Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 496, 113. löggjafarþing 233. mál: tryggingagjald.
Lög nr. 113 28. desember 1990.

Lög um tryggingagjald.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
Upphafsákvæði.

1. gr.

     Launagreiðendur skulu inna af hendi sérstakt gjald, tryggingagjald, af greiddum vinnulaunum, þóknunum, reiknuðu endurgjaldi og öðrum tegundum greiðslna og launa eftir því sem nánar segir í lögum þessum.
     Tryggingagjald skal innheimt samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, og lagt á með opinberum gjöldum samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

Hundraðshluti tryggingagjalds.

2. gr.

     Tryggingagjald skal lagt á í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum. Tryggingagjald í sérstökum gjaldflokki, sbr. 2. mgr., skal vera 2,5% af gjaldstofni og í almennum gjaldflokki, sbr. 3. mgr., skal gjaldið vera 6%.
     Í sérstökum gjaldflokki skulu vera atvinnugreinar sem flokkast undir fiskveiðar eða iðnað, skv. 1., 2., eða 3. flokki í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, eða landbúnað, þar með talið skógrækt, fiskeldi, fiskrækt, jarðræktarframkvæmdir og byggingaframkvæmdir á bújörðum.
     Í almennum gjaldflokki skulu vera allar aðrar gjaldskyldar atvinnugreinar.
     Reki aðili fjölþættan atvinnurekstur eða starfsemi sem ýmist fellur undir sérstakan gjaldflokk eða almennan gjaldflokk skal hann aðgreina launagreiðslur í bókhaldi sínu þannig að séð verði hvað af þeim tilheyri hvorum þætti. Greiðslum fyrir yfirstjórn og öðrum slíkum greiðslum, sem ekki eru beint tengdar ákveðnum þáttum starfseminnar, skal skipt upp í gjaldflokka, þ.e. tryggingagjaldsskyld laun sem falla undir almennan flokk og sérstakan flokk, í sömu hlutföllum og eru á milli heildargreiðslu í hvorum gjaldflokki áður en umræddar yfirstjórnargreiðslur eru meðtaldar og reikna tryggingagjald af þeim í samræmi við það. Ef slík aðgreining er ekki fyrir hendi í bókhaldi eða ef hún er í verulegum atriðum röng eða ófullnægjandi að mati skattstjóra skal hann áætla skiptinguna.

Ráðstöfun tryggingagjalds.

3. gr.

     Tekjum af tryggingagjaldi skal ráðstafað sem hér segir:
  1. Atvinnuleysistryggingasjóður fái í sinn hlut sem nemi 0,15% af gjaldstofni skv. III. kafla.
  2. Vinnueftirlit ríkisins fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni skv. III. kafla. Þetta hlutfall skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðuneytið setur í samráði við stjórn stofnunarinnar fyrir eitt ár í senn.
  3. Tekjur af tryggingagjaldi umfram það sem ákveðið er í 1. og 2. tölul. renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga.

     Um hlutdeild opinberra byggingarsjóða í tryggingagjaldi fer eftir ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, svo og ákvæðum lánsfjárlaga og fjárlaga hverju sinni.

II. KAFLI
Gjaldskyldir aðilar.
Almennt.

4. gr.

     Gjaldskyldur samkvæmt lögum þessum telst hver sá aðili sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast laun skv. III. kafla.
     Gjaldskyldan tekur til allra launagreiðenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra þeirra aðila sem greiða laun eða hvers konar þóknanir fyrir starf. Enn fremur til allra þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi.
     Ef milligöngumaður annast launagreiðslur skal hann gegna skyldum gjaldskylds aðila varðandi skil og greiðslur samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um umboðsmann sem um ræðir í 2. mgr. 2. tölul. 71. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Aðilar undanþegnir gjaldskyldu.

5. gr.

     Eftirtaldir aðilar eru undanþegnir tryggingagjaldi:
  1. Forseti Íslands.
  2. Erlendir þjóðhöfðingjar.
  3. Sendiráð og sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð.

     Þeir sem taldir eru í 2. og 3. tölul. eru þó ekki undanþegnir gjaldskyldu af launum sem þeir kunna að greiða vegna atvika sem mundu skapa þeim skattskyldu hér á landi til tekjuskatts og eignarskatts.

III. KAFLI
Gjaldstofn.
Almennt.

6. gr.

     Stofn til tryggingagjalds er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum.
     Gjaldstofn manns sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafn fjárhæð reiknaðs endurgjalds sem hann telur sér til tekna eða bar að telja sér til tekna skv. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sama á við um reiknað endurgjald maka hans og barna innan 16 ára aldurs á tekjuárinu.

Laun o.þ.h.

7. gr.

     Til gjaldstofns skv. 6. gr. teljast meðal annars:
  1. Hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof.
  2. Verkfærapeningar, flutningspeningar, fæðispeningar og þess háttar greiðslur.
  3. Ökutækjastyrkir og dagpeningar. Þó skal ekki telja til gjaldstofns greiðslur fyrir afnot bifreiðar launamanns eða greiðslur dagpeninga sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og reglugerðum og starfsreglum sem settar eru með stoð í þeim lögum.
  4. Gjafir og risnufé sem teljast kaupuppbót og eftirgjöf lána sem telja má að komi í launa stað.
  5. Laun eða þóknanir fyrir störf unnin erlendis, greidd af íslenskum aðilum til manna sem eru heimilisfastir hér á landi.


Hlunnindi.

8. gr.

     Til tryggingagjaldsskyldra hlunninda telst meðal annars fæði, húsnæði, fatnaður, bifreiðaafnot o.þ.h. Hlunnindi þessi skal reikna til gjaldstofns á sama verði og þau eru metin til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Önnur hlunnindi skulu metin til peninga eftir gangverði á hverjum stað og tíma.

Undanþágur frá gjaldstofni.

9. gr.

     Undanþegnar tryggingagjaldi eru eftirtaldar greiðslur:
  1. Eftirlaun og lífeyrir sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, enda starfi lífeyrissjóðurinn eftir reglum sem fjármálaráðherra samþykkir og sjóðurinn sé háður eftirliti fjármálaráðuneytisins.
  2. Aðrar bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, þar með talið fæðingarorlof, svo og slysa- og sjúkradagpeningar úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga.
  3. Bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa.
  4. Atvinnuleysisbætur.
  5. Greiðslur úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgðar á launum.


IV. KAFLI
Staðgreiðsla tryggingagjalds.
Greiðslutímabil o.fl.

10. gr.

     Greiðslutímabil tryggingagjalds er almanaksmánuður nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Gjalddagi tryggingagjalds er 1. hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Hafi gjaldandi eigi greitt á eindaga skal hann greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga. Álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, reiknast ekki.
     Gjaldskyldur aðili skal ótilkvaddur greiða tryggingagjald til innheimtumanns ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra.
     Ríkisskattstjóri ákveður hvað skuli koma fram í skilagreinum og greiðsluskjölum og ákveður gerð þeirra. Um skilagreinar, svo og um yfirferð, áætlun og tilkynningar skattstjóra á staðgreiðsluári, gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

Upplýsingar, eftirlit, viðurlög o.fl.

11. gr.

     Ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, skulu gilda um upplýsingar og eftirlit, viðurlög og málsmeðferð tryggingagjalds að því er varðar skil þess á staðgreiðsluári. Skulu ákvæði þeirra laga m.a. taka til dráttarvaxta, áætlunar gjaldstofns og innheimtu vanskilafjár, þar með talið lögtaksréttar, stöðvunar atvinnurekstrar, refsinga, opinberrar rannsóknar og fyrningar gjaldkröfu.

V. KAFLI
Álagning tryggingagjalds.
Árleg tryggingagjaldsframtöl, álagning, endurskoðun gjalds, kærur, innheimta o.fl.

12. gr.

     Allir, sem skyldir eru til að greiða tryggingagjald samkvæmt lögum þessum, skulu, að staðgreiðsluári liðnu, senda skattstjóra árlega sérstakt launaframtal, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, innan þess frests sem settur er um skil launaskýrslna þeirra er greinir í 92. gr. laga nr. 75/1981.
     Á launaframtal skal launagreiðandi færa launagreiðslur næstliðins árs og aðrar upplýsingar og sundurliðanir sem ríkisskattstjóra þykir við þurfa til ákvörðunar tryggingagjalds og form eyðublaðsins segir til um.
     Við álagningu opinberra gjalda skal skattstjóri ákvarða tryggingagjald gjaldskylds aðila samkvæmt launaframtali hans að gerðum þeim breytingum og leiðréttingum sem gera þarf á því.
     Tryggingagjald skal birt í álagningarskrá, sbr. 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     Gjalddagi ógreidds tryggingagjalds, sem skattstjóri ákvarðar vegna hlunninda, og tryggingagjalds, sem undanþegið er staðgreiðslu, er 1. ágúst ár hvert og eindagi mánuði síðar.

Vangreitt tryggingagjald.

13. gr.

     Skattstjórar skulu kanna skil þeirra sem greiða áttu tryggingagjald, m.a. með samanburði við laun í staðgreiðslu, launaframtöl, launamiða, skattframtöl, ársreikninga og önnur gögn sem fyrir hendi eru. Þeir skulu síðan leiðrétta það sem áfátt kann að reynast og ákvarða vangreitt tryggingagjald og senda tilkynningu þar um til gjaldanda og innheimtumanns.
     Komi í ljós að aðili, sem greitt hefur laun sem greiða skal tryggingagjald af, hafi vanrækt greiðslu gjaldsins að hluta eða öllu leyti, eða ofgreitt tryggingagjaldið eða ekki skilað launaframtali, skal skattstjóri ákvarða tryggingagjald fyrir hvert einstakt greiðslutímabil. Skal ákvarða gjaldanda dráttarvexti af vangreiddu tryggingagjaldi frá og með gjalddaga þess í samræmi við vaxtalög, nr. 25/1987. Á ofgreiðslu reiknast vextir í samræmi við ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Endurákvörðun tryggingagjalds, kærur o.fl.

14. gr.

     Séu skil gjaldanda í einstökum atriðum eða í heild ófullnægjandi, tortryggileg eða sýnilega gerð til málamynda skal við álagningu, sbr. 3. mgr. 12. gr., og við endurákvörðun beita ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eftir því sem við getur átt um slík tilvik. Ákvæði þeirra laga skulu og gilda, eftir því sem við á, um álagningu, rannsókn, kærur út af skattákvörðun, kærufresti, úrskurði, áfrýjun úrskurða og annað þar að lútandi. Sömu reglur skulu gilda, eftir því sem við á, ef gjaldandi, sem lagt skyldi á, hefur fallið af skrá eða honum ekki gert að greiða tryggingagjald af öllum gjaldstofninum.

Tryggingagjald ársmanna o.fl.

15. gr.

     Nú reiknar maður sér endurgjald eða greiðir laun til annarra, þannig að reiknaða endurgjaldið og launin nema samtals lægri fjárhæð en 30.000 kr. að meðaltali á mánuði, og er honum þá heimilt, í stað þess að skila mánaðarlega í samræmi við 10. gr., að senda skilagrein ásamt greiðslu á gjalddaga þess mánaðar þegar samanlagt reiknað endurgjald og greidd laun til annarra ná 360.000 kr. en eftir það á hverjum gjalddaga vegna þess árs.
     Ef reiknað endurgjald eða greidd vinnulaun til annarra ná eigi til samans 360.000 kr. á árinu er gjaldanda heimilt, í stað þess að skila mánaðarlega í samræmi við 10. gr., að senda skilagrein ásamt greiðslu einu sinni á ári eins og um uppgjör fyrir desember væri að ræða.
     Fjárhæðir í 1. og 2. mgr. eru grunnfjárhæðir og breytast í samræmi við verðbreytingarstuðul ríkisskattstjóra skv. 26. gr. laga nr. 75/1981, í fyrsta sinn fyrir árið 1992. Reiknast þær í heilum þúsundum króna þannig að lægri fjárhæð en þúsund krónum er sleppt.

Dráttarvaxtaútreikningur.

16. gr.

     Á tryggingagjald vegna launa og hlunninda, sem undanþegin eru staðgreiðslu, reiknast dráttarvextir eftir almennum reglum frá og með gjalddaga 1. ágúst ár hvert ef ekki er greitt fyrir eindaga.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
Frádráttarbærni tryggingagjalds.

17. gr.

     Tryggingagjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.

Setning reglugerðar.

18. gr.

     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

Brottfall lagaákvæða o.fl.

19. gr.

     Ákvæði laga þessara koma í stað þeirra ákvæða laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, laga nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingasjóð, með síðari breytingum, og laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, er fela í sér ákvörðun gjaldstofns og gjaldtöku af launagreiðendum sem miðast við launagreiðslur eða launatímabil.

20. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda vegna launagreiðslna frá og með 1. janúar 1991. Frá sama tíma falla niður lög nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum. Ákvæði laga nr. 14/1965 skulu gilda um launaskatt vegna vinnulauna greiddra á árinu 1990 eða fyrr. Ákvæði almannatryggingalaga, laga um atvinnuleysistryggingasjóð og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara, skulu gilda um álagningu og innheimtu lífeyris- og slysatryggingagjalds almannatrygginga, atvinnuleysistryggingagjalds og vinnueftirlitsgjalds vegna vinnulauna greiddra á árinu 1989 og fyrr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Iðgjöld af lögskráðum sjómönnum, sem lögð voru á og innheimt fyrir fram á árinu 1990 af lögskráningarstjórum, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 64/1981, skulu dragast frá greiðslum tryggingagjalds ársins 1991 hjá viðkomandi launagreiðendum eftir nánari reglum sem settar skulu af fjármálaráðherra.

II.
     Við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991, vegna rekstrar á árinu 1990, er þeim aðilum sem ekki hafa fært til frádráttar álögð og greidd tryggingaiðgjöld á árinu 1990 heimilt að draga frá rekstrartekjum fjárhæð er nemi 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi þess árs.
     Þeim aðilum, sem hafa fært til frádráttar álögð og greidd tryggingaiðgjöld á árinu 1990, er einnig heimilt að draga frá rekstrartekjum fjárhæð er nemi 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi þess árs, að frádreginni þeirri fjárhæð sem þegar hefur verið færð til gjalda á árinu 1990.
     Frádráttur þessi skal ekki reiknast af reiknuðu endurgjaldi sem fært er til gjalda. Hvorki má mynda rekstrartap vegna frádráttar samkvæmt þessu sérstaka frádráttarákvæði né nota það til að fresta yfirfærslu rekstrartaps frá fyrri árum.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1990.