að þó að forstjóri ráði starfsfólkið þá er tryggilega búið að sjálfstæði þess í frumvarpinu.

Eftirlit Umhverfis- og orkustofnunar.
    Fyrir nefndinni voru reifuð sjónarmið um að sameining Orkustofnunar og hluta Umhverfisstofnunar komi ekki til með að styrkja stofnunina til eftirlitshlutverka sinna og var sérstaklega tekið dæmi af eftirliti með lögum og reglum er varða umhverfi og náttúru.
    Að mati meiri hlutans er ljóst að með frumvarpinu mun verða til stór og kröftug stofnun sem hefur meiri burði til að sinna bæði eftirliti og leyfisveitingum samkvæmt þeim lögum sem stofnunin mun starfa eftir. Fjölmenn og sterk fagstofnun mun koma til með að styrkja umsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála. Þar verði byggð upp frekari þekking ásamt auknum skilningi á samlegð og samspili þeirra málaflokka sem undir stofnunina munu falla. Slík stofnun mun enn fremur geta betur tekist á við krefjandi áskoranir og umhverfi stöðugrar þróunar og þá verður þverfaglegt samstarf innan stofnunarinnar markvissara. Þá bendir meiri hlutinn á að ný stofnun þeirra málaflokka sem sameinast í eina, verði frumvarpið að lögum, geti átt mikla samlegð með öðrum opinberum stofnunum hvað varðar öflugri vinnustaði, þar sem fleiri en ein stofnun deila húsnæði og stoðþjónustu. Það skili sér í bættri þjónustu við borgarana og eflingu þekkingar- og lærdómssamfélags, til að mynda með fjölgun starfa á sömu starfsstöðinni. Að mati meiri hlutans getur mikil samlegð falist í samvist og samvinnu opinberra stofnana.

Málefni starfsfólks.
    Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu er gert ráð fyrir að allt starfsfólk Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar, sem hefur sinnt þeim verkefnum sem munu heyra undir nýja Umhverfis- og orkustofnun, muni njóta forgangs til þeirra starfa sem verða til með tilkomu nýrrar stofnunar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé fyrst og fremst að koma á fót faglega sterkri stofnun og sé ávinningurinn þar margþættur. Markmiðið er því ekki að fækka störfum heldur megi m.a. gera ráð fyrir að tilkoma nýrrar stofnunar leiði í ljós aukinn fjölbreytileika starfa. Það er því lagt til að störfin verði lögð niður og það starfsfólk sem hafi sinnt störfunum hafi þá forgang til að ráða sig í nýtt starf hjá Umhverfis- og orkustofnun.
    Þegar stofnun er lögð niður þarf að taka afstöðu til þess hvernig fara á með málefni starfsfólks stofnunarinnar við niðurlagningu. Almennt er talið að þar séu þrjár leiðir færar. Í fyrsta lagi að leggja öll störf niður og auglýsa ný störf. Í öðru lagi að leggja öll störf niður og tryggja starfsfólki forgang að nýjum störfum. Í þriðja lagi að leggja ekki niður störf heldur flytja þau til annarrar stofnunar með yfirtöku ráðningarsamninga. Nái fleiri en ein leið því markmiði sem að er stefnt með niðurlagningu stofnunar er rétt að velja þá leið sem er minnst íþyngjandi gagnvart starfsfólki stofnunarinnar.
    Ný Umhverfis- og orkustofnun mun taka við verkefnum Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Við samþykkt frumvarpsins mun, í kjölfar ráðningar nýs forstjóra, hefjast stefnumótun fyrir hina nýju stofnun. Í stefnumótuninni felst að móta nýja framtíðarsýn, meginmarkmið og áherslur nýrrar stofnunar. Þá verður nýtt skipurit teiknað upp og samhliða mun það skýrast hvernig ný störf eru samsett. Afurð stefnumótunarinnar getur því óhjákvæmilega leitt til breytinga á störfum. Ekki er gert ráð fyrir að starf verði auglýst nema starfsfólk viðkomandi stofnana þiggi það ekki eða það samræmist ekki þeirri þekkingu eða færni sem er til staðar hjá starfsfólki. Forstjóri nýrrar stofnunar mun fá í hendur greinargerð frá mannauðshópi stofnanabreytinga þar sem lagt er mat á stöðu mannauðsmála þeirra stofnana sem munu mynda nýja stofnun og tillögur að aðgerðum í mannauðsmálum. Að mati meiri hluta nefndarinnar er því rétt að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar um frumvarpið kemur fram það mat stofnunarinnar að það sé óljóst hvort starfsfólk haldi áunnum orlofsréttindum sínum inn í nýja ráðningu hjá Umhverfis- og orkustofnun. Í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 25. mars sl., kemur fram að starfsfólk stofnana haldi rétti til orlofs þó að það hætti störfum hjá einni stofnun til að hefja störf í annarri stofnun. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að gætt verði sérstaklega að kjarasamningsbundnum réttindum starfsfólks sem hlýtur ráðningu í ný störf hjá hinni nýju stofnun.

Breytingartillögur.
    Við þinglega meðferð málsins var frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun og raforkulögum (Raforkueftirlitið) samþykkt í mars sem lög frá Alþingi, sbr. lög nr. 22/2024. Lögin kveða á um breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun með skýrari innleiðingu ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB sem lúta að því að styrkja og tryggja betur sjálfstæði raforkueftirlits. Lögin tóku strax gildi, utan 3. gr. þeirra sem kveður á um skipan skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins og tekur gildi 1. janúar 2026. Því leggur meiri hlutinn til sömu breytingu í þessu máli varðandi gildistöku.
    Þá leggur meiri hlutinn til sambærilega breytingu og gerð var á framangreindu frumvarpi, 29. máli, sbr. þskj. 1141, þess efnis að vísað verði til gagnsæis og jafnræðis í tengslum við starfsreglur sem Raforkueftirlitið setur sér og birtir almenningi.
    Jafnframt leggur meiri hlutinn til, í samráði við ráðuneytið, að fella brott 6. tölul. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins um setningu tekjumarka flutnings- og dreififyrirtækja, í samræmi við umsögn Orkustofnunar. Það er mat ráðuneytisins að ekki sé þörf á að tilgreina sérstaklega þetta verkefni þar sem það verkefni getur fallið undir 1. og 2. tölul.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      6. tölul. 2. mgr. 4. gr. falli brott.
     2.      Á eftir orðunum „sjálfstæði sitt“ í 2. mgr. 5. gr. komi: gagnsæi og jafnræði.
     3.      Við 7. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði 3. mgr. 2. gr. gildi 1. janúar 2026.
     4.      Við 8. gr.
                  a.      1. tölul. falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „Loftslagsstofnun“ í e-lið 12. tölul. komi: Umhverfis- og orkustofnun.
                  c.      Í stað orðsins „Loftslagsstofnun“ í d-lið 15. tölul. komi: Umhverfis- og orkustofnun.
                  d.      A-liður 20. tölul. orðist svo: Í stað orðanna „Orkustofnun“ og „Orkustofnunar“ í 3. gr. a laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     5.      Orðin „þegar Umhverfisstofnun og Orkustofnun eru lagðar niður“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða falli brott.

Alþingi, 22. júní 2024.

Bjarni Jónsson,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þórunn Sveinbjarnardóttir.