Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 232, 113. löggjafarþing 73. mál: Kennaraháskóli Íslands (rektorskjör).
Lög nr. 122 18. desember 1990.

Lög um breyting á lögum nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands.


1. gr.

     2.–4. mgr. 3. gr. orðast svo:
     Atkvæðisrétt við rektorskjör eiga: Allir fastráðnir kennarar Kennaraháskólans og allir þeir sem fastráðnir eru eða settir til fulls starfs við Kennaraháskólann og hafa háskólapróf, skólastjóri Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands, tveir fulltrúar fastráðinna æfingakennara, fulltrúi lausráðinna kennara við Kennaraháskólann, allir nemendur sem skrásettir eru í skólann, þannig að greidd atkvæði nemenda gildi sem einn þriðji hluti allra greiddra atkvæða, en greidd atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila skulu gilda sem tveir þriðju hlutar allra greiddra atkvæða.
     Endurkjósa má rektor einu sinni án lotuskila. Rektor skal kjörinn í janúarmánuði og tekur hann við störfum 1. ágúst á sama ári, utan hvað hann ber ábyrgð á tillögum til fjárlaga fyrir næsta ár eftir að hann var kjörinn, sbr. þó lokamálsgrein þessarar greinar.
     Sá er rétt kjörinn rektor sem hlotið hefur meiri hluta greiddra atkvæða, sbr. 2. mgr., enda hafi minnst tveir þriðju hlutar þeirra, sem atkvæðisrétt eiga, tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju um þá tvo er flest atkvæði fengu og er þá sá rétt kjörinn sem fleiri atkvæði fær enda þótt tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra manna hafi þá ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu. Séu atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Um tilhögun rektorskjörs skal kveða nánar á í reglugerð.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. desember 1990.