Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 308, 112. löggjafarþing 56. mál: erfðafjárskattur (tvísköttunarsamningar).
Lög nr. 114 27. desember 1989.

Lög um breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt.


1. gr.

     2. mgr. 1. gr. laganna orðist svo:
     Af öllum fasteignum hér á landi, sem eigendaskipti verða að á grundvelli lögerfða, bréferfða eða fyrirframgreiðslu arfs, skal greiða skatt eftir lögum þessum án tillits til þess hvar aðilar að ráðstöfuninni eru búsettir.

2. gr.

     Við bætist ný grein er verði 25. gr., svohljóðandi:
     Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á erfðafjárskatti erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi löggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sömu eignum bæði á Íslandi og erlendis.
     Enn fremur er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga um gagnkvæm upplýsingaskipti og um innheimtu erfðafjárskatts við önnur ríki.
     Nú er eigi fyrir hendi samningur við annað ríki um að komast hjá tvísköttun verðmæta sem lög þessi taka til og skattaðili, sem skattskyldur er hér á landi skv. 1. gr. laganna, greiðir til opinberra aðila í öðru ríki skatta af sömu verðmætum sem skattskyld eru hér á landi og er skiptaráðanda þá heimilt samkvæmt umsókn skattaðila að lækka erfðafjárskatt hans hér á landi með hliðsjón af þessum skattgreiðslum hans.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 1989.