Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1300, 112. löggjafarþing 485. mál: Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins.
Lög nr. 44 18. maí 1990.

Lög um að leggja Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins niður og ráðstafa eignum hans til lagmetisframleiðenda og samtaka þeirra.


1. gr.

     Starfsemi Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins skal lögð niður miðað við 31. desember 1990 og skulu þá falla úr gildi lög nr. 58 4. júní 1981, um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, með áorðnum breytingum.

2. gr.

     Eignum Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins skal ráðstafað þannig:
  1. Þróunarsjóður lagmetis greiði Sölusamtökum lagmetis 50 milljóna króna styrk við gildistöku laga þessara.
  2. Eignarhlutur sjóðsins í fasteigninni að Síðumúla 37, Reykjavík, verði seldur og andvirði eignarinnar varið til að styrkja Sölusamtök lagmetis og lagmetisframleiðendur utan Sölusamtakanna.
  3. Tekjum sjóðsins á árinu 1990 skal varið til styrkja, hlutafjárframlaga og lána í samræmi við tilgang hans.
  4. Hlutabréf, lausafé og skuldabréfaeign sjóðsins 31. desember 1990 skulu renna í Iðnlánasjóð og mynda sérstakan sjóð innan vöruþróunar- og markaðsdeildar er nýttur skal til vöruþróunar og markaðsmála á sviði lagmetis. Heimilt skal að breyta útlánum í hlutafé í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu einstakra fyrirtækja.


3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1990.