Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 397, 115. löggjafarþing 124. mál: Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins.
Lög nr. 4 27. janúar 2000.

Lög um breyting á lögum nr. 40 15. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Stofna skal sjóð er nefnist Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins. Hlutverk Hagræðingarsjóðs er að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð, koma til aðstoðar byggðarlögum er standa höllum fæti vegna breytinga í útgerðarháttum og að efla hafrannsóknir.
     Sjóðurinn skal stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð með því að laga stærð og afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. Í þessu skyni skal sjóðurinn veita styrki til úreldingar fiskiskipa, enda sé tryggt að í stað hinna úreltu skipa komi ekki ný skip í fiskiskipaflotann eða að afkastageta flotans aukist með öðrum hætti.
     Sjóðurinn skal koma til aðstoðar einstökum byggðarlögum með því að efla vinnslu sjávarfangs á þeim stöðum þar sem straumhvörf hafa orðið í atvinnulífi vegna sölu fiskiskips. Í því skyni getur sjóðurinn framselt tímabundið aflaheimildir, enda verði aflanum landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands skal jafnframt annast stjórn Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins.
     Fiskveiðasjóður annast reikningshald og rekstur Hagræðingarsjóðs.
     Fjárhagur Hagræðingarsjóðs skal aðskilinn fjárhag Fiskveiðasjóðs.

3. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Hagræðingarsjóði skal á hverju fiskveiðiári úthlutað aflaheimildum er nema 12.000 þorskígildum í lestum talið. Skal þessum aflaheimildum skipt á þær botnfisktegundir sem sæta ákvæðum um leyfðan heildarafla og miðað við þau verðmætahlutföll er ráðherra ákveður. Skal allt að fjórðungi þessara aflaheimilda varið til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum er höllum fæti standa, sbr. 7. gr., en aflaheimildum sjóðsins skal að öðru leyti ráðstafa samkvæmt ákvæðum 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. Taka skal tillit til aflaheimilda Hagræðingarsjóðs við ákvörðun aflamarks einstakra skipa.

4. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Hagræðingarsjóður skal við upphaf hvers fiskveiðiárs gefa útgerðum þeirra skipa, er aflahlutdeild hafa af botnfisktegundum sem sjóðurinn fær úthlutað skv. 5. gr. og ekki eru boðnar byggðarlögum skv. 7. gr., kost á að fá framseldar til sín aflaheimildir sjóðsins gegn endurgjaldi. Skal forkaupsrétturinn boðinn í hlutfalli við aflahlutdeild hvers skips af þeim tegundum sem sjóðurinn hefur forræði á. Endurgjald skal miðað við almennt gangverð á sams konar heimildum að mati ráðherra. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið lágmark þeirra aflaheimilda sem forkaupsréttur samkvæmt þessari grein nær til.

5. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna koma tvær nýjar greinar svohljóðandi:
     a. (7. gr.)
     Óski sveitarstjórn að fá forkaupsrétt að aflaheimildum sjóðsins skal umsókn þar að lútandi send Hagræðingarsjóði einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs. Skilyrði fyrir að sveitarstjórn fái forkaupsrétt að aflaheimildum sjóðsins er að sala fiskiskips eða fiskiskipa hafi valdið straumhvörfum í atvinnumálum viðkomandi byggðarlags þannig að fyrirsjáanleg sé veruleg fækkun starfa og byggðaröskun sé yfirvofandi. Sjóðstjórn skal taka afstöðu til óska sveitarstjórna um forkaupsrétt að fengnum tillögum Byggðastofnunar.
     Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar að tilteknum aflaheimildum samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skulu aflaheimildirnar framseldar fiskiskipi eða fiskiskipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Um endurgjald fyrir þær aflaheimildir sem framseldar kunna að verða samkvæmt ákvæðum þessarar greinar gilda ákvæði 3. málsl. 6. gr.
     b. (8. gr.)
     Þær aflaheimildir, sem forkaupsréttur er ekki nýttur á skv. 6. og 7. gr. laga þessara, skal framselja hæstbjóðanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð.
     Öllum tekjum Hagræðingarsjóðs af ráðstöfun aflaheimilda skal varið til að standa straum af kostnaði við rekstur Hafrannsóknastofnunarinnar. Sjóðurinn skal standa stofnuninni jafnharðan skil á innheimtum tekjum.

6. gr.

     7. gr. laganna, er verður 9. gr., orðast svo:
     Úreldingarstyrkur skal vera tiltekið hlutfall af húftryggingarverðmæti fiskiskips að hámarki 30%. Skal ráðherra ákveða styrkhlutfall fyrir upphaf hvers almanaksárs að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Úreldingarstyrkur vegna hvers einstaks skips skal þó aldrei vera hærri en 50 m.kr. Sú fjárhæð er grunnfjárhæð sem breytist í sama hlutfalli og gjald til sjóðsins skv. 4. mgr. 4. gr.
     Sjóðurinn veitir eingöngu styrki vegna úreldingar þeirra skipa sem gjaldskyld eru skv. 1. mgr. 4. gr. Skal styrkur miðaður við það hlutfall er gilti á því ári er umsókn um styrkinn barst og styrkur reiknaður af húftryggingarverðmæti skips í upphafi þess árs.
     Komi í ljós að fjárhagur sjóðsins leyfi ekki greiðslu úreldingarstyrkja skv. 1. mgr. þessarar greinar er ráðherra heimilt að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins að lækka þegar ákveðið styrkhlutfall ársins. Jafnframt er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða frestun á greiðslu styrkja ef hún telur að um tímabundinn skort á ráðstöfunarfé sé að ræða.

7. gr.

     8. gr. laganna, er verður 10 gr., orðast svo:
     Skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur og enn fremur að allar veiðiheimildir skipsins verði varanlega sameinaðar aflaheimildum annarra fiskiskipa.
     Óheimilt er að greiða úreldingarstyrk fyrr en fyrir liggur vottorð Siglingamálastofnunar ríkisins um afskráningu skipsins af skipaskrá og yfirlýsing frá sjávarútvegsráðuneytinu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og að fallið hafi verið frá rétti til endurnýjunar skipsins.

8. gr.

     9. og 10. gr. laganna falla brott.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 40/1990 og gefa þau út svo breytt.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Á fiskveiðiárinu 1. september 1991 til 31. ágúst 1992 skal þeim aflaheimildum, sem Hagræðingarsjóður fær til ráðstöfunar skv. 5. gr. laga nr. 40 15. maí 1990, varið til hækkunar á aflamarki einstakra skipa í hlutfalli við aflahlutdeild hvers skips af þeim fisktegundum sem sjóðurinn hefur til umráða.

Samþykkt á Alþingi 22. janúar 1992.