Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 357, 111. löggjafarþing 147. mál: Húsnæðisstofnun ríkisins (sala eignarhluta í kaupleiguíbúð).
Lög nr. 109 29. desember 1988.

Lög um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988.


1. gr.

     1. mgr. 91. gr. laganna orðast svo:
     Sá sem fengið hefur úthlutað félagslegri kaupleiguíbúð getur valið um leigu með kauprétti, sbr. 92. gr., leigu með kaupum á eignarhlut í íbúð, sbr. 93. gr., eða kaup, sbr. 95. gr.

2. gr.

     6. og 7. mgr. 92. gr. laganna falli brott.

3. gr.

     Á eftir 92. gr. laganna kemur ný grein, 93. gr., er orðast svo:
     Heimilt er að tryggja leigutaka ótímabundinn afnotarétt af íbúð með því að selja honum eignarhlut í íbúð fyrir 15% kostnaðarverðs eða kaupverðs íbúðar með þeim kvöðum að eignarhlutur hans standi óhreyfður í íbúðinni á meðan hann hefur afnot af henni.
     Frá og með undirritun samnings um kaup leigutaka á eignarhlut í íbúð, sbr. 1. mgr., eiga ákvæði laga um húsaleigusamninga um uppsögn leigusala á húsnæði ekki við, enda verði ekki um meiri háttar vanefndir af hálfu leigutaka að ræða.
     Eignarhlut leigutaka, sbr. 1. mgr., skal þinglýst sem kvöð á íbúðinni.
     Réttur leigutaka til íbúðar samkvæmt þessari grein er persónulegur, þ.e. er ekki framseljanlegur og erfist ekki. Hætti leigutaki afnotum af íbúð skal eignarhlutinn endurgreiddur með fullum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu, án vaxta. Framkvæmdaaðili getur þó heimilað að réttur til afnota af íbúð með eignarhlut færist yfir til maka við andlát leigutaka, hjónaskilnað, kaupmála milli hjóna eða setu í óskiptu búi.

4. gr.

     Á eftir 92. gr. laganna kemur enn ný grein, 94. gr., en töluröð annarra greina breytist samkvæmt því. Greinin orðast svo:
     Leigugjald af íbúðum skv. 92. og 93. gr. miðast við afborganir og vexti af láni Byggingarsjóðs verkamanna og vaxtakostnað af framlagi framkvæmdaaðila að viðbættum almennum rekstrarkostnaði. Við ákvörðun á vaxtakostnaði af framlagi framkvæmdaaðila skal við það miðað að vextir verði að hámarki þeir sömu og eru á hverjum tíma af lánum nýrra eða notaðra íbúða hjá Byggingarsjóði ríkisins. Leiga greiðist með jöfnum mánaðarlegum greiðslum. Nánari reglur um ákvörðun húsaleigu skulu settar í reglugerð.
     Varðandi íbúðir sem um getur í 93. gr. skal þó taka tillit til eftirfarandi þátta:
     Leigutaki ber ábyrgð á rekstri og viðhaldi húsnæðisins í samræmi við eignarhlut sinn enda lækki leigugjald sem því nemi.
     Eftir að kaup á eignarhlut í íbúð samkvæmt þeirri grein hafa farið fram lækkar leigugjald sem nemur vöxtum af því framlagi sem leigutaki hefur fest kaup á.
     Nánari ákvæði um félagsskap í tengslum við reksturinn má setja í reglugerð.
     Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 44/1979, um húsaleigusamninga, eftir því sem við á, m.a. um heimild framkvæmdaaðila til að rifta leigusamningi ef íbúð er framleigð án heimildar.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1988.