Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1278, 112. löggjafarþing 422. mál: læknalög (sérfræðileyfi, sjúkraskrár o.fl.).
Lög nr. 50 15. maí 1990.

Lög um breytingu á læknalögum, nr. 53/1988.


1. gr.

     Síðari mgr. 11. gr. laganna orðist svo:
     Ráðherra setur nánari reglur um gerð og útgáfu læknisvottorða að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands og að fenginni umsögn heildarsamtaka launafólks og vinnuveitenda.

2. gr.

     Fyrirsögnin í staflið G í III. kafla laganna verði:
      Meðferð upplýsinga í sjúkraskrám.

3. gr.

     16. gr. hljóði svo:
     Sjúkraskrá er eign heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða læknis sem hana færir.
     Lækni er skylt að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár, allrar eða að hluta. Sama gildir gagnvart opinberum aðilum sem lögum samkvæmt athuga kæru sjúklings eða umboðsmanns vegna læknismeðferðar. Þetta gildir þó ekki um sjúkraskrár sem færðar eru fyrir gildistöku þessara laga.
     Upplýsingar í sjúkraskrá, sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsfólki, skal ekki sýna nema með samþykki þess sem upplýsingarnar gaf.
     Nú telur læknir að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að afhenda framangreindum aðilum afrit sjúkraskrár og skal læknir þá án tafar afhenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar til frekari afgreiðslu.
     Landlæknir skal innan átta vikna ákveða hvort viðkomandi fái afrit sjúkraskrárinnar.
     Ráðherra setur nánari reglur um afhendingu og varðveislu sjúkraskráa, að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands.

4. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 18. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðist svo:
  2.      Verði læknir í starfi sínu var við mistök eða vanrækslu af hálfu lækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna skal hann tilkynna það landlækni. Sama skylda hvílir á öðrum heilbrigðisstéttum og öðrum þeim sem vinna með læknum.
  3. Á eftir 2. mgr. komi ný mgr. er orðist svo:
  4.      Hljótist skaði af læknisverki skal læknir sá sem verkið vann eða yfirlæknir tilkynna það til landlæknis.
  5. Við greinina bætist við ný mgr. er orðist svo:
  6.      Ráðherra setur reglur um meðferð landlæknis á málum skv. 2. og 3. mgr.


5. gr.

     26. gr. hljóði svo:
     Lækni er óheimilt að reka lækningastofu eftir 75 ára aldur. Heilbrigðisráðherra getur þó, að fenginni umsókn viðkomandi læknis og samkvæmt meðmælum landlæknis, veitt undanþágu frá þessu ákvæði til eins árs í senn.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1990.