Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 879, 111. löggjafarþing 176. mál: áfengislög (leyfi til áfengisveitinga o.fl.).
Lög nr. 25 2. maí 1989.

Lög um breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. mgr. 2. gr. orðist svo:
     Sterkir drykkir teljast samkvæmt lögum þessum áfengi sem meira er í en 21% af vínanda að rúmmáli. Létt vín telst áfengi, annað en öl, sem í er minna af vínanda.

2. gr.

     Í stað „flugvéla“ í 3. mgr. 4. gr., sbr. lög nr. 7/1985, komi: loftfara.

3. gr.

     Í stað „skal hreppstjóri“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. komi: skal lögreglumaður eða hreppstjóri.

4. gr.

     10. gr. orðist svo:
     Ríkisstjórninni er heimilt að setja á stofn útsölustaði áfengis, en þó aðeins í sveitarfélögum þar sem meiri hluti íbúanna býr í þéttbýli og íbúafjöldi hefur náð a.m.k. 1000 í þrjú ár samfellt.
     Áður en útsala er sett á stofn skal fara fram atkvæðagreiðsla kosningarbærra manna í því sveitarfélagi sem í hlut á og þarf meiri hluta greiddra atkvæða til þess að útsala sé leyfð.
     Áfengisútsala skal lögð niður ef það er samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða í sveitarfélaginu.
     Atkvæðagreiðsla, sem um getur í 2. og 3. mgr., skal fara fram er þriðjungur kjósenda eða meiri hluti hlutaðeigandi sveitarstjórnar krefst þess. Nú hefur verið fellt með atkvæðagreiðslu að stofna útsölu eða loka útsölu eða samþykkt að leggja niður útsölu og getur atkvæðagreiðsla þá ekki farið fram á ný fyrr en að tveimur árum liðnum.

5. gr.

     1. mgr. 1. tölul. 11. gr. orðist svo:
     Lyfsalar og læknar sem rétt hafa til lyfjasölu, þó eingöngu það áfengi sem talið er í lyfjaskrá og aðeins til lyfja.

6. gr.

     12. gr. orðist svo:
     Heimilt er lögreglustjóra að veita veitingastað, sem telst fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu, almennt leyfi til áfengisveitinga. Áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar og er óheimilt að veita leyfi ef sveitarstjórn er leyfisveitingu mótfallin. Áður en sveitarstjórn lætur uppi umsögn skal hún leita álits áfengisvarnanefndar, sbr. 1. mgr. 30. gr.
     Þriggja manna nefnd, sem dómsmálaráðherra skipar, skal dæma um það hvort veitingastaður telst fyrsta flokks. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en áfengisvarnaráð og Samband veitinga- og gistihúsa tilnefna hvort einn mann. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
     Leyfi til áfengisveitinga skal ekki veitt til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Nú er sótt um endurnýjun leyfis og skal þá framlengja fyrra leyfi til bráðabirgða meðan sú umsókn er til meðferðar. Leyfi skal bundið við nafn veitingamanns og veitir leyfishafa aðeins rétt til veitinga í því húsnæði er hann hefur þegar leyfi er veitt. Taki nýr veitingamaður við rekstri skal hann sækja um nýtt leyfi. Meðan sú umsókn er til meðferðar skal gefa út leyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og fyrra leyfi. Öll leyfi skulu gefin út með fyrirvara um að stytta megi leyfistímann án skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð ef sérstakar ástæður mæla með því að mati dómsmálaráðherra.
     Leyfi til áfengisveitinga skal bundið því skilyrði að veitingastaður hafi á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki við hóflegu verði. Leyfi má binda frekari skilyrðum sem lögreglustjóri eða sveitarstjórn telja nauðsynleg. Dómsmálaráðherra getur sett almennar reglur um skilyrði fyrir leyfisveitingu. Ef veitingamaður brýtur gegn settum skilyrðum eða uppfyllir þau ekki lengur skal lögreglustjóri þegar fella leyfi úr gildi.
     Skylt er lögreglumönnum að gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra veitingastaða sem hafa leyfi til áfengisveitinga. Ráðherra getur ákveðið nánar hvernig eftirliti með veitingastöðum þessum skuli háttað. Skulu leyfishafar endurgreiða ríkissjóði kostnað af eftirliti eftir reglum sem ráðherra setur.
     Nánari fyrirmæli um áfengisveitingar, þar á meðal um veitingatíma, álagningu og eftirlit með veitingastöðum, skulu sett í reglugerð. Áður en slík reglugerð er sett skal leita umsagnar áfengisvarnaráðs og Sambands veitinga- og gistihúsa.

7. gr.

     3. málsl. 2. mgr. 19. gr. falli niður.

8. gr.

  1. Í stað „vínveitingaleyfi“ í 4. málsl. 2. mgr. 20. gr. komi: leyfi.
  2. Í stað „vínveitingar“ í 4. mgr. sömu greinar komi: veitingar áfengis.

9. gr.

     Í stað „víntegundir“ í 1. mgr. 38. gr. laganna, sbr. lög nr. 52/1978, komi: áfengistegundir.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. apríl 1989.