Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 428, 115. löggjafarþing 116. mál: þinglýsingalög (málskot úrlausna).
Lög nr. 6 26. febrúar 1992.

Lög um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39 10. maí 1978, sbr. lög nr. 85 1. júní 1989.


1. gr.

     3. gr. laganna orðist svo:
     Bera má úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögum þessum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarðra hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Úrlausnin skal borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.
     Nú ber aðili úrlausn þinglýsingarstjóra undir dóm og skal þá skrá um það athugasemd í þinglýsingabók.
     Sá er bera vill úrlausn um þinglýsingu skv. 1. mgr. undir dóm skal afhenda þinglýsingarstjóra skriflega tilkynningu um það. Skal þar greina úrlausn þá sem borin er undir dóm, kröfu um breytingar á henni og rökstuðning fyrir kröfunni. Þinglýsingarstjóri skal afhenda hlutaðeigandi staðfest ljósrit gagna og endurrit úr þinglýsingabók svo fljótt sem við verður komið. Sá sem bera vill úrlausn þinglýsingarstjóra undir dóm skal án tafar afhenda héraðsdómara málsgögn. Heimilt er þinglýsingarstjóra að senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málefnið. Héraðsdómari skal kveða upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er og ekki síðar en þremur vikum eftir að honum bárust málsgögn.
     Ef annar en þinglýsingarbeiðandi vill bera úrlausn um þinglýsingu undir dóm skv. 1. mgr. skal þinglýsingarstjóri tilkynna það þinglýsingarbeiðanda og eftir atvikum öðrum þeim er hagsmuni kunna að eiga og gefa þeim kost á að koma á framfæri skriflegum kröfum sínum og athugasemdum. Að því búnu tekur héraðsdómari málið til úrskurðar og kveður upp rökstuddan úrskurð innan frests þess sem greinir í 3. mgr. Ef héraðsdómari telur mál sérstaklega umfangsmikið getur hann ákveðið að fram fari munnlegur málflutningur um ágreiningsefnið áður en það er tekið til úrskurðar.
     Úrskurður héraðsdómara um úrlausn þinglýsingarstjóra sætir kæru til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum um kæru í einkamáli. Skal úrskurður kærður áður en tvær vikur eru liðnar frá uppsögn hans ef kærandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en tvær vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um úrskurðinn.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.

Samþykkt á Alþingi 18. febrúar 1992.