Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 1997.  Útgáfa 121a.  Prenta í tveimur dálkum.


Iðnaðarlög

1978 nr. 42 18. maí1. gr. Lög þessi taka til rekstrar hvers konar iðnaðar í atvinnuskyni. Til iðnaðar telst bæði handiðnaður og verksmiðjuiðnaður, hvaða efni eða orka, vélar eða önnur tæki sem notuð eru og hvaða vörur eða efni sem framleidd eru. Heimilisiðnaður skal undanskilinn ákvæðum laganna.
2. gr. Enginn má reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi lögum þessum samkvæmt.
3. gr. Hver maður getur fengið leyfi til að reka iðnað, handiðnað og verksmiðjuiðnað, ef hann fullnægir eftirgreindum skilyrðum:
    1. [Er íslenskur ríkisborgari. Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang. Frá gildistöku laga um Evrópska efnahagssvæðið skulu ríkisborgarar annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins vera undanþegnir skilyrðum um íslenskt ríkisfang og búsetu hér á landi samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur með reglugerð. 1)] 2)
    2. Er lögráða.
    3. Hefur forræði á búi sínu.
    4. Hefur ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 68. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.
    5. Hefur viðskiptaþekkingu, svo sem bókhaldskunnáttu, sem krafist er við burtfararpróf úr iðnskóla.
    6. Fullnægir að öðru leyti skilyrðum þeim, sem sett eru í lögum þessum.
[Iðnaðarráðherra getur veitt undanþágur frá ríkisfangsskilyrði 1. tölul. og ákvæðum 4. og 5. tölul.] 3)
    1)Rg. 620/1995. 2)L. 70/1993, 2. gr. 3)L. 23/1991, 15. gr.
4. gr. [Nú vill félag eða annar lögaðili reka iðnað og getur þá slíkur lögaðili fengið til þess leyfi, enda uppfylli framkvæmdastjórar og stjórnarmenn lögaðila og, sé um að ræða félag þar sem allir eða sumir félagsmanna bera fulla ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þeir félagsmanna, sem fulla ábyrgð bera á skuldbindingum félagsins, skilyrði 2.–6. tölul. 3. gr. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila, sem erlendur aðili á hlut í, skal enn fremur fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.] 1)
    1)L. 23/1991, 15. gr.
5. gr. Leyfi glatast, ef leyfishafi missir einhverra þeirra skilyrða, sem í 3. og 4. gr. segir, eða þeirra skilyrða, sem annars eru sett eða kunna að verða sett til að halda réttinum. Nú missir stjórnandi eða framkvæmdastjóri félags slíkra skilyrða, eða félag eða stofnun missir íslenskt heimilisfang, og skal þá aðili hafa komið málinu í löglegt horf innan 3ja mánaða frá því að breyting varð, en hafi ella fyrirgert leyfi sínu. Ráðherra getur þó lengt frestinn um 3 mánuði, ef sérstaklega stendur á.
6. gr. Leyfi er bundið við nafn. Rétt er maka að halda áfram iðnaði látins maka síns án nýs leyfis, enda fullnægi makinn lögmæltum skilyrðum.
Bú aðila, er leyfi hafði, má reka iðnaðinn, að því leyti sem sá rekstur er þáttur í skiptameðferð þess. Erfingi 16 ára eða eldri má reka iðnað arfleiðanda án nýs leyfis, þar til hann er fjárráða, ef hann að öðru leyti fullnægir skilyrðum 3. gr.
7. gr. Greina skal í iðnaðarleyfi, hvers konar verksmiðjuiðnað heimilt sé að reka samkvæmt því og hvar hann megi reka. Ekki veitir leyfi heimild til að reka verksmiðjuiðnað annarrar tegundar en nefnd er í leyfi.
Veita má sama aðila leyfi til að reka verksmiðjuiðnað í fleiri en einni grein og leyfi til að reka verksmiðjuiðnað á fleiri stöðum en einum.
8. gr. Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar samkvæmt iðnfræðslulögum og reglugerðum 1) settum samkvæmt þeim, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara.
Meistari skal bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst.
Rétt til iðnaðarstarfa í slíkum iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni. Heimilt er sérfélögum, sveina- og meistarafélagi í sömu iðn að gera sín á milli samning um það, að ráða megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma í senn, þegar sérstaklega stendur á og brýn þörf er á auknum vinnukrafti í iðninni. Einnig getur hver og einn unnið iðnaðarstörf fyrir sjálfan sig og heimili sitt, enn fremur fyrir opinbera stofnun eða fyrirtæki, sem hann vinnur hjá, ef um minni háttar viðhald á eignum þessara aðila er að ræða.
Í sveitum, kauptúnum og þorpum með færri en 100 íbúa mega óiðnlærðir menn vinna að iðnaðarstörfum.
    1)Rg. 558/1981.
9. gr. Rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni.
10. gr. Hver maður getur leyst meistarabréf, ef hann fullnægir þeim skilyrðum, sem í 3. gr. segir, og hefur lokið sveinsprófi í iðngrein sinni, enda hafi hann unnið að henni síðan undir stjórn meistara ekki skemur en eitt ár og lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Meðan eigi er meistaraskóli í iðninni, getur hver maður leyst meistarabréf, hafi hann unnið undir stjórn meistara í iðngreininni eða nátengdri iðngrein að loknu sveinsprófi eigi skemur en tvö ár.
Meistarabréf veitir meistara leyfi til að reka þá iðngrein, er meistarabréf hans tekur til.
11. gr. Sá hefur fyrirgert meistarabréfi sínu, sem missir einhvers þeirra skilyrða, er fullnægja þarf til þess að öðlast það.
12. gr. Lögreglustjóri, þar sem aðili á lögheimili, lætur af hendi meistarabréf að fenginni umsögn hlutaðeigandi iðnráðs, svo og iðnaðarleyfi.
Nú synjar lögreglustjóri um meistarabréf eða iðnaðarleyfi, eða ágreiningur verður um það, hvort aðili hafi misst rétt sinn, og er aðila þá rétt að bera málið undir iðnaðarráðherra. Enn fremur getur hann leitað úrskurðar dómstóla.
Gjalda skal í ríkissjóð fyrir iðnaðarleyfi og meistarabréf.
13. gr. Halda skal skrá yfir iðnaðarleyfi og meistarabréf, sem veitt eru lögum þessum samkvæmt.
Leyfishafar skulu jafnan tilkynna lögreglustjóra heimilisfang atvinnustöðvar sinnar og útibú og allar breytingar, er þar á verða. Lögreglustjóri framsendir síðan þær tilkynningar til skrár þeirrar, sem haldin er.
Ráðherra setur nánari fyrirmæli um þessi efni.
14. gr. Í hverjum kaupstað skal vera iðnráð. Skal hlutverk þess vera að veita lögreglustjórum aðstoð við að halda uppi eftirliti með ákvæðum laga þessara varðandi handiðnað, auk þess að starfa samkvæmt lögum um iðnfræðslu.
Í iðnráði skulu vera fulltrúar frá löggiltum iðngreinum. Ráðherra setur reglugerð 1) um kosningu til þeirra og starfssvið.
    1)Rg. 217/1971.
15. gr. Það varðar sektum:
    1. Ef maður rekur iðnað, án þess að hafa leyst leyfi, eða leyfir öðrum að reka iðnað í skjóli leyfis síns.
    2. Ef maður tekur að sér störf meistara, án þess að hafa leyst meistarabréf.
    3. Ef maður rekur löggilta iðngrein, án þess að hafa meistara til forstöðu.
    4. Ef maður kennir sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein, án þess að hafa rétt til þess samkvæmt 9. gr.
    5. Ef maður eða fyrirtæki tekur nemendur til verklegs náms, enda þótt hann eða það eigi ekki rétt til þess, eða tekur nemendur til náms í annarri iðn en þeirri, sem hann er meistari í, eða heldur nemendur án löglegs samnings.
Sektir renna í ríkissjóð.
1)
    1)L. 19/1991, 194. gr.
16. gr. Heimilt er að dæma mann, er sekur gerist um ítrekað brot gegn lögum þessum, til missis iðnaðarleyfis og meistarabréfs, tímabundið eða jafnvel ævilangt, ef um mjög gróft brot er að ræða.
17. gr. Óskert skulu atvinnuréttindi þeirra manna, er hlotið hafa þau samkvæmt ákvæðum eldri laga.