Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1122, 113. löggjafarþing 450. mál: tekjuskattur og eignarskattur (skattlagning hlutafélaga, hlutabréfaviðskipti o.fl.).
Lög nr. 36 2. apríl 1991.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna orðist svo: Stuðullinn skal miðast við breytingu á byggingarvísitölu frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils, sbr. lög nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar, og skal miða breytingu við þann mun sem verður á byggingarvísitölu sem gildir fyrir janúarmánuð á tekjuári og byggingarvísitölu sem gildir fyrir janúarmánuð á álagningarári.

2. gr.

     4. tölul. B- liðar 1. mgr. 30. gr. laganna orðist svo:
     Fé það sem varið er til aukningar á fjárfestingu í innlendum atvinnurekstri á árinu samkvæmt lögum nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en 86.000 kr. hjá einstaklingi og 172.000 kr. hjá hjónum.
     Fjárhæð umfram frádráttarmörk, sem lögð er í hlutafjáraukningu í hlutafélagi eða lögð til hlutafjárkaupa við stofnun hlutafélags, er heimilt að flytja milli ára og nýta á næstu fimm árum. Ónýtt frádráttarheimild tekur breytingu í samræmi við breytingar á verðbreytingarstuðli skv. 26. gr.
     Frádráttur vegna hlutabréfakaupa miðast við kaup á hlutabréfum í innlendum hlutafélögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og er háður því skilyrði að maður eigi viðkomandi hlutabréf í a.m.k. tvö ár. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Skal hann framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. frá því ári, þegar hann var dreginn frá tekjum, til söluárs. Ekki skal þó beita ákvæðum 2. og 3. málsl. um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir önnur hlutabréf í innlendu félagi staðfestu af ríkisskattstjóra í stað hinna seldu innan 30 daga frá söludegi þeirra og kaupverð keyptra hlutabréfa nemur a.m.k. sömu fjárhæð og hinna seldu. Sé kaupverðið lægra skulu ákvæði 2. og 3. málsl. eiga við um mismuninn.
     Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd frádráttar samkvæmt þessum tölulið, þar með talið um millifærslu fjárhæðar umfram frádráttarmörk milli ára og meðferð hans þegar breyting verður á hjúskaparstöðu o.fl.

3. gr.

     Í stað hundraðshlutans „15%“ í 2. málslið 1. mgr. 54. gr. laganna komi: 10%.

4. gr.

     Í stað hundraðshlutans „50%“ í 72. gr. laganna komi: 45%.

5. gr.

     Við 92. gr. laganna bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. hennar og breytist röð annarra málsgreina sem af þessu leiðir:
     Allir aðilar, þar með taldir bankar, sparisjóðir og aðrar peningastofnanir, verðbréfamarkaðir og aðrir sem annast kaup og sölu, umboðsviðskipti og aðra umsýslu með hlutabréf, skulu ótilkvaddir afhenda skattstjóra eða umboðsmanni hans skýrslu um slík viðskipti og aðila að þeim, ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

6. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 106. gr. laganna:
  1. Í stað 1. málsl. 1. mgr. komi þrír nýir málsl. er orðist svo: Telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests má skattstjóri bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar. Þó skal skattstjóri taka tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hefur farið fram í staðgreiðslu. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um þetta atriði.
  2. Í stað „1%“ og „15%“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: 0.5% og 10%.


7. gr.

     Við lögin bætast við tvö ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
  1. Við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 má fyrning samkvæmt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. nema allt að 50% af þeirri fjárhæð sem færð er til tekna samkvæmt ákvæðum 53. gr.
  2. Við sölu til ríkissjóðs á fullvirðisrétti í sauðfjárframleiðslu á tímabilinu 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992 skal skattaðila, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 14. gr., heimilt að telja sem söluhagnað 20% söluverðs í stað söluhagnaðar skv. 2. mgr. sömu greinar.
  3.      Skattaðilar skv. 1. mgr., sem hafa leigt fullvirðisrétt sinn Framleiðnisjóði landbúnaðarins eða orðið að sæta niðurskurði á sauðfé samkvæmt opinberum fyrirmælum, skulu undanþegnir skilyrði 3. málsl. 4. mgr. 14. gr. um aðalstarf.


8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs.
     Ákvæði 2. gr. um fjárhæð frádráttar komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1992 vegna tekna á árinu 1991.
     Ákvæði 1. gr. um breytta aðferð til útreiknings á verðbreytingarstuðli skulu koma til framkvæmda frá og með útreikningi þess verðbreytingarstuðuls sem reiknaður skal fyrir árið 1991. Um þá stuðla, sem fyrir þann tíma giltu, eiga við eldri útreikningsaðferðir.

Samþykkt á Alþingi 20. mars 1991.