Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1317, 112. löggjafarþing 197. mál: Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins.
Lög nr. 40 15. maí 1990.

Lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.


1. gr.

     Stofna skal sjóð er nefnist Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins og hafi það tvíþætta hlutverk að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum er standa höllum fæti vegna breytinga á útgerðarháttum.
     Sjóðurinn skal stuðla að aukinni hagkvæmni með því að laga stærð og afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. Í þessu skyni skal sjóðurinn kaupa fiskiskip sem kunna að vera til sölu á hverjum tíma og selja þau úr landi eða eyða þeim og ráðstafa veiðiheimildum sem honum eru framseldar eða úthlutað er til hans. Þá er sjóðnum heimilt að veita styrki til úreldingar skipa enda sé tryggt að í stað hinna úreltu skipa komi ekki ný skip í fiskiskipaflotann eða að afkastageta flotans aukist með öðrum hætti.
     Sjóðurinn skal koma til aðstoðar í einstökum byggðarlögum með því að efla vinnslu sjávarfangs á þeim stöðum þar sem straumhvörf hafa orðið í atvinnulífi vegna sölu fiskiskipa. Í þessu skyni getur sjóðurinn framselt tímabundið veiðiheimildir enda verði aflanum landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.

2. gr.

     Sjávarútvegsráðherra skipar fimm menn í stjórn Hagræðingarsjóðs til fjögurra ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn eftir sameiginlegri tilnefningu Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, einn eftir tilnefningu Fiskveiðasjóðs Íslands, einn eftir tilnefningu Byggðastofnunar, en einn án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður sjóðstjórnar.
     Nýti einhver tilnefningaraðila ekki rétt sinn til tilnefningar stjórnarmanns eða náist ekki samkomulag um sameiginlega tilnefningu skipar ráðherra stjórnarmann í hans stað. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og getur í 1. mgr.

3. gr.

     Stofnfé Hagræðingarsjóðs skal vera:
  1. Þær eftirstöðvar eigna hins eldra Úreldingarsjóðs sem varðveittar eru í skuldabréfum skv. d-lið 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
  2. Eignir Aldurslagasjóðs fiskiskipa, sbr. II. kafla laga nr. 37/1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
  3. Söluandvirði eigna eða stofnana ríkisins sem lagt kann að verða til sjóðsins með sérstökum lögum.


4. gr.

     Eigendur fiskiskipa 10 brl. og stærri skulu árlega greiða gjald til Hagræðingarsjóðs. Skal gjaldið nema 800 kr. af hverri brúttórúmlest en þó skal gjaldið aldrei vera hærra en 240.000 kr. fyrir hvert skip. Gjalddagi hagræðingarsjóðsgjalds er 1. janúar ár hvert og greiðist gjaldið án tillits til þess hvort skipi er haldið til veiða eða ekki. Liggi brúttórúmlestamæling skips ekki fyrir skal miða gjaldið við brúttótonn.
     Gjald skv. 1. mgr. skal innheimt gegnum greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins og skal hluti þess fjár, sem greiðist inn á vátryggingarreikning skips skv. 2. tölul. 7. gr. laga nr. 24/1986, ganga til greiðslu gjaldsins. Skal Landssamband íslenskra útvegsmanna mánaðarlega skila þessum hluta til Hagræðingarsjóðs uns fullnaðarskil vegna viðkomandi almanaksárs hafa verið gerð.
     Sé gjald ekki greitt fyrir lok álagningarárs skal greiða í Hagræðingarsjóð dráttarvexti af því sem gjaldfallið er samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum. Lögveð er í skipum fyrir hagræðingarsjóðsgjaldi.
     Hagræðingarsjóðsgjald skv. 1. mgr. er grunngjald. Ráðherra er heimilt að hækka gjald þetta allt að því að það hækki í réttu hlutfalli við þá hækkun sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í janúar 1990, þ.e. 159,6 stig.

5. gr.

     Hagræðingarsjóði skal árlega úthlutað þeim aflaheimildum sem ekki nýttust á næstliðnu fiskveiðiári vegna álags á aflamark við útflutning á óunnum fiski, sbr. 7. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða. Aflaheimildir þessar skulu þó aldrei vera meiri en 12.000 þorskígildistonn árlega miðað við verðmætahlutföll er ráðherra ákveður. Skal allt að helmingi þessara aflaheimilda varið til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum er höllum fæti standa, sbr. 9. gr., en að öðru leyti skulu aflaheimildir þessar framseldar skv. ákvæðum 8. gr. til að standa undir kaupum á skipum til úreldingar.

6. gr.

     Stjórn Hagræðingarsjóðs er heimilt árlega að taka lán vegna skipakaupa að fjárhæð allt að 80% af áætluðu samanlögðu kaupverði skipa á árinu eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lána þessara.
     Noti stjórn Hagræðingarsjóðs heimild 1. mgr. að fullu, eða hluta, til yfirtöku áhvílandi lána á fiskiskipi við kaup ber ríkissjóður sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu eftirstöðva þeirra eftir að veði hefur verið fargað eða það selt úr landi. Fiskveiðasjóði Íslands er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 11. gr. laga nr. 44/1976, að tryggja lán með ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt þessari málsgrein í stað 1. veðréttar í skipi.

7. gr.

     Við kaup á skipum til úreldingar skal stjórn sjóðsins miða við að fiskiskipastóllinn þróist þannig að fiskstofnarnir séu nýttir með sem hagkvæmustum hætti, m.a. með tilliti til aldursdreifingar afla og aflameðferðar um borð.
     Aflaheimildir þeirra skipa, sem sjóðurinn kaupir, falla ekki niður þótt þeim skipum, sem þær höfðu, sé fargað. Flytjast þær til sjóðsins er ráðstafar þeim samkvæmt ákvæðum laga þessara að teknu tilliti til ákvæða laga um stjórn fiskveiða á hverjum tíma.
     Aldrei skal Hagræðingarsjóður þó fá ráðstöfunarrétt umfram 5% af heildaraflaheimildum af botnfiski eða 5% af heildaraflaheimildum af einstökum tegundum sérveiða. Hafi hlutdeild sjóðsins náð framangreindu hámarki skulu aflaheimildir þeirra skipa, sem úrelt eru, bætast hlutfallslega við aflaheimildir þeirra fiskiskipa sem viðkomandi veiðar stunda frá upphafi næsta árs eða næstu vertíðar. Hafi botnfiskheimildir sjóðsins náð fyrrgreindu hámarki skulu botnfiskveiðiheimildir úreltra báta þó eingöngu dreifast hlutfallslega á bátaflotann og heimildir úreltra togara með sama hætti eingöngu á togaraflotann. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að lækka hámark þeirra aflaheimilda sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar samkvæmt þessari málsgrein.
     Styrkir vegna úreldingar skipa, sbr. lokamálslið 1. gr., mega aldrei nema meira en 1/ 10 hluta húftryggingarverðs skips. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um úreldingarstyrki samkvæmt þessari málsgrein.

8. gr.

     Hagræðingarsjóður skal við upphaf hvers fiskveiðiárs eða veiðitímabils gefa þeim skipum, er tilteknar veiðar stunda, kost á að fá framseldar til sín gegn endurgjaldi heimildir til þeirra veiða, sem sjóðurinn hefur forræði á, í hlutfalli við veiðiheimildir hvers skips. Skal endurgjaldið miðað við almennt gangverð á sams konar aflaheimildum að mati sjóðstjórnar. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið lágmark þeirra aflaheimilda sem forkaupsréttur samkvæmt þessari málsgrein nær til.
     Þær veiðiheimildir, sem forkaupsréttur er ekki nýttur á skv. 1. mgr., skal sjóðstjórn framselja hæstbjóðanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð. Sama gildir um framsal aflaheimilda á því fiskveiðiári eða veiðitímabili sem fiskiskip er keypt.
     Stjórn sjóðsins getur við kaup á fiskiskipi samið svo um að seljandi njóti forkaupsréttar á aflaheimildum í tiltekinn tíma eftir kaupin gegn endurgjaldi er miðist við almennt gangverð á sams konar aflaheimildum að mati sjóðstjórnar. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki meðan svo er ástatt.

9. gr.

     Sjóðurinn veitir aðstoð sína til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum, er höllum fæti standa, með því að framselja veiðiheimildir sem honum hafa verið úthlutaðar í því skyni skv. 5. gr. Aflaheimildirnar skulu framseldar gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Skal sveitarstjórn í viðkomandi byggðarlagi eiga ráðstöfunarrétt að veiðiheimildum þessum gegn endurgjaldi skv. 1. mgr. 8. gr. Neyti sveitarstjórn ekki ráðstöfunarréttar síns skulu veiðiheimildir framseldar til skipa og gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. þá um endurgjald fyrir veiðiheimildir þessar eftir því sem við á. Fáist ekki skip til veiðanna með þeim skilmálum getur stjórn sjóðsins, að fengnu samþykki ráðherra, ákveðið lægra endurgjald eða fallið frá endurgjaldi standi sérstaklega á. Forkaupsréttarákvæði 1. mgr. 8. gr. gildir ekki um framsal veiðiheimilda samkvæmt þessari málsgrein.
     Skilyrði fyrir aðstoð sjóðsins er að sala fiskiskips eða fiskiskipa hafi valdið straumhvörfum í atvinnumálum viðkomandi byggðarlags þannig að fyrirsjáanleg sé veruleg fækkun starfa og byggðaröskun sé yfirvofandi. Sjóðstjórn skal taka ákvörðun um aðstoð að fengnu samþykki Byggðastofnunar.
     Þær aflaheimildir skv. 1. mgr., sem ekki verða nýttar á viðkomandi fiskveiðiári til aðstoðar skv. ákvæðum þessarar greinar, skulu framseldar skv. ákvæðum 2. mgr. 8. gr.

10. gr.

     Fiskveiðasjóður Íslands annast reikningshald og rekstur Hagræðingarsjóðs eftir nánara samkomulagi við sjóðstjórn.
     Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga Hagræðingarsjóðs.
     Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar Hagræðingarsjóðs og greiðir þær ef eignir og tekjur sjóðsins hrökkva ekki til.

11. gr.

     Hagræðingarsjóður fiskiskipa skal undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum, sem sjóðurinn veitir eða tekur, skulu undanþegin stimpilgjaldi.

12. gr.

     Sjávarútvegsráðherra setur nánari reglur um Hagræðingarsjóð fiskiskipa með reglugerð.

13. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991. Jafnframt fellur úr gildi II. kafli laga nr. 37 11. maí 1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Gjald skv. 4. gr. skal lagt á í fyrsta skipti fyrir árið 1991.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1991 skal Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins úthlutað þeim aflaheimildum sem ekki nýttust á árinu 1990 vegna álags á aflamark eða aflahámark á útflutningi á óunnum fiski skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990. Aflaheimildir þessar skulu þó ekki vera meiri en sem nemur 8.000 þorskígildistonnum. Um ráðstöfun þessara heimilda fer eftir 5. og 9. gr. laganna.

II.
     Sjávarútvegsráðherra skal fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við þá endurskoðun.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1990.