Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 855, 113. löggjafarþing 199. mál: búfjárhald (heildarlög).
Lög nr. 46 25. mars 1991.

Lög um búfjárhald.


I. KAFLI
Markmið og yfirstjórn.

1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að tryggja svo sem föng eru á góða meðferð og aðbúnað búfjár í samræmi við þarfir og að það hafi ætíð nægilegt fóður og drykk.
     Tilgangur laganna er einnig að tryggja að við framleiðslu búfjárafurða sé eingöngu notað hraust og heilbrigt búfé.

2. gr.

     Landbúnaðarráðherra hefur á hendi yfirstjórn þeirra mála er lúta að meðferð búfjár og eftirliti með búfjárhaldi sem kveðið er á um í lögum þessum.
     Með búfé er í lögum þessum átt við alifugla, geitur, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín. Auk þess önnur dýr sem haldin verða til nytja. Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.
     Með vörslu búfjár er í lögum þessum átt við að búfjáreigandi haldi því búfé, sem varslan tekur til, innan ákveðins afmarkaðs svæðis, en með lausagöngu búfjár að búfé geti gengið á annars manns land í óleyfi.

II. KAFLI
Takmörkun búfjárhalds.

3. gr.

     Sveitarstjórn er heimilt að setja samþykkt um búfjárhald. Landbúnaðarráðherra staðfestir slíka samþykkt að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands.

4. gr.

     Í samþykktum sveitarstjórna um búfjárhald má ákveða að tiltekið búfjárhald sé með öllu bannað í viðkomandi sveitarfélagi eða takmarkað við tiltekin svæði innan sveitarfélagsins. Í samþykktunum geta einnig verið ákvæði sem takmarka fjölda búfjár af hverri búfjártegund og fjölda búfjár einstakra búfjáreigenda. Ef búfjáreigandi verður fyrir atvinnutjóni vegna banns eða takmarkana á búfjárhaldi þannig að bótum varði skal greiða bætur úr sveitarsjóði.
     Í samþykktunum má kveða á um að búfjárhald sé óheimilt án leyfis þar sem takmarka má fjölda búfjár hvers aðila. Slík leyfi skulu vera tímabundin og afturkallanleg með tilteknum fyrirvara.
     Samþykktir skulu kveða á um að búfjáreigandi uppfylli skilyrði um aðstöðu fyrir bústofn sinn, fóðrun hans, vörslu og meðferð, sem og meðferð alls úrgangs sem fellur til.

III. KAFLI
Varsla búfjár.

5. gr.

     Sveitarstjórnum, einni eða fleiri samliggjandi sveitarfélaga, er heimilt, til að koma í veg fyrir ágang búfjár, að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins.
     Heimild þessi getur jafnt tekið til alls umdæmis viðkomandi sveitarstjórna eða afmarkaðs hluta þess, svo sem umhverfis þéttbýli eða fjölfarna vegi.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð almenn ákvæði um vörslu búfjár af hverri tegund þar sem einnig skal kveðið á um almennar reglur um framkvæmd þeirrar vörslu.

6. gr.

     Graðpeningi skal haldið í öruggri vörslu sem hér segir:
  1. Naut, 6 mánaða og eldri, allt árið.
  2. Hrútar og hafrar á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. maí ár hvert.
  3. Graðhestar eða laungraðir hestar, 16 mánaða og eldri, allt árið. Óski hrossaræktarsamband og/eða sveitarstjórn eftir því getur ráðherra heimilað að færa aldursmörk að 12 mánaða aldri á viðkomandi svæði.
  4. Aðrar búfjártegundir en að framan greinir, allt árið.

     Sveitarstjórn skal hlutast til um að graðpeningur, sem ekki er í öruggri vörslu, sé handsamaður og afhentur hreppstjóra. Eigandi getur leyst til sín viðkomandi grip með greiðslu á áföllnum kostnaði. Við ítrekað brot skal graðhestur seldur á opinberu uppboði, en öðrum gripum slátrað og uppboðs- eða frálagsverð látið mæta áföllnum kostnaði.

IV. KAFLI
Aðbúnaður og meðferð búfjár.

7. gr.

     Landbúnaðarráðherra er rétt að gefa út reglugerðir fyrir einstakar búfjártegundir þar sem nánar er kveðið á um atriði er lúta að aðbúnaði og meðferð gripa, gripahúsa, þar með talin ákvæði um innréttingar, rýmisþörf gripa, loftræstingu, birtu í húsi, fóðurgeymslur og fóðurútbúnað, svo og ákvæði um umhirðu gripa og eftirlit, skráningu á vanhöldum og heilbrigði búfjár og eftirlit með gripum sem ganga úti hluta ársins. Jafnframt er í reglugerð heimilt að kveða á um kröfur til reynslu og þekkingar þeirra sem búfé halda eða hirða.
     Eftirlit með framkvæmd reglugerða samkvæmt fyrri málsgrein skal falið búfjáreftirliti, sbr. 9. gr.

8. gr.

     Landbúnaðarráðuneytið skal beita sér fyrir því í samvinnu við Búnaðarfélag Íslands, viðkomandi búgreinafélag, yfirdýralækni og dýraverndarnefnd að fyrir hverja búfjártegund verði gefnar út leiðbeinandi reglur um sem flesta þætti er lúta að fóðrun, aðbúnaði, meðferð og heilbrigði búfjár af viðkomandi tegund. Tryggt skal að slíkar reglur séu endurskoðaðar reglulega í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma.

V. KAFLI
Um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár.

9. gr.

     Í hverju sveitarfélagi skal vera búfjáreftirlitsmaður, einn eða fleiri, sem hafi eftirlit með ásetningi búfjár, fóðrun og hirðingu. Sveitarstjórn ræður þá til starfa til fjögurra ára að loknum sveitarstjórnarkosningum hverju sinni. Til starfsins skal velja menn sem hafa haldgóða reynslu og þekkingu í fóðrun og meðferð búfjár. Heimilt er fyrir fleiri en eitt sveitarfélag að ráða sameiginlega búfjáreftirlitsmann (menn).
     Búnaðarsambönd hafa á hendi umsjón með búfjáreftirliti hvert á sínu svæði. Ráðunautur viðkomandi búnaðarsambands annast slíkt eftirlit eða aðili sem það tilnefnir. Skulu búfjáreftirlitsmenn á svæðinu leita úrskurðar hans í vafaatriðum um framkvæmd eftirlits.
     Eftirlit vegna ákvæða reglugerða skv. 7. gr. skal framkvæmt af búfjáreftirliti samkvæmt þessari grein.
     Leita skal til héraðsdýralækna um eftirlit með þeim þáttum er snerta heilbrigði búfjár og tryggja hollustu afurða þess.

10. gr.

     Búfjáreftirlitsmanni er skylt að fara minnst tvær ferðir um umdæmi sitt á hverjum vetri til eftirlits með fóðrun og ásetningi búfjár. Skal fyrri ferðinni lokið fyrir 1. desember og hinni síðari fyrir lok aprílmánaðar. Skal hann sannreyna tölur um fjölda ásetts búfjár og líta eftir húsakosti þess, fóðrun og hirðingu. Ákvæði reglugerða skv. 7. gr. geta samt mælt fyrir um aðrar dagsetningar fyrir skráningu á fjölda búfjár af einstökum tegundum. Búfjáreftirlitsmaður skal skrá magn, tegundir, gæði og geymsluaðstöðu alls fóðurs hjá hverjum búfjáreiganda og einnig áform hans um fóðuröflun. Jafnframt skulu gróffóðurbirgðir mældar og skráðar. Búfjáreftirlitsmaður skal einnig fylgjast með beitilandi í byggð á starfssvæði sínu.
     Þar sem gripir eru í hagagöngu skal eigandi ætíð tilgreina aðila innan viðkomandi sveitarfélags, samþykktan af sveitarstjórn, sem er ábyrgur fyrir eftirliti og umsjá með þeim gripum.
     Niðurstöður hausteftirlits um fjölda búfjár, fóðurforða, fyrningar og fóðurþörf skráir búfjáreftirlitsmaður á eyðublað sem Búnaðarfélag Íslands lætur í té ásamt reglum um framkvæmd forðagæslu. Skýrslu þessa skal senda Búnaðarfélagi Íslands strax að lokinni haustskoðun. Búnaðarfélag Íslands annast úrvinnslu á niðurstöðum um búfjárfjölda og fóðurforða og hefur yfirstjórn með framkvæmd forðagæslu. Upplýsingar úr skýrslum þessum skulu vera heimilar til afnota Framleiðsluráði landbúnaðarins, Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins og öðrum opinberum aðilum að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins.
     Leiki rökstuddur grunur á að talningu búfjár hafi verið ábótavant er landbúnaðarráðherra heimilt að ákveða sérstaka talningu búfjár.
11. gr.     Þegar að lokinni skoðun skal búfjáreftirlitsmaður bera niðurstöður sínar undir eftirlitsmann búnaðarsambands. Komi í ljós að búfjáreiganda skorti hús, fóður eða beit fyrir fénað sinn, vanfóðri hann eða vanhirði skal búfjáreftirlitsmaður tilkynna það sveitarstjórn þegar í stað. Er þá sveitarstjórn skylt að vara þann er hlut á að máli þegar við og gefa honum einnar viku frest til úrbóta. Hafi honum að þeim tíma liðnum ekki tekist að gera þær ráðstafanir sem sveitarstjórn og eftirlitsmaður búnaðarsambands telja fullnægjandi ber sveitarstjórn að útvega honum fóður, hlutast til um fóðrun og umhirðu eða ráðstafa fénaði hans til fóðrunar.
     Sveitarstjórn eða búfjáreftirlitsmaður í umboði hennar eða aðrir, sem telja meðferð á skepnum brjóta í bága við gildandi lög eða reglur, skulu leita til héraðsdýralæknis. Héraðsdýralæknir skal þá í samráði við yfirdýralækni og innan tveggja sólarhringa meta ástand skepnanna og aðstæður á staðnum í samráði við eða ásamt trúnaðarmanni búnaðarsambands og gefa búfjáreiganda fyrirmæli um ráðstafanir telji þeir það nauðsynlegt. Þar skal veita mest einnar viku frest til úrbóta.
     Vilji búfjáreigandi eigi hlíta ráðstöfunum búfjáreftirlitsmanns, sveitarstjórnar, trúnaðarmanns búnaðarsambands eða héraðsdýralæknis, eða hefur þær að engu, og fénaður hans líður sakir fóðurskorts, hirðuleysis eða harðýðgi að áliti tveggja eða fleiri þessara aðila er skylt að tilkynna lögreglustjóra það skriflega innan tveggja daga ásamt öllum málavöxtum. Skal hann þá innan viku sjá um að úrbætur fáist í samræmi við dýraverndarlög en búfénu lógað að höfðu samráði við yfirdýralækni ef ekki er annarra kosta völ.
     Búfjáreigandi, er hlut á að máli, ber allan kostnað af þessum ráðstöfunum.

12. gr.

     Búfjáreftirlitsmaður skal launaður af sveitarsjóði.
     Sveitarfélögum, þar sem búfjárhald er óheimilt án leyfis, sbr. 2. mgr. 4. gr., er heimilt að innheimta leyfisgjald til að standa undir kostnaði við framkvæmd forðagæslu og búfjáreftirlits, sbr. 9. gr. Skiptist það í grunngjald og gjald fyrir fjölda búfjár hvers eiganda. Gjald þetta skal þó ekki lagt á búfjáreigendur sem halda búfé á lögbýli og eiga þar lögheimili.
     Landbúnaðarráðherra skal gefa út gjaldskrá fyrir leyfisgjöld skv. 2. mgr. og birta í Stjórnartíðindum.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

13. gr.

     Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum og samþykktum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum eða fangelsi ef miklar sakir eru. Hafi búfjáreigandi gerst sekur um illa meðferð á skepnum skal hann sviptur leyfi til að eiga eða halda búfé. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi 13., 19., 31.–33. og 38. gr., svo og IX. X. og XI. kafli búfjárræktarlaga, nr. 31 24. apríl 1973, og lög nr. 57 25. maí 1989, um breytingu á þeim lögum, lög nr. 44 23. maí 1964, um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum, og lög nr. 38 23. maí 1980, um breyting á þeim lögum, og lög nr. 53 29. maí 1981, um loðdýrarækt.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1991.