Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 369, 115. löggjafarþing 171. mál: almannatryggingar o. fl. (umönnunarbætur).
Lög nr. 79 23. desember 1991.

Lög um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum o.fl.


1. gr.

     10. gr. laganna, eins og henni var síðast breytt með 2. gr. laga nr. 59/1978, orðast svo:
     Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, umönnunarbóta, makabóta, barnalífeyris, mæðralauna, ekkjubóta og ekkjulífeyris.

2. gr.

     3. mgr. 12. gr. laganna, eins og henni var síðast breytt með 2. gr. laga nr. 30/1981, orðast svo:
     Heimilt er Tryggingastofnuninni að veita örorkustyrk þeim sem skortir a.m.k. helming starfsorku sinnar og uppfyllir skilyrði 1. mgr. að öðru leyti en því er örorkustig varðar. Örorkustyrkþegi, sem náð hefur 62 ára aldri, skal njóta örorkustyrks sem jafnan svarar til fulls örorkulífeyris (grunnlífeyris án bóta tengdra honum). Örorkustyrk má enn fremur veita þeim sem stundar fullt starf, en verður fyrir verulegum aukakostnaði sökum örorku sinnar. Tryggingaráð setur reglur um örorkustyrki og skulu þær staðfestar af ráðherra.

3. gr.

  1. Á eftir 12. gr. laganna komi ný grein er verði 13. gr. og orðist svo:
  2.      Greiða skal framfærendum fatlaðra og sjúkra barna, sem dveljast í heimahúsi, styrk, allt að 9.092 kr., eða umönnunarbætur, allt að 47.111 kr. á mánuði ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða sérstaka umönnun eða gæslu. Tryggingastofnun ríkisins úrskurðar og annast greiðslu styrks og umönnunarbóta, að fengnum tillögum svæðisstjórna, samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Greiðsla styrks skal miðuð við 10–40 klst. þjónustu á mánuði en greiðsla umönnunarbóta 40–175 klst. þjónustu á mánuði, sem tryggingaráði er heimilt að hækka í allt að 200 klst., mæli sérstakar ástæður með því að mati svæðisstjórna. Dagleg þjónusta við barn utan heimilis skerðir umönnunarbætur. Um framkvæmd greinarinnar fer eftir reglugerð sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur í samráði við félgsmálaráðherra að fengnum tillögum tryggingaráðs.
  3. 13.–22. gr. verða 14. og 23. gr.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992. Frá sama tíma fellur úr gildi 3.–5. mgr. 10. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1991.