Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 434, 111. löggjafarþing 206. mál: Stofnlánadeild landbúnaðarins (fiskeldislán).
Lög nr. 3 13. janúar 1989.

Lög um breytingu á lögum nr. 45 16. apríl 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin, sbr. lög nr. 68/1973, bætist nýr kafli: Um Tryggingasjóð fiskeldislána, er verður II. kafli, 19.–23. gr., svohljóðandi:
     
     a. (19. gr.)
     Starfa skal sérstakur sjóður er nefnist Tryggingasjóður fiskeldislána er lýtur stjórn nefndar er landbúnaðarráðherra skipar, sbr. 21. gr. Sjóðurinn skal hafa sjálfstæðan fjárhag en vera í vörslu og umsjón Stofnlánadeildar landbúnaðarins er jafnframt sér um rekstur hans samkvæmt nánari reglum er landbúnaðarráðherra setur, sbr. 23. gr. Hlutverk sjóðsins er að tryggja greiðslu afurðalána sem bankar og aðrar lánastofnanir veita eða útvega innlendum fiskeldisfyrirtækjum, þannig að rekstrar- og afurðalán þeirra til fiskeldis geti numið allt að 75% af verðmæti birgða.
     Greiðslutrygging skal því aðeins veitt að viðkomandi fyrirtæki hafi tryggt afurðir sínar með svonefndri umframskaðatryggingu eða hliðstæðri tryggingu er nemi a.m.k. 50% af tryggingarverðmætum afurða og að fyrirtækið fái afurðalán frá lánastofnunum í eðlilegu hlutfalli við það sem tryggt er, og verði sá hluti afurðalánsins utan greiðslutryggingar sjóðsins. Landbúnaðarráðherra er heimilt að víkja frá þessu ákvæði við ákvörðun reglna fyrir hafbeit að fengnum tillögum nefndar, sbr. 21. gr. Ekki verði gripið til greiðslutryggingar nema tjónabætur dugi ekki til greiðslu á afurðaláni og fyrirtækið geti ekki greitt það með öðrum hætti.
     
     b. (20. gr.)
     Hámark skuldbindinga sjóðsins á hverjum tíma má nema samtals 1800 millj. króna, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt (SDR).
     
     c. (21. gr.)
     Landbúnaðarráðherra skipar sérstaka nefnd sem ákveður skilyrði fyrir veitingu greiðslutryggingar. Skal nefndin fjalla um hverja einstaka umsókn og ákveða með hvaða kjörum sjóðurinn veiti greiðslutryggingar hverju sinni. Í nefndinni eiga sæti fimm fulltrúar og skal einn þeirra skipaður eftir tilnefningu stjórnar Stofnlánadeildar landbúnaðarins, tveir samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva og sá fjórði samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra. Fimmta nefndarmanninn skipar landbúnaðarráðherra án tilnefningar og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.
     
     d. (22. gr.)
     Landbúnaðarráðherra ákveður árlega í samráði við fjármálaráðherra iðgjald sem tekið er fyrir greiðslutryggingu sjóðsins. Skal gjaldið ákveðið að fengnum tillögum nefndar, sbr. 21. gr. Nefndin skal leita tillagna tryggingaeftirlitsins. Við ákvörðun gjaldsins skal hverju sinni miða við að sjóðurinn verði rekinn hallalaus.
     Tekjuafgang skal leggja í sérstakan varasjóð. Nægi varasjóður eigi til að greiða áfallnar tryggingar skal sjóðnum aflað lánsfjár til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Reynist nauðsynlegt vegna stöðu sjóðsins skal veita sérstaka ríkisábyrgð fyrir slíkum lánum.
     Auk hins árlega iðgjalds skv. 1. mgr. skal landbúnaðarráðherra í samráði við fjármálaráðherra og að fengnum tillögum tryggingaeftirlitsins ákveða sérstakt áhættugjald þeirra fyrirtækja, sem við sjóðinn skipta, sem hlutfall af söluverðmæti þeirra. Iðgjaldið skal ákveðið út frá eðlilegu áhættumati og með tilliti til þess að ná jöfnuði í fjárhag sjóðsins. Iðgjöld þessi skulu verðtryggð með byggingarvísitölu og falla í gjalddaga að fjórum árum liðnum og er þá heimilt að taka þau lögtaki. Telji ráðherra að fjárhag sjóðsins sé borgið án iðgjaldsins í heild eða að hluta, þegar að innheimtu kemur, skal ráðherra heimilt að lækka gjaldið eða fella það niður.
     
     e. (23.gr.)
     Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum nefndar skv. 21. gr., setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa kafla. Skal þar m.a. kveðið á um efni og eðli trygginga, hversu hátt hlutfall afurðalána er tryggt, sbr. ákvæði 19. gr., röð ábyrgða, rekstur sjóðsins og þóknun fyrir umsjón hans og nánari reglur um álagningu og innheimtu gjalds skv. 22. gr ef til þess kemur.
     Um endurskoðun og bókhald Tryggingasjóðs fiskeldislána fer eftir lögum nr. 86 4. júlí 1985, um viðskiptabanka. Ársreikningar sjóðsins skulu að lokinni endurskoðun lagðir fyrir landbúnaðarráðherra til staðfestingar. Reikningar Tryggingasjóðs fiskeldislána skulu birtir árlega í Stjórnartíðindum með reikningum Stofnlánadeildar.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu endurskoðuð fyrir lok ársins 1992.

Samþykkt á Alþingi 6. janúar 1989.