Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1224, 111. löggjafarþing 203. mál: verkaskipting ríkis og sveitarfélaga (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 87 31. maí 1989.

Lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.


I. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

1. gr.

     26. gr. laganna orðast svo:
     Ríkið greiðir að fullu stofnkostnað stofnana skv. 2.–13. tölul. 7. gr.
     Um stofnkostnað við rými fyrir fötluð börn á almennum deildum dagvistarstofnana og skóladagheimilum fer í samræmi við ákvæði laga nr. 112/1976, með síðari breytingum.
     Tryggja skal fötluðum ókeypis vist á þeim stofnunum, sem um getur í 7. gr., sbr. þó 28. gr. Kostnaður skv. 9. og 10. gr. greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.

     28. gr. laganna orðast svo:
     Kostnaður við rekstur stofnana skv. 1. og 14. tölul. 7. gr. greiðist í samræmi við lög nr. 112/1976. Jafnframt greiðir ríkissjóður þann kostnað sem er umfram almennar greiðslur í viðkomandi stofnun, enda skerðist réttur barnsins til annarra bótagreiðslna ekki.
     Ríkissjóður greiðir þann rekstrarkostnað stofnana skv. 2.- 13. tölul. 7. gr. sem ekki er greiddur af sértekjum eða eigin fé.
     Sérstaka flutningsþjónustu fyrir fatlaða, sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki til og frá stofnunum skv. 9. og 10. gr., skal greiða úr ríkissjóði.

II. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 93/1947, um aðstoð til vatnsveitna.

3. gr.

     1.–7. og 9. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.

4. gr.

     1. tölul. 18. gr. laganna orðast svo:
     Kostnaður við byggingu og búnað heilsugæslustöðva, svo og við aðstöðu til móttöku sjúklinga utan stöðva, greiðist 85% úr ríkissjóði en 15% af hlutaðeigandi sveitarfélögum. Sveitarfélög láta þó í té lóðir undir slíkar byggingar ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda.

5. gr.

     1. tölul. 20. gr. laganna orðast svo:
     Rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði. Viðhaldskostnaður fasteigna og tækja greiðist sem rekstrarkostnaður.

6. gr.

     1. tölul. 21. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skipar stjórnir heilsugæslustöðva, einn eftir tilnefningu starfsliðs stöðvarinnar, þrjá er skulu kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum og einn án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður og búsettur á starfssvæði stöðvarinnar. Kjörtímabil stjórna heilsugæslustöðva er hið sama og sveitarstjórna.

7. gr.

     3. og 4. tölul. 34. gr. laganna orðast svo:
     Framlög ríkissjóðs til sjúkrahúsbygginga, sem til er stofnað skv. 2. tölul. 34. gr., skal vera 85% af kostnaði við byggingu og búnað en framlag hlutaðeigandi sveitarfélaga 15%. Sveitarfélög láta þó í té lóðir undir slíkar byggingar ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda.
     Ríkissjóður og sveitarfélög eru eignaraðilar í hlutfalli við framlag til sjúkrahúsbygginga. Viðhaldskostnaður fasteigna og tækja greiðist sem rekstrarkostnaður.

IV. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

8. gr.

     1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Tryggingastofnun ríkisins annast lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur yfirumsjón með allri starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins.

9. gr.

     2. og 3. mgr. 32. gr. laganna orðast svo:
     Að svo miklu leyti sem sérstakir samningar slysatrygginga ná ekki yfir sjúkrahjálp samkvæmt framansögðu getur tryggingaráð ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti.
     Nú veldur slys ekki óvinnuhæfni í 10 daga, en hefur þó í för með sér kostnað sem um ræðir í grein þessari og má þá greiða hann að svo miklu leyti sem hann fæst ekki greiddur hjá sjúkratryggingum.

10. gr.

     37. og 38. gr. laganna falla brott.

11. gr.

     39. gr. laganna orðast svo:
     Hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er að annast sjúkratryggingar samkvæmt lögum þessum. Enn fremur er það hlutverk sjúkratryggingadeildar:
 1. Að veita styrk til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.
 2. Að veita styrk til æfingameðferðar eða þjálfunar vegna afleiðinga alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa.
 3. Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 44. gr. nær til, vegna meðfæddra galla, svo sem klofins góms eða meiri háttar tannvöntunar.
 4. Að greiða kostnað við yfirstjórn Tryggingastofnunarinnar á sjúkratryggingamálum.
 5. Að greiða ferðastyrk til sjúklinga sem af nauðsyn leita læknishjálpar erlendis, svo og til fylgdarmanna þeirra þegar sérstaklega stendur á. Tryggingaráð setur reglur um úthlutun styrkja samkvæmt þessum staflið.
 6. Að greiða kostnað samkvæmt nánari ákvörðun tryggingaráðs vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar.

     Tryggingaráð setur nánari reglur um greiðslufyrirkomulag og skipulag slíkra ferða auk hámarksfjölda psoriasissjúklinga sem árlega geta notið slíkrar fyrirgreiðslu.
     Tryggingaráð setur reglur um greiðslu styrkja samkvæmt a-, b- og c-liðum 1. mgr. Afla skal greiðsluheimildar frá Tryggingastofnuninni fyrir fram. Tryggingayfirlæknir getur áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis eða þjálfunar.
     Ráðherra getur ákveðið að sjúkratryggingadeild greiði:
 1. Gjald fyrir rannsóknir og læknishjálp sem Tryggingastofnunin semur um við opinberar heilbrigðisstofnanir.
 2. Kostnað samkvæmt milliríkjasamningum af sjúkrahjálp við erlenda ríkisborgara sem dveljast hér um stundarsakir.


12. gr.

     40. gr. laganna orðast svo:
     Allir landsmenn eru sjúkratryggðir eigi þeir lögheimili hér á landi. Börn og unglingar, 16 ára og yngri, eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Sjúkratryggingadeild eða hlutaðeigandi umboðsskrifstofa gefur út réttindaskírteini til hvers þess sem sjúkratryggður er.
     Ráðherra getur að fengnum tillögum tryggingaráðs sett nánari ákvæði í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd sjúkratrygginga og um starfsemi sjúkratryggingadeildar.

13. gr.

     41. gr. laganna orðast svo:
     Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 40. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, þar með talið á fæðingarstofnunum. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.

14. gr.

     42. gr. laganna orðast svo:
     Nú er sjúkratryggðum brýn nauðsyn á að vistast í erlendu sjúkrahúsi vegna þess að ekki er unnt að veita honum nauðsynlega hjálp í íslensku sjúkrahúsi og greiðir þá sjúkratryggingadeild kostnað við sjúkrahúsvistina. Sama gildir um kostnað við dvöl, lyf og læknishjálp sem nauðsynleg er erlendis að lokinni sjúkrahúsvistinni þar. Ráðherra skipar nefnd sem úrskurðar um hvort fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi, svo og hvar sjúkratryggður skuli vistaður erlendis. Nú er sjúkratryggður vistaður á öðrum og dýrari stað erlendis en nefndin hefur ákveðið og greiðir þá sjúkratryggingadeild aðeins þann kostnað sem greiða hefði átt á þeim stað sem hún ákvað. Í nefndina skal skipa tvo yfirlækna við Landspítalann, yfirlækni á Borgarspítalanum og yfirlækni við St. Jósefsspítalann Landakoti. Tryggingayfirlæknir á sæti í nefnd þessari og skal hann vera formaður hennar. Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd málsins.

15. gr.

     43. gr. laganna orðast svo:
     Til viðbótar þeim réttindum, sem þegar eru upptalin, skulu sjúkratryggingar veita þá hjálp sem hér segir:
 1. Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá lækni sjúklings sem Tryggingastofnunin hefur gert samning við. Fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun til sjúklings greiði hinn sjúkratryggði lækni það gjald er ákveða skal með reglugerð. Sjúkratryggingar hafa heimild til að ákveða að sjúklingur greiði læknisreikninga að fullu og endurgreiða sjúkratryggingar þá sjúklingi sinn hluta. Utanhéraðssjúklingar skulu jafnan greiða lækni að fullu.
 2. Nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir eftir tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis hjá sérfræðingum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert samning við. Fyrir hverja komu til sérfræðings greiðir sjúklingur sérfræðingi gjald sem ákveða skal með reglugerð.
 3. Lyf sem sjúkratryggðum er brýn nauðsyn að nota að staðaldri. Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður fyrstu 440 kr. en sjúkratryggingar það sem á vantar fullt verð. Sé heildarverð lyfs jafnt eða lægra, en þessi mörk greiðir sjúkratryggður það.
 4. Röntgengreining og geislameðferð samkvæmt gjaldskrá sem daggjaldanefnd setur, þó þannig að sjúkratryggður greiðir 550 kr. fyrir hverja röntgengreiningu.
 5. Sjúkradagpeningar skv. 45. gr.
 6. Kostnað vegna aðstoðar ljósmóður við fæðingu í heimahúsum, ákveðinn með þeim hætti sem um ræðir í 46. gr., og að auki dagpeninga, jafnháa sjúkradagpeningum, í 10 daga frá því fæðing hefst.
 7. Tannlækningar skv. 44. gr.
 8. Óhjákvæmilegan ferðakostnað læknis til þeirra sjúkratryggðu sem ekki eru ferðafærir sökum sjúkdóms síns, þó þannig að sjúkratryggður greiðir 70 kr. fyrir hverja ferð.
 9. Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúkratryggðs í sjúkrahús innan lands að 7/8 hlutum, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúkatryggða svo varið að hann verður ekki fluttur eftir venjulegum farþega- og flutningsleiðum. Þó greiðir sjúkratryggður aldrei meira en 1.650 kr. Sjúkraflutningur innan bæjar greiðist þó ekki og frá kostnaði við sjúkrabifreið dregst kostnaður vegna fyrstu 10 km. Sömu reglur skulu gilda um flutning sjúks manns frá sjúkrahúsi til heimilis eða dvalarstaðar, enda verði hann ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Sé fylgd nauðsynleg greiðist 7/8 af fargjaldi fylgdarmanns jafnvel þó að um áætlunarferð sé að ræða. Flutningskostnaður milli sjúkrahúsa greiðist að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling, nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.
 10. Óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagningar.
 11. Hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa samkvæmt samningum sem Tryggingastofnun ríkisins gerir og reglum sem tryggingaráð setur.

     Ráðherra er með reglugerð heimilt að breyta greiðslum sjúkratryggðra samkvæmt þessari grein, svo og að ákveða með reglugerð hámark eininga í lyfjaávísunum.
     Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða víðtækari hjálp vegna veikinda en mælt er fyrir um í þessari grein, þar á meðal að láta réttindi til greiðslu kostnaðar við tannlækningar ná til fleiri hópa en segir í 44. gr. og ákveða með hliðsjón af ákvæðum þeirrar greinar hvernig þátttöku skuli haga í tannlækniskostnaði viðbótarhópa.

16. gr.

     44. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir tannlæknaþjónustu greiða sjúkratryggingar í samræmi við samninga sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert eða samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur, séu samningar ekki fyrir hendi, sem hér segir, enda sé reikningi framvísað á því reikningsformi sem Tryggingastofnun ríkisins ákveður:
 1. Fyrir börn 5 ára eða yngri 75% kostnaðar við hvers konar þjónustu.
 2. Fyrir börn og unglinga 6–15 ára 100% kostnaðar við tannlækningar aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð og tannréttingar, en 50% af þessum aðgerðum. Þjónustan skal veitt hjá skólatannlækni eða heilsugæslustöð ef þess er kostur.
 3. Fyrir 16 ára unglinga 50% kostnaðar við hvers konar þjónustu.
 4. Fyrir unglinga, þótt eldri séu en 16 ára, skal greiða 50% kostnaðar við tannréttingarmeðferð sem hafin hefur verið áður en þeir urðu 16 ára þar til meðferð er lokið. Heimilt er að greiða 50% kostnaðar við aðgerð á 17–18 ára unglingi ef þörfin hefur komið upp fyrr, enda hafi tryggingayfirlækni þá verið gerð grein fyrir því eða að minnsta kosti áður en unglingurinn verður 17 ára að rétt sé að festa aðgerðinni og tryggingayfirlæknir samþykkir það.
 5. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar 75% kostnaðar, en fyrir aðra elli- og örorkulífeyrisþega 50% kostnaðar, þó ekki fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega eftir reglum, sem tryggingaráð setur, í allt að 100%.


17. gr.

     1., 2. og 3. mgr. 45. gr. laganna orðast svo:
     Sjúkratryggingar greiða sjúkradagpeninga ef sjúkratryggður, sem orðinn er 17 ára og nýtur ekki elli- og örorkulífeyris, verður algerlega óvinnufær, enda leggi hann niður vinnu og launatekjur falli niður sé um þær að ræða.
     Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir lengur en í 52 vikur samtals á hverjum 24 mánuðum. Þó er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur ef ljóst er að sjúklingurinn verður innan skamms annaðhvort vinnufær eða að unnt verður að ákveða örorku hans, tímabundið eða til bráðabirgða. Dagpeningar, sem nema minna en fullum sjúkradagpeningum, sbr. 4. og 5. mgr., skulu að jafnaði ekki greiddir lengur en í þrjá mánuði.
     Sjúkratryggðir njóta sjúkradagpeninga frá og með 15. veikindadegi séu þeir óvinnufærir a.m.k. í 21 dag. Upphaf biðtímans miðast við þann dag er óvinnufærni er staðfest af lækni.

18. gr.

     1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
     Tryggingastofnun ríkisins gerir samninga um greiðslur samkvæmt þessum kafla. Takist samningar ekki ákveður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra greiðsluna með tilliti til gjaldskrárinnar eða gildandi samninga annarra heilbrigðisstétta.

19. gr.

     Upphaf 3. mgr. 46. gr. orðast svo:
     Daggjöld sjúkrahúsa, sem ekki eru á föstum fjárlögum, svo og gjaldskrár fyrir utansjúkrahússjúklinga, skulu ákveðin af fimm manna nefnd, daggjaldanefnd.

20. gr.

     47. gr. laganna orðast svo:
     Nú er sjúkratryggðum nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis og skulu þá sjúkratryggingar greiða kostnað af því eins og um læknishjálp innan lands væri að ræða. Þetta nær þó ekki til þeirra sem samkvæmt milliríkjasamningum öðlast rétt til sjúkrahjálpar í öðru landi vegna dvalar þar að því er varðar þá sjúkrahjálp sem samningarnir fjalla um.
     Nú verður sjúkratryggður maður fyrir verulegum kostnaði vegna veikinda eða slyss erlendis og fær hann ekki endurgreiddan nema að litlu leyti frá sjúkratryggingum og er þá tryggingaráði heimilt að ákveða að sjúkratryggingadeild taki meiri þátt í slíkum kostnaði.

21. gr.

     48. gr. laganna fellur niður.

22. gr.

     50. gr. laganna orðast svo:
     Kostnaður sjúkratrygginga greiðist að fullu úr ríkissjóði.
     Framlag ríkissjóðs til sjúkratrygginganna greiðist Tryggingastofnun ríkisins með jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrir 10. hvers mánaðar.

23. gr.

     Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „sjúkrasamlag“ kemur: sjúkratryggingar eða orðið falli brott eftir því sem við á.

24. gr.

     Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „sjúkrasamlagsstjórn“ kemur: Tryggingastofnun ríkisins eða orðið falli brott eftir því sem við á.

25. gr.

     Hvarvetna þar sem stendur „samlagsmaður“ í öðrum greinum laganna kemur: sjúkratryggður.

26. gr.

     Uppgjör sjúkrasamlaga fyrir árið 1989 skal liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 1990.
     Eignir sjúkrasamlaga skulu renna til Tryggingastofnunar ríkisins.

V. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingu.

27. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnuleysistryggingasjóður skal inna af hendi þær bætur sem um ræðir í 1. gr. Árlegar tekjur sjóðsins eru þessar:
 1. Iðgjöld atvinnurekenda skv. 10. gr.
 2. Framlag ríkissjóðs skv. 14. gr.
 3. Vextir af innstæðufé sjóðsins og verðbréfum.


28. gr.

     14. gr. laganna fellur brott.

29. gr.

     1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
     Ríkissjóður greiðir framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er skal nema þrefalt hærri fjárhæð en heildariðgjöld skv. 10. gr.

VI. KAFLI
Um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 63/1974, með síðari breytingum.

30. gr.

     1. og 2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Fræðsluráð skal skipað fimm eða sjö mönnum sem kjörnir eru af sveitarstjórnum eða samtökum sveitarfélaga í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi. Jafnmargir skulu kjörnir til vara.
     Um kosningu og starfshætti fer eftir meginreglum sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.

31. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Fræðsluráð fjallar um og fer með sameiginleg málefni sveitarfélaga á sviði fræðslumála í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi.
     Fræðsluráð skal vera fræðslustjóra til ráðuneytis um dagleg störf hans. Fræðsluráð getur falið fræðslustjóra að annast framkvæmdastjórn fyrir ráðið.
     Fræðsluráð hefur samvinnu við skólanefndir og samræmir störf þeirra í umdæminu. Það fer að öðru leyti með þau málefni sem hlutaðeigandi sveitarstjórnir fela þeim eða ákveðin kunna að verða í reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum.

32. gr.

     1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Fræðslustjóri er fulltrúi menntamálaráðuneytis um fræðslumál í umdæminu og skal búsettur þar sem fræðsluskrifstofa umdæmisins er eða í næsta nágrenni. Hann er framkvæmdastjóri fræðslusráðs, sé svo um samið, og forstöðumaður fræðsluskrifstofu, sbr. 12. og 15. gr.
     3. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Hann hefur í umboði menntamálaráðuneytisins umsjón með eignum og rekstri þeirra skóla sem lög þessi taka til, sbr. þó 29. gr.

33. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Samtök sveitarfélaga ákveða fræðsluskrifstofu stað, en háð er sú ákvörðun samþykki menntamálaráðuneytis.
     Fræðslustjóri er forstöðumaður fræðsluskrifstofu. Starfsmenn fræðsluskrifstofu eru ríkisstarfsmenn. Um ráðningu og starfskjör þeirra fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
     Heimilt er fræðslustjóra að semja svo við samtök sveitarfélaga, einstök skólahverfi og sveitarfélög að fræðsluskrifstofa taki að sér tiltekin verkefni fyrir þessa aðila, enda komi full greiðsla fyrir. Á hliðstæðan hátt er fræðslustjóra heimilt að semja svo við samtök sveitarfélaga að skrifstofa þeirra eða einstakar starfsdeildir innan þeirra annist störf fyrir fræðsluskrifstofu, enda komi samþykki menntamálaráðuneytis til.

34. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Gerð skólamannvirkja er undirbúin heima í héraði af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd.
     Stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum.
     Í hverju skólahverfi skal vera skólahúsnæði sem fullnægir þörfum grunnskóla við þær aðstæður sem þar eru. Við gerð eða breytingar skólamannvirkja skal m.a. tekið tillit til hvort nemendur ganga til skóla, er ekið þangað daglega, búa þar í heimavist eða fyrirkomulag er blandað.

35. gr.

     3.–6. mgr. 24. gr. laganna falla brott.

36. gr.

     27. gr. laganna orðast svo:
     Um listskreytingu skólamannvirkja fer eftir lögum nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins.

37. gr.

     28. gr. laganna orðast svo:
     Eðlilegt viðhald skólahúsa og búnaðar, þar á meðal endurnýjun kennslutækja, er sveitarfélögum skylt að annast á fullnægjandi hátt.
     Viðhaldskostnaður greiðist af sveitarfélögum.

38. gr.

     29. gr. laganna orðast svo:
     Dagleg umsjón og umráð skólamannvirkja, þar á meðal skólastjóra- og kennarabústaða sem eru sameign ríkis og sveitarfélaga eða sveitarfélaga einna, skal vera í höndum skólastjóra og skólanefndar sem fara að því leyti með umboð sveitarstjórnar og menntamálaráðuneytisins.
     Heimilt er sveitarstjórn að ráðstafa skólahúsnæði eða hluta þess til æskulýðsstarfsemi, íþróttastarfsemi og almennrar félagsstarfsemi í þágu íbúa byggðarlagsins. Slíkt er þó aðeins heimilt að hvergi brjóti í bága við skólahald né aðra notkun skólahúsnæðis samkvæmt lögum.
     Sveitarstjórn getur ákveðið að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar að skólahúsnæði sé utan venjulegs skólatíma notað til gistingar og veitingareksturs.
     Tekjur af eignum skóla renna til sveitarsjóða.

39. gr.

     34. gr. laganna orðast svo:
     Skólastjóri ræður með samþykki skólanefndar stunda- og forfallakennara við grunnskóla, sbr. þó lög nr. 48/1986.
     Sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar ræður þá starfsmenn skóla er teljast starfsmenn sveitarfélaga.

40. gr.

     3.–5. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
     Skólastjóri við heimavistarskóla er jafnframt heimavistarstjóri. Í heimavistum skal daglegt eftirlit og umsjón með nemendum jafnframt vera í höndum kennara, fóstra eða annarra starfsmanna sem menntamálaráðneytið viðurkennir.
     Kostnaður við gæslu á heimavist greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.
     Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um störf og starfslið í heimavistum og aðbúnað nemenda þar.

41. gr.

     Úr 1. mgr. 43. gr. laganna falla brott orðin „sbr. 77. gr.“
     3. mgr. sömu greinar orðast svo:
     Kostnaður við félagsstörf greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.

42. gr.

     66. gr. laganna orðast svo:
     Í hverju fræðsluumdæmi skal starfa ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir grunnskóla.
     Menntamálaráðuneytið gerir í samráði við fræðslustjóra heildaráætlun um framkvæmd ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu samkvæmt lögum þessum. Skal áætlunin miðuð við það fjármagn sem til þessa starfsþáttar er veitt á fjárlögum. Til þessarar starfsemi skal að fengnum tillögum fræðslustjóra ráða sálfræðinga, félagsráðgjafa og sérkennara. Einnig er heimilt að nýta þjónustu ráðgefandi læknis í þessum efnum.
     Kostnaður við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu greiðist úr ríkissjóði.

43. gr.

     77. gr. laganna orðast svo:
     Auk kostnaðar við kennslu skv. 76. gr. greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun grunnskóla, störf í skólasafni samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð, svo og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu kennara samkvæmt lagafyrirmælum eða ákvörðun menntamálaráðuneytis.
     Ríkissjóður greiðir enn fremur laun stjórnskipaðra prófdómara, sbr. þó 61. gr., og kostnað er leiðir af kjarasamningum ríkisins við kennara.

44. gr.

     Í stað 78.–80. gr. laganna kemur ein ný grein er verði 78. gr. en töluröð annarra greina breytist samkvæmt því. Greinin orðast svo:
     Sveitarfélög greiða allan annan rekstrarkostnað grunnskóla, en laun vegna kennslu og stjórnunar, eða kostnað vegna annarra þeirra rekstrarþátta sem greindir eru í lögum þessum sem verkefni ríkissjóðs.

45. gr.

     83. gr. laganna fellur brott.

46. gr.

     84. gr. laganna, er verður 81. gr., orðast svo:
     Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd þessara laga og skulu því afhentir ársreikningar skólanna.
     Hlutaðeigandi sveitarfélög annast fjármál og reikningshald, en geta falið skólanefnd, skólastjóra eða sérstökum reikningshaldara að hafa á hendi reikningshald í umboði sínu.
     Reikningar skólanna skulu endurskoðaðir á sama hátt og reikningar hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þar sem fleiri sveitarfélög en eitt standa að rekstri grunnskóla skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir sameiginlega tilnefna til fjögurra ára í senn tvo fulltrúa til að endurskoða reikninga skólans og tvo til vara. Menntamálaráðuneytið og aðilar í umboði þess skulu eiga aðgang að öllu slíku reikningshaldi og upplýsingum um skólakostnað.

47. gr.

     Í stað 85. og 86. gr. laganna kemur ein ný grein er verður 82. gr. og orðast svo:
     Ríkissjóður greiðir allan kostnað af rekstri fræðsluskrifstofu, þar með talinn allan kostnað við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í þeim skólum sem lög þessi taka til. Fjárveitingar til þessara starfa skulu greiddar mánaðarlega til fræðsluskrifstofu.
     Í reglugerð skal setja ákvæði um hvernig reikna skuli framlög til fræðsluskrifstofu.

48. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 83. gr. og orðast svo:
     Sveitarfélög greiða stofnkostnað grunnskóla, sbr. 23. gr. Jafnframt falla úr gildi að því er tekur til grunnskóla ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað. Þó skulu haldast ákvæði þeirra laga um verðtryggingu stofnkostnaðarframlaga ríkissjóðs að því er tekur til framkvæmda sem fullgerðar voru eða hafnar í árslok 1989. Menntamálaráðuneytið setur reglur um lágmarksstærð grunnskólahúsnæðis og búnað þess.

VII. KAFLI
Um breytingu á íþróttalögum, nr. 49/1956, með síðari breytingum.

49. gr.

     Í stað 5.–10. gr. í II. kafla laganna kemur ein ný grein, sem verður 5. gr., en töluröð greina, sem á eftir koma, breytist til samræmis við það. Greinin orðast svo:
     Bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota er í verkahring sveitarfélaga.
     Sveitarstjórn veitir byggingarstyrki til íþróttafélaga og íþróttasamtaka eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarfélags.
     Alþingi veitir árlega fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður. Fé úr sjóðnum skal veita til bygginga íþróttamannvirkja á vegum félaga sem um getur í 2. mgr. Íþróttanefnd gerir tillögur til fjárveitinganefndar um skiptingu fjárins.
     Í reglugerð, sem menntamálaráðuneytið setur, að höfðu samráði við íþróttanefnd og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, skal m.a. ákveða nánar um skilyrði fyrir opinberum styrkveitingum, rekstur og afnot mannvirkja sem njóta styrks.

50. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verði: Um byggingarstyrki.

VIII. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 107/1970, um félagsheimili, með síðari breytingum.

51. gr.

     Í stað 2., 3. og 4. gr. laganna kemur ein ný grein, sem verður 2. gr., en töluröð annarra greina breytist samkvæmt því. Greinin orðast svo:
     Sveitarstjórn veitir byggingarstyrki til félagsheimila eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarstjórnar. Samþykki sveitarstjórnar skal liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

52. gr.

     5. gr. laganna, sem verður 3. gr., orðast svo:
     Eigendum félagsheimila, sem notið hafa byggingarstyrks frá ríki eða sveitarfélagi, er skylt að heimila öðrum félögum, sem falla undir 1. gr., afnot af húsinu gegn hæfilegu gjaldi ef það fer ekki í bága við notkun þeirra sjálfra. Rísi ágreiningur um rétt til afnota af félagsheimili eða um eðlilegt leigugjald skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir skera úr.

53. gr.

     6. gr. laganna, sem verður 4. gr., orðast svo:
     Óheimilt er að selja félagsheimili, sem styrkt hafa verið af ríki eða sveitarfélagi, án leyfis menntamálaráðherra og hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Óheimilt er að veðsetja félagsheimili, sem styrkt hafa verið, nema fyrir láni til greiðslu byggingarkostnaðar eða til endurbóta á eigninni.

54. gr.

     7. gr. laganna fellur brott.
     Í stað orðanna „styrk úr Félagsheimilasjóði“ í 8. gr. laganna, sem verður 5. gr., kemur: opinberum styrk.

55. gr.

     9. gr. laganna, sem verður 6. gr., orðast svo:
     Menntamálaráðuneytið getur, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið með reglugerð nánari skilyrði til styrkveitinga og önnur atriði er snúa að framkvæmd laganna.
     Ágreiningi, sem verða kann um skilning á lögum þessum eða um framkvæmd þeirra, má skjóta til ráðherra.

56. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 7. gr. og orðast svo:
     Til Menningarsjóðs félagsheimila skal renna hluti af skemmtanaskatti. Sjóðurinn skal verja tekjum sínum til að stuðla að menningarstarfsemi í félagsheimilum. Heimilt er einnig, ef sérstaklega stendur á, að styrkja menningarstarfsemi sem fram fer utan félagsheimila.
     Menntamálaráðuneytið skal fara með málefni sjóðsins.

IX. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 58/1970, um skemmtanaskatt, með síðari breytingu.

57. gr.

     1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Frá gildistöku laga þessara skal skemmtanaskatti ráðstafað, í samráði við fjármálaráðherra, til framkvæmda í lista- og menningarmálum og til forvarnarstarfa í áfengis- og fíkniefnamálum. Nánari ákvæði um ráðstöfun fjárins skal menntamálaráðherra setja í reglugerð.

58. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Af skemmtanaskatti skv. 2. gr. renna 10% til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og 10% til Menningarsjóðs félagsheimila.

X. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, með síðari breytingum.

59. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Bygging og rekstur dagvistarheimila er í verkahring sveitarfélaga. Menntamálaráðuneytið skal hafa með höndum faglega umsjón með starfi dagvistarheimila og vera sveitarstjórnum til ráðuneytis um þau mál.
     Samþykki menntamálaráðuneytis og hlutaðeigandi sveitarstjórnar þarf til að setja á stofn dagvistarheimili.

60. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarstjórn ákveður byggingu og fyrirkomulag á rekstri dagvistarheimila í eigu þess samkvæmt lögum þessum.
     Sveitarstjórn getur veitt aðilum, sem reka vilja dagvistarheimili í samræmi við markmið þessara laga, styrki til byggingar og reksturs, eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarstjórnar. Áður en framkvæmdir hefjast skal ganga frá samningi milli sveitarstjórnar og félags um styrk og skilyrði varðandi rekstur heimilisins.

61. gr.

     Í 1. mgr 4. gr. laganna falla brott orðin „úr ríkissjóði“.

62. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Menntamálaráðuneytið skal í samráði við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga setja í reglugerð almenn ákvæði um húsnæði og búnað og viðmiðunarákvæði um barnafjölda og starfslið dagvistarheimila sem falla undir lög þessi.
     Nú hættir aðili, sem notið hefur opinbers styrks til stofnunar dagvistarheimilis, rekstri þess og getur þá hlutaðeigandi sveitarfélag gert kröfu um endurgreiðslu styrksins.

63. gr.

     7. gr. laganna fellur brott.

64. gr.

     9.–14. gr. laganna fellur brott, en töluröð annarra greina breytist til samræmis við það.

XI. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.

65. gr.

     3. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

66. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Stofnkostnaður tónlistarskóla greiðist af stofnendum hans.

67. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarfélög, sem reka tónlistarskóla, greiða launakostnað kennara og skólastjóra.

68. gr.

     Síðasti málsliður 8. gr. laganna fellur brott. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Sveitarstjórn skal taka afstöðu til áætlunar skólans og gera samkomulag við skólastjórn um kennslu og starfsmannahald fyrir 1. júlí ár hvert.

69. gr.

     Í stað orðanna „fjármálaráðuneytið og launanefnd sveitarfélaga gera“ í 1. málsl. 9. gr. laganna kemur: launanefnd sveitarfélaga gerir.

70. gr.

     Síðasti málsliður 10. gr. laganna fellur brott.

71. gr.

     Í stað 12. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar svohljóðandi:
 1. (12. gr.)
 2.      Menntamálaráðuneytið skal hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu. Ráðuneytið ræður í þessu skyni námsstjóra tónlistarfræðslunnar til fjögurra ára í senn svo og annað nauðsynlegt starfslið.
       Verkefni ráðuneytisins eru m.a.: yfirstjórn námsskrár- og námsefnisgerðar, sbr. 3. tölul. 1. gr., samræming náms, prófa og réttinda er þau veita, aðstoð varðandi ráðningar kennara, ráðgjöf varðandi gerð starfs- og fjárhagsáætlana skóla, upplýsingamiðlun og erlend samskipti.
 3. (13. gr.)
 4.      Ráðuneytið skipar fimm manna samstarfsnefnd tónlistarfræðslunnar til að fjalla í heild um starfsemi tónlistarskóla, samstarf skólanna og/eða rekstraraðila þeirra svo og samstarf tónlistarskóla við grunnskóla og framhaldsskóla.
       Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum tónlistarskólastjóra, einn fulltrúi tilnefndur af Félagi tónlistarskólakennara, námsstjóri tónmennta í grunnskólum, skipaður án tilnefningar, námsstjóri tónlistarfræðslunnar, skipaður án tilnefningar, og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.
 5. (14. gr.)
 6.      Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um starfshætti og verkefni samstarfsnefndar tónlistarfræðslunnar.


XII. KAFLI
Um breytingu á vegalögum, nr. 6/1977, með síðari breytingum.

72. gr.

     21.–24. gr. og 26.–27. gr. laganna falla brott en töluröð annarra greina breytist til samræmis við það.

73. gr.

     28. gr. laganna, sem verður 22. gr., orðast svo:
     Af tekjum til vegamála samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar skal árlega veita ákveðna fjárhæð til sýsluvega. Vegamálastjóri annast skiptingu fjárins milli sýslna eftir reglugerð sem ráðherra setur. Við skiptingu skal aðallega miða við notkun og lengd þeirra sýsluvega í hverri sýslu sem falla undir a-c lið 2. mgr. 19. gr., en jafnframt skal þó höfð hliðsjón af því hve mikill hluti þeirra vega er lagður, ruddur eða ekki akfær.

XIII. KAFLI
Um landshafnir.

74. gr.

     Felld eru úr gildi lög nr. 23/1955, um landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi, lög nr. 38/1951, um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi, og lög nr. 61/1966, um landshöfn í Þorlákshöfn, með síðari breytingum. Um hafnir þessar skulu gilda hafnalög, nr. 69/1984.

XIV. KAFLI
Um kostnaðaruppgjör milli ríkissjóðs og sveitarfélaga.

75. gr.

     Ríkissjóður greiðir sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs við byggingu dagvistarheimila, grunnskóla, íþróttamannvirkja og félagsheimila miðað við stöðu framkvæmda í árslok 1989. Við mat á þessum skuldbindingum ríkissjóðs skal miða við núgildandi lagaákvæði um hlutdeild ríkissjóðs í byggingarkostnaði fyrrgreindra mannvirkja svo og sérsamninga sem gerðir hafa verið við einstök sveitarfélög um skólamannvirki.
     Þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdum, sem unnar eru á árinu 1989, skal þó miðuð við þau framlög sem eru á fjárlögum 1989.
     Náist ekki samkomulag milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga eða félagasamtaka hins vegar um kostnaðaruppgjör skv. 1. og 2. mgr. geta aðilar fyrir 1. janúar 1992 lagt málið til endanlegs úrskurðar nefndar sem starfa skal meðan unnið er að kostnaðaruppgjöri samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Nefndin skal skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af menntamálaráðherra, einum tilnefndun af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddamanni tilnefndum af Hæstarétti Íslands. Meiri hluti ræður úrslitum mála, en fáist ekki meiri hluti skal oddamaður skera úr.
     Um skiptingu fjár samkvæmt þessari grein skal fara eins og mælt verður fyrir um í fjárlögum fyrir árin 1990–1993, enda verði greiðslu lokið að fullu á því árabili.
     Menntamálaráðherra setur reglugerð í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd þessarar greinar.

XV. KAFLI
Gildistaka.

76. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Jafnframt falla úr gildi önnur þau lagaákvæði en að framan eru talin sem kunna að brjóta í bága við þessi lög.
     Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella þau inn í meginmál þeirra laga sem þau breyta og gefa þau lög út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 17. maí 1989.