Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 880, 111. löggjafarþing 175. mál: jöfnun á námskostnaði (heildarlög).
Lög nr. 23 2. maí 1989.

Lög um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.


1. gr.

     Ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám, sbr. 5. gr.

2. gr.

     Réttar til námsstyrkja samkvæmt lögum þessum njóta íslenskir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan. Eigi skulu þeir njóta styrks er eiga rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu.

3. gr.

     Styrkir sem nemendur njóta samkvæmt lögum þessum eru:
  1. ferðastyrkir, en þeir eru veittir nemendum sem verulegan ferðakostnað bera vegna búsetu sinnar,
  2. fæðisstyrkir er samsvari áætluðum hlut launakostnaðar í heildarfæðiskostnaði nemanda í skólamötuneyti,
  3. húsnæðisstyrkir, en þeir eru veittir nemendum sem ekki eiga kost á heimavist og miðast þeir við helming áætlaðs húsnæðiskostnaðar,
  4. sérstakir styrkir sem námsstyrkjanefnd er heimilt að veita efnalitlum nemendum.


4. gr.

     Menntamálaráðherra skipar fimm manna nefnd sem skal leggja fyrir ráðuneytið tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna. Þá skal nefndin úthluta námsstyrkjum til styrkhæfra nemenda.
     Tillögur nefndarinnar skulu grundvallaðar á ítarlegum upplýsingum um ferðakostnað, fæðiskostnað og húsnæðiskostnað nemenda sem og á öðrum þeim upplýsingum sem nauðsynlegar kunna að vera hverju sinni.
     Námsstyrkjanefnd er skipuð sem hér segir:
     Tveir nefndarmenn skulu skipaðir án tilnefningar, og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar, einn skipaður samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis og einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skulu þeir allir skipaðir til fjögurra ára í senn. Auk þess skipar menntamálaráðherra einn mann í nefndina til eins árs í senn eftir tilnefningu samtaka framhaldsskólanemenda, eða eftir reglum sem ráðherra setur.
     Þóknun til nefndarmanna greiðist úr ríkissjóði, svo og annar kostnaður við framkvæmd þessara laga.

5. gr.

     Heimilt er námsstyrkjanefnd að verja hluta af árlegri fjárveitingu með eftirfarandi hætti:
  1. Að veita einstökum nemendum viðbótarstyrki ef efnaleysi torveldar þeim nám.
  2. Að veita einstökum nemendum styrki þótt þeir fullnægi ekki skilyrðum 2. gr. þessara laga ef þröngur efnahagur eða aðrar gildar ástæður torvelda þeim nám.

     Einnig er námsstyrkjanefnd heimilt að skerða eða fella niður styrki til einstakra nemenda ef þeir njóta umtalsverðra tekna samhliða námi sínu eða ef aðrar gildar ástæðir mæla með fráviki frá meginreglum.

6. gr.

     Menntamálaráðuneyti setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda að fullu frá byrjun skólaárs 1989–1990 að telja.
     Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma lög nr. 69/1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

Samþykkt á Alþingi 18. apríl 1989.