Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 737, 112. löggjafarþing 263. mál: almenn hegningarlög (ofbeldisverk í flugsamgöngum).
Lög nr. 16 27. mars 1990.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 41/1973.


1. gr.

     4. tölul. 6. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 41/1973, orðist svo:
  1. Fyrir brot gegn 2., 3. og 4. mgr. 165. gr., svo og fyrir manndráp, líkamsmeiðingar, frelsissviptingu og önnur ofbeldisverk, sem framin eru í tengslum við brot á þessum ákvæðum, og enn fremur fyrir háttsemi sem alþjóðasamningur frá 23. september 1971 um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna og bókun við hann frá 24. febrúar 1988 taka til. Mál samkvæmt þessum tölulið skal þó aðeins höfða eftir fyrirskipun dómsmálaráðherra.


2. gr.

     120. gr. a, sbr. 2. gr. laga nr. 41/1973, orðist svo:
     Nú veitir maður vísvitandi rangar upplýsingar eða lætur uppi vísvitandi rangar tilkynningar, sem eru fallnar til að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð manna, um atriði sem varða loftferðaöryggi eða öryggi í flughöfn varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum. Sömu refsingu varðar að útbreiða þess háttar orðróm gegn betri vitund.

3. gr.

     Síðasti málsliður 2. mgr. 165. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, falli brott.

4. gr.

     Við 165. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, bætist tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
     Sömu refsingu og í 2. mgr. þessarar greinar skal sá sæta sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð, enda valdi verknaður eða sé til þess fallinn að valda almannahættu.
     Ákvæði 166., 167. og 169. gr. eiga einnig við um brot á 2. og 3. mgr.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. mars 1990.