Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 643, 115. löggjafarþing 135. mál: réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands (heildarlög).
Lög nr. 13 30. mars 1992.

Lög um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.


1. gr.

     Erlendum skipum eru bannaðar allar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eins og hún er ákveðin í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
     Erlendum skipum er óheimilt að vinna afla í efnahagslögsögu Íslands.

2. gr.

     Fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands mega einir stunda íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara.
     Til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands má aðeins hafa íslensk skip, en íslensk nefnast í lögum þessum þau skip sem skráð eru hér á landi.

3. gr.

     Erlendum veiðiskipum er heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað alla þá þjónustu er varðar útgerð skipsins.
     Þetta er þó ekki heimilt þegar um er að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis. Sjávarútvegsráðherra er þó heimilt að víkja frá ákvæði þessarar málsgreinar þegar sérstaklega stendur á.
     Erlendum veiðiskipum er ávallt heimilt að koma til hafnar þurfi þau á neyðarþjónustu að halda.

4. gr.

     Erlent veiðiskip, sem leitar hafnar á Íslandi, skal tilkynna Landhelgisgæslu Íslands fyrirætlan sína við komu inn í íslenska efnahagslögsögu. Jafnframt skal tilkynna Landhelgisgæslunni hvaða veiðar skipið hefur stundað og á hvaða svæði og hvaða þjónustu skipið sækir til hafnar.
     Landhelgisgæslan skal tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu um komu erlends fiskiskips sem ætla má að falli undir ákvæði 2. mgr. 3. gr.

5. gr.

     Með 1. gr. þessara laga eru ekki skert þau réttindi sem samkvæmt milliríkjasamningum eru veitt öðrum ríkjum.

6. gr.

     Með brot gegn ákvæðum 1. mgr. 1. gr. laga þessara skal farið samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. 2. gr. þeirra laga. Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Mál út af brotum á lögum þessum fara að hætti opinberra mála.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru felld úr gildi lög nr. 33 19. júní 1922, um rétt til fiskiveiða í landhelgi, ásamt síðari breytingum, og lög nr. 4 4. maí 1925, um viðauka við þau lög.

Samþykkt á Alþingi 25. mars 1992.