Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 336, 115. löggjafarþing 186. mál: Lífeyrissjóður bænda (skipting kostnaðar).
Lög nr. 89 31. desember 1991.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.


1. gr.

     3. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna skv. 17. og 18. gr., sbr. 2. mgr. 24. gr., skulu til ársloka 1996 borin af ríkissjóði, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Lífeyrissjóði bænda. Skal Lífeyrissjóður bænda greiða þann hluta lífeyris sem bóndi hefur áunnið sér með greiðslu iðgjalds skv. I. kafla til sjóðsins. Að öðru leyti skal ríkissjóður og Stofnlánadeild landbúnaðarins standa undir greiðslum þannig að ríkissjóður greiði 62,5% og Stofnlánadeild landbúnaðarins 37,5%. Frá 1. janúar 1997 skal Lífeyrissjóður bænda standa undir lífeyrisgreiðslum þessum.

3. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Árin 1992 til 1996 skal lífeyrir skv. I. kafla hvert ár miðast við viðmiðunarlaun undanfarandi fimm almanaksára.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 18. gr. skal lífeyrir skv. II. kafla frá 1. janúar 1992 miðast við 80,1% af þágildandi viðmiðunarlaunum. Hinn 1. júlí 1992 hækki lífeyrir síðan í hlutfalli við hækkun viðmiðunarlauna frá 1. janúar til 1. júlí og eftir það með sama hætti hvern 1. janúar og 1. júlí til ársloka 1996.
     Elli-, örorku- og makalífeyrir þeirra lífeyrisþega, sem ekki eiga rétt skv. II. kafla, skal reiknaður á sama hátt og segir í 2. mgr., þó þannig að miðist lífeyrir við fleiri stig en 40 verði einungis sá lífeyrir, er svarar til 40 stiga, reiknaður á þennan hátt, en um afganginn fer eftir ákvæðum 1. mgr. og 25. gr. Nú á lífeyrisþegi rétt skv. II. kafla, en mundi engu að síður fá hærri lífeyri ef farið væri eftir reglu 1. málsl. og skal þá sjóðurinn greiða honum mismuninn.

4. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1991.