Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1336, 111. löggjafarþing 204. mál: tekjustofnar sveitarfélaga (heildarlög).
Lög nr. 91 1. júní 1989.

Lög um tekjustofna sveitarfélaga.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Tekjustofnar sveitarfélaga eru þessir:
  1. Fasteignaskattur.
  2. Framlög úr Jöfnunarsjóði.
  3. Útsvör.
  4. Aðstöðugjöld.

     Fer um tekjustofna þessa samkvæmt því er lög þessi ákveða.

2. gr.

     Auk tekna skv. 1. gr. hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.
     Sveitarstjórn getur ákveðið að gjalddagar vatnsskatts, holræsagjalds og lóðarleigu skuli vera þeir sömu og gjalddagar fasteignaskatts og jafnframt að innheimtu þeirra verði hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr.

II. KAFLI
Um fasteignaskatt.

3. gr.

     Á allar fasteignir, sem metnar eru af Fasteignamati ríkisins, sbr. þó 5. gr., skal árlega leggja skatt til sveitarfélags þar sem fasteign er.
     Stofn til álagningar skattsins á hús og mannvirki skal vera afskrifað endurstofnverð þeirra margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Stofn til álagningar fasteignaskatts á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.
     Skatturinn skal vera sem hér segir:
  1. Allt að 1/2% af álagningarstofni:
  2.      Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd og jarðeignir, sem ekki eru nytjaðar til annars en landbúnaðar, útihús og mannvirki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði, og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.
  3. Allt að 1% af álagningarstofni:
  4.      Allar aðrar fasteignir.

     Heimilt er sveitarstjórn að hækka um allt að 25% hundraðshluta þá, sem tilgreindir eru í 3. mgr. þessarar greinar, samkvæmt öðrum hvorum eða báðum stafliðum.
     Í sveitarfélagi, þar sem bæði er þéttbýli og dreifbýli, er sveitarstjórn heimilt að undanþiggja fasteignir í dreifbýli álagi á fasteignaskatt skv. 4. mgr.
     Fyrir 1. desember ár hvert skal Fasteignamat ríkisins láta sveitarfélögunum í té skrár yfir álagningarstofn fasteignaskatts í hverju sveitarfélagi, sbr. 2. mgr.

4. gr.

     Sveitarstjórn annast álagningu skattsins sem reiknast af heilum þúsundum matsverðs og skal sleppa því sem umfram er. Innheimtu skattsins getur sveitarstjórn falið sérstökum innheimtuaðila.
     Eigandi greiðir skattinn, nema um leigujarðir, leigulóðir eða önnur samningsbundin jarðarafnot sé að ræða. Þá greiðist skatturinn af ábúanda eða notanda.
     Nú verður ágreiningur um gjaldskyldu eða gjaldstofn og sker þá yfirfasteignamatsnefnd ríkisins úr. Úrskurði nefndarinnar má skjóta til dómstóla.
     Sveitarstjórn ákveður hvenær fasteignaskattur fellur í gjalddaga og er henni heimilt að kveða á um að skatturinn sé greiddur með sem næst jöfnum greiðslum á fleiri en einum gjalddaga.
     Vangreiðsla að hluta veldur því að fasteignaskatturinn fellur allur í eindaga 15 dögum eftir gjalddaga.

5. gr.

     Undanþegin fasteignaskatti eru sjúkrastofnanir samkvæmt heilbrigðislögum, kirkjur, skólar, heimavistir, barnaheimili, íþróttahús, skipbrotsmannaskýli, sæluhús, bókasöfn og önnur safnahús og hús annarra ríkja að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum. Sama gildir um lóðir slíkra húsa.
     Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af heilsuhælum, endurhæfingarstöðvum og húsum sem einvörðungu eru notuð til tómstundaiðju sem viðurkennd eru af hlutaðeigandi sveitarstjórn. Sama gildir um lóðir þessara húsa.
     Nú eru hús þau, sem um ræðir í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, jafnframt notuð til annars en að framan greinir, svo sem til íbúðar fyrir aðra en húsverði, og greiðist skatturinn þá hlutfallslega miðað við slík afnot.
     Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.

6. gr.

     Nú er afnotum fasteignar, sem metin er sem ein heild, þann veg háttað að greiða ber fasteignaskatt af henni samkvæmt báðum gjaldflokkum 3. mgr. 3. gr. og skulu þá þeir, sem annast mat nýbygginga og endurbóta fasteigna, ákveða hlutfallslega skiptingu matsverðs slíkra eigna eftir afnotum.

7. gr.

     Fasteignaskattinum fylgir lögveð í fasteign þeirri, sem hann er lagður á, og skal ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla. Ef hús brennur eftir að skatturinn er fallinn í gjalddaga er sami forgangsréttur fyrir honum í brunabótafjárhæð hússins.

III. KAFLI
Um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

8. gr.

     Tekjur Jöfnunarsjóðs eru þessar:
  1. Framlag úr ríkissjóði er nemi 1,4% af skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum sem innheimtir eru í ríkissjóð. Skal framlagið greiðast Jöfnunarsjóði mánaðarlega eftir á.
  2. Landsútsvör skv. 9. gr.
  3. Vaxtatekjur.


9. gr.

     Landsútsvör greiða eftirtaldir aðilar:
  1. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, 5% af hagnaði.
  2. Áburðarverksmiðja ríkisins, Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, Sementsverksmiðja ríkisins, Sala varnaliðseigna, 1,3% af heildarsölu. Enn fremur olíufélög sem flytja inn olíu, olíuvörur og annast sölu þessa og dreifingu innan lands, 1,3% af heildarsölu olíu og olíuvara annarra en gasolíu og svartolíu.
  3. Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði, 0,5% af rekstrarútgjöldum.
  4. Bankar og sparisjóðir, 1% af mismun heildarútlánsvaxta og heildarinnlánsvaxta.


10. gr.

     Skattstjórinn í Reykjavík annast álagningu landsútsvara skv. 9. gr. Gjalddagi landsútsvara er 15. júlí ár hvert og eindagi 15 dögum síðar. Félagsmálaráðuneytið innheimtir landsútsvörin samkvæmt gjaldskrá sem skattstjórinn í Reykjavík lætur ráðuneytinu í té.

11. gr.

     Fjórðungur landsútsvara, sem til falla í hverju sveitarfélagi, skal koma í hlut þess sveitarfélags, þó með þeirri undantekningu að landsútsvar skv. d-lið 9. gr. rennur óskipt í Jöfnunarsjóð.
     Tekjum Jöfnunarsjóðs skal að öðru leyti ráðstafað sem hér segir:
  1. Til greiðslu bundinna framlaga skv. 12. gr.
  2. Til greiðslu sérstakra framlaga skv. 13. gr.
  3. Til greiðslu jöfnunarframlaga skv. 14. gr.


12. gr.

     Bundnum framlögum skal úthlutað sem hér segir:
  1. Til Sambands íslenskra sveitarfélaga, 1,75% af vergum tekjum sjóðsins.
  2. Til landshlutasamtaka sveitarfélaga, 2% af vergum tekjum sjóðsins sem skiptist jafnt á milli þeirra allra.
  3. Til Lánasjóðs sveitarfélaga, 6,1% af vergum tekjum sjóðsins.
  4. Til greiðslu útgjalda skv. 4. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga.


13. gr.

     Sérstökum framlögum skal úthlutað sem hér segir:
  1. Til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, sbr. 114. gr. sveitarstjórnarlaga.
  2. Til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga, sbr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga.
  3. Til kostnaðarsamra stofnframkvæmda hjá fámennum sveitarfélögum, allt að 8% af vergum tekjum sjóðsins, sbr. 15. gr.
  4. Til að aðstoða dreifbýlissveitarfélög til að standa undir auknum rekstrarkostnaði við grunnskóla vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, allt að 15,5% af vergum tekjum sjóðsins, sbr. 16. gr.
  5. Til að bæta upp annan aukinn kostnað vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, allt að 7,3% af vergum tekjum sjóðsins.

     Heimilt er að færa fjármagn milli c-, d- og e-liða.

14. gr.

     Jöfnunarframlögum skal úthlutað sem hér segir:
  1. Til sveitarfélaga sem hafa lægri skatttekjur en sambærileg sveitarfélög miðað við meðalnýtingu tekjustofna þeirra.
  2. Til sveitarfélaga sem skortir tekjur til að halda uppi þeirri þjónustu sem eðlilegt má telja að sveitarfélag af þeirri stærð veiti.

     Til jöfnunarframlaga skal verja þeim tekjum sjóðsins sem eru umfram ráðstöfun skv. 12. og 13. gr.
     Í reglugerð skal meðal annars setja nánari ákvæði um útreikning jöfnunarframlaga og hvaða skilyrðum sveitarfélög þurfa að fullnægja til að hljóta þau.

15. gr.

     Framlögum skv. c-lið 13. gr. skal varið til að greiða hluta af stofnkostnaði sveitarfélaga við grunnskóla, íþróttamannvirki, félagsheimili, vatnsveitur og dagvistarheimili fyrir börn.
     Í reglugerð skal meðal annars setja nánari ákvæði um útreikning þessara framlaga og hvaða skilyrðum sveitarfélög þurfa að fullnægja til að hljóta þau.

16. gr.

     Framlögum skv. e-lið 13. gr. skal varið til að bæta dreifbýlissveitarfélögum upp aukinn kostnað vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem koma til framkvæmda samhliða lögum þessum.
     Framlögin skulu miðuð við að hagur þessara sveitarfélaga verði ekki lakari eftir breytingar á verkaskiptingunni heldur en áður var.
     Í reglugerð skal meðal annars setja nánari ákvæði um útreikning þessara framlaga og hvaða skilyrðum sveitarfélög þurfa að fullnægja til að hljóta þau.

17. gr.

     Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skipar félagsmálaráðherra fimm manna ráðgjafarnefnd til fjögurra ára sem gera skal tillögur til ráðherra um framlög skv. c-, d- og e-lið 13. gr. og skv. 14. gr. Fjórir nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga en einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti.

18. gr.

     Félagsmálaráðherra hefur á hendi yfirstjórn Jöfnunarsjóðs. Sjóðurinn skal vera í vörslu félagsmálaráðuneytisins sem annast afgreiðslu á vegum hans, úthlutun og greiðslu framlaga og bókhald sjóðsins.

19. gr.

     Árlega skal semja reikning Jöfnunarsjóðs sem endurskoðaður skal af Ríkisendurskoðun. Ársreikninginn skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.

20. gr.

     Félagsmálaráðherra setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga reglugerð með nánari ákvæðum um starfsemi sjóðsins.

IV. KAFLI
Um útsvör.

21. gr.

     Þeir menn, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt, skulu greiða útsvar af tekjum sínum til sveitarfélags eftir því sem nánar er kveðið á í lögum þessum.

22. gr.

     Hver maður, útsvarsskyldur samkvæmt lögum þessum, skal greiða útsvar í einu sveitarfélagi og fellur það óskipt til þess.
     Þeir menn, sem um ræðir í 1. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um tekjuskatt og eignarskatt, skulu greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir áttu lögheimili 1. desember á tekjuárinu.
     Þeir menn, sem um ræðir í 3. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, skulu greiða útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir öfluðu mestra tekna sinna á tekjuárinu.

23. gr.

     Stofn til álagningar útsvars skal vera hinn sami og tekjuskattsstofn, sbr. 1. og 3. tölul. 62. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
     Ákvæði 62.–65. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt skulu gilda um ákvörðun útsvarsstofns eftir því sem við getur átt.
     Lækki skattstjóri tekjuskattsstofn skv. 66. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt skal útsvarsstofn lækka um sömu fjárhæð.

24. gr.

     Skattstjórar annast álagningu útsvars.
     Ákvæði VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt gilda um útsvar eftir því sem við á nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

25. gr.

     Útsvar skal vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum hvers almanaksárs, en má þó eigi vera hærra en 7,5% af útsvarsstofni og skal sami hundraðshluti lagður á tekjur allra manna í hverju sveitarfélagi.
     Útsvar af þeim tekjum barna, sem um ræðir í 2. mgr. 65. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, skal vera 2% af útsvarsstofni.

26. gr.

     Sveitarstjórn skal ákveða fyrir 1. desember ár hvert hvaða hundaðshluti verði lagður á tekjur manna á næsta ári, sbr. 1. mgr. 25. gr. þessara laga, svo og 1. mgr. 9. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     Ákvörðun sveitarstjórnar skal tilkynna fjármálaráðuneytinu eigi síðar en 15. desember á sama ári.
     Skil á staðgreiðslufé til sveitarfélagsins skulu vera sami hundraðshluti og álagningarhlutfallið skv. 1. mgr.
     Sá hundraðshluti, sem sveitarstjórn hefur ákveðið, skal notaður við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og vera endanlegt álagningarhlutfall útsvars í sveitarfélaginu, sbr. þó 5. og 6. mgr.
     Nú kemur í ljós að tekjur sveitarsjóðs hrökkva ekki fyrir útgjöldum og er þá sveitarstjórn heimilt að hækka útsvar frá því er ákveðið var skv. 1. mgr. um allt að 10%. Á sama hátt getur sveitarstjórn lækkað útsvar um allt að 10%.
     Ef sveitarfélag kemst í fjárþröng er sveitarstjórn heimilt að leggja sérstakt álag á útsvör ársins, sbr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga.
     Tilkynning um breytingar á útsvari, sbr. 5. og 6. mgr., skal senda hlutaðeigandi skattstjóra eigi síðar en 31. mars á álagningarári.

27. gr.

     Sveitarstjórn er heimilt að taka til greina umsókn manna um lækkun eða niðurfellingu álagðs útsvars þegar svo stendur á sem segir í 1. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt telji hún ástæðu til að veita frekari lækkun en skattstjóri veitti við afgreiðslu á umsókn um lækkun útsvarsstofns. Á sama hátt getur sveitarstjórn lækkað eða fellt niður álagt útsvar þeirra sem nutu bóta samkvæmt II. og IV. kafla laga um almannatryggingar.
     Skattstjóri skal veita sveitarstjórn aðgang að skattframtölum hlutaðeigandi einstaklinga, svo og veita henni þær upplýsingar sem nauðsynlegar teljast. Sveitarstjórn skal tilkynna lækkun útsvars til skattstjóra, innheimtuaðila og hlutaðeigandi einstaklings.
     Þeim sem sveitarstjórn felur að annast störf þessi er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í störfum sínum og varðar hagi skattaðila.

28. gr.

     Skattstjóri semur skrá um útsvör í hverju sveitarfélagi í skattumdæmi sínu þegar hann hefur lokið álagningu útsvara. Skrá þessa skal hann senda ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri gerir síðan innheimtuskrá og sendir hana til sveitarstjórnar og innheimtuaðila, sbr. nánar ákvæði VIII. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

29. gr.

     Sveitarstjórn getur falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu útsvara. Réttindi og skyldur sem innheimtumenn sveitarsjóða hafa lögum samkvæmt, svo og allar heimildir sem þeim eru veittar til þess að framfylgja innheimtunni, skulu falla til þessara aðila.
     Hver gjaldandi skal á tekjuárinu inna af hendi bráðabirgðagreiðslu upp í útsvar samkvæmt ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     Þeir gjaldendur, sem reynast skulda útsvar að lokinni álagningu opinberra gjalda, sbr. 98. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, skulu greiða það sem vangoldið er á sömu gjalddögum og eftirstöðvar tekjuskatts, sbr. 4. mgr. ll0. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
     Ákvæði 1.–3. mgr. 110. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, um fyrirframgreiðslu tekjuskatts, skulu gilda um þann hluta útsvars sem stafar af öðrum tekjum en launatekjum.
     Sé útsvar hækkað eftir álagningu fellur viðbótarfjárhæðin í gjalddaga 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina.
     Þeim erlendu ríkisborgurum eða ríkisfangslausu mönnum, er fengið hafa dvalar- eða landvistarleyfi hér á landi um tiltekinn tíma, er skylt að gera skil á útsvari sínu á sama tíma og kveðið er á um skil á tekjuskatti, sbr. 7. mgr. 110. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
     Áfrýjun útsvarsákvörðunar eða deila um útsvarsskyldu frestar hvorki eindaga útsvars né leysir gjaldanda undan álögum sem beitt er vegna vangreiðslu þess. Ef útsvar er lækkað eða fellt niður með úrskurði eða dómi skal endurgreiðsla þegar fara fram.

30. gr.

     Útsvör skulu greidd á tekjuári samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda eftir því sem við á. Greiðslur á tekjuári eru til bráðabirgða en endanleg álagning fer fram eftir á og getur því komið til endurgreiðslu eða viðbótarkröfu frá sveitarstjórn.
     Fjármálaráðuneytið sér um endurgreiðslu fyrir hönd sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, en gjaldendur skulu greiða viðbótarkröfu frá sveitarstjórn í samræmi við ákvæði 3.–7. mgr. 29. gr. Ákvæði 2. mgr. 121. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, um verðbætur, skulu eiga við um endurgreiðslur og viðbótarkröfur þær sem hér um ræðir.
     Um innheimtu, dráttarvexti og innheimtuúrræði gilda ákvæði þessara laga eftir því sem við getur átt, sbr. og 2. mgr. 37. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     Allir þeir, sem greiða laun, sbr. 1. mgr. 92. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, eru skyldir, að kröfu innheimtumanns, að halda eftir af kaupi launamanns til lúkningar útsvari þeirra aðila sem launagreiðendur bera sjálfskuldarábyrgð á og innheimta ber samkvæmt ákvæðum þessara laga. Aldrei skulu launagreiðendur þó halda eftir meira en nemur 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á útsvari og gjöldum samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í reglugerð skulu sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.
     Hafi launagreiðandi vanrækt að halda eftir af launum ber hann sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess fjár.
     Krafa vegna fjár, sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt þessari grein, nýtur lögtaksréttar hjá launagreiðanda.
     Launagreiðandi, sem eigi hefur skilað á réttum degi því fé er hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir af launum, skal greiða dráttarvexti skv. 41. gr. frá þeim degi sem skila bar fénu til innheimtuaðila.
     Séu launagreiðslur inntar af hendi fyrir milligöngu annars aðila hvíla sömu skyldur á milligönguaðila og lagðar eru á launagreiðanda samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

31. gr.

     Gjaldandi, sem ofgreitt hefur útsvar til launagreiðanda, getur krafið hlutaðeigandi sveitarstjórn um það sem ofgreitt kann að vera og skiptir ekki máli hvort launagreiðandi hefur staðið skil á fénu eða ekki.
     Sveitarstjórn getur ekki krafið gjaldanda um útsvar er launagreiðandi hefur haldið eftir af launum gjaldandans þó að launagreiðandinn hafi ekki staðið skil á fénu til sveitarstjórnar.

32. gr.

     Um ábyrgð á greiðslu útsvars gilda ákvæði 114. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

33. gr.

     Sveitarstjórnir, sem hlut eiga að máli, hafa sama rétt og gjaldendur til að kæra útsvarsálagningu til skattstjóra og áfrýja úrskurðum til ríkisskattanefndar.

V. KAFLI
Um aðstöðugjald.

34. gr.

     Sveitarstjórnum er heimilt að leggja aðstöðugjöld á þá aðila sem taldir eru upp í 1., 2. og 3. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sveitarfélaginu, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum. Aðstöðugjöld skulu renna í sveitarsjóð.
     Undanþegnir aðstöðugjaldsskyldu eru þó eftirtaldir aðilar:
  1. Þeir sem um ræðir í 4. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
  2. Þeir sem greiða landsútsvör skv. 9. gr. Undanþága olíufélaganna nær þó aðeins til olíu og olíuvara.
  3. Starfsemi sláturhúsa og mjólkurbúa. Undanþága mjólkurbúa nær einungis til framleiðslu mjólkur- og mjólkurafurða.


35. gr.

     Aðstöðugjaldsstofn skal vera rekstrarkostnaður sá sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Til rekstrarkostnaðar í þessu sambandi telst gjaldfærsla skv. 53. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt en frá honum dregst tekjufærsla samkvæmt sömu grein.
     Undanþeginn aðstöðugjaldi er rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 2. mgr. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, enn fremur sá hluti rekstrarkostnaðar sem umfram er heildartekjur og telst tekjufærsla skv. 53. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt þá ekki til heildartekna.
     Hafi aðili með höndum fjölþættan atvinnurekstur sem tekur til fleiri en einnar atvinnugreinar, og verðmæti á tilgreindu verði eru flutt milli atvinnugreina, skal telja verðmæti, sem þannig eru flutt, til heildartekna hjá þeim þætti rekstrarins er af hendi lætur, en til aðstöðugjaldsskylds rekstrarkostnaðar hjá þeim þætti sem á móti tekur.
     Aðstöðugjaldsskyldir aðilar skulu skila skattstjóra sérstakri greinargerð um aðstöðugjaldsskyldan rekstrarkostnað í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Greinargerð þessari skal skila með skattframtali framtalsskyldra aðila samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt en þeir sem undanþegnir eru þeirri framtalsskyldu skulu fyrir 31. maí ár hvert skila greinargerð þessari ásamt ársreikningi til skattstjóra í því umdæmi þar sem þeir eiga lögheimili.

36. gr.

     Hámark aðstöðugjalds skal vera 1,3% af aðstöðugjaldsstofni.
     Sveitarstjórn er heimilt að ákveða mismunandi gjaldflokka aðstöðugjalda eftir tegundum atvinnurekstrar innan framangreindra takmarka. Óheimilt er að skipta útgjöldum í misjafna gjaldflokka innan sömu tegundar atvinnurekstrar.

37. gr.

     Sveitarstjórn getur falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu aðstöðugjalda.
     Þar til álagning aðstöðugjalda liggur fyrir skal gjaldanda gert að greiða á hverjum gjalddaga upp í aðstöðugjald fjárhæð sem nema skal ákveðnum hundraðshluta af því aðstöðugjaldi sem honum bar að greiða næstliðið ár. Skal þessi hundraðshluti ákveðinn fyrir hvert ár í samræmi við þá reglugerð sem fjármálaráðherra setur um innheimtu tekjuskatts og eignarskatts.
     Álagt aðstöðugjald, að frádregnu því sem greiða ber fyrir álagningu skv. 2. mgr. þessarar greinar, skal greiða með jöfnum afborgunum á þeim gjalddögum sem eftir eru á árinu þegar álagning fer fram.
     Vangreiðsla að hluta veldur því að aðstöðugjald gjaldanda í heild fellur í eindaga 15 dögum eftir gjalddaga, þó ekki fyrr en 15. næsta mánaðar eftir að álagningu er lokið.
     Sé aðstöðugjald gjaldanda hækkað eftir álagningu fellur viðbótarfjárhæðin í gjalddaga 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina.
     Að öðru leyti skulu ákvæði 24., 29., 30., 32. og 33. gr. eiga við um álagningu og innheimtu aðstöðugjalda eftir því sem við getur átt.

38. gr.

     Heimilt er að innheimta aðstöðugjald hjá aðila sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í öðru sveitarfélagi en þar sem hann á lögheimili eða hefur atvinnurekstur sinn ef:
  1. hann rekur þar fiskkaup, fiskverkun, hefur þar með höndum húsbyggingar eða aðra mannvirkjagerð eða hefur þar heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, og verður þá ekki lagt aðstöðugjald á hann að því leyti annars staðar,
  2. hann er búsettur erlendis og rekur atvinnu hér á landi.

     Í þeirri greinargerð, sem aðstöðugjaldsskyldum aðila ber að gera skv. 4. mgr. 35. gr., skal koma fram hvað af rekstrarkostnaði hans falli undir þá starfsemi sem hann rekur í öðrum sveitarfélögum. Skattstjóri skal senda upplýsingar um aðstöðugjaldsstofn til skattstjóra í því umdæmi þar sem starfsemin fer fram.

39. gr.

     Nú hefur sveitarstjórn ákveðið að nota heimild þessa kafla um álagningu aðstöðugjalds og skal hún þá tilkynna skattstjóra þá ákvörðun sína og láta honum samtímis í té uppýsingar um hversu hátt gjald þetta skuli vera, sbr. 36. gr.
     Tilkynning til skattstjóra skal send eigi síðar en 31. mars ár hvert.

40. gr.

     Telji skattstjóri ákvörðun sveitarstjórnar um álagningu ganga lengra en heimilað er eða brjóta á einhvern hátt í bága við lög eða reglugerð um aðstöðugjald skal leita úrskurðar félagsmálaráðherra og fresta álagningu að því leyti uns úrskurður er fenginn.
     Félagsmálaráðherra skal kveða upp úrskurðinn svo fljótt sem auðið er og senda hann hlutaðeigandi skattstjóra og sveitarstjórn án tafar.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

41. gr.

     Séu gjöld samkvæmt lögum þessum eigi greidd innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða sveitarstjórn dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Með gjalddaga í þessu sambandi er átt við reglulega gjalddaga skv. 4. mgr. 4. gr., 3. og 5. mgr. 29. gr. og 2., 3. og 5. mgr. 37. gr., en gjaldfelling vegna vangreiðslu á hluta skv. 5. mgr. 4. gr., 4. mgr. 29. gr. og 4. mgr. 37. gr. hefur ekki áhrif á dráttarvaxtaútreikning. Um dráttarvexti gilda ákvæði III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987.
     Nú verður ljóst þegar álagningu sveitarsjóðsgjalda lýkur eða við endurákvörðun þeirra að gjaldandi hefur greitt meira en endanlegu álögðu gjaldi nemur og skal þá endurgreiða það sem ofgreitt var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu sveitarstjórnar. Skulu vextir þessir jafnháir vöxtum sem greiddir eru af almennum sparisjóðsinnstæðum í Landsbanka Íslands á hverjum tíma.

42. gr.

     Gjöld samkvæmt lögum þessum, svo og dráttarvexti, má taka lögtaki, sbr. lög nr. 29/1885.

43. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á útsvörum þeirra erlendra og íslenskra aðila sem eftir gildandi útsvarslögum ríkjanna eiga að greiða útsvar af sömu tekjum bæði á Íslandi og í einhverju öðru ríki.
     Nú er eigi fyrir hendi samningur við annað ríki um að komast hjá tvísköttun á tekjur skv. 1. mgr. og einstaklingur, sem útsvarsskyldur er hér á landi skv. 21. gr., greiðir til opinberra aðila í öðru ríki útsvar af tekjum sínum sem útsvarsskyldar eru hér á landi og er þá ríkisskattstjóra heimilt, samkvæmt umsókn hlutaðeigandi einstaklings eða ábendingu skattstjóra, að lækka útsvar hans hér á landi með hliðsjón af þessum útsvarsgreiðslum hans.

44. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

45. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990 og koma til framkvæmda við álagningu útsvars á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990, við álagningu aðstöðugjalds árið 1990 vegna reksturs á árinu 1989 og við álagningu fasteignaskatts á árinu 1990.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og eftirtalin lög um breytingu á þeim lögum: Lög nr. 47/1982, lög nr. 95/1982, lög nr. 75/1984, lög nr. 99/1985, lög nr. 38/1987 og lög nr. 33/1988, svo og 10. gr. laga nr. 9/1985, um aðgerðir til að bæta hag sjómanna og sjávarútvegs.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 1989.