Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 623, 111. löggjafarþing 240. mál: stjórn efnahagsmála o.fl. (lágmarkstími verðtryggingar og fastir vextir).
Lög nr. 13 21. mars 1989.

Lög um breytingu á lögum nr. 13 10. apríl 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.


1. gr.

     39. gr. laganna orðist þannig:
     Það eru skilyrði verðtryggingar samkvæmt lögum þessum:
  1. að verðtryggðir sparifjárreikningar, kröfur og skuldbindingar séu ætíð skráð á nafn,
  2. að við endurlán verðtryggðra peningalána standist verðtryggingarákvæði í aðalatriðum á í báðum samningum,
  3. að verðtrygging sparifjár og lánsfjár sé eigi til skemmri tíma en tveggja ára hvað varðar aðrar skuldbindingar en sparifjárinnstæður sem því aðeins mega njóta verðtryggingar að bundnar séu í sex mánuði eða lengur,
  4. að grundvöllur verðtryggingar sé sem hér segir:
    1. miðað sé við opinbera skráða vísitölu eða vísitölur eins og þær eru reiknaðar á hverjum tíma,
    2. miðað sé við gengi erlends gjaldeyris þar sem slíkt er heimilt samkvæmt lögum eða reglugerð.

     Seðlabanki Íslands skal birta vísitölur, sem heimilt er að miða verðtryggingu sparifjár og lánsfjár við, ásamt vaxtakjörum.
     Seðlabanka Íslands er að fengnu samþykki viðskiptaráðherra heimilt að ákveða lengri lágmarkstíma verðtryggðra sparireikninga og útlána, sbr. 3. tölul., og að ákveða að vextir verðtryggðra útlána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum. Seðlabankinn getur einnig með samþykki ráðherra veitt undanþágu til skemmri lágmarkstíma þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
     Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um endurlán erlends lánsfjár skv. 38. gr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 1989.