Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 370, 115. löggjafarþing 173. mál: vatnsveitur sveitarfélaga (heildarlög).
Lög nr. 81 27. desember 1991.

Lög um vatnsveitur sveitarfélaga.


1. gr.

     Í kaupstöðum og bæjum skal bæjarstjórn starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er.
     Í hreppum er hreppsnefnd heimilt að starfrækja vatnsveitu, sbr. 1. mgr., og leggja í framkvæmdir við gerð hennar enda sýni rannsóknir og kostnaðaráætlanir að hagkvæmt sé að leggja veituna og reka hana.

2. gr.

     Sveitarstjórn fer með stjórn vatnsveitu í sveitarfélagi.
     Sveitarstjórn er heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að hafa yfirumsjón með starfsemi vatnsveitunnar og fara með þau verkefni, sem sveitarstjórn eru falin með lögum þessum, í umboði hennar. Sveitarstjórn getur ráðið sérstakan vatnsveitustjóra til að annast daglegan rekstur vatnsveitunnar.

3. gr.

     Sveitarstjórnum er heimilt að leggja og reka sameiginlega vatnsveitu. Sveitarstjórnir skulu gera með sér samkomulag um með hvaða hætti veitan skuli lögð og rekin. Um samvinnu sveitarstjórna á þessu sviði skulu gilda ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, um byggðasamlög, nema um annað sé sérstaklega samið.

4. gr.

     Sveitarstjórn er eigandi vatnsveitu sveitarfélags og sér um lagningu allra vatnsæða hennar, þ.e. aðalæða, götuæða og heimæða. Sveitarstjórn annast og kostar viðhald vatnsæðanna.

5. gr.

     Sveitarstjórn, sem lagt hefur vatnsveitu, hefur einkarétt á rekstri hennar og sölu vatns á því svæði sem vatnsveitan nær yfir og hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins.

6. gr.

     Eigandi fasteignar við veg eða opið svæði, þar sem götuæð liggur, á rétt á að fá heimæð lagða frá götuæð. Beiðni um lagningu heimæðar skal send til sveitarstjórnar. Eiganda ber að greiða gjald fyrir lagningu heimæðar. Sveitarstjórn ákveður fjárhæð heimæðargjalds og skal það miðað við rúmmál fasteignar. Gjalddagi þess skal vera 30 dögum eftir lagningu heimæðar.
     Vatn, sem tekið er úr stofnkrana innan húss, er eingöngu heimilt að nota til venjulegra heimilisþarfa. Að öðrum kosti þarf leyfi sveitarstjórnar. Réttur eiganda til að nota vatn til heimilisþarfa skuldbindur ekki sveitarstjórn til þess að tryggja að þrýstingur í götuæðum sé ávallt nægjanlegur. Hvers konar tenging dælubúnaðar við heimæð af hálfu eiganda, m.a. til að auka þrýsting vatns, er óheimil nema sveitarstjórn leyfi annað.
     Þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum eiganda sjálfs skal hann sækja um leyfi til sveitarstjórnar. Eigandi ber sjálfur kostnað við breytingar sem þessar.
     Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar þar sem eigandi óskar eftir vatnsnotkun getur sveitarstjórn sett það skilyrði fyrir lagningu vatnsæða að fyrir fram ákveðinn hluti kostnaðar við lagningu þeirra skuli endurgreiddur af eiganda fasteignarinnar.

7. gr.

     Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Álagningarstofn vatnsgjalds skal vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.
     Sveitarstjórn ákveður upphæð vatnsgjalds sem má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Gjalddagar vatnsgjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga nr. 90/1990.

8. gr.

     Af þeim fasteignum, þar sem vatn er notað til annars en venjulegra heimilisþarfa, vegna atvinnu sem í þeim er rekin eða af öðrum ástæðum, skal sveitarstjórn auk vatnsgjalds, sbr. 7. gr., heimilt að innheimta sérstakt aukavatnsgjald er miðast við notkun mælda í rúmmetrum.
     Sveitarstjórn lætur þeim er greiða skulu aukavatnsgjald í té löggilta vatnsmæla. Sveitarstjórn er eigandi vatnsmælanna og ákveður upphæð gjalds fyrir leigu á þeim. Aukavatnsgjald skal að jafnaði greiða samkvæmt mældri notkun, en verði því eigi við komið ákveður sveitarstjórn aukavatnsgjaldið samkvæmt áætlaðri notkun. Aukavatnsgjald skal innheimta eftir á eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar og skal hámark gjaldsins tilgreint í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur.
     Endurgjald hafnarsjóðs til sveitarsjóðs vegna vatnssölu til skipa, báta og annarra úr vatnsdreifikerfi hafnar skal miðast við mælda notkun og ákveður sveitarstjórn gjald fyrir hvern rúmmetra. Hafnarstjórn/sveitarstjórn ákveður verð fyrir hvern rúmmetra vatns sem seldur er til skipa og báta.
     Í þeim tilvikum, þegar um óvenjumikil kaup á vatni er að ræða eða vatn er keypt til sérstakrar framleiðslu, er sveitarstjórn heimilt að gera sérstakt samkomulag við kaupanda um endurgjald fyrir vatnið.

9. gr.

     Selji sveitarstjórn annarri sveitarstjórn vatn skal endurgjald fyrir það ákveðið með samkomulagi aðila eða mati dómkvaddra matsmanna náist eigi samkomulag. Við mat skal þess gætt að endurgjaldið verði aldrei minna en sannanlegur kostnaður vatnsveitunnar af vatnsvinnslu og dreifingu vegna vatnssölunnar, ásamt allt að 5% álagi af bundnu fjármagni.

10. gr.

     Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu vatnsgjalds og heimæðargjalds en notandi, ef hann er annar en fasteignareigandi, ber ábyrgð á greiðslu aukavatnsgjalds.
     Vatnsgjald og heimæðargjald eru, ásamt áföllnum kostnaði, tryggð með lögveðsrétti í fasteigninni næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Ef hús brennur eftir að vatnsgjald eða heimæðargjald fellur í gjalddaga er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.
     Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem vanrækja að greiða aukavatnsgjald að undangenginni skriflegri aðvörun. Aukavatnsgjald og leigugjald fyrir vatnsmæli, ásamt áföllnum kostnaði, má taka fjárnámi.
     Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem eyða vatni óhóflega og einnig þegar gera þarf við bilanir á vatnsæðum.

11. gr.

     Sveitarstjórn skal setja sér sérstaka gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 7., 8. og 9. gr. laga þessara, sbr. og reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga. Sveitarstjórn skal auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.

12. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglugerð samkvæmt þeim varða sektum sem renna skulu í sveitarsjóð nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum.

13. gr.

     Félagsmálaráðherra skal setja reglugerð fyrir vatnsveitur sveitarfélaga þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd vatnsveitumála, m.a. um stjórn og fjármál vatnsveitu, gjaldtökur, vatnsæðar o.fl.

14. gr.

     Lög þessi skulu taka gildi 1. janúar 1992. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um aðstoð til vatnsveitna, nr. 93/1947, svo og 20., 21., 23. og 28. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.
     Þær heimæðar, sem fasteignaeigendur eiga við gildistöku laga þessara, sbr. ákvæði vatnalaga nr. 15/1923, skulu vera eign þeirra áfram nema samkomulag verði um að sveitarstjórn yfirtaki þær. Næstu fimm ár frá gildistöku laga þessara skal sveitarstjórn annast á eigin kostnað viðhald heimæða, sbr. 1. málsl., og að þeim tíma loknum ber sveitarstjórn að yfirtaka framangreindar heimæðar sé þess óskað af fasteignaeiganda. Sveitarstjórn skal kynna fasteignaeiganda ákvæði þessarar greinar.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1991.