Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1038, 113. löggjafarþing 69. mál: jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.
Lög nr. 28 27. mars 1991.

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

2. gr.

     Konum og körlum skulu með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu, launa og menntunar.

3. gr.

     Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum þessum. Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar.

II. KAFLI
Atvinna.

4. gr.

     Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
     Með launum í lögum þessum er átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni fyrir vinnu hans.
     Með jöfnum launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf er í lögum þessum átt við launataxta sem samið er um án þess að gerður sé greinarmunur á kynjum.
     Með kjörum í lögum þessum er átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi.

5. gr.

     Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

6. gr.

     Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um:
  1. Laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.
  2. Ráðningu, setningu eða skipun í starf.
  3. Stöðuhækkun og stöðubreytingar.
  4. Uppsögn úr starfi.
  5. Vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.
  6. Veitingu hvers konar hlunninda.

     Ef einhver telur rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum þessarar greinar og vísar máli sínu til kærunefndar jafnréttismála, sbr. 19. gr., skal atvinnurekandi sýna kærunefnd fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

7. gr.

     Starf, sem laust er, skal standa opið jafnt konum sem körlum.
     Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu.
     Ákvæði þessarar greinar gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni.

8. gr.

     Nú er umsækjandi um auglýst starf kona en það hefur verið veitt karlmanni og skal þá kærunefnd jafnréttismála, sé þess óskað, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti nefndinni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram konuna sá hefur til að bera er ráðinn var í starfið.
     Sama rétt skal karlmaður, sem er umsækjandi um starf, hafa ef konu er veitt starfið.

9. gr.

     Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til framhaldsmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra starfa.

III. KAFLI
Menntun.

10. gr.

     Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal kynjum ekki mismunað. Skylt skal að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur. Á öllum skólastigum skal veita fræðslu um jafnréttismál, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Gæta skal þess sérstaklega að kennslutæki og kennslubækur séu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
     Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skal leitast við að kynna bæði piltum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf.
     Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar greinar í samráði við Jafnréttisráð. Ráðuneytið skal fylgjast með þróun jafnréttismála í skóla- og uppeldisstarfi, m.a. með reglubundnum rannsóknum.

IV. KAFLI
Önnur svið.

11. gr.

     Auglýsandi, og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

12. gr.

     Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.

13. gr.

     Í sveitarfélögum með yfir 500 íbúa og annars staðar þar sem því verður við komið skal skipa jafnréttisnefndir og skulu þær hafa með höndum jafnréttismál innan síns sveitarfélags samkvæmt lögum þessum. Skulu nefndirnar fylgjast með og hafa frumkvæði að sérstökum tímabundnum aðgerðum til að bæta stöðu kvenna í sveitarfélaginu, taka við ábendingum vegna brota á lögum þessum og vera tengiliður við ráðuneyti og Jafnréttisráð. Enn fremur skulu nefndirnar vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórn í málefnum er varða jafnrétti kvenna og karla.

V. KAFLI
Framkvæmd laganna.

14. gr.

     Félagsmálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara.

15. gr.

     Eftir hverjar kosningar til Alþingis skal skipa sjö manna Jafnréttisráð. Félagsmálaráðherra skipar formann án tilnefningar, einn nefndarmann tilnefndan af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af Kvenréttindafélagi Íslands og einn nefndarmann tilnefndan af Kvenfélagasambandi Íslands. Varamenn þeirra eru tilnefndir á sama hátt. Jafnframt skal skipa formann kærunefndar jafnréttismála í ráðið, sbr. 19. gr., og er varaformaður kærunefndar varamaður hans.
     Jafnréttisráð hefur skrifstofu og ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn. Einn starfsmanna skal hafa lokið embættisprófi í lögum og skal hann annast lögfræðiráðgjöf og önnur lögfræðistörf á vegum Jafnréttisráðs vegna ætlaðra brota á lögum þessum.
     Kostnaður við Jafnréttisráð greiðist úr ríkissjóði.

16. gr.

     Verkefni Jafnréttisráðs eru að:
  1. Vinna að því að ákvæðum 2.–13. gr. laga þessara sé framfylgt.
  2. Móta stefnu í jafnréttismálum hér á landi og hafa frumkvæði að sérstökum tímabundnum aðgerðum til að bæta stöðu kvenna. Skal ráðið vinna stefnumarkandi áætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félagsmálaráðherra. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Áætlunina skal endurskoða á tveggja ára fresti, sbr. 17. gr.
  3. Vera ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og félögum í málefnum er varða jafna stöðu og jafnrétti með konum og körlum.
  4. Sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi til félagasamtaka og almennings.
  5. Fylgjast með þjóðfélagsþróuninni sem m.a. varðar þetta lagaefni og gera tillögur til breytinga til samræmis við tilgang laganna.
  6. Stuðla að góðri samvinnu við samtök atvinnurekenda og launafólks og önnur félagasamtök svo að stefnu og markmiði þessara laga verði náð með sem eðlilegustum hætti.
  7. Taka til rannsóknar að eigin frumkvæði eða annarra stöðu kvenna og karla að því leyti er lög þessi varðar. Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum er skylt að veita Jafnréttisráði hvers konar upplýsingar hér að lútandi.
  8. Hafa samvinnu við jafnréttisnefndir sveitarfélaga.
  9. Fjalla um önnur mál sem ráðherra eða framkvæmdastjóri leggur fyrir ráðið.
  10. Halda jafnréttisþing á a.m.k. þriggja ára fresti.


17. gr.

     Félagsmálaráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Í áætluninni komi fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum. Áætlun þessa skal endurskoða á tveggja ára fresti og í tengslum við það leggur félagsmálaráðherra fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.

18. gr.

     Félagsmálaráðherra er heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa. Hann skal vinna í samvinnu við Jafnréttisráð að leiðréttingu á stöðu kvenna, m.a. í stofnunum og fyrirtækjum um land allt í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur.

19. gr.

     Félagsmálaráðherra skipar kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn og skulu nefndarmenn vera lögfræðingar. Félagsmálaráðherra skipar einn án tilnefningar og Hæstiréttur tilnefnir tvo, þar af annan sem formann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þegar um er að ræða mál, sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild, skal kærunefnd leita umsagnar frá heildarsamtökum launþega og viðsemjendum þeirra.
     Verkefni kærunefndar eru að taka við ábendingum um brot á ákvæðum þessara laga og rannsaka mál af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir. Atvinnurekendum, opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum þeim er upplýst geta málið er skylt að veita kærunefnd hvers konar upplýsingar hér að lútandi. Kærunefnd skal enn fremur í sérstökum tilvikum hafa frumkvæði um ábendingar varðandi framkvæmd ákvæða 2.–13. gr., sbr. þó 1. tölul. 16. gr. um hlutverk Jafnréttisráðs.
     Skrifstofa kærunefndar jafnréttismála er jafnframt skrifstofa Jafnréttisráðs.

20. gr.

     Nú telur kærunefnd jafnréttismála að ákvæði 2.–13. gr. laga þessara séu brotin og skal hún þá beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila.

VI. KAFLI
Viðurlög og réttarfar.

21. gr.

     Fallist aðili ekki á tilmæli kærunefndar jafnréttismála skv. 20. gr. er nefndinni heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti kæranda í samráði við hann. Gildir það einnig þótt ekki sé um skaðabótakröfu að ræða.

22. gr.

     Sá sem af ásettu ráði eða vanrækslu brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur má dæma hlutaðeigandi til að greiða þeim sem misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, fégjald fyrir hneisu, óþægindi og röskun á stöðu og högum.

VII. KAFLI
Önnur ákvæði.

23. gr.

     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessara laga í reglugerð að fengnum tillögum Jafnréttisráðs.

24. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru numin úr gildi lög nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara fellur niður skipun núverandi Jafnréttisráðs.
     Skipa skal Jafnréttisráð, sbr. ákvæði 15. gr., og gildir skipunin þar til nýtt Jafnréttisráð hefur verið skipað að loknum næstu alþingiskosningum.
     Skipuð skal kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára.

Samþykkt á Alþingi 18. mars 1991.