Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1256, 112. löggjafarþing 498. mál: Lánasýsla ríkisins (heildarlög).
Lög nr. 43 16. maí 1990.

Lög um Lánasýslu ríkisins.


1. gr.

     Lánasýsla ríkisins skal fyrir hönd fjármálaráðherra fara með lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana innan lands og utan, útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóð, svo og endurlán lánsfjár og ríkisábyrgðir.
     Lánasýsla ríkisins heyrir undir fjármálaráðherra. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

     Í störfum sínum skal Lánasýsla ríkisins stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum:
 1. Halda erlendum og innlendum vaxta- og fjármagnskostnaði ríkisins í lágmarki.
 2. Dreifa gengis-, vaxta- og verðlagsáhættu vegna skulda ríkisins á sem hagkvæmastan hátt.
 3. Draga úr áhættu ríkissjóðs vegna ábyrgða og endurlána.
 4. Efla markað fyrir ríkisverðbréf á innlendum fjármagnsmarkaði með kynningu og þjónustu.
 5. Efla lánstraust íslenska ríkisins á erlendum lánsfjármörkuðum og bæta þannig lánskjör þjóðarinnar erlendis.


3. gr.

     Starfsemi Lánasýslu ríkisins skiptist í þrjú meginsvið:
 1. Ábyrgða- og endurlánamál, en starfrækja skal Ríkisábyrgðasjóð sem deild við Lánasýslu ríkisins.
 2. Sölu og innlausn innlendra markaðsverðbréfa ríkissjóðs og ríkisvíxla. Í þessu skyni er Lánasýslu ríkisins heimilt að starfrækja þjónustumiðstöð fyrir kaupendur innlendra markaðsverðbréfa ríkissjóðs og ríkisvíxla.
 3. Erlend lánamál.


4. gr.

     Heimilt er að lántökur Lánasýslu ríkisins í nafni ríkissjóðs og endurlán færist á reikninga hennar.
     Lánasýsla ríkisins tekur við öllum eignum og skuldum, kröfum og skuldbindingum Ríkisábyrgðasjóðs samkvæmt lögum nr. 49/1962 eins og þær standa þegar lög þessi öðlast gildi.
     Lánasýsla ríkisins skal fyrir hönd ríkissjóðs greiða kröfur sem á hann falla vegna ríkisábyrgða og lána sem ríkissjóður hefur tekið og endurlánað og eignast hún þær framkröfur sem myndast með þeim hætti.

5. gr.

     Lánasýsla ríkisins semur fyrir hönd ríkissjóðs um lán, endurlánar fé og veitir ábyrgðir samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra innan heimilda sem Alþingi veitir hverju sinni.
     Lánasýslu ríkisins er heimilt í nafni ríkissjóðs að taka lán og endurlána fé í stað sjálfskuldarábyrgðar ríkissjóðs skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, enda sé það fyrirkomulag tryggara fyrir ríkissjóð.

6. gr.

     Lánasýslu ríkisins fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að endurfjármagna innlendar og erlendar skuldir fyrir gjalddaga þegar hagstæðari kjör bjóðast. Einnig er Lánasýslu ríkisins heimilt að taka fyrir hönd ríkissjóðs erlend skammtímalán til endurgreiðslu áður tekinna erlendra skammtímalána eða breyta sömu skammtímaskuldum í föst lán.
     Lánasýslu ríkisins er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að selja ríkisvíxla á innlendum markaði til endurgreiðslu áður útgefinna ríkisvíxla og til að bæta stöðu ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi hans í Seðlabankanum.
     Enn fremur er Lánasýslu ríkisins fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að breyta gjaldmiðlum og/eða vaxtakjörum á erlendum lánum með sérstökum samningum, enda felist ekki nýjar lántökur í slíkum breytingum.
     Fjármálaráðherra skal árlega upplýsa Alþingi um notkun þessara heimilda.
     Heimilt er að kveða nánar á um ákvæði þessarar greinar í reglugerð.

7. gr.

     Lánasýsla ríkisins skal hafa eftirlit með lántökum aðila sem ríkisábyrgðar njóta á skuldbindingum sínum og vera ráðgefandi um skuldstýringu þeirra.
     Skylt er þeim aðilum, er hyggjast taka lán erlendis og ríkisábyrgðar njóta á erlendum skuldbindingum, að kynna þau áform sín fyrir Lánasýslu ríkisins og leita eftir fyrir fram samþykki á þeim kjörum og skilmálum sem þeir hyggjast semja um.

8. gr.

     Forseti Íslands skipar forstjóra Lánasýslu ríkisins samkvæmt tillögu fjármálaráðherra. Forstjóri stjórnar rekstri Lánasýslu ríkisins og ræður henni starfsfólk.

9. gr.

     Heimilt er að semja við Seðlabanka Íslands um að hann annist framkvæmd erlendra lánamála, ríkisábyrgða- og endurlánamála, svo og önnur verkefni sem Lánasýslu ríkisins eru falin eftir því sem hagkvæmt þykir.

10. gr.

     Kostnað af starfsemi Lánasýslu ríkisins skal greiða með eftirfarandi tekjum:
 1. Lántökugjöldum og vaxtamun endurlána.
 2. Áhættugjaldi skv. 4. gr. laga nr. 37/1961, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum.
 3. Umboðslaunum af seldum ríkisverðbréfum.
 4. Framlögum sem ákveðin verða í fjárlögum hverju sinni eftir því sem Lánasýsla ríkisins þarf á að halda vegna greiðslna sem á hana kunna að falla umfram tekjur og endurgreiddar framkröfur.
 5. Ýmsum tekjum sem tengjast starfsemi Lánasýslu ríkisins.

     Verði hagnaður af starfsemi Lánasýslu ríkisins skal hann renna í ríkissjóð.

11. gr.

     Nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og starfsemi Lánasýslu ríkisins má setja með reglugerð.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 49/1962, um Ríkisábyrgðasjóð, og 2. gr. laga nr. 103/1974, um lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 1990.