Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1010, 113. löggjafarþing 139. mál: listamannalaun (heildarlög).
Lög nr. 35 27. mars 1991.

Lög um listamannalaun.


1. gr.

     Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum til að launa listamenn í samræmi við ákvæði laga þessara.

2. gr.

     Almenn listamannalaun skulu veitt úr fjórum sjóðum:
  1. Launasjóði rithöfunda,
  2. Launasjóði myndlistarmanna,
  3. Tónskáldasjóði,
  4. Listasjóði.

     Þrír hinna fyrstnefndu sjóða eru sérgreindir sjóðir en Listsjóður er almennur sjóður í þágu allra listgreina. Allir sjóðirnir veita starfslaun, svo og náms- og ferðastyrki.

3. gr.

     Þriggja manna stjórn listamannalauna hefur yfirumsjón með sjóðum skv. 2. gr. Stjórnin skal skipuð af menntamálaráðherra til þriggja ára í senn, einum samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einum tilnefndum af Háskóla Íslands, en af Listaháskóla ef stofnaður yrði, og loks einum án tilnefningar. Stjórn sjóðsins skal m.a. annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald þeirra.
     Stjórnin úthlutar fé úr Listasjóði, en sérstakar úthlutunarnefndir fyrir hvern hinna sérgreindu sjóða veita fé úr þeim, sbr. 12. gr.

4. gr.

     Starfslaun miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands eins og þau eru á hverjum tíma. Þeir sem taka starfslaun hverju sinni skulu vera á launaskrá hjá stjórn listamannalauna og greiðast laun til þeirra mánaðarlega. Þeir skulu eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og stendur þá launagreiðandi skil á iðgjaldshluta þeirra ásamt mótframlagi sínu. Þeir skulu ekki gegna öðru föstu starfi meðan þeir njóta starfslauna og skila skýrslu um störf sín. Fella má niður starfslaun sem veitt hafa verið til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni.

5. gr.

     Samanlögð starfslaun miðast við 900 mánaðarlaun, eða 75 árslaun, og síðan bætast við 60 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár.

6. gr.

     Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun sem svara til 360 mánaðarlauna og bætast við 24 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár. Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Heimilt er og að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.
     Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Rithöfundasambands Íslands, úthlutar fé úr Launasjóði rithöfunda. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

7. gr.

     Launasjóður myndlistarmanna veitir árlega starfslaun sem svara til 240 mánaðarlauna og bætast við 16 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár.
     Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Sambands íslenskra myndlistarmanna, úthlutar fé úr Launasjóði myndlistarmanna. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

8. gr.

     Tónskáldasjóður veitir árlega starfslaun sem svara til 60 mánaðarlauna og bætast við átta mánaðarlaun á ári næstu fimm ár.
     Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Tónskáldafélags Íslands, úthlutar fé úr Tónskáldasjóði. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

9. gr.

     Listasjóður veitir starfslaun og styrki er svara til 240 mánaðarlauna og bætast við 12 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár. Listasjóður veitir einnig sérstök framlög til listamanna, m.a. til þeirra sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri. Að minnsta kosti helmingur starfslauna úr Listasjóði skal veittur leikhúslistamönnum.

10. gr.

     Starfslaun skulu veitt til hálfs eða eins árs, til þriggja eða fimm ára. Miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár.

11. gr.

     Stjórn listamannalauna skal vinna markvisst að því að sveitarfélög og fyrirtæki veiti listamönnum starfslaun eða leggi fram fé í Listasjóð.

12. gr.

     Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara að höfðu samráði við Rithöfundasamband Íslands, Samband íslenskra myndlistarmanna, Tónskáldafélag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna.

13. gr.

     Við gildistöku þessara laga falla eftirtalin lög úr gildi:
      Lög nr. 29 29. apríl 1967, um listamannalaun.
      Lög nr. 29 20. maí 1975, um Launasjóð rithöfunda.

14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. september 1991 nema fjárhagsákvæði þeirra sem taka gildi 1. janúar 1992. Lögin skal endurskoða að fimm árum liðnum frá gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 1991.