Kjartan Jóhannsson

Kjartan Jóhannsson

Þingseta

Alþingismaður Reyknesinga 1978–1989 (Alþýðuflokkur).

Sjávarútvegsráðherra 1978–1979, sjávarútvegs- og viðskiptaráðherra 1979–1980.

Forseti neðri deildar 1988–1989.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 19. desember 1939, dáinn 13. nóvember 2020. Foreldrar: Jóhann Þorsteinsson (fæddur 9. maí 1899, dáinn 16. mars 1976) kennari þar, síðar forstjóri hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði, bróðir Arndísar, ömmu Guðna Ágústssonar alþingismanns, og kona hans Astrid, fædd Dahl (fædd 13. nóvember 1908, dáin 1. júlí 2000) hjúkrunarkona. Maki (19. júní 1964): Irma Karlsdóttir (fædd 26. mars 1943) bankafulltrúi. Foreldrar: Alf Eriksson og kona hans Gerda, fædd Anderson. Dóttir: María (1963).

Stúdentspróf MR 1959. Próf í byggingarverkfræði við Kungl. Tekniska Högskolan í Stokkhólmi 1963. Nám í rekstrarhagfræði við Stokkhólmsháskóla 1963–1964. MS-próf í rekstrarverkfræði við Illinois Institute of Technology í Chicago 1965, sérnám og rannsóknir við sama skóla og doktorspróf þaðan 1969.

Vann á Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar og Guðmundar B. Guðmundssonar og sem stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík 1963, hjá Vegagerð ríkisins 1964 og á Reiknistofnun Háskóla Íslands 1969. Rak ráðgjafarþjónustu í rekstrarskipulagningu og áætlanagerð í Reykjavík 1966–1978. Stundakennari við verkfræðideild Háskóla Íslands 1971–1973. Skipaður dósent í stærðfræðilegri hagfræði og tölfræði í viðskiptadeild Háskóla Íslands frá 1. janúar 1974, lausn 1. ágúst 1990, leyfi 1978–1980 og 1989–1990. Skipaður 1. september 1978 sjávarútvegsráðherra, lausn 12. október 1979, en gegndi störfum til 15. október. Skipaður 15. október 1979 sjávarútvegs- og viðskiptaráðherra, lausn 4. desember 1979, en gegndi störfum til 8. febrúar 1980. Skipaður sendiherra frá 1. ágúst 1989, lausn 1. janúar 2006, leyfi 1. september 1994 til 1. september 2000. Fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðastofnunum í Genf 1989–1994, jafnframt sendiherra í Egyptalandi, Eþíópíu, Tansaníu og Kenía. Kjörinn samhljóða á fundi utanríkisviðskiptaráðherra EFTA-landanna Austurríkis, Finnlands, Íslands, Liechtensteins, Noregs, Sviss og Svíþjóðar hinn 16. júní 1993 í stöðu aðalframkvæmdastjóra samtakanna (Secretary General), hóf störf 1. september 1994, lét af embætti 1. september 2000. Sendiherra í utanríkisráðuneytinu 2000–2002. Fastafulltrúi Íslands í Brussel hjá Evrópusambandinu 2002–2005, jafnframt sendiherra í Liechtenstein, Lúxemborg og Marokkó.

Formaður Íslendingafélagsins í Stokkhólmi 1961–1963. Í fyrstu stjórn Sambands íslenskra stúdenta erlendis (SÍSE, síðar SÍNE) 1962–1963, formaður 1963–1964. Formaður Styrktarfélags aldraðra í Hafnarfirði (síðar Félags eldri borgara í Hafnarfirði), 1976–1979. Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og bæjarráðsmaður 1974–1978. Varaformaður Alþýðuflokksins 1974–1980, formaður flokksins 1980–1984. Formaður útgerðarráðs Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar 1970–1974. Í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins 1969–1974 og í stjórn Ísals 1969–1974. Í nefnd um endurskoðun bankakerfisins 1980–1983. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1976, 1982 og 1985. Í stjórn Grænlandssjóðs 1983–1987. Fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins 1980–1989 og í þingmannanefnd EFTA 1985–1989, formaður 1985–1986. Í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna 1987–1989. Formaður nefndar um staðgreiðslu skatta 1987, nefndar um húsnæðislán 1988–1989 og nefndar um virðisaukaskatt 1989. Formaður Evrópustefnunefndar 1988–1989. Sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands 1994, gerður heiðursfélagi Aðgerðarannsóknafélags Íslands 2006.

Alþingismaður Reyknesinga 1978–1989 (Alþýðuflokkur).

Sjávarútvegsráðherra 1978–1979, sjávarútvegs- og viðskiptaráðherra 1979–1980.

Forseti neðri deildar 1988–1989.

Hefur skrifað bækur, bókarkafla og greinar sem birst hafa í tímaritum og blöðum um verkfræði, skipulagsmál, heilbrigðismál, alþjóðamál, þjóðmál o. fl.

Æviágripi síðast breytt 7. desember 2020.

Áskriftir