Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1276, 111. löggjafarþing 182. mál: aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
Lög nr. 92 1. júní 1989.

Lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.


I. KAFLI
Dómstólar í héraði.

1. gr.

     Héraðsdómstólar fara með dómstörf, hver í sínu umdæmi, í opinberum málum og einkamálum, þar á meðal við skipti, fógetagerðir og uppboð.

2. gr.

     Héraðsdómstólar eru 8 og nefnast þeir héraðsdómar. Þeir eru kenndir við umdæmi sín sem eru: Reykjavík, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Reykjanes. Lögsagnarumdæmi þeirra og aðsetur eru sem hér segir:
 1. Héraðsdómur Reykjavíkur. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Reykjavíkurborgar og Kópavogskaupstaðar að mörkum milli Kjósar- og Borgarfjarðarsýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur í Reykjavík.
 2. Héraðsdómur Vesturlands. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Kjósar- og Borgarfjarðarsýslna að mörkum milli Dala- og Barðastrandarsýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur í Borgarnesi.
 3. Héraðsdómur Vestfjarða. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Dala- og Barðastrandarsýslna að mörkum milli Stranda- og Húnavatnssýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur á Ísafirði.
 4. Héraðsdómur Norðurlands vestra. Lögsagnarumdæmi hans er frá vesturmörkum Húnavatnssýslu að austurmörkum Skagafjarðarsýslu og Siglufjarðarkaupstaðar. Dómstóllinn hefur aðsetur á Sauðárkróki.
 5. Héraðsdómur Norðurlands eystra. Lögsagnarumdæmi hans er frá vesturmörkum Ólafsfjarðarkaupstaðar að austurmörkum Þingeyjarsýslu. Dómstóllinn hefur aðsetur á Akureyri.
 6. Héraðsdómur Austurlands. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu að mörkum milli Austur- og Vestur- Skaftafellssýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur á Egilsstöðum.
 7. Héraðsdómur Suðurlands. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Austur- og Vestur-Skaftafellssýslna að vesturmörkum Árnessýslu. Dómstóllinn hefur aðsetur á Selfossi.
 8. Héraðsdómur Reykjaness. Lögsagnarumdæmi hans er frá vesturmörkum Árnessýslu að mörkum milli Kópavogskaupstaðar og Reykjavíkurborgar. Dómstóllinn hefur aðsetur í Hafnarfirði.

     Rétt er héraðsdómara að halda dómþing utan lögsagnarumdæmis síns ef það þykir heppilegt til að upplýsa mál, enda valdi það ekki verulegum drætti á því.

3. gr.

     Með reglugerð, sem dómsmálaráðherra setur, má skipta hverju lögsagnarumdæmi í tvær eða fleiri þinghár sem hver hafi tiltekinn fastan þingstað.
     Héraðsdómur skal halda regluleg dómþing á föstum þingstöðum innan umdæmis síns eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.
     Rétt er héraðsdómara að halda önnur dómþing þar sem hentugt þykir innan lögsagnarumdæmis síns ef það þykir heppilegt til að upplýsa mál.

4. gr.

     Dómarar við héraðsdómstóla nefnast héraðsdómarar. Við héraðsdóm Reykjavíkur skulu vera 21 héraðsdómari, við héraðsdóm Vesturlands 1, við héraðsdóm Vestfjarða 1, við héraðsdóm Norðurlands vestra 1, við héraðsdóm Norðurlands eystra 3, við héraðsdóm Austurlands 1, við héraðsdóm Suðurlands 3 og við héraðsdóm Reykjaness 7. Þar sem héraðsdómarar eru þrír eða fleiri við dómstól má skipta honum í deildir eftir málaflokkum með samþykki dómsmálaráðherra.
     Einn héraðsdómari skipar dóm í hverju máli. Um heimild dómara til að kveðja meðdómsmenn til setu í dómi fer eftir reglum laga um meðferð einkamála í héraði og laga um meðferð opinberra mála.
     Sérhver héraðsdómari starfar sjálfstætt og á eigin ábyrgð að dómstörfum.
     Þar sem héraðsdómarar eru fleiri en einn við dómstól skipar dómsmálaráðherra einn þeirra dómstjóra héraðsdómsins til 6 ára í senn að fenginni tillögu þeirra. Láti dómstjóri af störfum við dómstólinn áður en starfstímabili hans lýkur skal nýr dómstjóri skipaður til næstu 6 ára. Nú verður sæti dómstjóra laust um stundarsakir eða hann forfallast og fer þá sá dómari með dómstjórn sem elstur er að embættisaldri við dóminn.
     Dómstjórar héraðsdóma hafa yfirstjórn þeirra með höndum og bera á henni ábyrgð. Þeir fara með fyrirsvar héraðsdómsins út á við. Þeir úthluta héraðsdómurum málum til meðferðar og skipa þeim í deildir ef héraðsdómur er deildaskiptur.

5. gr.

     Forseti Íslands skipar héraðsdómara. Engan má skipa héraðsdómara nema hann fullnægi eftirtöldum skilyrðum:
 1. Sé svo andlega og líkamlega hraustur að hann geti gegnt stöðunni.
 2. Hafi náð 30 ára aldri.
 3. Sé lögráða og hafi forræði bús síns.
 4. Hafi óflekkað mannorð.
 5. Hafi íslenskan ríkisborgararétt.
 6. Hafi lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands eða prófi við annan háskóla sem metið er jafngilt lögum samkvæmt.
 7. Hafi enn fremur þrjú ár samtals verið alþingismaður, gegnt málflutningsstörfum að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi í þágu ríkis eða sveitarfélags. Leggja má saman starfstíma í hverri einstakri af starfsgreinum þessum.

     Dómsmálaráðherra skipar dómnefnd til fjögurra ára í senn sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Í nefndinni sitja þrír menn og tilnefnir Hæstiréttur einn nefndarmann og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Dómarafélag Íslands tilnefnir einn nefndarmann úr hópi héraðsdómara og Lögmannafélag Íslands tilnefnir þriðja nefndarmanninn úr hópi starfandi lögmanna. Sömu aðilar tilnefna varamenn í nefndina. Nefndin skal gefa dómsmálaráðherra skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur.
     Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um störf nefndarinnar.

6. gr.

     Dómsmálaráðherra getur löggilt fulltrúa við héraðsdómstól til að framkvæma dómsathafnir sem dómstjóri eða héraðsdómari, þar sem eigi er skipaður dómstjóri, fela honum. Sá einn getur hlotið slíka löggildingu sem fullnægir skilyrðum 1. og 3.–6. tölul. 5. gr.
     Þar sem héraðsdómarar eru fleiri en einn ákveður dómstjóri hvert sé starfssvið fulltrúa og undir umsjón hvaða héraðsdómara hann starfi hverju sinni.

7. gr.

     Dómsmálaráðherra setur héraðsdómara til þess að fara með og dæma einstök mál (setudómara) þar sem allir hinir reglulegu dómarar við héraðsdómstól þann, er málið ber undir, hafa vikið dómarasæti.
     Ef mál er sérstaklega umfangsmikið getur dómsmálaráðherra að ósk dómstjóra eða héraðsdómara skipað sérstakan dómara til að fara með það.
     Nú verður sæti héraðsdómara laust, hann forfallast eða fær leyfi frá störfum. Er þá dómsmálaráðherra rétt að setja dómara í hans stað um stundarsakir, en þó ekki um lengri tíma í senn en 12 mánuði nema dómari megi ekki gegna starfi sínu vegna veikinda.
     Dómarar skv. 1.–3. mgr. skulu fullnægja ákvæðum 1.–7. tölul. 1. mgr. 5. gr. Þó má, ef sérstaklega stendur á, gera undantekningar frá skilyrðum 2. og 7. tölul.

8. gr.

     Geri dómari eða dómarafulltrúi sig sekan um vanrækslu í dómarastarfi án þess þó að refsing liggi við að lögum eða framkoma hans eða athafnir í dómarastarfi eða utan þess þykja að öðru leyti ósamrýmanlegar dómarastarfinu skal veita honum áminningu.
     Forseti Hæstaréttar veitir áminningu þegar í hlut á forstöðumaður dómaraembættis. Dómstjóri veitir áminningu þegar í hlut á annar héraðsdómari við það embætti eða dómarafulltrúi. Tilkynna skal dómsmálaráðherra um veitta áminningu.
     Nú telur dómsmálaráðherra dómara hafa misst hin almennu dómaraskilyrði eða hafa gert sig sekan um misferli í dómarastarfi, enda hafi áminning skv. 2. mgr. eigi komið að haldi, eða dómari hefur að áliti ráðherra með öðrum hætti rýrt svo álit sitt siðferðislega að hann megi ekki lengur gegna dómaraembætti og víkur ráðherra honum þá frá embætti um stundarsakir en síðan skal höfða mál á hendur honum til embættismissis svo fljótt sem verða má.
     Ef svo verður ástatt, sem í 3. mgr. segir, um dómara skv. 7. gr. eða fulltrúa dómara getur dómsmálaráðherra þegar tekið af honum starfann án þess að bera þurfi málið undir dómstóla.
     Rétt er þeim, sem skv. 3. eða 4. mgr. hefur verið sviptur embætti eða starfa, að höfða mál með venjulegum hætti á hendur dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins til úrlausnar um lögmæti þeirrar ráðstöfunar, enda höfði hann málið innan 6 mánaða frá því að hún var gerð.
     Forseti getur þó veitt þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára að aldri, lausn frá embætti, enda njóti hann þá sömu eftirlauna sem hann hefði fengið ef hann hefði gegnt starfinu til 70 ára aldurs.

9. gr.

     Haldast skulu sérreglur laga um félagsdóm, kirkjudóm, landsdóm og siglingadóm.

II. KAFLI
Umboðsvald í héraði.

10. gr.

     Sýslumenn fara, hver í sínu umdæmi, með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Þar á meðal fara þeir með lögreglustjórn, tollstjórn og innheimtu opinberra gjalda að því leyti sem hún er ekki falin öðrum, sbr. þó 12. gr.

11. gr.

     Landið skiptist í 26 stjórnsýsluumdæmi auk Reykjavíkurumdæmis sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ, Kjalarneshrepp og Kjósarhrepp. Aðsetur sýslumanna eru sem hér segir: 1. Reykjavík, 2. Akranes, 3. Borgarnes, 4. Stykkishólmur, 5. Búðardalur, 6. Patreksfjörður, 7. Bolungarvík, 8. Ísafjörður, 9. Hólmavík, 10. Blönduós, 11. Sauðárkrókur, 12. Siglufjörður, 13. Ólafsfjörður, 14. Akureyri, 15. Húsavík, 16. Seyðisfjörður, 17. Neskaupstaður, 18. Eskifjörður, 19. Höfn í Hornafirði, 20. Vík í Mýrdal, 21. Hvolsvöllur, 22. Vestmannaeyjar, 23. Selfoss, 24. Keflavík, 25. Keflavíkurflugvöllur, 26. Hafnarfjörður, 27. Kópavogur. Umdæmi sýslumanna skv. 2.–27. tölul. skulu ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi sýslumanna og sveitarstjórna.
     Eigi má fækka stjórnsýsluumdæmum eða taka upp ný nema með lögum.

12. gr.

     Með þau verkefni, sem sýslumönnum eru falin í öðrum umdæmum, fara lögreglustjórinn í Reykjavík, tollstjórinn í Reykjavík og sýslumaðurinn í Reykjavík sem hér segir:
 1. Lögreglustjórinn í Reykjavík fer með lögreglustjórn, þar á meðal útlendingaeftirlit, ásamt þeim störfum sem honum eða lögreglustjórum eru almennt falin með fyrirmælum einstakra laga.
 2. Tollstjórinn í Reykjavík fer með tollstjórn, innheimtu tekna ríkissjóðs, að því leyti sem hún er ekki sérstaklega falin öðrum, og lögskráningu skipshafna, auk starfa samkvæmt fyrirmælum einstakra laga.
 3. Með önnur störf en þau, sem falla innan marka 1. og 2. tölul., fer sýslumaðurinn í Reykjavík.

     Dómsmálaráðherra sker að öðru leyti úr um hvaða verkefni heyri undir einstök embætti skv. 1. mgr.

13. gr.

     Sýslumaður skal hafa skrifstofur í umdæmi sínu eftir því sem dómsmálaráðherra kveður á um hverju sinni og fé er veitt til á fjárlögum.

14. gr.

     Forseti Íslands skipar sýslumenn. Málefni sýslumanna eiga undir dómsmálaráðherra.
     Engan má skipa sýslumann nema hann fullnægi skilyrðum 1. og 3.–7. tölul. 1. mgr. 5. gr.

15. gr.

     Sýslumenn hafa yfirumsjón og ábyrgð á rekstri embætta sinna.
     Dómsmálaráðherra getur að tillögu sýslumanns kveðið á um skiptingu sýslumannsembættis í starfsdeildir eftir verkefnum. Heimilt er að skipa sérstaka deildarstjóra sem veita viðkomandi starfsdeildum forstöðu á ábyrgð sýslumanns. Ef starfsdeildir við sýslumannsembætti eru fleiri en ein skal einn deildarstjóra teljast staðgengill sýslumanns, enda fullnægi hann hæfisskilyrðum til skipunar í sýslumannsembætti.
     Við sýslumannsembætti skal auk sýslumanns vera það starfslið sem dómsmálaráðherra telur þörf á. Um hæfisskilyrði löglærðra fulltrúa sýslumanns gilda ákvæði 1. og 3.–6. tölul. 1. mgr. 5. gr.

III. KAFLI
Gildistaka og ákvæði til bráðabirgða.

16. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.

17. gr.

     Við gildistöku laga þessara taka héraðsdómstólar og sýslumenn við þeim viðfangsefnum sem falin eru hvorum um sig skv. 1. og 10. gr.
     Að því leyti sem einstök lög fela borgardómara í Reykjavík, borgarfógeta í Reykjavík, sakadómara í Reykjavík, bæjarfógetum og lögreglustjórum utan Reykjavíkur eða öðrum valdsmönnum störf, sem ekki teljast til dómstarfa skv. 1. gr., skulu þau koma í hlut sýslumanna frá gildistöku laganna.

18. gr.

     Þeir sem skipaðir eru borgardómarar, borgarfógetar og sakadómarar, yfirborgardómari, yfirborgarfógeti og yfirsakadómari í Reykjavík og sakadómari í ávana- og fíkniefnamálum við gildistöku laga þessara skulu hafa forgang til skipunar í embætti héraðsdómara í Reykjavík. Nú óska fleiri þeirra eftir skipun í embætti héraðsdómara en heimild er fyrir í 1. mgr. 4. gr. og er þá dómsmálaráðherra heimilt að fjölga dómaraembættum í Reykjavík um allt að 5 embætti, en eigi skal skipað á ný í þau dómaraembætti sem losna fyrr en dómarar verða 21 talsins í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Þeir sem skipaðir eru borgarfógetar í Reykjavík við gildistöku laga þessara og neyta eigi forgangsréttar síns samkvæmt framanskráðu geta, ef þeir svo kjósa, tekið við störfum hjá embætti sýslumanns í Reykjavík, en halda skulu þeir sömu launakjörum og héraðsdómarar, þótt starfsheiti þeirra breytist. Sá sem skipaður er í embætti yfirborgarfógeta í Reykjavík skal hafa forgang til skipunar í embætti sýslumanns í Reykjavík.
     Þeir sem við gildistöku laga þessara eru skipaðir bæjarfógetar, héraðsdómarar og sýslumenn utan Reykjavíkur skulu njóta forgangsréttar til skipunar í embætti héraðsdómara við þann dómstól sem með lögum þessum er falið dómsvald í umdæmi þeirra. Sama gildir um þann sem skipaður er í embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli. Nú kjósa fleiri að neyta forgangsréttar síns en dómarar eru í viðkomandi lögsagnarumdæmi skv. 1. mgr. 4. gr. og er þá dómsmálaráðherra heimilt að fjölga dómaraembættum um eitt á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi og á Suðurlandi og um tvö á Reykjanesi. Eigi skal skipað á ný í þau dómaraembætti sem losna í hverju lögsagnarumdæmi, fyrr en fjöldi héraðsdómara verður í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Ef dómaraembættum fjölgar við héraðsdóma Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands vestra og Austurlands samkvæmt þessari grein er dómsmálaráðherra eigi skylt að skipa dómstjóra við dómstólana en meðan þessi skipan helst skal sá dómari, sem eldri er að embættisaldri, fara með dómstjórn.
     Við skipun héraðsdómara samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. þarf eigi að leita álits dómnefndar skv. 2. mgr. 5. gr.
     Þeir sem skipaðir eru í embætti bæjarfógeta og sýslumanna við gildistöku laga þessara og neyta ekki forgangsréttar síns til skipunar í embætti héraðsdómara samkvæmt ákvæðum 2. mgr. skulu sjálfkrafa verða sýslumenn á aðsetursstað sínum, sbr. 11. gr. Sama gildir um þann sem skipaður er í embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli.

19. gr.

     Nú hefur mál verið þingfest fyrir gildistöku laga þessara fyrir aukadómþingi, bæjarþingi, sakadómi eða sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum og dómur er ekki upp kveðinn og skal þá málið sjálfkrafa teljast rekið áfram fyrir viðkomandi héraðsdómi. Sú breyting haggar ekki gildi þeirrar meðferðar sem mál hefur þegar sætt fyrir gildistöku laga þessara.

20. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirfarandi lög og ákvæði einstakra laga:
 1. Lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972.
 2. Lög um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum, nr. 29/1986.
 3. Lög um sérstakt lögsagnarumdæmi í Austur-Skaftafellssýslu, nr. 56/1976.
 4. Lög um lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, nr. 33/1954.
 5. Lög um heimild til löggildingar á fulltrúum bæjarfógeta til þess að gegna eiginlegum dómarastörfum, o.fl., nr. 79/1919.
 6. 1. mgr. 2. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann, nr. 18/1949.
 7. 1. mgr. 2. gr. laga um nauðungaruppboð, nr. 57/1949.
 8. Lög um bráðabirgðabreyting á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum o.fl., nr. 3/1973.
 9. 2. gr. laga nr. 26/1918 um bæjarstjórn Vestmannaeyja.
 10. 2. gr. laga nr. 61/1919 um bæjarstjórn á Seyðisfirði.
 11. Lög nr. 58/1919 um breytingar á lögum nr. 30 22. nóvember 1918, um bæjarstjórn á Siglufirði.
 12. 4. gr. laga nr. 48/1928 um bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði.
 13. 4. gr. laga nr. 45/1941 um bæjarstjórn á Akranesi.
 14. 4. gr. laga nr. 60/1944 um bæjarstjórn í Ólafsfirði.
 15. 2. gr. laga nr. 57/1947 um bæjarstjórn á Sauðárkróki.
 16. 4. gr. laga nr. 17/1949 um bæjarstjórn í Keflavík.
 17. 2. gr. laga nr. 109/1949 um bæjarstjórn í Húsavík.
 18. 2. gr. laga nr. 30/1955 um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað.
 19. 2. gr. laga nr. 16/1974 um kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi.
 20. 2. gr. laga nr. 17/1974 um kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni.
 21. 2. gr. laga nr. 18/1974 um kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi.
 22. 2. gr. laga nr. 19/1974 um kaupstaðarréttindi til handa Eskifjarðarhreppi.
 23. 2. gr. laga nr. 20/1974 um kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni.
 24. 2. gr. laga nr. 83/1975 um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi.
 25. 2. gr. laga nr. 86/1975 um kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi.
 26. 2. gr. laga nr. 8/1978 um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni.
 27. 2. gr. laga nr. 34/1983 um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi.
 28. Lög nr. 31/1877 um að skipta Þingeyjarsýslu og Skaftafellssýslu, hvorri um sig, í tvö sýslufélög.
 29. Lög nr. 27/1887 um að skipta Barðastrandarsýslu í tvö sýslufélög.
 30. Lög nr. 3/1896 um að skipta Ísafjarðarsýslu í tvö sýslufélög.
 31. 1. og 2. gr. laga nr. 43/1973 um breyting á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu og skipan lögsagnarumdæma.
 32. Lög nr. 77/1907 um að skipta Húnavatnssýslu í tvö sýslufélög.


21. gr.

     Við gildistöku laga þessara breytast lög um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936, sem hér segir:
 1. 29.–33. gr., 35. og 72. gr., svo og 1. og 2. mgr. 38. gr. falli brott.
 2. 1. mgr. 42. gr. hljóði svo:
 3.      Hverjum héraðsdómstól skulu fylgja dómsmálabækur til afnota í einkamálum, þar á meðal við skipti, fógetagerðir og uppboð. Í bækur þessar skráir dómari skýrslu um mál þau, sem til meðferðar eru hverju sinni, með þeim hætti sem tíðkast hefur, þar á meðal úrskurði sem upp eru kveðnir þegar í stað um skjöl þau, sem fram hafa verið lögð um kröfur þær, sem fram hafa komið, og þau efni önnur sem í IX. kafla greinir, vitnaskýrslur, nefningu matsmanna og staðfestingu matsgerða o.s.frv. Þá skal fylgja hverjum héraðsdómstól dómabók þar sem skráðir eru dómar og úrskurðir, aðrir en þeir sem áður greinir.


22. gr.

     Við gildistöku laga þessara breytast lög um meðferð opinberra mála, nr. 74 21. ágúst 1974, sem hér segir:
 1. 4. gr. falli brott.
 2. 2. mgr. 5. gr. falli brott, en 3. mgr. 5. gr. hljóði svo:
 3.      Eftir ákvörðun dómstjóra geta þrír héraðsdómarar farið með mál eftir rannsókn þess og dæmt það í sameiningu, enda þyki vafi um mikilsverð sönnunar- eða lagaatriði.
 4. 7. gr. hljóði svo:
 5.      Kirkjudómur fer með refsimál vegna afbrota biskups og presta þjóðkirkjunnar út af hneykslanlegu framferði þeirra í embættisathöfnum eða einkalífi, enda sé ekki um almenn refsiverð brot að tefla. Forsæti í kirkjudómi skipar dómstjóri viðkomandi héraðsdóms eða héraðsdómari þar sem dómstjóri er eigi, en til meðdómenda kveður hann tvo þjónandi þjóðkirkjupresta.
 6. 2. mgr. 12. gr. hljóði svo:
 7.      Um greiðslu til meðdómenda fer skv. 8. tölul. 37. A. gr. laga um meðferð einkamála í héraði.
 8. 1. mgr. 15. gr. falli brott.
 9. 17. gr. falli brott.
 10. 1. mgr. 18. gr. hljóði svo:
 11.      Hverjum héraðsdómi skal fylgja þingbók, ein eða fleiri, þar sem skrá skal að efni til það sem fram fer í opinberum málum, nema ræður málflytjenda og dómabók þar sem skrá skal dóma í opinberum málum.
 12. 1. mgr. 32. gr. hljóði svo:
 13.      Sýslumenn eru lögreglustjórar utan Reykjavíkurumdæmis, en þar fer sérstakur lögreglustjóri með lögreglustjórn. Þar sem ekki eru skipaðir sérstakir lögreglumenn aðstoða hreppstjórar lögreglustjóra.
 14. 3. mgr. 73. gr. falli brott.


Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.