Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1302, 111. löggjafarþing 413. mál: Hagþjónusta landbúnaðarins.
Lög nr. 63 29. maí 1989.

Lög um Hagþjónustu landbúnaðarins.


I. KAFLI
Um aðsetur og hlutverk.

1. gr.

     Hagþjónusta landbúnaðarins er ríkisstofnun er lýtur sérstakri stjórn samkvæmt lögum þessum undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra.
     Hagþjónusta landbúnaðarins skal hafa aðsetur á Hvanneyri í Andakílshreppi og skal rekstur hennar vera í nánum tengslum við búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri.
     Kostnaður af starfi Hagþjónustu landbúnaðarins greiðist úr ríkissjóði og af sértekjum sem henni er heimilt að afla sér, m.a. með því að taka að sér að vinna sérstök verkefni fyrir stofnanir, félagasamtök og einstaklinga.

2. gr.

     Hlutverk Hagþjónustu landbúnaðarins er:
  1. Að stuðla að því að bændur færi bókhald fyrir bú sín, m.a. með skipulegu fræðslu- og leiðbeiningarstarfi um skattskil, bókhald og notkun þess til hagræðingar í búrekstri.
  2. Að hafa umsjón með gerð og þróun bókhaldsforrita fyrir bókhaldsstofur bænda, svo og forrita fyrir áætlunargerð í búrekstri í samvinnu við bændasamtökin.
  3. Að hafa frumkvæði að áætlunargerð við búrekstur, útgáfustarfsemi og hagrænum leiðbeiningum til bænda í samvinnu við leiðbeiningarþjónustu landbúnaðarins og aðra þá sem sinna fræðslu um landbúnað.
  4. Að safna og vinna úr búreikningum frá bókhaldsstofum bænda, svo og öðrum upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg þykja og tiltæk eru. Gagnasöfnunin og úrvinnslan skulu miðast við að nýtast sem best til opinberrar hagskýrslugerðar um framleiðslu, rekstur og efnahag einstakra búgreina.
  5. Að annast hagrannsóknir í landbúnaði í samvinnu og samstarfi við stofnanir sem sinna sambærilegri starfsemi.
  6. Að hafa samstarf við stjórn búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri um kennslu í landbúnaðarhagfræði.
  7. Að vinna að öðrum skyldum verkefnum eftir því sem um semst og við verður komið.


II. KAFLI
Um skipan stjórnar og hlutverk.

3. gr.

     Landbúnaðarráðherra skipar fjóra menn í stjórn Hagþjónustu landbúnaðarins til fjögurra ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu stjórnar búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri, einn eftir tilnefningu Hagstofu Íslands, einn eftir tilnefningu Þjóðhagsstofnunar og einn eftir tilnefningu Búnaðarfélags Íslands. Sömu aðilar tilnefna varamenn.
     Landbúnaðarráðherra skipar formann úr röðum stjórnarmanna og ákveður stjórnarlaun.

4. gr.

     Hlutverk stjórnar er m.a.:
  1. Stjórn annast ráðningu forstöðumanns stofnunarinnar.
  2. Stjórn leggur árlega, í samvinnu við forstöðumann, fram tillögur til landbúnaðarráðuneytisins um fjárþörf stofnunarinnar vegna undirbúnings fjárlaga.
  3. Stjórn tekur ákvarðanir um mótun á starfsemi stofnunarinnar og hefur eftirlit með að hún þjóni því hlutverki sem henni er ætlað.


5. gr.

     Hlutverk forstöðumanns er m.a.:
  1. Forstöðumaður annast daglega stjórn stofnunarinnar samkvæmt ákvörðunum stjórnar, svo og það samstarf við aðrar stofnanir sem nauðsynlegt er talið.
  2. Forstöðumaður er ábyrgur fyrir að stofnunin starfi í samræmi við gildandi löggjöf og sinni því hlutverki og þeim skyldum sem á hana eru lagðar.
  3. Forstöðumaður hefur umsjón með mannahaldi við stofnunina.


III. KAFLI
Um bókhaldsstofur bænda.

6. gr.

     Búnaðarsamböndin í landinu skulu hvert fyrir sig, eða í samstarfi sem nær yfir nánar tiltekið svæði, koma á fót bókhaldsstofum sem annast gagnaskráningu og uppgjör búreikninga fyrir bændur. Einnig skulu þær vera færar um að veita bændum leiðbeiningar og aðstoð við skattskil.
     Bókhaldsstofum er heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu og skulu þær hafa hliðsjón af viðmiðunargjaldskrá Hagþjónustu landbúnaðarins.
     Hagþjónusta landbúnaðarins skal hafa umsjón með að form eyðublaða, skráning gagna og uppgjör reikninga fari fram á samræmdan hátt þannig að samanburður á niðurstöðum sé marktækur.
     Bókhaldsform, sem bókhaldsstofur bænda bjóða upp á, skal við það miðað að bændum sé kleift að halda einkafjárhag sínum utan við bókhald búa sinna.

7. gr.

     Heimilt er að greiða fyrir öflun sérstakra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna verkefna stofnunarinnar og skulu greiðslurnar vera samkvæmt viðmiðunargjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur.

8. gr.

     Hagþjónusta landbúnaðarins skal veita þeim bændum, sem ekki eiga kost á bókhaldsþjónustu á vegum bændasamtaka í heimahéraði, aðstoð við útvegun á sambærilegri þjónustu og bókhaldsstofur bænda veita í öðrum héruðum þannig að tryggt sé eftir því sem unnt er að upplýsingar um rekstur og afkomu bænda geti borist til samræmds uppgjörs alls staðar af landinu.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

9. gr.

     Stjórn og starfsmönnum Hagþjónustu landbúnaðarins, svo og starfsmönnum þeirra bókhaldsstofa sem sjá um uppgjör búreikninga, er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um embættis- og sýslunarmenn að skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að sökum starfa síns um efnahag, tekjur eða gjöld einstakra manna eða stofnana. Skulu þeir ætíð gæta þess að fara með upplýsingar og gögn frá bændum sem trúnaðarmál.

10. gr.

     Skylt er að veita Hagþjónustu landbúnaðarins þær upplýsingar er hún óskar eftir og þarf á að halda vegna starfsemi sinnar. Nýtur hún í þessu efni sömu réttinda og Hagstofa Íslands og sömu viðurlög liggja við ef út af er brugðið.

11. gr.

     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um rekstur og tilhögun Hagþjónustu landbúnaðarins þar sem m.a. er kveðið á um samstarf og samvinnu Hagþjónustu landbúnaðarins og búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri.

12. gr.

     Brot á ákvæðum laga þessara varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál út af brotum skal fara að hætti opinberra mála.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felld lög nr. 20 22. apríl 1967, um Búreikningastofu landbúnaðarins.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þar til bókhaldsstofur bænda og Hagþjónusta landbúnaðarins geta sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt lögunum skulu Búreikningastofa landbúnaðarins og Búnaðarfélag Íslands gegna þeim verkefnum þeirra sem tök eru á með þeim réttindum og skyldum sem lög þessi ákveða.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.