Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 534, 111. löggjafarþing 8. mál: efnahagsaðgerðir (staðfesting bráðabirgðalaga).
Lög nr. 9 2. mars 1989.

Lög um efnahagsaðgerðir.


I. KAFLI
Aðgerðir í atvinnumálum.

1. gr.

     Stjórn deildar fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins er heimilt að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 800 milljónum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu láns þessa.
     Allt að 750 milljónum króna af andvirði láns skv. 1. mgr. skal varið til greiðslu verðbóta á freðfisk en allt að 50 milljónum króna af andvirði þess skal varið til greiðslu verðbóta á hörpudisk. Við ákvörðun verðbóta skal fylgt ákvæðum laga nr. 72 28. maí 1969, með síðari breytingum. Þó skal tekið sérstakt tillit til afkomu viðkomandi vinnslugreina og er í því skyni heimilt að breyta ákvörðunum um viðmiðunarverð og verðjöfnun frá 1. júní 1988.
     Lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skal undanþegið stimpilgjaldi. Skal það endurgreitt af tekjum Verðjöfnunarsjóðs af viðkomandi afurðum á næstu þremur árum eftir að það er tekið. Það sem þá kann að vera ógreitt fellur á ríkissjóð.

2. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laga nr. 72 28. maí 1969, um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, með síðari breytingum, skal á tímabilinu 1. júní 1988 til 31. maí 1989 einkum hafa hliðsjón af verðlagi áranna 1986 og 1987 við ákvörðun viðmiðunarverðs fyrir skelfletta rækju í deild fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Stjórn deildar fyrir frystar afurðir skal heimilt að endurskoða ákvörðun um viðmiðunarverð og verðjöfnun frá 1. júní 1988.

3. gr.

     Stofna skal sjóð er nefnist Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina. Hlutverk sjóðsins er að veita lán til endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar hjá útflutningsfyrirtækjum. Jafnframt skal sjóðurinn hafa forgöngu um að breyta lausaskuldum fyrirtækja í útflutningsgreinum í föst lán til langs tíma. Þegar sérstaklega stendur á er sjóðnum heimilt að kaupa hlutdeildarskírteini hjá hlutafjársjóði Byggðastofnunar og leysa til sín húseignir og búnað fyrirtækja sem lið í fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra.

4. gr.

     Forsætisráðherra skipar átta menn í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, þar af þrjá að höfðu samráði við formenn þingflokka. Fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra og viðskiptaráðherra tilnefna hver um sig einn stjórnarmann. Forsætisráðherra skipar formann án tilnefningar. Stjórn sjóðsins ákveður lánveitingar að fengnum tillögum samstarfsnefndar lánastofnana atvinnuveganna og Byggðastofnunar. Ríkisendurskoðun fylgist með starfsemi sjóðsins og gefur Alþingi reglulega skýrslu um starfsemi hans.

5. gr.

     Stofnfé Atvinnutryggingarsjóðs skal vera 1.000 millj. kr. Skal ríkissjóður leggja sjóðnum til 600 millj. kr. sem koma til lækkunar á framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs, skv. 15. gr. laga nr. 64 2. júní 1981, vegna tímabilsins 1. júlí 1988 til 30. júní 1990. Jafnframt skal ríkissjóður leggja Atvinnutryggingarsjóði til 400 millj. kr. á árunum 1989 og 1990.
     Ríkissjóður ábyrgist að eftir 1. júlí 1990 renni til Atvinnuleysistryggingasjóðs auk reglulegra framlaga 10. hluti af endurgreiðslum lána sem Atvinnutryggingarsjóður hefur veitt þar til 600 millj. kr. er náð.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 1000 milljónum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu láns þessa.

6. gr.

     Atvinnutryggingarsjóði er heimilt að hafa milligöngu um skuldbreytingu á allt að 5000 milljónum króna af lausaskuldum útflutningsfyrirtækja. Í því skyni er sjóðnum heimilt að taka við skuldabréfum frá fyrirtækjum í útflutningsgreinum og gefa út skuldabréf til lánardrottna þeirra. Ríkissjóður ábyrgist skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og greiðir þær ef eignir og tekjur hans hrökkva ekki til.

7. gr.

     Byggðastofnun annast reikningshald og rekstur sjóðsins eftir nánara samkomulagi við stjórn Atvinnutryggingarsjóðs.
     Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga Atvinnutryggingarsjóðs.

8. gr.

     Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og hlutafjársjóður Byggðastofnunar skulu undanþegnir öllum opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast, þar með töldum lántökuskatti. Öll skjöl viðvíkjandi lánum, sem Atvinnutryggingarsjóður veitir eða tekur, skulu undanþegin stimpilgjaldi. Öll skjöl vegna útgáfu hlutdeildarskírteina og skuldaskjala vegna lána sem hlutabréfasjóður Byggðastofnunar kann að veita eða taka skulu undanþegin lántöku- og stimpilgjöldum.

9. gr.

     Við Byggðastofnun skal starfa hlutafjársjóður. Hann skal afla fjár með sölu hlutdeildarskírteina og skal ríkissjóður tryggja verðbætt nafnvirði þeirra án vaxta fyrir allt að 600 millj. kr. Til sjóðsins skal einnig renna sérstaklega framlag ríkissjóðs, ef Alþingi ákveður svo, annars vegar til reksturs sjóðsins og hins vegar til kaupa á hlutabréfum.
     Hlutafjársjóður Byggðastofnunar skal hafa sjálfstæðan fjárhag og lúta stjórn þriggja manna sem skipaðir eru af forsætisráðherra.

10. gr.

     Hlutafjársjóði Byggðastofnunar er heimilt að kaupa hlutabréf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Ríkissjóður getur einnig selt hlutafjársjóðnum hlutafjáreign sína í fyrirtækjum ef ástæða þykir til. Hlutabréf, sem sjóðurinn kann að eignast, skulu boðin til sölu eigi síðar en fjórum árum eftir að þau eru keypt og skal starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækisins, sem í hlut á, njóta forkaupsréttar. Hlutdeildarskírteini í hlutafjársjóðnum skulu ætíð skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum. Hlutafjársjóðnum skal tilkynnt um eigendaskipti á hlutdeildarskírteinum.

11. gr.

     Stofna skal hinn 1. jan. 1991 Atvinnutryggingardeild við Byggðastofnun sem hafi það markmið að treysta fjárhagsstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagingu, meiri háttar skipulagsbreytingar, samruna fyrirtækja og annað það sem til hagræðingar horfir. Deildin skal bera sjálfstæðan fjárhag og tekur hún á stofndegi við eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina.

12. gr.

     Forsætisráðherra setur með reglugerð nánari reglur um Atvinnutryggingarsjóð, Atvinnutryggingardeild og hlutafjársjóð Byggðastofunar, sbr. 3.–11. gr. laga þessara.

13. gr.

     Greiða skal sérstakt gjald af loðnu og öðrum bræðslufiski sem fluttur er óunninn til vinnslu erlendis. Gjaldið rennur til reiknings fyrir loðnuafurðir í deild fyrir mjöl og lýsi í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.
     Gjaldið skal ákveðið sem tiltekin fjárhæð á hvert tonn bræðslufisks. Sjávarútvegsráðherra skal að fenginni umsögn stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins ákveða með reglugerð fjárhæð gjaldsins til þriggja mánaða í senn. Við þessa ákvörðun skal taka mið af áætluðum greiðslum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins vegna útflutnings á loðnuafurðum miðað við hvert hráefnistonn samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar.
     Gjaldið fellur í gjalddaga við skil á gjaldeyri vegna sölunnar, þó eigi síðar en þrjátíu dögum eftir löndun erlendis.
     Um innheimtu gjalds þessa, þar á meðal um dráttarvexti, lögtaksrétt og ábyrgð, gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 13 16. mars 1988, um aðgerðir í sjávarútvegi, eftir því sem við getur átt.
     Sjávarútvegsráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

14. gr.

     4. mgr. 4. gr. veðlaga, nr. 18 4. nóvember 1887, sbr. 1. gr. laga nr. 87 28. desember 1960 og 1. gr. laga nr. 43 23. apríl 1986, orðast svo:
     Svo er og útgerðarmanni, framleiðanda sjávarafurða, landbúnaðarafurða og eldisfisks og öðrum, sem vörur þessar hefur til sölu, heimilt að setja ríkissjóði, svo og banka eða öðrum lánastofnunum, að sjálfsvörsluveði afla, eldisfisk og tilgreindar tegundir afurða og rekstrarvörur sjávarútvegs og landbúnaðar, sem veðsali á eða eignast kann eða hefur til sölu á tilteknu tímabili, til tryggingar lánum þeim er hann tekur út á hin veðsettu verðmæti. Veðsetning þessi nær til afla, eldisfisks og afurða, án tillits til verkunar- eða framleiðslustigs, og nær veðrétturinn einnig til hvers konar verðbóta og gjaldeyrisfríðinda sem fylgja afla, eldisfiski eða afurðum á hverjum tíma. Veðsölum, öðrum en framleiðendum eldisfisks, er þó óheimilt að veðsetja framangreind verðmæti til lengri tíma en eins árs í senn. Veðsetning á eldisfiski er óheimil til lengri tíma en fjögurra ára í senn.

II. KAFLI
Verðlags- og kjaramál.

15. gr.

     Óheimilt er að hækka endurgjald fyrir afnot af fasteignum frá gildistöku laga þessara til 28. febrúar 1989.

16. gr.

     3. tölul. 29. gr. laga nr. 46 27. júní 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, fellur brott.

17. gr.

     Almennt fiskverð samkvæmt tilkynningu Verðlagsráðs sjávarútvegsins nr. 6 3. júní 1988 skal gilda óbreytt til 15. febrúar 1989, en hækkar þann dag um 1,25% og gildir það verð til 31. maí 1989. Verð á óslægðum þorski skal þó vera 88,5% í stað 85,5% af verði slægðs þorsks á tímabilinu 1. janúar 1989 til 15. apríl 1989.
     Fiskverð skv. 1. mgr. er uppsegjanlegt með viku fyrirvara miðað við 15. febrúar 1989.

III. KAFLI
Vaxtaákvarðanir.

18. gr.

     Við 9. gr. vaxtalaga, nr. 25 27. mars 1987, bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Dráttarvextir skulu ætíð reiknast sem dagvextir. Þó skulu haldast óbreytt til 1. júlí 1989 ákvæði um útreikning dráttarvaxta í lögum um innheimtu opinberra gjalda til ríkissjóðs og sveitarsjóða.

19. gr.

     2. mgr. 10. gr. vaxtalaga, nr. 25 27. mars 1987, orðast svo:
     Seðlabanki Íslands skal eigi sjaldnar en mánaðarlega reikna vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og birta meðaltal þetta í Lögbirtingablaði ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. og skulu þeir dráttarvextir gilda uns næsta tilkynning er birt í Lögbirtingablaði.

20. gr.

     Við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 36 5. maí 1986, um Seðlabanka Íslands, bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
     Á sama hátt getur Seðlabankinn ákveðið hámark þess álags er innlánsstofnanir mega bæta við vexti gengisbundins fjár er þær endurlána í formi afurðalána.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

21. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1988 að hækka ríkisútgjöld um 600 milljónir króna.

22. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði XIII. kafla laga nr. 75 14. september 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er fjármálaráðherra heimilt að kveða á um í reglugerð að þeir einstaklingar, sem ekki höfðu aðrar tekjur en þær sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. A-liðar 7. gr., 2.–4. tölul. A-liðar 7. gr. og C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 á því tekjuári sem skatturinn varðar, geri upp vangoldinn tekjuskatt og eignarskatt álagðan á árinu 1987 eða fyrr með eftirfarandi hætti:
  1. Með því að greiða hina vangoldnu skattkröfu upp á nánar tilteknum gjalddögum fyrir árslok 1988 gegn því að felld verði niður allt að 50% af dráttarvöxtum sem reiknaðir hafa verið af skuldinni.
  2. Með því að greiða hina vangoldnu skattkröfu upp á nánar tilteknum gjalddögum fyrir 1. júlí 1989 gegn því að felld verði niður allt að 25% af dráttarvöxtum sem reiknaðir hafa verið af skuldinni.
  3. Með því að gefa út skuldabréf til allt að fimm ára til greiðslu á höfuðstól hinnar vangoldnu skattkröfu ásamt dráttarvöxtum.

     Fjármálaráðherra setur í reglugerðinni nánari ákvæði um framkvæmd þessarar heimildar, þar á meðal um lánskjör og tryggingar, svo og skilyrði sem einstaklingar þurfa að uppfylla til þess að fá að gera upp hina vangoldnu skattkröfu með framangreindum hætti.

23. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 18. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. nóvember 1988 og falla úr gildi 1. júlí 1989. Gjald skv. 13. gr. skal innheimt vegna landana erlendis sem eiga sér stað eftir 30. september 1988.

Samþykkt á Alþingi 21. febrúar 1989.